Bindandi álit

Bindandi álit 2/2023, frávísun

15.11.2023

Tilefni

Með bréfi dagsettu 21. september 2023, sem móttekið var með tölvupósti sama dag, fer álitsbeiðandi fram á að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit á grundvelli laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Álitaefni

Álitaefnið varðar skráningarskyldu óstofnaðs einkahlutafélags álitsbeiðanda.

Álitsbeiðandi fer þess á leit við ríkisskattstjóra að hann staðfesti með bindandi áliti að fyrirhuguð starfsemi óstofnaðs íslensks dótturfélags álitsbeiðanda teljist skráningarskyld á virðisaukaskattsskrá samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 2. og 3. gr. laganna, vegna nánar tilgreindrar starfsemi hér á landi.

Forsendur ríkisskattstjóra

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á fyrirkomulagi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana.

Álitsbeiðandi fer þess á leit við ríkisskattstjóra, eins og fram hefur komið, að hann staðfesti með bindandi áliti að fyrirhuguð starfsemi óstofnaðs íslensks dótturfélags álitsbeiðanda teljist skráningarskyld á virðisaukaskattsskrá samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 2. og 3. gr. laganna.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 hvílir skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð á þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið svo á um að hver sá, sem skattskyldur er skv. 3. gr., sbr. 4. gr., skuli ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá ríkisskattstjóra. Í 5. mgr. sömu greinar kemur fram að eigi skuli skrá aðila samkvæmt þessari grein ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, þar með talið vegna kaupa varanlegra rekstrarfjármuna. Þó á aðili rétt á skráningu ef hann sýnir fram á að kaup á fjárfestingarvörum standi í beinu sambandi við sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu í atvinnuskyni á síðari rekstrartímabilum.

Ákvörðun um skráningu samkvæmt framangreindum ákvæðum er ekki valkvæð eins og fyrr greinir heldur skyldubundin, þannig að aðila ber að skrá sig á virðisaukaskattsskrá átta dögum áður en hann hefur atvinnurekstur eða starfsemi sína. Skráningin sem slík varðar ekki fyrirhugaðar ráðstafanir heldur skyldu til að bregðast við ráðstöfunum sem þegar eru komnar á það stig að þeim verði hrundið í framkvæmd. Afstaða til skráningar er tekin á grundvelli þeirra og gagna og upplýsinga, sem lögð yrðu fram við skráningu um eðli starfseminnar, umgjörð hennar o.fl. Skráning ræðst þannig af heildstæðu mati á þeim ráðstöfunum þegar hafa verið gerðar með það að markmiði að afla tekna og hvort sú tekjuöflun teljist í atvinnuskyni og framtíðarhorfum, svo sem varðandi líkur á því að tekjuöflun sé umfram kostnað til starfseminnar. Skylda til skráningar telst þannig ekki fela í sér fyrirhugaðar skattalegar ráðstafanir sem snúa til dæmis að skattskyldusviði virðisaukaskatts, skatthlutfalli, skattverði, undanþágum frá skattskyldri veltu o.s.frv., sem bindandi álit verður látið uppi um og yrði bindandi við álagningu í þeim mæli sem álitið tekur til og samsvarandi ráðstafanir skattaðila.

Með hliðsjón af framangreindu telur ríkisskattstjóri sér hvorki rétt né skylt að staðfesta í bindandi áliti almenna framkvæmd laga nr. 50/1988, hvað varðar almenn réttindi og skyldur þeirra aðila sem hér á landi selja í atvinnuskyni vöru og þjónustu og skráningarskyldir kunna að vera á virðisaukaskattsskrá við þær aðstæður.

Með vísan til framangreinds er beiðni um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum