2016

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 168/2016

7.9.2016

Úrskurður nr. 168/2016

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2016, miðvikudaginn 7. september, er tekið fyrir mál nr. 61/2016; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 3. mars 2016, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2006 til og með 2010.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar tekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2007 til og með 2011, vegna tekjuáranna 2006 til og með 2010. Með framangreindri háttsemi vanframtaldi A tekjur sínar, samtals að fjárhæð kr. 25.875.867, sem til eru komnar vegna starfa hans við sjómennsku hjá erlendu félagi, X.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hans en vera bar gjaldárin 2007 til og með 2011, vegna tekjuáranna 2006 til og með 2010, og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:

Vanframtaldar tekjur, tekjuskattur og útsvar af vanframtöldum tekjum:

 

Tekjuár Vanframtaldar tekjur, kr.

Tekjuskattur af vanframtöldum tekjum, kr.            

Fjárhæðir samkvæmt niðurstöðum endurákvörðunar ríkisskattstjóra, dags. 6. júlí 2015, að frádregnum tekjuskatti af álagi.

Útsvar af vanframtöldum  tekjum, kr.    

Fjárhæðir samkvæmt niðurstöðum endurákvörðunar ríkisskattstjóra, dags. 6. júlí 2015, að frádregnu útsvari af álagi.

2006 3.165.524

751.812          

Tekjuskattur af álagi á hækkun stofns dreginn frá heildarhækkun tekjuskatts samkvæmt endurákvörðun: 939.765 kr. – 791.381 kr. x 0,2375 = 751.812 kr.

412.468          

Útsvar af álagi á hækkun stofns dregið frá heildarhækkun útsvars samkvæmt endurákvörðun: 515.585 kr. – 791.381 kr. x 0,1303 = 412.468 kr.

2007 3.177.882

722.969          

Tekjuskattur af álagi á hækkun stofns dreginn frá heildarhækkun tekjuskatts samkvæmt endurákvörðun: 903.711 kr. – 794.471 kr. x 0,2275 = 722.969 kr.

414.077          

Útsvar af álagi á hækkun stofns dregið frá heildarhækkun útsvars samkvæmt endurákvörðun: 517.597 kr. - 794.471 kr. x 0,1303 = 414.077 kr.

2008 5.747.583

1.307.575       

Tekjuskattur af álagi á hækkun stofns dreginn frá heildarhækkun tekjuskatts samkvæmt endurákvörðun: 1.634.469 kr. – 1.436.896 kr. x 0,2275 = 1.307.575 kr.

748.910          

Útsvar af álagi á hækkun stofns dregið frá heildarhækkun útsvars samkvæmt endurákvörðun: 936.138 kr. – 1.436.896 kr. x 0,1303 = 748.910 kr.

2009 9.180.555

2.486.795       

Tekjuskattur af álagi á hækkun stofns dreginn frá heildarhækkun tekjuskatts samkvæmt endurákvörðun: 3.039.923 kr. – 2.295.139 kr. x 0,2410 = 2.486.795 kr.

1.219.179       

Útsvar af álagi á hækkun stofns dregið frá heildarhækkun útsvars samkvæmt endurákvörðun: 1.523.973 kr. – 2.295.139 kr. x 0,1328 = 1.219.179 kr.

2010 4.604.323

1.174.102       

Tekjuskattur af álagi á hækkun stofns dreginn frá heildarhækkun tekjuskatts samkvæmt endurákvörðun: 1.553.959 kr. – 1.151.081 kr. x 0,3300 = 1.174.102 kr.

611.507          

Útsvar af álagi á hækkun stofns dregið frá heildarhækkun útsvars samkvæmt endurákvörðun: 764.371 – 1.151.081 kr. x 0,1328 = 611.507 kr.

Samtals kr. 25.875.867 6.443.253 3.406.141

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 1. tölul. A. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr., 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, hvorra tveggja með áorðnum breytingum.

Með framangetinni endurákvörðun ríkisskattstjóra á stofni A til tekjuskatts og útsvars gjaldárin 2007 til og með 2010, dags. 6. júlí 2015, hefur A verið gert að sæta álagningu tekjuskatts og útsvars á álag á vangoldinn skattstofn samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, samtals kr. 2.465.887, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 3. mars 2016, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. mars 2016, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Með bréfi, dags. 26. apríl 2016, hefur gjaldandi lagt fram vörn í málinu. Í bréfinu er krafist sýknu af hálfu gjaldanda. Fram kemur að gjaldandi telji að skattrannsóknarstjóri hafi ekki tekið tillit til gagna sem gjaldandi hafi lagt fram við rannsókn málsins er stafi frá þriðja aðila og staðfesti yfirlýsingar gjaldanda við skýrslutöku hjá embættinu. Er í þessu sambandi vísað til þess að gjaldandi hafi lagt fram yfirlýsingu frá vinnuveitanda sínum þar sem því sé lýst yfir að tilteknar upphæðir sem fram komi á bankayfirliti gjaldanda séu greiðslur vegna útlagðs kostnaðar vinnuveitanda. Þessar greiðslur byggi á innsendum reikningum áhafnarinnar og tengist vissulega starfsemi vinnuveitanda gjaldanda. Liggi reikningar þessir hjá vinnuveitanda gjaldanda en ekki gjaldanda sjálfum og hafi skattrannsóknarstjóri ekki gert reka að því að upplýsa málið með því að kalla eftir þessum gögnum. Þessi í stað hafni skattrannsóknarstjóri yfirlýsingunni og geri gjaldanda það að afla gagna frá þriðja aðila. Sé sönnunarbyrði með þessu snúið við og því harðlega mótmælt þar sem lögfull sönnun liggi fyrir sem skattrannsóknarstjóri hafi ekki hrakið með málatilbúnaði sínum. Þá er því haldið fram af hálfu gjaldanda að brotið hafi verið gegn andmælarétti hans þar sem gjaldandi hafi afhent skattrannsóknarstjóra yfirlýsingu vinnuveitanda síns eftir að frumskýrsla embættisins hafi verið gefin út, en ekki hafi verið tekið tillit til yfirlýsingarinnar, og hafi gjaldanda ekki gefist kostur á að andmæla þeirri ákvörðun skattrannsóknarstjóra.

Af hálfu gjaldanda er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 886.650 kr. að viðbættum virðisaukaskatti til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, vegna 34,5 klukkustunda vinnu umboðsmanns gjaldanda við málið.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 3. mars 2016, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hann hafi staðið skil á röngum skattframtölum árin 2007 til og með 2011 með því að vanrækja að telja fram í umræddum skattframtölum tekjur frá X tekjuárin 2006 til og með 2010. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 2006 til og með 2010, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 22. desember 2014. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 19. desember 2012. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 29. ágúst 2014. Var rannsókn í máli gjaldanda einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutöku þessa, auk þess sem byggt var á gögnum frá fjármálastofnunum og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfi, dags. 20. október 2014, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. sama dag, sem þá lá fyrir, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Hinn 14. nóvember 2014 lagði umboðsmaður gjaldanda fram bréflegar athugasemdir við skýrsluna. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman lokaskýrslu sína um rannsókn á máli gjaldanda, dags. 22. desember 2014, sem var samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslunni voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra á tekjum og skattskilum skattaðila vegna tekjuáranna 2006 til og með 2010 eru eftirfarandi:

·1  Skattaðili hefur staðið skil á efnislega röngum skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 til og með 2010.

2    Skattaðili hefur vantalið tekjur á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 til og með 2010.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar tekjur gjaldanda taldar nema 3.165.524 kr. árið 2006, 3.177.882 kr. árið 2007, 5.747.583 kr. árið 2008, 9.180.555 kr. árið 2009 og 4.604.323 kr. árið 2010, eða samtals 25.875.867 kr.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 30. desember 2014. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 9. mars 2015, og andmælabréfi gjaldanda, dags. 13. apríl 2015, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2007 til og með 2011 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 6. júlí 2015. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda um 3.165.524 kr. gjaldárið 2007, um 3.177.882 kr. gjaldárið 2008, um 5.747.583 kr. gjaldárið 2009, um 9.180.555 kr. gjaldárið 2010 og um 4.604.323 kr. gjaldárið 2011. Í úrskurðinum kom fram að um væri að ræða vantaldar launatekjur gjaldanda frá erlendu félagi, X. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi á vanframtalinn skattstofn gjaldanda samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Gjaldandi skaut úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun til yfirskattanefndar með kæru, dags. 5. október 2015. Samkvæmt kærunni var þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi að öllu leyti eða að hluta og að álagning yrði miðuð við innsend skattframtöl. Þá var gerð krafa um að gjaldanda yrði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 114/2016, sem kveðinn var upp 8. júní 2016, var kröfum gjaldanda hafnað.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 22. desember 2014, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 til og með 2010. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins kvaðst gjaldandi hafa gert skattframtölin ásamt eiginkonu sinni og byggt þau á hefðbundnum gögnum um eignir og skuldir og bankayfirlitum. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra var rakið að gjaldandi hefði á rannsóknartímabilinu starfað fyrir erlent félag, X og fengið greiðslur frá félaginu inn á bankareikning sinn nr. [...]. Nánar tiltekið væri um að ræða átta innborganir að fjárhæð samtals 4.788.344 kr. (EUR 55.923) á árinu 2006, átta innborganir að fjárhæð samtals 5.204.402 kr. (EUR 59.526) á árinu 2007, níu innborganir að fjárhæð samtals 9.442.542 kr. (EUR 76.845) á árinu 2008, tíu innborganir að fjárhæð samtals 13.136.484 kr. (EUR 76.743) á árinu 2009 og ellefu innborganir að fjárhæð samtals 8.557.364 kr. (EUR 53.364) á árinu 2010. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra sagði gjaldandi greiðslur inn á bankareikning sinn vera vegna vinnu hans erlendis og „retirement bonus“. Sagði gjaldandi að tilgreind laun á skattframtölum væru vegna vinnu hans erlendis, en kvaðst ekki muna til þess að hafa fengið launaseðla. Þá sagði gjaldandi að engu hefði verið haldið eftir af launum hans erlendis. Nánar aðspurður um starf sitt sagði gjaldandi að hann hefði unnið sem skipstjóri fyrir X á skipunum [...] og [...]. Sagði gjaldandi aðspurður að samið hefði verið um ákveðna upphæð fyrir hverja og eina vinnuferð og að vinnuveitandi hefði greitt ferðakostnað hans. Þegar gjaldandi var spurður út í 26 milljón króna mismun á framtöldum launum tekjuárin 2006 til og með 2010 og greiðslum frá vinnuveitanda sínum á sama tímabili sagðist gjaldandi þurfa að skoða þetta til að geta svarað því og sagðist ekki muna nákvæmlega hvernig þetta hefði verið.

Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins var að greiðslur frá X inn á bankareikning gjaldanda nr. [...] á árunum 2006 til og með 2010 væru vantaldar launatekjur gjaldanda vegna starfa hans hjá félaginu sömu ár. Næmu vantaldar launatekjur gjaldanda samkvæmt þessu samtals 25.875.867 kr. greind ár.

4. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu fékk gjaldandi greiddar inn á bankareikning sinn nr. [...] samtals 4.788.344 kr. á árinu 2006, 5.204.402 kr. á árinu 2007, 9.442.542 kr. á árinu 2008, 13.136.484 kr. á árinu 2009 og 8.557.364 kr. á árinu 2010 frá X. Í skattframtali gjaldanda árið 2007, vegna tekjuársins 2006, gerði gjaldandi grein fyrir tekjum erlendis frá í reit 2.8 að fjárhæð 1.622.820 kr. (EUR 17.200). Gjaldandi gerði með hliðstæðum hætti grein fyrir erlendum tekjum að fjárhæð 2.026.520 kr. (EUR 23.200) í skattframtali árið 2008, 3.694.959 kr. (EUR 29.354) í skattframtali árið 2009, 3.955.929 kr. (EUR 23.200) í skattframtali árið 2010 og 3.953.041 kr. (EUR 24.550) í skattframtali árið 2011. Nam mismunur fyrrnefndra greiðslna og framtalinna tekna gjaldanda því 3.165.524 kr. tekjuárið 2006, 3.177.882 kr. tekjuárið 2007, 5.747.583 kr. tekjuárið 2008, 9.180.555 kr. tekjuárið 2009 og 4.604.323 kr. tekjuárið 2010. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 29. ágúst 2014 komu ekki fram skýringar af hálfu gjaldanda varðandi þennan mismun, en með andmælabréfi umboðsmanns gjaldanda við frumskýrslu skattrannsóknarstjóra, dags. 14. nóvember 2014, fylgdi bréf frá X, sbr. fskj. 7.5 með skýrslu skattrannsóknarstjóra, þar sem greiðslur til gjaldanda voru sundurliðaðar í laun (Wages), ellilífeyrisgreiðslur (Retirement Bonus) og endurgreiðslu á útlögðum kostnaði (Reimbursed Masters Expenses For Vessel). Í andmælabréfinu var rakið að gjaldandi féllist á að ellilífeyrisgreiðslur hefðu verið vantaldar um samtals EUR 32.539 á tímabilinu 2006 til og með 2010, en ekki væri fallist á að greiðslur, sem tilgreindar væru sem endurgreiðslur á útlögðum kostnaði í bréfinu frá vinnuveitanda gjaldanda, væru skattskyldar í hendi gjaldanda. Í vörn gjaldanda er sem fyrr segir byggt á þessum skýringum gjaldanda um endurgreiðslur útlagðs kostnaðar vegna skips og áhafnar og því borið við að með fyrrnefndri sundurliðun vinnuveitanda gjaldanda hafi gjaldandi afhent skattrannsóknarstjóra lögfulla sönnun fyrir hinum útlagða kostnaði. Skattrannsóknarstjóri hafi hins vegar ákveðið að hunsa umrædda yfirlýsingu og lagt á herðar gjaldanda að afla gagna frá þriðja manni, en með því hafi sönnunarbyrði verið snúið við í málinu.

Eins og fram er komið var fjallað um rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem liggur til grundvallar sektarkröfu embættisins í máli þessu, í úrskurði yfirskattanefndar nr. 114/2016 vegna kæru gjaldanda á endurákvörðun ríkisskattstjóra sem jafnframt byggði á skattrannsókninni. Var viðbárum gjaldanda, hinum sömu og fram eru færðar til varnar í þessu máli, hafnað og talið að skattleggja bæri sem laun hjá gjaldanda umræddar greiðslur inn á bankareikning hans nr. [...] að fjárhæð 3.165.524 kr. árið 2006, 3.177.882 kr. árið 2007, 5.747.583 kr. árið 2008, 9.180.555 kr. árið 2009 og 4.604.323 kr. árið 2010. Var tekið fram í úrskurðinum að gjaldandi hefði ekki lagt fram nein gögn til staðfestingar þeim skýringum sínum að greiðslurnar væru í tengslum við lestun og losun farms, hreinsun í lestum, hluta launa áhafnar og kaup á vistum, sbr. bréf verjanda gjaldanda, dags. 2. desember 2014. Þvert á móti hefði gjaldandi setið við sinn keip og borið því við, m.a. í kæru til yfirskattanefndar, að það bæri undir skattyfirvöld að afla frekari gagna til að staðreyna upplýsingar launagreiðandans. Af þessu tilefni var tekið fram í úrskurði yfirskattanefndar að það heyrði undir gjaldanda að sýna fram á hefði hann þurft að standa straum af ferðakostnaði vegna atvinnurekanda eða um væri að ræða endurgreiðslu útlags kostnaðar að öðru leyti, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 28. september 2000 í málinu nr. 124/2000 og 12. október 2000 í málinu nr. 92/2000. Þá var rakið í úrskurðinum að gjaldandi hefði hvorki við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra né í kæru til yfirskattanefndar svarað röksemdum skattrannsóknarstjóra er lytu að því að fram komnar skýringar gjaldanda væru ekki í samræmi við framburð hans við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra eða skýrt hvernig fjárhæðir framtalinna launa gjaldanda samrýmdust þeim launum sem ætla mætti að greidd væru skipstjórum stórra flutningaskipa á alþjóðlegum siglingaleiðum. Þá hefði gjaldandi ekki útskýrt hvernig hann hefði fjármagnað eða staðið undir þeim greiðslum vinnuveitanda sem hann segðist hafa innt af hendi, en hvorki yfirlit yfir bankareikninga gjaldanda og eiginkonu hans né greiðslukortayfirlit, sem væru meðal gagna málsins, bæru merki slíkra greiðslna. Kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að tekið væri undir það með skattrannsóknarstjóra að fjárhæðir framtalinna launa gjaldanda umrædd ár teldust þurfa sérstakra skýringa við í ljósi starfs hans, en gjaldandi hefði ekki skotið neinum stoðum undir þær fjárhæðir sérstaklega, svo sem með framlagningu ráðningarsamnings eða launaseðla.

Sem fyrr segir hefur gjaldandi, þrátt fyrir ærið tilefni, ekki lagt fram nein gögn við meðferð máls þessa eða rennt neinum frekari stoðum undir þær skýringar sínar að um útlagðan kostnað vinnuveitanda gjaldanda hafi verið að ræða. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neitt hafi komið fram sem gefur tilefni til annars en að byggja á niðurstöðu í skýrslu skattrannsóknarstjóra um fjárhæð vantalinna tekna gjaldanda og að umræddar tekjur gjaldanda hafi verið launatekjur hans.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, A, hafi ekki gert grein fyrir skattskyldum tekjum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 3.165.524 kr. í skattframtali árið 2007, 3.177.882 kr. í skattframtali árið 2008, 5.747.583 kr. í skattframtali árið 2009, 9.180.555 kr. í skattframtali árið 2010 og 4.604.323 kr. í skattframtali árið 2011. Eins og atvikum málsins er háttað samkvæmt framansögðu verður talið að fullnægt sé í tilviki gjaldanda þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 109. gr. laga nr. 90/2003. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar gjaldárin 2007 til og með 2011, svo sem rakið er í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar er til þess að líta að langur tími er liðinn frá því að gjaldandi framdi brot sitt, en dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 11.300.000 kr. til ríkissjóðs og 6.000.000 kr. til bæjarsjóðs Kópavogsbæjar.

5. Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum máls þessa þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til þess að ákvarða gjaldanda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Úrskurðarorð

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 11.300.000 kr. til ríkissjóðs og 6.000.000 kr. til bæjarsjóðs Kópavogsbæjar. Málskostnaðarkröfu gjaldanda er hafnað.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum