Bindandi álit

Bindandi álit nr. 10/15

21.9.2015

Umbreyting kröfu í hlutafé – frádráttarbærni stöðugleikaframlags, skattskylda skv. 2. -4. málsl. 3. mgr. 71. gr. tekjuskattslaga – skattskylda skv. lögum nr. 165/2011 og lögum nr. 155/2010

Tilefni:

Með bréfi dagsettu 14. september 2015, sem móttekið var sama dag, fer álitsbeiðandi fram á að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit á grundvelli laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Málavextir og fyrirætlanir:

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi sé fjármálafyrirtæki í slitameðferð eftir reglum B hluta XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum.  Árið 2009 hafi verið skipuð slitastjórn fyrir álitsbeiðanda í samræmi við ákvæði laga nr. 44/2009. 

Álitsbeiðandi vísar til laga nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, sem samþykkt voru á Alþingi 3. júlí 2015, en lögin hafi verið sett með það að markmiði að stuðla að losun fjármagnshafta með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi.  Samkvæmt lögunum skuli lögaðilar sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, en sæta nú slitameðferð samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eða hafa lokið slitameðferð þar sem héraðsdómur hefur úrskurðað að þeir skuli teknir til gjaldþrotaskipta, greiða í ríkissjóð skatt af eignum sínum.  Stöðugleikaskattur skal vera 39% af heildareignum skattskylds aðila skv. 3. gr. laga nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt.

Þá bendir álitsbeiðandi á að með lögum nr. 59/2015, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sem einnig voru samþykkt á Alþingi þann 3. júlí sl. hafi nauðasamningsferli fjármálafyrirtækja verið einfaldað og Seðlabanka Íslands verið veitt heimild að veita viðtöku hvers kyns fjárhagslegum verðmætum, svokölluðu stöðugleikaframlagi, til að bregðast við hættu á neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum.  Þessi heimild gildi til næstu áramóta og stefnt sé að því að kröfuhafar álitsbeiðanda samþykki nauðasamning sem feli í sér greiðslu umrædds stöðugleikaframlags eftir að hafa hlotið staðfestingu Seðlabanka Íslands.

Fyrirhugað er að álitsbeiðandi ljúki slitameðferð með gerð nauðasamnings við kröfuhafa félagsins sem feli jafnframt í sér greiðslu svokallaðs stöðugleikaframlags. Hljóti nauðasamningurinn  staðfestingu Seðlabanka Íslands sé fyrirhugað að óska eftir staðfestingu héraðsdóms á umræddum nauðasamningi fyrir 31. desember 2015.

Í álitsbeiðni kemur fram að fyrirhugað er að efni nauðasamnings álitsbeiðanda verði  í grófum dráttum eftirfarandi:

„(i)  Forgangskröfur samkvæmt 109., 110. og 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti yrðu greiddar upp að fullu. Nauðasamningurinn hefði því engin áhrif á þessar kröfur.

(ii)  Kröfur sem njóta veðréttar eða annars tryggingaréttar yrðu greiddar að því marki sem tryggingaréttindi nægðu til greiðslu slíkra krafna. Nauðasamningur hefðu því einungis áhrif á þessar kröfur að því marki sem tryggingaréttindi nægja ekki til greiðslu þeirra, en eftirstöðvar þeirra myndu lúta ákvæðum 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

(iii)  Kröfur samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti („samningskröfur“) yrðu efndar með eftirfarandi hætti:

a)  Með eingreiðslu í reiðufé samkvæmt heimild í 3. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991 („lágmarksgreiðsla“). Fjöldi kröfuhafa myndi fá fullar endurheimtur með þessari greiðslu.

b)  með allt að 87% afskrift krafna;

c)  með útgáfu nýrra hluta í álitsbeiðanda í tilteknu hlutfalli við fjárhæð krafna („hlutabréfin“); og

d)  með útgáfu skuldabréfa með breytirétti („skuldabréfin“).

(iv)  Eftirstæðar kröfur samkvæmt 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti myndu falla niður að fullu.“

Álitaefni:

Álitsbeiðandi óskar eftir að ríkisskattstjóri staðfesti með bindandi áliti að:

 • „umbreyting kröfu í hlutafé eftir árið 2015 þegar virði hlutafjárins er minna en bókfært virði kröfunnar, myndi ekki tekjufærslu hjá álitsbeiðanda.“
 • „greiðsla stöðugleikaframlags til Seðlabanka Íslands á árinu 2015 sé frádráttarbær frá rekstrartekjum álitsbeiðanda á árinu 2015 á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“
 • „að álitsbeiðandi falli ekki undir skattskyldusvið 2.-4. málsl. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, á árinu 2015 ef liggur fyrir staðfestur nauðasamningur fyrir árslok 2015.  Geti ríkisskattstjóri ekki staðfest þetta er óskað eftir að hann staðfesti að skattskylda álitsbeiðanda skv. 2.-4. málsl. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, falli niður frá staðfestingu nauðasamnings (ekki er tekið tillit til tekna vegna eftirgjafar við nauðasamning sbr. b-lið 2. tölul. 5. gr. laga nr. 59/2015.“
 • „að álitsbeiðandi sé ekki skattskyldur af launum skv. 4. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt eftir að nauðasamningur hefur verið staðfestur.“
 • „að ef nauðasamningur álitsbeiðanda verður staðfestur fyrir árslok 2015 falli álitsbeiðandi ekki lengur undir skattskyldusvið laga nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, þ.e. vegna gjaldársins 2016.“

Sjónarmið álitsbeiðanda:

I.  Umbreyting kröfu í hlutafé eftir árið 2015:

Í álitsbeiðni kemur fram að fyrirhugaður nauðasamningur muni fela í sér að kröfuhafar gefi eftir skuldir gegn því að hluta krafna þeirra verði breytt í hlutafé og ný skuldaskjöl verði gerð sem feli í sér breytirétt til handa álitsbeiðanda til að breyta skuldum í hlutafé.  Mögulegt sé að álitsbeiðandi muni eftir árið 2015, þ.e. á komandi árum eftir að nauðasamningur hefur verið staðfestur, nýta þennan breytirétt sinn og breyta skuldum samkvæmt umræddum skuldaskjölum í hlutafé í álitsbeiðanda.

Álitaefnið varði skattalega meðhöndlun þegar um er að ræða umbreytingu kröfu í hlutafé eftir árið 2015.  Álitsbeiðandi bendir á að hér sé átt við þegar kröfu er breytt í hlutafé þar sem virði hlutafjárins er minna en bókfært virði kröfunnar.  Álitsbeiðandi bendir á að með a-lið 2. tölul. 5. gr. laga nr. 59/2015, hafi nýju ákvæði verið bætt til bráðabirgða við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, svohljóðandi:

„Við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna tekna ársins 2015 skal:

a)   ekki telja til tekna eftirgjöf skulda eða annarra skuldbindinga sem á sér stað við gerð nauðasamnings lögaðila gegn því að kröfu er breytt í hlutafé í hinu skuldsetta félagi, hvort heldur varðar kröfuhafann og/eða skuldarann. Skilyrði fyrir niðurfellingu tekjufærslu skv. 1. málsl. er að rekstrartap ársins og yfirfæranlegt rekstrartap hafi verið jafnað“

Álitsbeiðandi telur, í ljósi þess að a) liður hins nýja bráðabirgðaákvæðis við lög nr. 90/2003, taki einungis til eftirgjafar sem á sér stað við nauðasamning lögaðila gegn því að kröfu sé breytt í hlutafé á tekjuárinu 2015, að eftir lok þess tekjuárs gildi almennar reglur tekjuskattslaganna.

Þá bendir álitsbeiðandi á að á tekjuárunum 2009, 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014 hafi verið kveðið á um í 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXVI að tekjufæra bæri mismun á verðmæti hlutafjár og bókfærðu verði skuldar þegar kröfu væri breytt í hlutafé. Umrætt bráðabirgðaákvæði sé fallið úr gildi

Þá lítur álitsbeiðandi svo á að bráðabirgðaákvæði XXXVI, og hið nýja bráðabirgðaákvæði við lög nr. 90/2003 sem sett var með lögum nr. 59/2015, séu undantekningar frá almennum reglum skattalaga sem beri að túlka þröngt.  Að því gefnu telur álitsbeiðandi að umbreyting skulda í hlutafé í álitsbeiðanda, þar sem virði hlutafjárins er minna en verðmæti skuldarinnar, leiði ekki til tekjufærslu hjá honum. Álitsbeiðandi telur að ekki fari lengur um skiptin eftir bráðabirgðaákvæði XXXVI í lögum nr. 90/2003 eða hinu nýja bráðabirgðaákvæði við sömu lög sem sett var með lögum nr. 59/2015, enda eigi skiptin sér stað eftir tekjuárið 2015.  Þá taki við almennar reglur tekjuskattslaganna nr. 90/2003, sem kveða ekki á um tekjufærslu eða gjaldfærslu við skipti á kröfu fyrir hlutafé þegar verðmæti hlutafjárins er ekki jafnhátt verðmæti krafnanna, enda hefðu áðurnefnd bráðabirgðaákvæði verið óþörf.

II.  Frádráttarbærni stöðugleikaframlags:

Álitsbeiðandi vísar til þess að hvorki í lögum nr. 59/2015 né öðrum lögum sé getið um hvort hið svokallaða stöðugleikaframlag, sem gerð var grein fyrir hér að framan, sé frádráttarbært frá tekjum skv. 1. tölul. 1. mgr.31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.  Þetta verði heldur ekki séð af lögskýringargögnum er fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 59/2015.  Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 29. gr. sömu laga, sé lögaðila heimilt að draga frá tekjum sínum rekstrarkostnað, þ.e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við.  

Í álitsbeiðni kemur fram að hlutverk og tilgangur álitsbeiðanda í dag, og eftir staðfestingu nauðasamnings, sé að hámarka virði eigna sinna og af þeim hafi hann tekjur, t.d. í formi vaxta.  Fjárhæð tekna álitsbeiðanda ráðist aðallega af verðmæti undirliggjandi höfuðstóls.  Með því að greiða svokallað stöðugleikaframlag í stað stöðugleikaskatts sé álitsbeiðandi að takmarka rýrnun eigna sinna eða höfuðstóls sem aftur leiði til hærri fjármagnstekna.  Með því að greiða stöðugleikaframlag sé álitsbeiðandi því að tryggja og halda við tekjum sínum í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og því sé honum heimilt að draga þann kostnað frá tekjum sínum.

Álitsbeiðandi vísar til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 432/1995, íslenska ríkið gegn Helga G. Þórðarsyni,  þar sem fram komi að það væri meginregla í skattarétti, að öll gjöld, sem fara í að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við, komi til frádráttar frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.  Allar undantekningar frá þeirri reglu verði að vera skýrar og ótvíræðar.  Í ljósi þessa telur álitsbeiðandi að ef honum heimilast ekki að draga umrætt stöðugleikaframlag frá tekjum sínum þá sé verið að túlka ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. of þröngt.

Þá tekur álitsbeiðandi fram að stöðugleikaframlagið geti ekki talist skattur.  Í 1. málsl. 1. mgr. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segi:

„Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.

Enn fremur segi í 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar:

„Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.“

Þá vísar álitsbeiðandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 705/2010, íslenska ríkið gegn Matfugli ehf., þar sem tilgreint er sérstaklega að til þess að lagaákvæði geti talist fullgild heimild til skattlagningar samkvæmt 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar þurfi það að uppfylla eftirfarandi:

tilgreint hverjir væru gjaldskyldir samkvæmt ákvæðinu, við hvað gjaldið skyldi miðast og hver væri fjárhæð þess“

Stöðugleikaframlagið uppfylli svo sannarlega ekki þessi skilyrði.  Ennfremur vísar álitsbeiðandi til úrskurðar yfirskattanefndar í máli nr. 09/2012, þar sem útvarpsgjald var ekki talið frádráttarbært þar sem það var talið vera skattur. 

III.  Sérstakur fjársýsluskattur:

Álitsbeiðandi bendir á að í 2. málsl. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 18. gr. laga nr. 165/2011 komi fram að „þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. og 1. málsl. þessarar málsgreinar [skuli] einnig leggja sérstakan fjársýsluskatt á aðila sem skattskyldir eru skv. 2. gr. laga um fjársýsluskatt. Sérstaki fjársýsluskatturinn skal vera 6% af tekjuskattsstofni yfir 1.000.000.000 kr., sbr. 2. tölul. 61. gr.“ 

Með b lið 2. tölul. 5. gr. laga nr. 59/2015, sem tóku gildi 9. júlí 2015, hafi nýju ákvæði til bráðabirgða verið bætt við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, svohljóðandi:

„Við álagningu opinberra gjalda á árinu 2016 vegna tekna ársins 2015 skal:

a)   ekki telja til skattstofns skv. 3. mgr. 71. gr. tekjur vegna eftirgjafar skulda í tengslum við slitameðferð skattaðila skv. 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.“

Álitsbeiðandi telur ljóst að eftir staðfestingu nauðasamnings sé hann ekki lengur fjármálafyrirtæki í slitameðferð skv. lögum nr. 161/2002 og falli því ekki undir ákvæði 2.–4. málsl. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003.  Álitsbeiðandi sé þeirrar skoðunar að verði nauðasamningur hans staðfestur fyrir árslok 2015 þá sé hann ekki skattskyldur samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003 vegna tekna ársins 2015.

Fallist ríkisskattstjóri ekki á framangreinda túlkun álitsbeiðanda sé ljóst að hluti tekna hans árið 2015 falli ekki undir ákvæði 2.–4. málsl. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003.  Skattskyldur hluti teknanna falli því til fram að staðfestingu nauðasamnings.  Frá því tímamarki sem nauðasamningur sé staðfestur, þ.e. á tekjuárinu 2015, falli hann hvorki lengur undir skilgreiningu á fjármálafyrirtæki  í skilningi fyrrgreindra laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, né undir skilgreiningu á fjármálafyrirtæki í slitameðferð samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.  Þannig beri álitsbeiðanda ekki að standa skil á fjársýsluskatti eftir tilgreint tímamark á árinu 2015. 

IV.  Almennur fjársýsluskattur:

Í álitsbeiðni kemur fram að samkvæmt lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, beri fjármálafyrirtækjum, þar með talið fjármálafyrirtækjum í slitameðferð, sbr.  lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, að greiða 5,5% fjársýsluskatt á allar tegundir launa eða þóknana, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og nánar er skilgreint í lögum nr. 90/2003. 

Álitsbeiðandi er þeirrar skoðunar, að þegar slitameðferð hans er lokið með gerð staðfests nauðasamnings við kröfuhafa á árinu 2015, þá falli hann ekki lengur undir skattskyldusvið laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt.  Frá því tímamarki falli hann hvorki undir skilgreininguna um fjármálafyrirtæki í slitameðferð  í skilningi fyrrgreindra laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, né lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.  Að mati álitsbeiðanda ber honum því ekki að standa skil á fjársýsluskatti eftir tilgreint tímamark á árinu 2015.  Verði nauðasamningur álitsbeiðanda staðfestur í miðjum almanaksmánuði teljist einungis hluti af greiddum launum vegna þess mánaðar til skattstofns fjársýsluskatts, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 165/2011.

V.  Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki:

Álitsbeiðandi bendir á að samkvæmt lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, hvíli á fjármálafyrirtækjum, sem hafa fengið starfsleyfi sem viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki, og öðrum aðilum sem hafa fengið leyfi til að taka við innlánum, að greiða sérstakan skatt, 0,376% eins og nánar er kveðið á um í lögunum.   Skattskylda þessi taki einnig til aðila sem sæti slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 18. gr. 139/2013, um breytingu á framangreindum lögum.  Stofn til sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki séu heildarskuldir skattskylds aðila skv. 2. gr. laganna umfram 50 milljarða króna í lok tekjuárs.

Álitsbeiðandi er þeirrar skoðunar að þegar slitameðferð hans er lokið með staðfestingu nauðasamnings við kröfuhafa á árinu 2015 falli hann ekki lengur undir skattskyldusvið framangreindra laga nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, enda teljist hann þá ekki lengur í slitameðferð.  Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 155/2010 er skattstofn til sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki: „[s]tofn til sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki er heildarskuldir skattskylds aðila skv. 2. gr. umfram 50 milljarða kr. í lok tekjuárs“.

Enn vísar álitsbeiðandi til þess að í 3. gr. laga nr. 155/2010 komi fram að heildarskuldir (skattstofn) séu skuldir, sbr. 75. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eins og þær séu tilgreindar á skattframtali fjármálafyrirtækja samkvæmt þeim lögum, þ.e. skuldir í árslok, sbr. einnig 78. gr. sömu laga.  Álitsbeiðandi er þeirrar skoðunar að hann teljist ekki skattskyldur aðili skv. 2. gr. laga nr. 155/2010 í árslok 2015 enda hafi nauðasamningur verið staðfestur fyrir þann tíma og álitsbeiðandi sæti þá ekki lengur slitameðferð skv. lögum nr. 161/2002.

Forsendur ríkisskattstjóra:

I.  Almennt

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á kerfi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit, að um sé að ræða álitaefni er varðar verulega skattalega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar.  Álitaefnið þarf þannig að varða skattalega stöðu álitsbeiðanda sjálfs.

Ríkisskattstjóri fellst á að uppfyllt séu skilyrði fyrir útgáfu bindandi álits í þessu tilviki.

Álitinu er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðanda að því er þau atvik varðar er álitið tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998.  Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kunna að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað varðar málsatvik og réttaráhrif hins bindandi álits.

Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt og framfærða málavexti en verði breytingar þar á kunna þær forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.

II.  Umbreyting kröfu í hlutafé eftir árslok 2015:

Í álitsbeiðni er því lýst að fyrirhugað sé að gefa út skuldabréf til kröfuhafa álitsbeiðanda sem síðar megi svo breyta í hlutafé.  Fram kemur að mögulegt sé að breytingin fari fyrst fram eftir að árinu 2015 lýkur.  Álitsbeiðandi óskar eftir að ríkisskattstjóri staðfesti með bindandi áliti að umbreyting kröfu í hlutafé eftir árið 2015 „myndi ekki tekjufærslu hjá álitsbeiðanda“ þegar virði hlutafjárins er minna en bókfært virði kröfunnar.

Álitsbeiðandi bendir á að bráðabirgðaákvæði XXXVI í lögum um tekjuskatt hafi eingöngu fjallað um skattalega meðferð á árunum 2009-2014 og taki því hvorki til tekjuársins 2015 né síðari ára og að bráðabirgðaákvæði það sem lögfest hafi verið með a-lið 2. tölul. 5. gr. laga nr. 59/2015 taki eingöngu til tekjuársins 2015.

Miðað við röksemdir álitsbeiðanda þá virðist hann líta svo á að löggjafinn hafi fyrir lögfestingu tilvitnaðs bráðabirgðaákvæðis XXXVI verið þeirrar skoðunar að umbreyting kröfu í hlutafé hafi ekki leitt til myndunar skattskyldra tekna, hvorki til jöfnunar taps né að öðru leyti.  Eftir að gildistíma bráðabirgðaákvæðis XXXVI lauk hafi þannig myndast lagalegt tómarúm sem leiði  til þess umbreyting kröfu í hlutafé myndar ekki skattskyldar tekjur.

Af þessu tilefni bendir ríkisskattstjóri á að bráðabirgðaákvæði XXXVI var upphaflega lögfest með lögum nr. 104/2010 og þá var 6. mgr. þess svohljóðandi:

„Taki kröfuhafi hlutafé í hinu skuldsetta félagi sem gagngjald fyrir kröfu í stað eftirgjafar skal það talið fullnaðargreiðsla hennar, nema að því marki sem eftirgjöf skuldar er færð til tekna hjá skuldara að teknu tilliti til 1. mgr. “

Í 1. mgr. ákvæðisins kemur undanþága frá því að telja eftirgefnar skuldir í atvinnurekstri að fullu til tekna.  Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 104/2010 kemur fram að ýmis sjónarmið hafi verið uppi um hvernig fara beri með kröfu þegar henni er breytt í hlutafé ef verðmæti hlutafjárins á þeim tíma er talið minna en verðmæti kröfunnar.  Orðrétt segir svo:

„Lagt er til að tekin verði af öll tvímæli um þetta þannig að þegar kröfu er að öllu leyti breytt í hlutafé við aðstæður sem hér er lýst, þá teljist krafan í heild sinni vera kaupverð hlutafjárins.  Sé hluta af kröfu breytt í hlutafé og hluti af henni afskrifaður ber skuldara að tekjufæra sömu fjárhæð og kröfuhafi afskrifar til gjalda, enda séu uppfyllt almenn skilyrði fyrir gjaldfærslunni.“

Með lögum nr. 165/2010 var gerð breyting 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXVI þannig að nú hljóðar ákvæðið svo:

„Þegar kröfu er breytt í hlutafé í hinu skuldsetta félagi í stað eftirgjafar skal það talið fullnaðargreiðsla hennar.  Aðilar geta samið um niðurfellingu hluta kröfunnar áður en slík greiðsla með hlutafé er innt af hendi.  Sé skipt á kröfu og hlutafé skal fara fram mat á verðmæti hlutafjárins og skal matsverðið miðast við þann dag þegar skiptin eiga sér stað.  Skuldara ber að tekjufæra mismun á verðmæti hlutafjárins og bókfærðu verði skuldarinnar.  Kröfuhafa ber eftir atvikum að tekjufæra eða gjaldfæra mismun á bókfærðu verði kröfunnar og matsverði hlutafjárins.  Mat á verðmæti hlutafjár skal unnið af óháðum matsaðila þegar skipti á kröfu og hlutafé fara fram milli eignatengdra aðila.“

Umrædd breyting kom inn með breytingatillögu meirihluta efnahags- og skattanefndar Alþingis.  Í nefndaráliti meirihlutans kemur fram að túlkun 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXVI hafi verið óljós og að óvissa lúti að því hvort breyting kröfu í hlutafé skuli í öllum tilfellum talin fullnaðargreiðsla kröfunnar.  Orðrétt segir svo:

„Í þeim tilgangi að taka af allan vafa um túlkun ákvæðisins leggur meiri hlutinn til breytingu sem gerir ráð fyrir að aðilar geti samið um gagnkvæma niðurfellingu kröfu áður en greiðsla með hlutafé er innt af hendi.  Að lokum er lagt til að þegar skipt er á kröfu og hlutafé skuli fara fram mat á verðmæti hlutafjárins og matsverðið skuli miðast við þann dag þegar skiptin eiga sér stað. “

Að framangreindu virtu getur ríkisskattstjóri ekki fallist á reifuð sjónarmið álitsbeiðanda enda gefur orðalagið í athugasemdum þess frumvarps sem varð að lögum nr. 104/2010 til kynna að verið sé að taka af vafa um hvernig fara beri með umbreytingu kröfu í hlutafé.  Helst það í hendur við almenn sjónarmið að baki tekjuhugtaki laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem er mjög víðtækt og  felur í sér að til skattskyldra tekna felist hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs.  Ennfremur er það í samræmi við þá almennu meginreglu að tekjufæra beri eftirgefnar skuldir rekstraraðila.  Þá verði einnig að hafa í huga grunnsjónarmið að baki 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.  Óumdeilt sé að um eftirgefna skuld sé að ræða þegar kröfuhafi tekur við verðminna hlutafé en sem bókfært virði kröfu hans á hendur skuldara hljóðar.  Þau bráðabirgðaákvæði sem sett hafa verið sbr. umfjöllun hér að framan og umfjöllun hér síðar um ákvæði a-liðar 2. tölul. 5. gr. laga nr. 59/2015, hafa þannig að geyma undanþágu frá almennri meginreglu þess efnis að eftirgjöf skulda sem felist í því að kröfuhafi tekur við verðminna hlutafé en bókfærð verðmæti kröfu hans segir til um beri að tekjufæra.

Til viðbótar við framangreint bendir ríkisskattstjóri á að með a-lið 2. tölul. 5. gr. laga nr. 59/2015 var bætt nýju bráðabirgðaákvæði við lög nr. 90/2003 sem tekur samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til breytinga á kröfum í hlutafé á árinu 2015.

Ríkisskattstjóri lítur svo á að hefði löggjafinn talið að sú almenna regla ætti að gilda, eftir að gildistíma bráðabirgðaákvæðis XXXXVI lyki, að breyting á kröfu í hlutafé hefði aldrei í för með sér skattskyldar tekjur, hefði verið óþarft að lögfesta umrætt bráðabirgðaákvæði með a-lið 2. tölul. 5. gr. laga nr. 59/2015.  Lögfesting ákvæðisins bendir þvert á móti til þess að löggjafinn hefur viljað koma til móts við þá sem gera umrædda breytingu á árinu 2015 með því að lögfesta sérstaka undanþágu frá tekjufærslu.

Að öllu framangreindu virtu er ekki unnt að staðfesta að breyting álitsbeiðanda á kröfum í nýtt hlutafé eftir árslok 2015 leiði til þess að ekki myndist skattskyldar tekjur hjá álitsbeiðanda.

III.  Frádráttarbærni stöðugleikaframlags:

Í júlí 2015 voru samþykkt tvenn lög á Alþingi, annars vegar lög nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, og hins vegar lög nr. 59/2015, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum.  Bæði lögin eru liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að aflétta gjaldeyrishöftum. 

Að virtum ákvæðum 2. gr. laga nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, sbr. athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/2015, geta fjármálafyrirtæki í slitameðferð komið sér undan skattskyldu samkvæmt lögunum með því að fá staðfestan nauðasamning, sbr. 1 .mgr. 59. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, fyrir næstkomandi áramót.  Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 59/2015 kemur fram að frumvarpið miði að því að auðvelda slitastjórnum að ljúka slitum fjármálafyrirtækja með því að freista þess að leita nauðasamninga.

Með 1. tölul. 5. gr. laga nr. 59/2015 er bráðabirgðaákvæði bætt við lög nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, þar sem bankanum er heimilað að taka á móti hvers kyns fjárhagslegum verðmætum, þ.m.t. kröfuréttindum, fjármálagerningum og eignarhlutum í félögum og öðrum réttindum yfir þeim í tengslum við áætlanir um losun fjármagnshafta, í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum.

Fjármálafyrirtæki í slitameðferð standa þannig frammi fyrir tveimur kostum; freista þess að ná nauðasamningi og fá hann endanlega staðfestan fyrir áramót en ella sæta álagningu stöðugleikaskatts. 

Í lögum nr. 59/2015 er ekki að finna sambærilegt ákvæði og 7. gr. laga nr. 60/2015 þar sem beinlínis er tekið fram að skattur samkvæmt lögunum teljist ekki vera rekstrarkostnaður skv. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.  Í lögum getur ýmist verið kveðið á um það, hvort skattar eða önnur útgjöld skuli teljast til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar eða ekki, s.s. í 23. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald eða eins og hér um ræðir í 7. gr. laga nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt.  Við þær aðstæður að beinlínis sé tekið fram í lögum s.s. að álagður stöðugleikaskattur sé ekki frádráttarbær verður ekki gagnályktað með þeim röksemdum einum í þá veru að komi til útgjalda sem hníga að sama markmiði og skatturinn þá teljist þau þá á þeim forsendum vera frádráttarbær rekstrarkostnaður. 

Meginreglu um frádráttarbærni rekstrarkostnaðar er að finna í 1. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga, en þar kemur fram að frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri megi draga rekstrarkostnað.  Rekstrarkostnaður er samkvæmt 1. tölul. 31. gr. „þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við ... “. Í dæmaskyni er svo upptalning á ýmsum gjöldum s.s. iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanna í lífeyrissjóð, vextir af skuldum, afföll, gengistöp, niðurfærsla og fyrning eigna, „og það sem varið er til tryggingar og viðhalds á eignum þeim sem arð bera í rekstrinum.“

Kostnaðurinn hefur þannig almennt verið talinn þurfa að standa í beinum tengslum við tekjuöflunina og frádráttarbærni jafnvel ráðist af því, hvort hann teldist eftir atvikum venjulegur eða nauðsynlegur í rekstri viðkomandi aðila.  Útgjöld sem stofnað hefur verið til þurfa þannig alfarið að vera í þágu rekstrarins og gildir hið gagnstæða um kostnað í þágu eigenda að starfseminni með beinum eða óbeinum hætti.

Almenn túlkun ríkisskattstjóra á frádráttarbærni kostnaðar beinist samkvæmt því að greina tengsl kostnaðar í samræmi við inntak þeirrar meginreglu sem vísað er til hér að framan, sbr. dóm Hæstaréttar í máli 3/1997 (HRD 385:1997), þar sem segir:

„Skattskyldir aðilar, sem hafa tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, taka ekki að lögum lokaákvörðun um það, hvaða útgjöld þeirra falla undir frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.  Skattyfirvöld eiga fullt mat um það eftir á og innan lögákveðinna marka, hvað teljast skuli rekstrarkostnaður í skattalegu tilliti.  Það mat verður að öllu leyti borið undir dómstóla.“

Við þessar aðstæður reynir því á almenna túlkun á 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Eins og fram hefur komið sætir álitsbeiðandi slitameðferð sem lokið getur annað hvort með staðfestum nauðasamningi og eftirfarandi efndum hans sbr. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002 eða gjaldþrotaskiptum.  Forsenda fyrir því að nauðasamningur fáist staðfestur og þar með verði áframhaldandi starfsemi álitsbeiðanda tryggð við þær sérstöku aðstæður sem hér eru uppi er að umrætt stöðugleikaframlag sé innt af hendi.  Lög nr. 59/2015 og 60/2015 fela í sér stoð við heildstæð og nauðsynleg úrræði í víðtækum aðgerðum stjórnvalda við að ná fram markmiðum um afléttingu fjármagnshafta með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi.  Með c-lið 1. gr. laga nr. 59/2015 eru sett í lögbundinn farveg, ferli og forsendur fyrir því að nauðasamningur fáist staðfestur.  Stöðugleikaframlagið eða afhending þeirra verðmæta sem búa að baki efndum á greiðslu þess er ein meginforsenda fyrir því að markmiðum að baki framangreindum aðgerðum stjórnvalda verði náð.  Verður þannig ekki framhjá því horft í hvaða samhengi og tilgangi lagt er í þann kostnað sem hér er til umfjöllunar við mat á því hvort frádráttarbærni megi telja ótvíræða s.s. á þeim forsendum að framlag þetta sé til þess fallið að tryggja og viðhalda áframhaldandi starfsemi álitsbeiðanda.

Eins og álitamál þetta er lagt fyrir og með hliðsjón af málavöxtum öllum, samanber m.a. í því samhengi tilgang stöðugleikaframlagsins og órjúfanlegt samspil þess við þann efnahagslega stöðugleika sem stefnt er að og aðrar þær aðstæður sem hér eru uppi telur ríkisskattstjóri að þrátt fyrir að finna megi röksemdir sem hníga í öndverða átt þyki mega fallast á að stöðugleikaframlag skv. c-lið 1. tölul. 5. gr. laga nr. 59/2015, teljist við framangreindar einstæðu aðstæður frádráttarbært á grundvelli 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Frádráttur stöðugleikaframlags takmarkast við skattalega bókfært virði þeirra verðmæta sem búa að baki efndum á greiðslu þess.  Ef svo er ekki ber að tekjufæra eða gjaldfæra eftir atvikum þann mismun sem er á markaðsvirði og bókfærðu virði.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu þarf að ákvarða hvernig fara beri með lotun umrædds rekstrarkostnaðar en í álitsbeiðni er upplýst að álitsbeiðandi muni inna af hendi stóran hluta stöðugleikaframlagsins á árinu 2015.  Þá kemur jafnframt fram að stöðugleikaframlagið muni verða í formi eigna sem samanstandi af reiðufé, bundnum innlánum, lánasamningum og verðbréfum, þ.m.t. hlutabréfum.  Eignirnar séu færðar á ákveðnu verði í skattskilum álitsbeiðanda og engin verðmæti komi sem gagngjald.  Álitsbeiðandi bendir ennfremur á að ekki muni koma til afhendingar á eignum sem óvissa sé um s.s. vegna óútkljáðra dómsmála, fyrr en þeirri óvissu hefur verið eytt.

Eins og rakið hefur verið telst rekstrarkostnaður vera þau gjöld sem á árinu er ætlað að ganga til að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við.  Almennt hefur verið við það miðað að óvissar tekjur eða útgjöld verði ekki færðar til tekna eða gjalda fyrr en nokkur vissa hefur skapast um efndir gagnvart skattaðila eða skyldur hans.  Við þær aðstæður sem hér eru uppi um óvissu útgjalda og skilyrtar efndir verður að telja að gjaldfærsla stöðugleikaframlags haldist fremur í hendur við raunverulegar efndir á skilum þess en þess samkomulags sem skapar rammann fyrir mögulegu umfangi þess og inntaki.  Að þessu virtu er það álit ríkisskattstjóra að álitsbeiðanda sé heimilt að færa til frádráttar í skattskilum hverju sinni sem andlag stöðugleikaframlags skattalegt bókfært verðmæti þeirra eigna sem afhentar verða Seðlabanka Íslands til efnda á stöðugleikaframlagi á því ári sem þær verða raunverulega afhentar, enda komi ekki til skattlagningar skv. lögum nr. 60/2015.

IV.  Sérstakur fjársýsluskattur:

Samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er lagður sérstakur fjársýsluskattur á þá aðila sem skattskyldir eru til fjársýsluskatts samkvæmt lögum nr. 165/2011.  Ákvæði 2. tölul. 2. gr. síðarnefndu laganna mælir fyrir um skattskyldu fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum nr. 161/2002 sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi inna af hendi vinnu eða þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Álitsbeiðandi telur að með gerð og samþykkt nauðasamnings sbr. umfjöllun hér að framan ljúki slitameðferð hans og af þeim sökum eigi ekki að koma til álagningar sérstaks fjársýsluskatts á hann við álagningu opinberra gjalda 2016 vegna tekna ársins 2015.  Eftir þessi „slitalok“ teljist hann ekki lengur fjármálafyrirtæki og af þeim sökum verði honum ekki gert að sæta álagningu umrædds skatts.

Af þessu tilefni bendir ríkisskattstjóri á að í 103. gr. a laga nr. 161/2002 er fjallað um lok slitameðferðar.  Ákvæði 5. málsl. 3. mgr. 103. gr. a er svohljóðandi:

„Ef nauðasamningur er staðfestur efnir slitastjórn eftir þörfum skuldbindingar við kröfuhafa samkvæmt honum og lýkur svo slitameðferð eftir því sem segir í 1. og 2. mgr.“

Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002 getur slitastjórn lokið slitameðferð, hafi hún lokið greiðslu allra viðurkenndra krafna og eftir atvikum tekið frá fé til greiðslu krafna sem ágreiningur stendur um og komið eignum þess eftir þörfum í verð, með því annað hvort að láta fyrirtækið aftur í hendur hluthafa eða stofnfjáreigenda eða greitt hluthöfum og stofnfjáreigendum út eignarhlut þeirra af eftirstöðvum eigna samkvæmt  frumvarpi til úthlutunar.  Þá kemur fram í 2. mgr. 103. gr. a að ljúka megi slitameðferð samkvæmt því sem segir í 1. tölul. 1. mgr. 103. gr. a þó svo ekki sé lokið greiðslu allra viðurkenndra krafna ef kröfuhafar sem enn ekki hafa fengi fullnustu samþykkja það.

Að þessu virtu telur ríkisskattstjóri ljóst að slitameðferð samkvæmt 103. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, lýkur ekki við staðfestingu nauðasamnings heldur þegar slitastjórn hefur annaðhvort:

 • látið fyrirtækið aftur í hendur hluthafa eða stofnfjáreigenda sbr. 1. tölul. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002, eða
 • greitt hluthöfum eða stofnfjáreigendum út eignarhlut þeirra af eftirstöðvum eigna sbr. 2. tölul. 1. mgr. 103. gr. a tilvitnaðra laga.

Slitameðferð lýkur samkvæmt framansögðu ekki við það að eitt nauðasamningur fáist staðfestur nema skilyrðum 1. mgr. og eftir atvikum 2. mgr. 103. gr. a sé fullnægt á sama tímamarki.  Þannig falli álitsbeiðandi undir lög nr. 161/2002 uns slitastjórn hefur lokið slitum samkvæmt framangreindu.

Ennfremur bendir ríkisskattstjóri á að samkvæmt b-lið 2. tölul. 5. gr. laga nr. 59/2015 ber ekki að telja til skattstofns skv. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003 tekjur vegna eftirgjafar skulda í tengslum við slitameðferð skattaðila skv. 103. gr. a laga nr. 161/2002.  Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram:

„að við ákvörðun álagningarstofns vegna sérstaks fjársýsluskatts skuli ekki taka tillit til tekna sem myndast við almenna eftirgjöf skulda í tengslum við lok slitameðferðar skattaðila skv. 103. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.“

Samkvæmt þessu gerir löggjafinn ráð fyrir að skattskylda álitsbeiðanda og annarra í sömu stöðu til sérstaks fjársýsluskatts haldist þrátt fyrir staðfestingu nauðasamnings.

Að framangreindu virtu fellst ríkisskattstjóri ekki á að skattskylda álitsbeiðanda samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, falli niður við staðfestingu nauðasamnings nema að slitameðferð sé jafnframt lokið sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002.  Með vísan til sömu röksemda getur ríkisskattstjóri ekki fallist á að þá túlkun álitsbeiðanda sem fram kemur í b-lið á bls. 3 í álitsbeiðni.

V.  Almennur fjársýsluskattur:

Til samræmis við sjónarmið álitsbeiðanda um sérstaka fjársýsluskattinn kemur fram í álitsbeiðni að þegar „slitameðferð er lokið með gerð staðfests nauðasamnings við kröfuhafa á árinu 2015“ þá falli álitsbeiðandi ekki lengur undir skattskyldusvið laga nr. 165/2011.

Af þessu tilefni vísar ríkisskattstjóri til umfjöllunar í kafla III hér að framan og þeirrar niðurstöðu að slitameðferð fjármálafyrirtækja ljúki samkvæmt fyrirmælum í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002.  Slitameðferð lýkur samkvæmt framansögðu ekki við það að eitt nauðasamningur fáist staðfestur nema skilyrðum 1. mgr. og eftir atvikum 2. mgr. 103. gr. a sé fullnægt á sama tímamarki.  Fram að því tímamarki falli álitsbeiðandi undir lög um fjármálafyrirtæki og teljist því skattskyldur aðili í skilningi laga nr. 165/2011.

Að framangreindu virtu fellst ríkisskattstjóri ekki á að skattskylda álitsbeiðanda samkvæmt lögum nr. 165/2011 falli niður við staðfestingu nauðasamnings nema að slitameðferð sé jafnframt lokið sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002.

VI.  Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki:

Álitsbeiðandi óskar eftir að ríkisskattstjóri staðfesti að hann falli ekki undir skattskyldusvið laga nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, vegna gjaldársins 2016 verði nauðasamningur álitsbeiðanda staðfestur fyrir árslok 2015.  Álitsbeiðandi vísar til þess að „þegar slitameðferð er lokið með staðfestingu nauðasamnings við kröfuhafa á árinu 2015“ falli hann ekki lengur undir skattskyldusvið tilvitnaðra laga.

Af þessu tilefni vísar ríkisskattstjóri til umfjöllunar og þeirrar niðurstöðu sem fram kemur í kafla IV hér að framan þar sem fram kemur að slitameðferð fjármálafyrirtækja ljúki samkvæmt fyrirmælum í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002.  Slitameðferð lýkur samkvæmt framansögðu ekki við það að nauðasamningur fáist staðfestur nema skilyrðum 1. mgr. og eftir atvikum 2. mgr. 103. gr. a sé fullnægt á sama tímamarki.  Skattskylda samkvæmt lögum nr. 155/2010 nær til fjármálafyrirtækja sem sæta slitameðferð sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og af þeim sökum er ekki unnt að staðfesta skilning álitsbeiðanda nema slitameðferð ljúki samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002.

Í athugasemdum með lagafrumvarpi því sem varð að lögum nr. 59/2015 kemur fram að nægi eignir bús fjármálafyrirtækis ekki til fullrar greiðslu getur slitum lokið á tvennan hátt;

„annaðhvort með samþykki kröfuhafa á frumvarpi að nauðasamningi eða með töku búsins til gjaldþrotaskipta.“

Í athugasemdum kemur ennfremur fram að í ljós hafi komið að almennar reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi að ýmsu leyti fallið illa að slitum þeirra fjármálafyrirtækja sem nú standa yfir.  Ennfremur segir:

„Ljóst er að ef slitameðferð lýkur með nauðasamningi þarf að breyta stjórnskipulagi viðkomandi fjármálafyrirtækis.  Hlutverki slitastjórnar lýkur og  við tekur hefðbundið stjórnskipulag viðkomandi félagaforms.“

Þá kemur ennfremur fram í athugasemdum að:

„[í] þessu sambandi [sé] rétt að benda á að fáist frumvarp að nauðasamningi samþykkt og síðar staðfest af héraðsdómi fer um eignir fyrirtækisins eftir ákvæðum nauðasamningsins.  Með staðfestingu nauðasamnings fjármálafyrirtæki lýkur því formlega slitameðferð þess og slitastjórn lýkur þar með störfum.“

Framangreind ummæli í athugasemdum stangast á við skýran lagatexta 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002 og geta ekki vikið honum til hliðar.

Að öllu framangreindu virtu getur ríkisskattstjóri því ekki fallist á að skattskylda álitsbeiðanda samkvæmt lögum nr. 155/2010 falli niður við staðfestingu nauðasamnings nema að slitameðferð sé jafnframt lokið sbr. áskilnað í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

 • Breyti álitsbeiðandi kröfum í hlutafé eftir árslok 2015 og bókfært virði krafna er hærra en sannanlegt virði hlutafjár ber honum að færa til tekna mismuninn.
 • Álitsbeiðanda er heimilt í tekjuskattsskilum sínum að færa til frádráttar tekjum fyrirhugað stöðugleikaframlag sbr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.  Heimilaður frádráttur álitsbeiðanda í skattskilum miðast við skattalegt eignfært verðmæti þeirra eigna sem afhentar verða Seðlabanka Íslands sem stöðugleikaframlag á því ári sem eignir eru afhentar.  Ef mismunur er á markaðsvirði og bókfærðu virði ber að tekjufæra eða gjaldfæra eftir atvikum þann mismun.
 • Skattskylda álitsbeiðanda  samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fellur niður þegar slitameðferð telst lokið samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002.
 • Skattskylda álitsbeiðanda samkvæmt lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, fellur niður þegar slitameðferð telst lokið samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002.
 • Skattskylda álitsbeiðanda samkvæmt lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, fellur niður þegar slitameðferð telst lokið samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum