Bindandi álit

Bindandi álit nr. 3/2019

28.3.2019

Fyrirhugaðar ráðstafanir:

Samkvæmt álitsbeiðni fyrirhuga Q banki og B hf. að bjóða sjóðsfélögum í séreignarsparnaði Q banka kaup á slysa- og sjúkratryggingu.

„Fyrirkomulag ráðstöfunarinnar væri með því móti að greitt er fyrir vöruna með sparnaðinum og færi greiðsla fram tvisvar á ári. Greiðslan fer beint af séreignarsparnaði Q banka til B hf. og verður þar að leyti aldrei hluti af ráðstöfunartekjum sjóðsfélaga. Komi til slyss eða sjúkdóms sem gefur 50% varanlega örorku eða meira eru bætur greiddar inn á séreignasparnaðinn og þaðan til viðkomandi sjóðsfélaga eftir ákvæðum 11. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 (lög um lífeyrissjóði). Komi ekki til slyss eða sjúkdóms á gildistíma tryggingar fara fjármunir ekki aftur inn á séreignasparnaðinn þar sem engin bótaskyldur atburður verður. B hf. og Q banki hafa gert með sér samkomulag um fyrirhugaða ráðstöfun (fskj.1.). Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur samþykkt reglur séreignarsparnaðar Q banka þar sem kveðið er á um þá heimild að verja hluta af viðbótarlífeyrissparnaði til kaupa á örorku-, slysa- og sjúkratryggingu og telur ráðuneytið ráðstöfunina samrýmast lögum um lífeyrissjóði nr. 129/1997 eins og fram kemur í meðfylgjandi tölvupósti (fskj.2).“

Álitaefni:

Álitsbeiðendur fara þess á leit við ríkisskattstjóra að staðfesta eftirfarandi álitaefni með bindandi áliti:

  1. Að úttekt á sparnaði úr séreignarsparnaði Q banka til kaupa á slysa- og sjúkratryggingu hjá B hf. teljist ekki til tekna, sbr. 7. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003, hjá A.
  2. Að úttekt á sparnaði úr séreignasparnaði Q banka til ofangreindra kaupa leiði ekki til skyldu Q banka til þess að halda eftir staðgreiðslu skatta skv. lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.
  3. Að greiðsla B hf. inn á séreignarsparnað Q banka fyrir A ef bótaskyldur atburður verður teljist ekki til tekna, sbr. 7. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003, hjá A eða Q banka og leiði ekki til skyldu þess að halda eftir staðgreiðslu skatta skv. lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Forsendur ríkisskattstjóra:

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á fyrirkomulagi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit, að um sé að ræða álitaefni er varðar verulega skattalega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar og að ekki hafi verið ráðist í þær aðgerðir sem álitið varðar. Álitaefnið þarf þannig að varða fyrirhugaðar aðgerðir og skattalega stöðu álitsbeiðenda sjálfra í því sambandi.

Ríkisskattstjóri fellst á að uppfyllt séu skilyrði fyrir útgáfu bindandi álits í þessu tilviki.

Álitinu er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðenda að því er þau atvik varðar er álitið tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998. Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kunna að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað varðar málsatvik og réttaráhrif hins bindandi álits.

Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðenda miðað við gildandi rétt og framfærða málavexti en verði breytingar þar á kunna þær forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.

Meðfylgjandi álitsbeiðninni er bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins dagsett 19. júní 2018 sem ritað var í tilefni erindis Q banka þar sem þess var óskað að ráðuneytið staðfesti breytingar á reglum Lífeyrissparnaðar Q banka um séreignasparnað. Með bréfi ráðuneytisins var staðfesting veitt. Í bréfinu er fjallað um skattlagningu við útgreiðslu bóta á grundvelli samnings við rétthafa, þar segir m.a.:

„Ráðuneytið vekur athygli á lið 9 (c) í leiðbeiningum til lífeyrissjóða vegna umsókna þeirra um starfsleyfi sem mælir fyrir um að bætur samkvæmt samningi um fyrrnefndar tryggingar renni til vörsluaðila séreignarsparnaðar, verði greiðsluskylda virk, og færist sem inneign hjá rétthafa í fjárfestingarleið hans. Um útborgun fer skv. 11. gr. laga nr. 129/1997. Bætur sem greiddar eru á grundvelli slíkra trygginga eru skattlagðar með sama hætti og séreignarsparnaðar.“

Í hóptryggingarsamningi fyrir örorkuvernd milli álitsbeiðendanna B hf. og Q banka kemur jafnframt fram að rétthafar fái séreignina greidda út við örorku rétthafa samkvæmt reglum séreignarsparnaðarsjóðsins og að útborganir séu tekjuskattsskyldar með sama hætti og aðrar greiðslur á séreignarsparnaði. Í álitsbeiðni er ekki óskað eftir bindandi áliti á greiðslu úr séreignarsjóði til rétthafa greiðslunnar, enda verður af framansögðu ekki ráðið að uppi sé vafi um skatt- og staðgreiðsluskyldu þeirra greiðslna. Álitsbeiðnin beinist þannig einvörðungu að ráðstöfun iðgjalda séreignasjóðsins til B hf. annars vegar og greiðslu bóta í tilefni af bótaskyldu atviki inn á séreignarreikning rétthafa í séreignasjóðnum hins vegar og hvort telja beri þær greiðslur til tekna hjá rétthafa og halda skuli eftir staðgreiðslu í framangreindum tilfellum.

Í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 129/1997 er kveðið á um heimild lífeyrissjóða til að tryggja áhættudreifingu vegna lífeyrisskuldbindinga sinna, að hluta til eða öllu leyti, hjá vátryggingafélögum. Með ákvæðinu er þeim ennfremur veitt heimild til að kaupa tiltekna tryggingavernd hjá vátryggingafélögum eða öðrum lífeyrissjóðum fyrir einstaka sjóðfélaga sína og að hafa samstarf um einstaka þætti tryggingaverndar. Í reglugerð nr. 391/1998 er nánar kveðið á um framangreind atriði. Fram kemur í 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar að tryggi lífeyrissjóður einstaka sjóðfélaga hjá vátryggingafélagi umfram lágmarkstryggingavernd samkvæmt samþykktum lífeyrissjóðs skuli þess sérstaklega gætt að um tryggingaverndina gildi sömu reglur og samkvæmt II. og III. kafla laga nr. 129/1997. Sá eignaauki sem kann að verða á séreignarreikningi sjóðfélaga á grundvelli greiðslna sem falla til vegna bótaskylds atburðar telst til ávöxtunar á lífeyrissparnaði og þar með til skattskyldra tekna sem lífeyrir þegar hann kemur til greiðslu til rétthafa, sbr. 6. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Ráðstöfun iðgjalda sjóðfélaga til vátryggingafélags í samræmi við ákvæði 129/1997 telst þannig þáttur í ávöxtun á lífeyrissparnaði sjóðfélaga og telst sem slík ekki til úttektar hans af séreignarsparnaðarreikningi sínum. Með sama hætti telst greiðsla bóta inn á séreignarsparnaðarreikning sjóðfélaga ekki til skattskyldra tekna hjá sjóðfélaga á því tímamarki.

Álitsorð:

Álit þetta miðast við fram færðar forsendur og að áform álitsbeiðenda gangi eftir með þeim hætti sem fram kemur í málavaxtalýsingu álitsbeiðnar.

  1. Sú ráðstöfun á séreignarsparnaði Q banka sem felst í kaupum á slysa- og sjúkratryggingu hjá B hf. telst sem slík ekki til skattskyldra tekna, sbr. 7. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003, hjá A.
  2. Ráðstöfun fjármuna úr séreignasparnaði Q banka til ofangreindra kaupa leiðir ekki til skyldu Q banka hf. til þess að halda eftir staðgreiðslu skatta skv. lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.
  3. Greiðsla B hf. inn á séreignarsparnað A hjá Q banka hf., ef bótaskyldur atburður verður, telst á þeim tímapunkti ekki til tekna, sbr. 7. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003, hjá A og leiðir ekki til skyldu til að halda eftir staðgreiðslu skatta skv. lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum