Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 04/11

17.10.2011

Samsköttun - Frávísun

Með bréfi dagsettu 13. október 2009, var farið fram á með vísan til laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, að ríkisskattstjóri léti uppi bindandi álit m.a. á því hvort álitsbeiðendur, A og B og C, uppfylltu skilyrði fyrir samsköttun frá og með 1. janúar 2010 og gætu við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2011 óskað eftir og fengið staðfestingu á heimild til samsköttunar samkvæmt 55. gr. laga nr. 90/2009, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum. Þá var óskað eftir staðfestingu á því að heimilt yrði í gegnum samsköttunina að nýta eftirstöðvar rekstrartapa, sbr. 8. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga á móti skattskyldum hagnaði C og eftir atvikum B.

Í bindandi áliti ríkisskattstjóra, dags. 3. febrúar 2010, komst embættið að þeirri niðurstöðu að skilyrði til samsköttunar álitsbeiðenda og B myndu ekki vera uppfyllt. Af því var talið leiða að ekki væri tilefni til að fjalla um heimild til nýtingar á rekstrartapi A við samsköttun þessara aðila.

Bindandi álitið var kært til yfirskattanefndar með kæru 30. apríl 2010. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 303/2010, dags. 27. október 2010, var bindandi áliti ríkisskattstjóra breytt þannig að fallist var á að kærendur uppfylltu skilyrði samsköttunar með C. Þeim þætti málsins sem laut að frádrætti rekstrartaps kæranda, A var vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar.

Með 8. gr. laga nr. 165/2010, um breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld, voru gerðar breytingar á 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Við málsgreinina bættist nýr málsliður, svohljóðandi:

,,Samsköttun skal þó falla niður með félagi sé það tekið til gjaldþrotameðferðar eða sæti slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002.“

Samkvæmt 69. gr. laga nr. 165/2010 öðlaðist ákvæði 8. gr. þegar gildi og voru lögin birt í Stjórnartíðindum 30. desember 2010. Núgildandi ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2011 girðir því fyrir samsköttun þeirra félaga sem fjallað var um í framangreindu bindandi áliti ríkisskattstjóra við álagningu tekjuskatts gjaldárið 2011.

Að virtum þeim lagabreytingum sem gerðar hafa verið á 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, verður ekki annað séð en að álitsbeiðendur uppfylli ekki skilyrði fyrir samsköttun þeirri sem óskað var álits á með bréfi dagsettu 13. október 2009. Í 6. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, kemur fram að bindandi álit sé ekki bindandi fyrir skattyfirvöld hafi verið gerðar breytingar á lögum áður en ráðstöfun var gerð sem um er fjallað í álitinu og sú breyting tekur beint til atriða sem álitið byggist á. Beiðninni er því vísað frá.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum