2010

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 337/2010

10.11.2010

Úrskurður nr. 337/2010

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2010, miðvikudaginn 10. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 231/2009; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], og X ehf., kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 4. júní 2009, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], og Z ehf. (síðar X ehf.), kt. [...], nú þrotabú, fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2006 og 2007.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa Z ehf., er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin og offramtalin skattskyld velta og útskattur. Vanframtalinn mögulegur innskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í Reykjanesumdæmi skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna allra uppgjörstímabila rekstrarársins 2006 og vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar, mars–apríl, maí–júní og september–október rekstrarárið 2007, fyrir hönd Z ehf. Með því vanframtaldi A skattskylda veltu og útskatt skattaðila vegna allra uppgjörstímabila rekstrarársins 2006 og vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar, mars–apríl og september–október rekstrarárið 2007 og offramtaldi skattskylda veltu og útskatt vegna starfsemi skattaðila uppgjörstímabilið maí–júní rekstrarárið 2007. Þá er mögulegur vanframtalinn innskattur skattaðila vegna uppgjörstímabilanna september–október rekstrarárið 2006 og maí–júní rekstrarárið 2007.

Rangur innskattur er tilgreindur í töflu 6.1 í meðfylgjandi skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna uppgjörstímabilsins september – október rekstrarárið 2006. Vanframtalinn mögulegur innskattur nemur kr. 22.295 vegna áðurnefnds uppgjörstímabils.  Nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 20.217.295 og offramtalin skattskyld velta nemur kr. 1.352.068. Vanframtalinn útskattur nemur samtals kr. 4.953.199 og offramtalinn útskattur nemur kr. 331.256. Mögulegur vanframtalinn innskattur nemur samtals kr. 76.279.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vanframtalin/ offramtalin skattskyld velta

Vanframtalinn/

offramtalinn útskattur

Vanframtalinn mögulegur innskattur
2006 janúar - febrúar 248.443 60.868 0
2006 mars - apríl 634.293 155.402 0
2006 maí - júní 824.116 201.909 0
2006 júlí - ágúst 8.656.777 2.120.910 0
2006 september - október 1.836.303 449.894 22.295
2006 nóvember - desember 892.668 218.704 0
Samtals kr.   13.092.600 3.207.687 22.295
2007 janúar - febrúar 1.103.213 270.288 0
2007 mars - apríl 65.435 16.032 0
2007 maí - júní -1.352.068 -331.256 53.984
2007 september - október 5.956.047 1.459.192 0
Samtals kr.   5.772.627 1.414.256 53.984
Samtals bæði árin 18.865.227 4.621.943 76.279  

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þá varða brot þessi Z ehf. sekt samkvæmt 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna framangreindra tímabila hefur félaginu verið gert að sæta álagi á vangreiddan útskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kr. 320.769 vegna rekstrarársins 2006 og kr. 141.426 vegna rekstrarársins 2007, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A og Z ehf. verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 4. júní 2009, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 8. júní 2009, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þeir vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldendum.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. júní 2009, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því að hann hafi sem fyrirsvarsmaður Z ehf. (nú X ehf.), staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna félagsins rekstrarárin 2006 og 2007 með því að vantelja skattskylda veltu og virðisaukaskatt til greiðslu. Þá er þess krafist að Z ehf. verði gerð sekt af sömu ástæðu. Gjaldendur hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þeir mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum Z ehf. vegna rekstraráranna 2006 og 2007, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 9. desember 2008. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 16. maí 2008 og beindist að virðisaukaskattsskilum félagsins vegna seldrar arkitekta- og teikniþjónustu á rannsóknartímabilinu. Vegna rannsóknarinnar voru teknar skýrslur af gjaldanda, A, hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 20. júní og 3. nóvember 2008 og var rannsóknin byggð á upplýsingum sem þar komu fram, en einnig var byggt á bókhaldi, bókhaldsgögnum og virðisaukaskattsskýrslum Z ehf. og upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfum, dags. 7. nóvember 2008, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldendum skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. 7. nóvember 2008, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldenda og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. desember 2008, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum skattaðila vegna rekstraráranna 2006 og 2007 eru:

·1   Staðin hafa verið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum.

·2   Vanræksla á færslu bókhalds.

·3   Skattskyld velta er vantalin.

·4   Útskattur er vantalinn.

·5   Innskattur skattaðila hefur verið oftalinn á innsendum virðisaukaskattsskýrslum.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta Z ehf. væri vantalin um 13.092.600 kr. rekstrarárið 2006 og 5.772.627 kr. rekstrarárið 2007 og útskattur um 3.207.687 kr. fyrra árið og 1.414.257 kr. það síðara, svo og að oftalinn innskattur næmi 320.638 kr. árið 2006 og 502.972 kr. árið 2007.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál Z ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. þáverandi 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 10. desember 2008. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til Z ehf.., dags. 16. janúar 2009, sem ekki var svarað af hálfu félagsins, tók ríkisskattstjóri virðisaukaskatt Z ehf. árin 2006 og 2007 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 25. mars 2009. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta Z ehf. í 24,5% skattþrepi hækkuð úr 5.406.838 kr. í 18.499.438 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2006 og úr 17.038.632 kr. í 22.811.259 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2007 og útskattur samkvæmt því hækkaður um 3.207.687 kr. árið 2006 og um 1.414.257 kr. árið 2007. Þá var innskattur lækkaður um samtals 320.638 kr. greind tímabil árið 2006 og um 502.972 kr. árið 2007. Við hækkun virðisaukaskatts samkvæmt framansögðu, samtals 3.528.325 kr. árið 2006 og 1.917.229 kr. árið 2007, bætti ríkisskattstjóri álagi, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 352.833 kr. árið 2006 og 191.723 kr. árið 2007.

3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. desember 2008, kemur fram að gjaldandi, A, hafi verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Z ehf. á því tímabili sem rannsóknin tók til. Að því er varðar skattskilagögn og bókhald félagsins kemur fram að gerð hafi verið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins vegna uppgjörstímabila á árunum 2006 og 2007. Við athugun á bókhaldsgögnum félagsins, sem tilgreind bókhaldsstofa hafi afhent vegna rannsóknarinnar, hafi komið í ljós að bókhald hafi að hluta verið fært árið 2006. Bókhaldsstofan hafi fengið bókhaldsgögn afhent að nýju til færslu bókhalds og skilað því færðu hinn 13. ágúst 2008. Skattskyld velta samkvæmt bókhaldi sé 18.651.373 kr. rekstrarárið 2006 og 22.745.263 kr. rekstrarárið 2007. Þrjá sölureikninga vanti í fyrirliggjandi tekjuskráningargögn til þess að númeraröð sölureikninga sé samfelld, en ekki þyki ástæða til þess að leggja mat á ætlaðan undandrátt tekna vegna vöntunar sölureikninga.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð skattskyldrar veltu Z ehf. árin 2006 og 2007 byggja á sölureikningum félagsins greind ár, samtals að fjárhæð 23.193.700 kr. árið 2006 og 28.413.619 kr. árið 2007. Að teknu tilliti til sölu án virðisaukaskatts nemur skattskyld velta í 24,5% skattþrepi 18.499.438 kr. árið 2006 og 22.811.259 kr. árið 2007 samkvæmt rannsókninni. Samkvæmt því og með tilliti til framtalinnar skattskyldrar veltu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum vegna umræddra ára er niðurstaða skattrannsóknarstjóra um þennan þátt sú að skattskyld velta sé vantalin um 13.092.600 kr. rekstrarárið 2006 og 5.772.627 kr. rekstrarárið 2007 og útskattur um 3.207.687 kr. fyrra árið og 1.414.257 kr. síðara árið.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti er rakið að innskattur samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum nemi 698.697 kr. árið 2006 og 994.213 kr. árið 2007 en 378.059 kr. fyrra árið og 491.241 kr. síðara árið samkvæmt bókhaldi. Oftalinn innskattur sé því 320.638 kr. í skýrslum vegna ársins 2006 og 502.972 kr. í skýrslum vegna ársins 2007. Við skýrslutöku hafi gjaldandi ekki getað gefið skýringar á oftöldum innskatti.

Gjaldandi, A, staðfesti við skýrslutöku, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 20. júní 2008, að hann hefði verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Z ehf. og séð um daglegan rekstur félagsins á rannsóknartímabilinu. Gjaldandi kvað Y ehf. hafa séð um færslu bókhalds en hann hafi sjálfur séð um gerð virðisaukaskattsskýrslna sem hann hafi byggt á útsendum reikningum og kostnaði. Fyrir gjaldanda voru lögð ljósrit af sölureikningum Z ehf. rekstrarárin 2006 og 2007 ásamt samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins og yfirlit um vantalda veltu félagsins samkvæmt þessum gögnum. Gjaldandi staðfesti að sölureikningarnir væru vegna rekstrar félagsins en þeir hefðu ekki allir fengist greiddir. Gjaldandi kvaðst ekki geta bent á þá reikninga sem ekki hefðu fengist greiddir en ætla að fara yfir gögnin með endurskoðanda sínum og koma upplýsingum til skattrannsóknarstjóra ríkisins fyrir 11. júlí 2008. Kvaðst gjaldandi ekki geta gefið skýringu á því að ekki hefði verið gerð grein fyrir skattskyldri veltu að fjárhæð 13.077.466 kr. vegna rekstrarársins 2006 og 7.169.600 kr. vegna rekstrarársins 2007 án þess að kynna sér gögnin.

4. Fyrir liggur að gjaldandi, A, var helsti fyrirsvarsmaður Z ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar. Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er því réttilega beint að gjaldanda í samræmi við ákvæði 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum samkvæmt 3. gr. laga nr. 42/1995.

Gjaldendur hafa sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutökur sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins gaf gjaldandi, A, engar skýringar á mismun skattskyldrar veltu samkvæmt fyrirliggjandi virðisaukaskattsskýrslum Z ehf. árin 2006 og 2007 annars vegar og rannsóknargögnum hins vegar. Verður að telja að því sé ekki andmælt af hálfu gjaldanda að í virðisaukaskattsskýrslunum hafi ekki verið gerð grein fyrir öllum innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu félagsins á greindum árum. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldendum samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldendum í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og rakið er að framan eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að því er varðar skattskylda veltu Z ehf. árin 2006 og 2007 byggðar á útgefnum sölureikningum félagsins þar sem tilgreind er skattskyld velta að fjárhæð 18.499.438 kr. árið 2006 og 22.811.259 kr. árið 2007. Að teknu tilliti til tilgreindrar skattskyldrar veltu samkvæmt fyrirliggjandi virðisaukaskattsskýrslum félagsins er niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins um þennan þátt sú að skattskyld velta sé vantalin um samtals 13.092.600 kr. árið 2006 og 5.772.627 kr. árið 2007. Af hálfu gjaldanda, A, er viðurkennt að tekjur félagsins hafi numið þeim fjárhæðum sem sölureikningar þessir bera með sér, sbr. framburð gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 20. júní 2008. Af hálfu gjaldanda hafa engar upplýsingar komið fram um tapaðar útistandandi viðskiptakröfur vegna seldrar þjónustu á því tímabili sem hér skiptir máli, þrátt fyrir ráðagerð þar um við skýrslutöku. Að þessu athuguðu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir bera að leggja til grundvallar í úrskurði þessum að skattskyld velta Z ehf. hafi numið þeim fjárhæðum sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Tekið skal fram að í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins var komist að þeirri niðurstöðu að innskattur í virðisaukaskattsskýrslum Z ehf. á árunum 2006 og 2007 væri oftalinn til frádráttar um samtals 823.610 kr. Samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er á hinn bóginn byggt á því að innskattur hafi verið vantalinn um 76.279 kr. umrædd ár sem þannig gengur þvert gegn niðurstöðum rannsóknar embættisins. Á þessu verður þó byggt, enda er það gjaldendum til hags.

5. Samkvæmt framansögðu teljast virðisaukaskattsskil Z ehf. vegna rekstraráranna 2006 og 2007 hafa verið rangfærð með þeim hætti að ákvarða beri gjaldanda, A, sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, vegna vanframtalinnar skattskyldrar veltu  18.865.227 kr. og útskatts af þeim sökum að fjárhæð 4.621.943 kr., en að teknu tilliti til vantalins innskatts 76.279 kr., sbr. kröfugerð, telst vangreiddur virðisaukaskattur samtals vera að fjárhæð 4.545.664 kr.

Eins og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin eða vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar þykir bera að líta til þess að nokkur dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu, málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 8.600.000 kr. til ríkissjóðs.

Upplýst hefur verið í máli þessu að bú Z ehf. (nú X ehf.) hefur verið tekið til gjaldþrotameðferðar. Að því virtu og svo sem mál þetta liggur fyrir þykja ekki efni til að gera félaginu sekt vegna framangreindra brota á lögum nr. 50/1988.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 8.600.000 kr. til ríkissjóðs. Þrotabúi X ehf. verður ekki gerð sekt í máli þessu.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum