Almenn heimild til nýtingar séreignar

Almennt

Heimilt er að nýta séreignarsparnað skattfrjálst vegna kaupa á íbúð til eigin nota. Nýting séreignarsparnaðar vegna kaupa á fasteign getur verið tvenns konar:

 • Greiða viðbótariðgjald mánaðarlega inn á lánið
  Skilyrði er að lánið sé tryggt með veði og hafi verið tekið til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota umsækjanda. Umsókn um að greiða mánaðarlega inn á lán gildir aðeins frá þeim tíma sem hún berst.
 • Taka út uppsafnaðan séreignarsparnað við kaup á fasteign
  Fasteignin þarf ekki að vera fyrsta eign umsækjanda. Aðeins er hægt að taka út viðbótariðgjald sem hefur safnast á meðan umsækjandi eða maki eru ekki skráðir eigendur fasteignar.

Sótt er um að nýta þessi úrræði, ráðstöfun inn á lán eða útgreiðslu á uppsöfnuðum viðbótariðgjöldum með því að skila umsókn í gegnum leidretting.is. Hægt er að sækja um annað þessara úrræða eða bæði.

Opna umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar

Annað úrræði fyrir fyrstu kaupendur

Annað úrræði stendur þeim til boða sem eru að kaupa sínu fyrstu íbúð og vilja taka út uppsafnaðan séreignarsparnað eða ráðstafa inn á lán.
Lesa nánar um stuðning við kaup á fyrstu íbúð

Nýting séreignar með almenna úrræðinu

Umsækjandi

Umsókn um nýtingu séreignar með þessu úrræði nær aðeins til viðbótariðgjalds umsækjandans sjálfs. 

Ekki er hægt að skila inn sameiginlegri umsókn hjóna. Hver umsækjandi að sækja um úrræðið fyrir sig. Fasteignarinnar þarf að hafa verið aflað til eigin nota fyrir umsækjanda sjálfan.

Öflun íbúðar til eigin nota

Skilyrði þess að heimilt sé að nýta séreignarsparnað með þessu úrræði er að umsækjandi hafi aflað sér íbúðar til eigin nota. 

Undir þetta fellur þegar umsækjandi kaupir fasteign, þegar umsækjandi erfir fasteign og þegar umsækjandi aflar sér búseturéttar. Fasteignin þarf að vera skráð sem íbúðarhúsnæði í Fasteignaskrá Íslands, og vera til eigin nota fyrir umsækjanda sjálfan. Í því felst að umsækjandi þarf að hafa skráð lögheimili í eigninni þegar sótt er um nýtinguna, eða staðfesta að lögheimili verði fært í eignina strax og auðið er.

Séreignarsparnaður sem heimilt er að nýta

Heimildin tekur til viðbótariðgjalds sem dregið er frá launum umsækjanda og mótframlags launagreiðanda innan umsóknartímabilsins. 

Heimilt er að nýta að hámarki 4% frádregið viðbótariðgjald og 2% mótframlag launagreiðanda með þessu úrræði. Það er ekki heimilt að nýta mótframlag launagreiðanda umfram 2% af greiddum launum, ávöxtun inneignar hjá séreignarsjóði eða erfða séreign með þessu úrræði.

Ef upp kemur við yfirferð skattframtals að umsækjandi greiddi hærri fjárhæð en heimilt var samkvæmt þessu er umframgreiðslan skattlögð sem tekjur hjá framteljanda. Þetta getur gerst t.d. þegar vinnuveitandi greiðir aukið mótframlag sem er þá hærri fjárhæð en 2% af heildartekjum ársins.

Hámarksheimild árs

Hjón og sambúðarfólk

Hjón og þeir einstaklingar sem uppfylla skilyrði til samsköttunar geta samanlagt nýtt allt að 750.000 kr. af greiddu viðbótariðgjaldi hvers árs vegna kaupa á fasteign, hvort sem það er sem úttekt á uppsöfnuðum séreignarsparnaði eða mánaðarlegri ráðstöfun inn á lán. Innan þessa árshámarks má nýta 500.000 kr. af eigin framlagi og 250.000 kr. af framlagi launagreiðanda.

Einstaklingar

Einstaklingar sem eru ekki í sambúð geta ráðstafað 500.000 kr., þ.e. 333.000 kr. af eigin framlagi og 167.000 kr. af framlagi launagreiðanda.

Gera má athugasemd við skráða hjúskaparstöðu á forsíðu umsóknar um nýtingu séreignarsparnaðar ef hún er ranglega skráð á vefsíðunni.

Full nýting eða takmörkuð nýting

Ef umsækjandi vill nýta eins mikið af séreignarsparnaði sínum og mögulegt er merkir hann við „Full nýting“. Sé þetta gert verður séreignarsjóðnum heimilað að greiða eins mikið og mögulegt er innan hámarka laganna inn á valið húsnæðislán.

Ef umsækjandi vill takmarka nýtingu sína sínar við ákveðna fjárhæð þarf að merkja við „takmörkuð nýting“ og gera grein fyrir því við hvaða fjárhæð á að miða á hverju ári. Fyrir hjón og sambúðaraðila má þannig tryggja að báðir aðilar greiði jafn mikið yfir árið þrátt fyrir að annar aðilinn greiði hærri fjárhæð mánaðarlega í séreignarsparnað. 

Alltaf er hægt að fara aftur inn í umsóknina og breyta takmörkun á hámarki.

Nánar um mánaðarlega ráðstöfun inn á lán

Einstaklingur sem greiðir viðbótariðgjald til séreignarsjóðs getur sótt um að mánaðarlegum greiðslum til séreignarsjóðsins sé ráðstafað áfram inn á fasteignaveðlán sem var tekið til öflunar íbúðar til eigin nota. 

Umsókn um nýtingu séreignar inn á lán tekur aðeins til séreignar sem greidd er eftir að umsókn berst.

Leiðbeiningar um umsóknarferli

Sótt er um mánaðarlega greiðslu séreignarsparnaðar inn á lán á leidretting.is.

Eftir að umsækjandi hefur skráð sig inn velur hann „Séreignarsparnaður“ og þar undir „ráðstöfun séreignarsparnaðar“.

Skref 1 af 3

Í skrefi 1 er hægt að gera athugasemd við heimilisskráningu ef röng hjúskaparstaðar er birt. 

Umsækjandi velur hvort nýta eigi eins mikið og heimilt er (ótakmörkuð nýting), eða hvort umsækjandi vilji takmarka ráðstöfun sína við lægri fjárhæð (takmörkuð nýting). 

Umsækjandi velur „áfram“ til að fara yfir á skref 2/3.

Skref 2 af 3

Í skrefi 2 velur umsækjandi úr hvaða séreignarsjóði hann vill greiða, og inn á hvaða lán hann vill greiða. 

Ef nýtt lán var tekið á yfirstandandi ári og var því ekki í síðasta skattframtali kemur það ekki sjálfkrafa í fallvalsmyndina. Þá þarf að handskrá lánið, sem er gert með því að velja hlekkinn „Skrá nýtt lán“ í skrefi 2/3. Sjá nánar hér að neðan í kaflanum „Nýtt lán/Endurfjármögnun“. 

Þegar umsækjandi hefur valið séreignarsjóð og valið svo aðgerð/lán fyrir þann sjóð má velja „áfram“.

Skref 3 af 3

Í skrefi 3 getur umsækjandi lesið yfir umsóknina eins og hún hefur verið sett upp og sér yfirlit yfir nýtingu séreignarinnar í gegnum þetta úrræði til þessa. 

Í skrefi 3/3 þarf að staðfesta umsóknina með haki og smella á „senda umsókn“.

Breytingar á umsókn

Ef einhverjar breytingar verða á meðan úrræðið er virkt þá þarf umsækjandi að tilkynna Skattinum um það með því að fara inn í umsóknina og velja „breyta umsókn“. Þetta geta verið breytingar á séreignarsjóði, láni eða hjúskaparstöðu. 

Breytingar á umsókn taka aðeins gildi frá þeim tíma sem þær berast Skattinum í gegnum rafrænt umsóknarferli á leidretting.is.

Breyta þarf umsókn maka sérstaklega

Tilkynntar breytingar taka aðeins til umsóknaraðila. Ef ætlunin er að breyta einnig umsókn maka þarf hann að skrá sig inn á vefinn og gera sjálfur breytingar á umsókn sinni.

Ráðstafa séreign inn á nýtt lán

Hægt er að breyta því hvaða fasteignalán er verið að ráðstafa séreign inn á, t.d. þegar umsækjandi hefur greitt upp fasteignalán. Vilji umsækjandi halda áfram greiðslum inn á annað lán þarf að breyta umsókn og skrá nýja lánið.

Ráðstafa séreign úr nýjum sjóði

Ef umsækjandi skiptir um séreignarsjóð en vill halda áfram að greiða mánaðarlega inn á lán þarf hann að breyta umsókn sinni á www.leidretting.is. velja að breyta umsókn og velja nýja séreignarsjóðinn sinn í umsóknarferlinu.

Inn á hvaða lán má greiða?

Heimilt er að ráðstafa séreignarsparnaði mánaðarlega inn á fasteignaveðlán sem voru tekin vegna öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota fyrir umsækjanda. Skilyrði sem lánið þarf að uppfylla eru því tvíþætt.

Fasteignaveðlán

Lánið þarf að vera tryggt með veði í fasteign. Langflest lán til öflunar fasteignar eru tryggð með veði, en þó ber að nefna að t.d. lán sem veitt eru til kaupa á búseturétti eða minni lán eru almennt ekki tryggð með veði á fasteign.

Íbúð til eigin nota

Lánið þarf að vera tekið til öflunar íbúðar til eigin nota fyrir umsækjanda sjálfan. Lánið þarf því að tengjast kaupum eða annarri öflun á fasteign sem umsækjandi hefur sjálfur lögheimili í eða verið tekið vegna endurfjármögnunar á slíkum lánum. 

Lán sem eru tekin til öflunar fasteignar til eigin nota eru talin fram í reit 5.2 á skattframtali en þau lán koma sjálfkrafa sem valmöguleiki í umsóknarferlinu. Ef lánið er ekki á síðasta skattframtali þarf að handskrá lánið á þrepi 2/3 í umsóknarferlinu.

Nýtt lán/Endurfjármögnun

Vefsíðan leidretting.is sækir gögn til að auðvelda umsóknina í skattframtal umsækjandans. Lán sem voru í reit 5.2 á síðasta framtali birtast því forskráð sem valmöguleikar yfir lán sem greiða má inn á. Ný lán sem tekin eru á yfirstandandi almanaksári birtast ekki í fellivalmynd.  Í þeim tilvikum þarf að handskrá lánið. 

Í skrefi 2/3 er valið hvaða lán skal ráðstafa viðbótariðgjaldi til, en í því þrepi er einnig hægt að velja „skrá lán hér“ til að handskrá nýtt lán.

Þar skrifar umsækjandi inn lánveitanda og númer lánsins, sem er sjáanlegt á skuldabréfi eða í heimabanka. Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja skráningu nýs láns.

 1. Skuldabréf nýja lánsins
 2. Ráðstöfunarkvittun nýja lánsins

Bæði skjöl ættu að vera aðgengileg frá lánveitanda.

Algengt er að umsækjendur skrái ný lán á vefnum en sæki svo ekki um að greiða inn á þau. Þegar nýja lánið hefur verið skráð þarf að gæta þess að velja nýja lánið í fallvalsmyndinni í skrefi 2/3 og halda svo áfram og klára að senda umsóknina.

Mánaðarlegar greiðslur inn á lán virðast hafa hætt?

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að mánaðarlegar ráðstafanir falla niður. Hér er farið yfir helstu ástæður þess hvers vegna greiðslur hætta að berast inn á lán, og hvernig hefja megi greiðslur aftur.

Láni hefur verið hafnað af lánastofnun

Það getur verið vegna þess að lánið er ekki til lengur, það hefur verið uppgreitt í samræmi við lánssamning, það er uppgreitt vegna endurfjármögnunar eða fasteignin hefur verið seld og lánið uppgreitt.

Ef umsækjandi skuldar ekki lánið lengur, því það hefur verið fært yfir á annan aðila eða umsækjandi tekinn af skuldabréfi sem skuldari er láninu líka hafnað af lánastofnun.

Umsækjandi fær alltaf skilaboð inni á leidretting.is og tölvupóst þegar lán sem hann var að greiða inn á fellur niður. Ef ætlunin er að halda áfram ráðstöfun inn á annað lán má skrá sig inn á leidretting.is og velja að breyta umsókn.

Umsækjandi er kominn upp í hámarksnýtingu ársins 

Ef mánaðarlega greiðslur hætta á miðju ári er líklegt að umsækjandi og maki hans séu komin upp í hámarksnýtingu ársins. Þetta má sjá á yfirlitssíðu umsóknarinnar á skatturinn.is. Að öllu óbreyttu hefjast mánaðarlegar greiðslur aftur í febrúar eða mars þegar janúarmánuði næsta árs er ráðstafað inn á lánið.

Umsækjandi var að skipta um vinnu

Nokkuð algengt er að það gleymist að tilkynna nýjum launagreiðanda að greiða í séreignarsjóð þegar einstaklingar skipta um vinnu. Þá greiðir launagreiðandinn ekki til sjóðsins, og því berast engar greiðslur inn á lánið. Þegar nýr launagreiðandi fer að greiða til sjóðsins, jafnvel þótt hann greiði afturvirkt til sjóðsins, berast þær greiðslur inn á lánið án þess að gera þurfi breytingu á umsókninni á vefnum.

Ráðstöfun var ekki framlengd

Ef mánaðarlegar greiðslur hættu í júní 2017, 2019 eða 2021 er það vegna þess að mánaðarleg ráðstöfun inn á lán var ekki framlengd. Þegar lögum hefur verið breytt og úrræðið framlengt hafa umsækjendur þurft að staðfesta að þeir óski eftir áframhaldandi ráðstöfun, annars gildi upprunaleg umsókn. Þetta má sjá með því að skoða greiðslukvittanir, og ef síðasta kvittun er fyrir iðgjaldamánuðinn júní 2017,2019 eða 2021 er þetta líkleg skýring. 

Hægt er að hefja aftur greiðslur með því að senda aftur inn umsókn, en sú umsókn gildir aðeins frá þeim tíma sem hún berst.

Nánar um útgreiðslu uppsafnaðs viðbótariðgjalds

Sá sem kaupir íbúðarhúsnæði til eigin nota á tímabilinu 1. júlí 2014 – 31. desember 2024 getur átt rétt á að taka út inneign í séreignarlífeyrissjóði skattfrjálst. Sótt er um útgreiðslu uppsafnaðs séreignarsparnaðar vegna kaupa í gegnum leidretting.is.

Umsækjandi þarf að vera orðinn þinglýstur eigandi fasteignarinnar þegar sótt er um. Úrræðið fellur úr lögum 1. júlí 2023 og því þarf umsókn að hafa borist fyrir þann tíma.

Öflun íbúðar til eigin nota

Skilyrði þess að heimilt sé að taka út uppsafnað viðbótariðgjald með þessu úrræði er meðal annars að umsækjandi hafi aflað sér fasteignar til eigin nota. Undir „öflun íbúðar“ í þessu skyni fellur þegar umsækjandi kaupir fasteign, þegar umsækjandi erfir fasteign og þegar umsækjandi aflar sér búseturéttar. 

Fasteignin þarf að vera skráð sem íbúðarhúsnæði í Fasteignaskrá Íslands, og vera til eigin nota fyrir umsækjanda sjálfan. Í því felst að umsækjandi þarf að hafa skráð lögheimili í eigninni.

Tímabil sem heimilt er að nýta

Heimildin til þess að taka út uppsafnaðan séreignarsparnaðar sem myndast hefur vegna viðbótariðgjalds á tímabilinu frá 1. júlí 2014 til 31. desember 2024. Það er ekki hægt að taka út viðbótariðgjald sem safnast upp á meðan umsækjandi eða maki sem umsækjandi uppfyllir skilyrði samsköttunar með eru skráð eigendur fasteignar.

Dæmi

Sem dæmi mætti því nefna að umsækjandi sem átti fasteign sem var seld í mars 2017, og kaupir aðra fasteign í júní 2022 gæti sótt um úttektina. Hann fengi þá greidd inn á bankareikning sinn þau viðbótariðgjöld sem söfnuðust frá sölu fyrri eignarinnar í mars 2017 og fram að kaupum seinni eignarinnar í júní 2022. 

Sjá þó einnig umfjöllun um hámarksfjárhæðir hér að ofan.

Leiðbeiningar vegna umsóknar um útgreiðslu séreignar

Sótt er um úttekt séreignarsparnaðar vegna kaupa á fasteign í gegnum leidretting.is. Þar skráir umsækjandi sig inn, velur „séreignarsparnaður“ og þar undir „útgreiðsla séreignarsparnaðar“.

Þrep 1 af 4

Í þrepi 1/4 umsóknarinnar skráir umsækjandi inn upplýsingar um hina keyptu fasteign. Fastanúmer eignarinnar kemur fram á kaupsamningi og á HMS.is. Stundum eru fastanúmer birt með F-i fyrir framan töluna, en hér á ekki að setja F-ið með. Aðrar upplýsingar, svo sem kaupdag má finna á kaupsamningi eignarinnar, sem er hengdur við umsóknina áður en valið er að halda áfram.

Þrep 2 af 4

Í skrefi 2/4 má gera athugasemd við heimilisskráningu ef röng hjúskaparstaðar er birt. Þar velur umsækjandi hvort hann vilji nýta eins mikið og heimilt er(ótakmörkuð nýting), eða hvort umsækjandi vilji takmarka ráðstöfun sína við lægri fjárhæð(takmörkuð nýting). Umsækjandi velur „áfram“ til að fara yfir á skref 3/4.

Þrep 3 af 4

Í þrepi 3/4 velur umsækjandi úr hvaða séreignarsjóði hann óskar eftir úttekt úr. Þegar séreignarsjóði hefur verið bætt við skráir umsækjandi inn á hvaða reikningsnúmer uppsafnaða fjárhæðin skal greidd. Aðeins er hægt að velja bankareikning sem umsækjandi er sjálfur skráður fyrir.

Þrep 4 af 4

Í skrefi 4/4 getur umsækjandi farið yfir umsóknina eins og hún hefur verið sett upp, og séð yfirlit yfir nýtingu séreignarinnar í gegnum þetta úrræði til þessa. Í skrefi 3/3 þarf að haka við að umsókn sé staðfest og senda umsóknina.

Spurt og svarað

Ekki fyrsta íbúðin mín?

Heimildin í lögum nr. 40/2014 sem við köllum almenna séreignarúrræðið er ekki bundið við fyrstu eign umsækjanda. Það býður upp á skattfrjálsa ráðstöfun séreignar inn á lán og skattfrjálsrar úttektar vegna kaupa. 

Sjá þó til samanburðar sambærilegt úrræði um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð.

Má nýta séreign vegna kaupa á búseturétti?

Kaup á búseturétti telst vera öflun íbúðar í skilningi laganna. Það má því alltaf taka út uppsafna séreign vegna kaupa á búseturétti, með tilliti til annarra skilyrða. Það eru þó sjaldan gefin út lán sem eru tryggð með veði í fasteign við kaupa á búseturétti, og því sjaldgæft að heimilt sé að greiða inn á lán vegna slíkra kaupa.

Ég á uppsafnaða séreign sem ég vil greiða inn á lán

Mánaðarleg ráðstöfun séreignar inn á lán hefst aðeins eftir að umsókn hefur verið skilað inn til Skattsins. Umsókn um að greiða viðbótariðgjaldið skattfrjálst inn á lán tekur því aldrei til uppsafnaðrar séreignar.

Ég á fasteign en vil taka út séreignarsparnað

Aðeins er heimilt að taka út þann sparnað sem safnaðist á tímabili innan júlí 2014 - desember 2024 þegar umsækjandi á ekki fasteign. Ef þú hefur verið eigandi fasteignar í langan tíma er því mögulegt að þú hafir ekki heimild til að taka út uppsafnaða séreign.

Ég er kominn á eftirlaun og vil greiða séreign inn á lán

Umsókn um nýtingu séreignar inn á lán tekur aðeins til séreignar sem greidd er eftir að umsókn berst. Ef umsækjandi er hættur að greiða viðbótariðgjald mánaðarlega getur hann því ekki greitt séreignarsparnað inn á lán með þessu úrræði.

Mánaðarlegar greiðslur inn á lán berast ekki lengur?

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að mánaðarlegar ráðstafanir falla niður. Algengt er að það sé vegna að 

 • láni hafi verið hafnað af lánastofnun, 
 • umsækjandi kominn upp í hámarksnýtingu ársins, 
 • umsækjandi var að skipta um vinnu,
 • að ráðstöfun hafi ekki verið framlengd.

Hér að ofan er kafli þar sem ítarlega er farið í þessar ástæður og hægt að sjá hvernig má sannreyna hvort það eigi við og hver lausnin er til að hefja greiðslur aftur.

Ráðstöfun inn á lán hjá sambúðaraðila?

Já, það er hægt að gera það. Einstaklingar geta greitt inn á lán hjá maka ef sambúðaraðilar uppfylla skilyrði samsköttunar. Einstaklingur hefur því heimild til að nýta séreignarsparnað sinn vegna öflunar sambúðaraðila án þess að þurfa að eiga húsnæðið sjálfur.

Ráðstöfun inn á afborgun láns?

Í almenna séreignar úrræði laga nr. 40/2014 er ekki heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði til lækkunar afborgunar láns. Það er því aðeins hægt að ráðstafa mánaðarlega inn á höfuðstól lánsins. Til aðgreiningar er heimilt að greiða inn á afborgun óverðtryggðra lána ef sótt er um vegna fyrstu kaupa. Sjá nánar hér.(linkur á fyrstu kaup)

Lánið mitt er ekki á listanum yfir lán sem ég get valið?

Lán sem koma sjálfkrafa á listann eru lán sem voru í kafla 5.2 á síðasta framtali. Kafli 5.2 á skattframtali er fyrir þau lán sem eru tekin vegna öflunar íbúðar til eigin nota. Ef lánið þitt er ekki á listanum er það vegna þess að það var ekki talið fram í kafla 5.2 á síðasta skattframtali. Ef lánið var tekið á yfirstandandi ári gæti það ekki verið á síðasta skattframtali. Ef lánið var tekið til endurbóta á fasteigninni eða í öðrum tilgangi en til að afla íbúðar til eigin nota ætti það að vera skráð í kafla 5.5 á framtalinu. Hægt er að óska eftir að bæta láni við listann með því að velja að „handskrá“ lán í skrefi 2/3.

Í hvaða séreignarsjóð er ég að greiða?

Skatturinn hefur ekki upplýsingar um hvert eða hvort einstaklingar greiða viðbótariðgjald.

Hvenær er greitt inn á lán?

Samkvæmt lögum nr. 40/2014 ber vörsluaðila (séreignarsjóði) að greiða minnst fjórum sinnum á ári í samræmi við umsókn umsækjanda. Almennt berast iðgjöld inn á lán innan 40 daga eftir að þau berast vörsluaðila. Þetta kann þó að vera breytilegt eftir sjóðum og er umsækjanda bent á að hafa samband við vörsluaðila ef spurningar vakna um greiðslur og tíðni þeirra.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Lög nr. 90/2003 um tekjuskatt

Reglugerð nr. 991/2014 um samræmt verklag við ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum