Skattþrep í staðgreiðslu 2022
Staðgreiðsluskattur sem dregin er af launum er í þrem skattþrepum. Einstaklingar með greiðslur frá fleiri en einum launagreiðanda þurfa að gera ráðstafanir til þess að rétt hlutfall skatts sé dregið af launum þeirra og forðast þannig skattskuld við álagningu.
Staðgreiðsluhlutfallið er eftirfarandi:
Skattþrep | Tekjubil | Hlutfall |
---|---|---|
Skattþrep 1 | Af tekjum 0 – 370.482 kr. | 31,45% |
Skattþrep 2 | Af tekjum 370.483 - 1.040.106 kr. | 37,95% |
Skattþrep 3 | Af tekjum yfir 1.040.106 kr. | 46,25% |
Ábyrgð
Það er ábyrgð hvers og eins að gefa sínum launagreiðanda réttar upplýsingar til að tryggja að rétt staðgreiðsluhlutfall sé dregið af laununum og að nýting persónuafsláttar sé með réttum hætti.
Fari mánaðarlaun yfir 370.482 kr. hjá einum launagreiðanda þarf að reikna staðgreiðslu af launum hjá öðrum launagreiðendum í næsta skattþrepi fyrir ofan. Fari mánaðarlaun yfir 1.040.106 kr. þarf að reikna staðgreiðslu af þeim hluta sem fer yfir það mark í þrepi þrjú eða 46,25%.
Tökum dæmi:
Dæmi 1: Ellilífeyrir
Guðrún fær lífeyrisgreiðslur frá þremur mismunandi lífeyrissjóðum, samtals 450.000 kr. á mánuði. Eina greiðslu frá lífeyrissjóði A upp á 250.000 kr. á mánuði, aðra frá lífeyrissjóði B upp á 150.000 kr. á mánuði og þá þriðju frá lífeyrissjóði C upp á 50.000 kr. á mánuði.
Hvað þarf Guðrún að gera?
- Persónuafslátturinn er 53.916 kr. á mánuði og eðlilegast er fyrir Guðrúnu að fullnýta þann afslátt hjá Lífeyrissjóði A.
- Fyrsta skattþrep nær upp að 370.482 kr. og þarf því að tilkynna sjóðum B og C að reikna staðgreiðslu í þrepi 2 að fullu eða hluta.
- 120.482 kr. frá sjóði B má reikna í neðra þrepi, en mismuninn þarf að færa í þrep 2.
- Allar greiðslur frá sjóði C þurfa að reiknast í þrepi 2.
Launagreiðandi | Fjárhæð | Skattþrep | Persónuafsláttur |
Lífeyrissjóður A | 250.000 kr. | Þrep 1 | Nýttur að fullu hjá A |
Lífeyrissjóður B | 150.000 kr. | Þrep 1 og 2 | |
Lífeyrissjóður C | 50.000 kr. | Þrep 2 |
Dæmi 2: Sumarvinna
Danuta er að fara að vinna á tveimur stöðum yfir sumarið og ráðgerir að heildarlaunin verði um 500.000 kr. á mánuði, 400.000 kr. á öðrum staðnum og 100.000 kr. á hinum, þar sem hún vinnur bara á kvöldin. Danuta hefur verið í hlutastarfi í verslun allan veturinn með námi og hefur nýtt hluta af sínum persónuafslætti fyrstu fimm mánuði ársins.
Hvað þarf Danuta að gera?
- Sumarvinnu 1 tilkynnir Danuta að launagreiðandi megi nýta persónuafslátt sinn.
- Sumarvinnu 2 segir hún að launin eigi að skattleggja í skattþrepi 2. Jafnframt tilkynnir hún að þeim sé heimilt að nýta uppsafnaðan persónuafslátt sinn. Hægt er að sækja staðfestingu á því á þjónustuvef Skattsins www.skattur.is með rafrænum skilríkjum eða veflykli og senda á launagreiðanda.
Launagreiðandi | Fjárhæð | Skattþrep | Persónuafsláttur |
Sumarvinna 1 | 400.000 kr. | Þrep 1 og 2 | Leyfir nýtingu |
Sumarvinna 2 | 100.000 kr. | Þrep 2 | Notar uppsöfnun |
Dæmi 3: Sérfræðingur með há laun
Dóra er í fullri vinnu sem læknir. Hún vinnur á spítala og er með 1.200.000 kr. á mánuði í laun. Dóra tekur einnig að sér vaktir á annarri heilbrigðisstofnun.
Hvað þarf Dóra að gera?
- Spítalinn fullnýtir fyrsta og annað skattþrep hennar og allan hennar persónuafslátt.
- Dóra þarf að tilkynna heilbrigðisstofnuninni að skattleggja laun hennar þar í skattþrepi 3 og að nýta ekki persónuafslátt.
Launagreiðandi | Fjárhæð | Skattþrep | Persónuafsláttur |
Spítali | 1.200.000 kr. | Þrep 1, 2 og 3 | Leyfir nýtingu |
Heilbrigðisstofnun | 500.000 kr. | Þrep 3 | Enginn persónuafsláttur |
Dæmi 4: Fæðingarorlof
Jón hefur verið í fullri vinnu allt árið en er að fara í fæðingarorlof í þrjá mánuði.
Hvað þarf Jón að gera?
- Jón tilkynnir Fæðingarorlofssjóði að hann ætli að nýta sinn persónuafslátt hjá þeim og að hann eigi engan uppsafnaðan persónuafslátt.
- Þegar Jón mætir aftur til starfa á sínum vinnustað að fæðingarorlofi loknu þarf að tryggja að launagreiðandinn geri ráð fyrir nýtingu persónuafsláttar hjá Fæðingarorlofssjóði til að forðast ofnýtingu.
Dæmi 5: Tímabundin dvöl á Íslandi
Helga og Grzegorz búa erlendis en koma og ætla að starfa tímabundið á Íslandi. Helga verður á einum vinnustað en Grzegorz á tveim, hjá launagreiðanda 1 verður hann með 400.000 kr. á mánuði og hjá launagreiðanda 2 með 200.000 kr. í mánaðarlaun.
Hvað þarf Helga að gera?
- Þrátt fyrir að Helga sé íslenskur ríkisborgari þá á hún ekki rétt á uppsöfnuðum persónuafslætti frá áramótum þar sem hún býr erlendis. Hún á aðeins rétt á persónuafslætti frá komudegi til landsins og lætur hún launagreiðanda sinn vita af því.
Hvað þarf Grzegorz að gera?
- Grezegorz heimilar launagreiðanda 1 að nýta persónuafslátt sinn.
- Grzegorz á ekki rétt á uppsöfnuðum persónuafslætti frá áramótum vegna búsetu erlendis. Hann lætur launagreiðanda 1 vita hvenær hann kom til landsins.
- Hann lætur launagreiðanda 2 reikna staðgreiðsluskatt sinn í skattþrepi 2.
Launagreiðandi | Fjárhæð | Skattþrep | Persónuafsláttur |
---|---|---|---|
Launagreiðandi 1 | 400.000 kr. | Skattþrep 1 | Leyfir nýtingu frá komudegi |
Launagreiðandi 2 | 200.000 kr. | Skattþrep 2 | Enginn persónuafsláttur |
Dæmi 6: Erlendar og innlendar tekjur
Sigrún er búsett á Íslandi og fær lífeyrisgreiðslur frá þremur mismunandi lífeyrissjóðum, samtals 450.000 kr. á mánuði. Eina greiðslu frá lífeyrissjóði A upp á 250.000 kr. á mánuði, aðra frá lífeyrissjóði B upp á 50.000 kr. á mánuði og þá þriðju frá erlendum lífeyrissjóði upp á 150.000 kr. á mánuði.
Hvað þarf Sigrún að gera?
- Persónuafslættinum þarf að skipta á milli íslensku og erlendu teknanna með því að finna hlutfall íslenskra tekna af heildartekjum. Samtals íslenskar tekjur eru 67% af heildar tekjum. Best er fyrir Sigrúnu að nýta 67% persónuafsláttar hjá Lífeyrissjóði A. Síðan mun 33% persónuafsláttarins koma á móti erlendum tekjum í lokauppgjöri við álagningu.
- Fjárhæð lífeyris frá Lífeyrissjóði A er umfram skattþrep 1. Því á að reikna staðgreiðslu í skattþrepum 1 og 2 að hluta.
- Allar greiðslur frá sjóði B þurfa að reiknast í þrepi 2.
- Greiðslur frá erlenda sjóðnum munu reiknast í þrepi 1 og 2 í lokauppgjöri í álagningunni.
Launagreiðandi | Fjárhæð | Skattþrep | Persónuafsláttur |
---|---|---|---|
Lífeyrissjóður A | 250.000 kr. | Þrep 1 og 2 | Nýtir 67% hjá A |
Lífeyrissjóður B | 50.000 kr. | Þrep 2 | |
Erlendi lífeyrissjóðurinn | 150.000 kr. | Þrep 1 og 2 | Nýtir 33% í álagningu. |