Frávísun á bindandi álit nr. 01/14
Skýr afstaða skattyfirvalda liggur fyrir
Um álitsbeiðanda:
Í álitsbeiðni er gerð svohljóðandi grein fyrir álitsbeiðanda:
„Álitsbeiðandi er sérhæft fyrirtæki sem starfar við ráðgjöf á sviði fasteignafjármögnunar og milligöngu í tengslum við markaðssetningu skuldabréfa til hæfra fjárfesta, sbr. 9. og 10. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Eigendur og starfsmenn félagsins eru [...].“
Málavextir:
Í álitsbeiðni er gerð grein fyrir samstarfssamningi sem álitsbeiðandi hefur gert við A hf. og sem ætlað er að efla miðlunarþjónustu A hf. Í álitsbeiðni kemur fram að A hf. sé fjármálafyrirtæki með starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki, skv. 5. tölul. 1. mgr. 4. gr., sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og að félagið starfi einkum á sviði eignastýringar og verðbréfamiðlunar.
Um samninginn segir svo í álitsbeiðni:
„Þá tekur samningurinn, eftir því sem við á, til samstarfs [A] og [álitsbeiðanda] ásamt Rekstrarfélagi [B] hf. [...], en félögin hafa unnið saman að stofnun og markaðssetningu fagfjárfestasjóðs, sbr. 60. gr. laga nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, [...] sem fjárfestir í veðtryggðum skuldabréfum útgefnum af lögaðilum er tryggð eru með veði í atvinnu- og íbúðarhúsnæði. “
Um skyldur samningsaðila er kveðið á um í 1. gr. samningsins þar sem eftirfarandi kemur fram:
„1.1. [A] skal:
a) Markaðssetja sjóðinn í samvinnu við [B] og [álitsbeiðanda] og gerð kynningarefnis;
b) Sinna áhættustýringu sjóðsins;
c) Sjá um miðlun veðskuldabréfa;
d) Hafa umsjón með skjalagerð vegna sjóðsins;
e) Sinna útgáfu og skráningu skuldabréfa fyrir sjóðinn á Nasdaq ef til þess kemur;
f) Sjá um markaðssetningu og sölu hlutdeildarskírteina í Sjóðinn til fagfjárfesta og skuldabréfa sem Sjóðurinn gefur út, fundir með fjárfestum og kynningar.
1.2. [Álitsbeiðandi] skal
a) Kynna og vísa fjárfestum til [A] vegna miðlunar veðskuldabréfa og annarra verðbréfa.
b) Í samstarfi við verðbréfamiðlun [A], miðla veðskuldabréfum til fagfjárfesta og Sjóðsins.
c) Sinna samskiptum við greiðendur veðskuldabréfa í eigu Sjóðsins;“
Um þóknanir og skiptingu tekna milli samningsaðila er fjallað í 2. gr. samningsins á svohljóðandi hátt:
„2.1. Þóknanir vegna miðlunar veðskuldabréfa
[A] og [álitsbeiðandi] í samstarfi sjá um miðlun veðskuldabréfa fyrir [B] vegna sjóðsins. Auk þess mun [A] sjá um miðlun annarra veðskuldabréfa til fagfjárfesta í samstarfi við [álitsbeiðanda]. [A] skal greiða [álitsbeiðanda] þóknun fyrir miðlun allra veðskuldabréfaviðskipta sem [A] hefur milligöngu um á gildistíma samningsins. Þóknunin [sic] [álitsbeiðanda] skal nema 50% af þeirri þóknun sem [A] innheimtir af viðskiptamönnum vegna miðlunar veðskuldabréfa. [A] skal standa [álitsbeiðanda] skil að hlut [álitsbeiðanda] í miðlunarþóknunum mánaðarlega á gildistíma samningsins.“
Í samningnum er og að finna eftirfarandi ákvæði um forsendur og ábyrgð samkvæmt samningnum:
„3.1. [Álitsbeiðandi] skal kynna miðlunarþjónustu [A] og vísa fjárfestum þangað vegna miðlunar verðbréfa. [álitsbeiðanda] skal ekki heimilt á gildistíma samnings þessa að sinna sambærilegri þjónustu við önnur fjármálafyrirtæki eða vinna með uppsetningu annarra fagfjárfestasjóða án samvinnu við [A].
3.2. [A] mun á hverjum tíma hafa eftirlit með starfsemi [álitsbeiðanda] sem lýtur að framangreindum verkefnum og skuldbindur [álitsbeiðandi] sig til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til slíks eftirlits og veita [A] ávallt þær upplýsingar sem [A] óskar eftir um starfsemina, án tafar. Komi aðilar sér saman um að það sé nauðsynlegt til framdráttar samningi þessum skal [A] heimilt að sækja um skráningu og samþykki Fjármálaeftirlitsins að [álitsbeiðandi] starfi í þágu [A] sem einkaumboðsmenn skv. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.
3.3. [A] skuldbinda sig til þess að setja ekki upp veðskuldabréfasjóð sambærilegan við Sjóðinn án aðkomu og samþykkis [álitsbeiðanda] á samningstímanum.“
Forsendur álitsbeiðanda:
Forsendum álitsbeiðanda er lýst með svofelldum hætti:
„Samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun, undanþegin virðisaukaskatti.
Í greinargerð með frumvarpi til laga um virðisaukaskatt kemur fram að undanþága þessi taki aðeins til „eiginlegrar banka- og lánastarfsemi“. Hefur ríkisskattstjóri túlkað ákvæðið þannig að vinna einstakra aðila, sem telst fyllilega sambærileg við starfsemi lánastofnana samkvæmt ákvæðinu, sé jafnframt undanþegin virðisaukaskatti, sbr. bréf ríkisskattstjóra 005/90. Í bréfinu er fjallað um virðisaukaskatt af lögfræðiþjónustu og segir þar m.a.:
„Rétt er að vekja athygli á því að ýmis þjónusta lögfræðinga kann að vera undanþegin virðisaukaskatti.
a) Samkvæmt 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er þjónusta banka og sparisjóða, svo og verðbréfamiðlun, undanþegin skattskyldu. Þá er vátryggingarstarfsemi undanþegin skattskyldu, sbr. 9. tölul. sömu greinar. Af þessu leiðir að vinna lögmanns sem telst fyllilega sambærileg við framangreinda starfsemi er skattfrjáls með sama hætti. Þóknun lögmanns fyrir fjárumsýslu, þ.e. ávöxtun fjár viðskiptamanna sinna, sem væri sambærileg þeirri þjónustu sem verðbréfafyrirtæki veita, er samkvæmt framansögðu undanþegin skattskyldu. Jafnframt er þóknun fyrir mats- og virðingargerðir sem unnar eru fyrir lánastofnanir og vátryggingarfélög undanþegin skattskyldu þegar telja má gerðirnar eðlilegan og nauðsynlegan þátt í starfsemi þessara aðila, þ. e. þegar um er að ræða mat á tjóni vegna ákvörðunar bótafjárhæðar eða mat á veðhæfni eignar.
Í þessu sambandi skal tekið fram að þótt þjónusta sé seld t.d. vátryggingarfélagi leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að hún sé undanþegin skattinum. Til dæmis væri það skattskyld lögfræðiþjónusta ef lögmaður legði mat á skaðabótaskyldu aðila vegna skiptingar tjóns eða hugsanlegrar endurkröfu eða ræki skaðabótamál fyrir vátryggingarfélag.“
Þessi túlkun ríkisskattstjóra er ítrekuð í bréfi ríkisskattstjóra 480/93 en þar segir m.a.:
„Það er meginregla að skýra beri skattaundanþágur þröngt, þ.e. að slík ákvæði eru ekki látin ná til fleiri tilvika en tvímælalaust felast í þeim. Ríkisskattstjóri túlkar ákvæði 10. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga þannig, sbr. greinargerð með frumvarpi að virðisaukaskattslögum, að vinna einstakra aðila sem telst fyllilega sambærileg við starfsemi lánastofnana skv. ákvæðinu sé skattfrjáls með sama hætti, sbr. bréf frá gjaldadeild ríkisskattstjóra nr. 5/1990. Jafnframt er þóknun fyrir vinnu, sem unnin er fyrir lánastofnanir undanþegin skattskyldu þegar telja má vinnuna eðlilegan og nauðsynlegan þátt í starfsemi þessara aðila .[leturbr. hér]
Það er því aðeins hin eiginlega bankastarfsemi og verðbréfamiðlun eða fyllilega sambærileg starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti, þ.e. ávöxtun fjár viðskiptamanna eða milliganga um kaup eða sölu verðbréfa og sérfræðiráðgjöf á þessum sviðum. Önnur þjónusta, s.s. "rekstur" lífeyrissjóða með tilheyrandi bókhaldsvinnu o.þ.u.l. er ekki undanþegin virðisaukaskatti skv. framansögðu, heldur telst sú þjónusta til aðfanga skv. 4. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.“ .
Samkvæmt framangreindu er það mat álitsbeiðanda að starfsemi hans, eins og henni er lýst í fyrrgreindum samstarfssamningi, sé eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í starfsemi verðbréfamiðlunar en ekki kaup á aðföngum, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Álitaefni:
Í álitsbeiðni er óskað að ríkisskattstjóri staðfesti að:
„þann skilning álitsbeiðanda um að vinna og þjónusta álitsbeiðanda, eins og henni er lýst hér að ofan í umfjöllun um samstarfssamning álitsbeiðanda og [A], sé undanþegin virðisaukaskatti með vísan til 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.“
Með tölvupósti til umboðsmanns álitsbeiðanda þann 26. ágúst 2014 óskaði ríkisskattstjóri eftir nánari upplýsingum um álitaefnið og vísaði til þess að í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998 sé að finna skilyrði um að ekki sé heimilt að óska eftir bindandi áliti um skattaleg áhrif ráðstafana sem þegar hafa verið gerðar. Í fyrirspurn ríkisskattstjóra kom eftirfarandi fram:
„[í] álitsbeiðni er vísað til samnings sem þegar hefur verið gerður og óskað eftir að ríkisskattstjóri staðfesti með bindandi áliti að vinna og þjónusta álitsbeiðanda eins og henni er lýst í álitsbeiðni og samstarfssamningnum sé undanþegin virðisaukaskatti, en ekki kemur beint fram hver hin fyrirhugaða ráðstöfun er sem óskað er eftir bindandi áliti um.
Ennfremur hefur ríkisskattstjóri upplýsingar um að álitsbeiðandi og [A] hafi þegar á árinu 2013 unnið að stofnun fagfjárfestasjóðs.“
Með vísan til þessa óskaði ríkisskattstjóri eftir eftirfarandi upplýsingum:
- Hver væri hin fyrirhugaða ráðstöfun sem álitsbeiðandi hygðist ráðast í?
- Á hvaða samningi byggði samstarf álitsbeiðanda og A á árinu 2013? Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim samningi.
- Hver væri ástæða þess að strikað væri yfir dagsetninguna 3. október 2012 á því afriti samstarfssamnings sem sent var ríkisskattstjóra með álitsbeiðni?
Umbeðnar upplýsingar bárust með tölvupósti 29. ágúst 2014. Í tölvupóstinum er fyrirætlunum álitsbeiðanda lýst með svofelldum hætti:
„Hin fyrirhugaða ráðstöfun er samstarf [A]) og [álitsbeiðanda] eins og því er lýst í drögum að samstarfssamningi félaganna sem fylgdi með álitsbeiðninni. Sú ráðstöfun sem álitsbeiðni skattaðila beinist að er miðlun veðskuldabréfa til fagfjárfesta og sjóðsins. Beiðni álitsbeiðanda um bindandi álit er byggð á því að fyrirhugað samstarf getur ekki raunverulega hafist að þessu leyti fyrr en búið er að skera úr um hvort sú þjónusta sem um ræðir og er lýst í tilgreindum samningsdrögum beri virðisaukaskatt eða ekki.
Samstarfssamningur sá sem fylgdi álitsbeiðninni er óundirritaður og hefur því ekki verið „gerður“ eins og lýst er í fyrirspurn ríkisskattstjóra og eins og óréttilega var orðað í álitsbeiðni skattaðila. Er beðist velvirðingar á því. Eðlilegt er að leggja drög að samstarfssamningi félaganna fyrir ríkisskattstjóra enda væri ekki hægt að skera úr um skattskyldu ef ekki væri búið að lýsa þeirri þjónustu sem um ræðir í málinu með samningsdrögum.
Í gildi er samningur milli [álitsbeiðanda] og [A], dags. 5. október 2012, en í samningnum er tekið fram, sbr. lið 2.1 í samningnum, að [álitsbeiðandi] sjái um úttektir á öllum verkefnum sem miðlað verður í sjóðinn og að [A] sjái um miðlun veðskuldabréfa fyrir [B] vegna sjóðsins eftir úttektir [álitsbeiðanda], en auk þess muni [A] sjá um miðlun annarra veðskuldabréfa fyrir fagfjárfesta.
Í drögum að hinum nýja samningi kemur fram að meðal hlutverka [álitsbeiðanda] í samstarfi félaganna sé „[í] samstarfi við verðbréfamiðlun [A], [að] miðla veðskuldabréfum til fagfjárfesta og Sjóðsins“. [Álitsbeiðandi], hefur ekki áður sinnt eiginlegri miðlun á veðskuldabréfum eins og lýst er í samningnum heldur hefur hlutverk félagsins takmarkast við kynningarstarfsemi og ráðgjöf, en félagið hefur innheimt virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem það hefur innt af hendi á grundvelli gildandi samnings. Ein helsta ástæða þess að verið er að víkka út samstarfið, ef svo má segja, er að starfsmenn [álitsbeiðanda],. hafa áralanga reynslu af miðlun veðskuldabréfa til fagfjárfesta, en sú reynsla er ekki til staðar hjá [A] í dag. Hafa því báðir aðilar hag af því að styrkja viðskiptasambandið með slíkri beinni aðkomu [álitsbeiðanda], að miðlun veðskuldabréfa til fagfjárfesta og sjóðsins.
Með álitsbeiðni skattaðila er leitast eftir áliti um hvort þessi starfsemi álitsbeiðanda, þ.e. hin eiginlega miðlun veðskuldabréfa til fagfjárfesta, sé undanþegin virðisaukaskatti. Ekki er þannig verið að óska bindandi álits um ráðstafanir sem búið er að ráðast í heldur um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana, eins og gert er ráð fyrir í lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.“
Eins og fram hefur komið var álitsbeiðandi inntur eftir því á hvaða samningi samstarf álitsbeiðanda og A hf. á árinu 2013 byggði. Í svari álitsbeiðanda kom eftirfarandi fram:
„[Álitsbeiðandi], gerði hinn 5. október 2012 tvo samninga, þ.e. annars vegar við [A] og hins vegar við [B].
Sem fyrr greinir var eldri samningur sömu aðila um annað efni en framangreind fyrirhuguð ráðstöfun. Í eldri samningi sömu aðila var hlutverk [álitsbeiðanda], afmarkað við að sinna samskiptum við greiðendur veðskuldabréfa í eigu sjóðsins og annast í samstarfi við [A] kynningar á sjóðnum fyrir mögulega fjárfesta hlutdeildarskírteina í sjóðnum og skuldabréfa útgefna af sjóðnum. Takmarkaðist hlutverk [álitsbeiðanda], samkvæmt samningnum fyrst og fremst við að framkvæma úttektir og ráðgjöf vegna veðskuldabréfa til [A] áður en [A] átti milligöngu um kaup og sölu veðskuldabréfa til sjóðsins og annarra fagfjárfesta, svo sem greint hefur verið frá. Sjóðurinn hefur nú þegar verið stofnaður og er samstarfi [A] og [álitsbeiðanda] því lokið að því er varðar kynningu á sjóðnum. Samningsaðilar vilja nú útvíkka samningssambandið með þeim hætti sem að framan hefur verið lýst þannig að [álitsbeiðandi] taki að sér það hlutverk að annast milligöngu um sölu veðskuldabréfa fyrir fagfjárfesta (í umboði og á ábyrgð [A]). Með undirritun nýs samnings milli félaganna er verið að árétta að [álitsbeiðandi] muni með beinum hætti sinna eiginlegri miðlun í umboði og á ábyrgð [A], en hingað til hefur [álitsbeiðandi] ekki miðlað veðskuldabréfum með eiginlegum hætti eins og nú stendur til og álitsbeiðni lýtur að.
Í meðfylgjandi samningi milli [álitsbeiðanda] og [B] er fjallað um hlutverk [álitsbeiðanda[ gagnvart fagfjárfestasjóðnum og rekstraraðila sjóðsins. Sá samningur heldur gildi sínu og stendur ekki til að uppfæra eða breyta. Samningurinn fjallar um hlutverk [álitsbeiðanda] sem ráðgjafa við rekstur og fjárfestingar sjóðsins en tekur ekki með neinum hætti á hinni fyrirhuguðu ráðstöfun. Þjónusta sem veitt er samkvæmt þessum samningi er og verður með virðisaukaskatti.“
Sem svar við þeirri spurningu, af hverju búið hafi verið að strika yfir dagsetninguna 3. október 2012 á því afriti samstarfssamnings sem sent var ríkisskattstjóra með álitsbeiðni, var vísað til þess sem að framan hefur komið. Þá kom fram að um hafi verið „að ræða drög að samstarfssamningi félaganna um hina fyrirhuguðu ráðstöfun. Samningurinn hefur ekki verið undirritaður en við gerð samningsdraga var byggt á eldri samningi aðila um annað efni en hina fyrirhuguðu ráðstöfun.“
Með tölvupósti ríkisskattstjóra 29. ágúst 2014 var ítrekuð beiðni um afrit samnings álitsbeiðanda við A hf. Vísað var til þess að í svari álitsbeiðanda hafi verið vitnað til tveggja samninga álitsbeiðanda, við A hf. annars vegar og Rekstrarfélag B hf. hins vegar. Var óskað eftir afriti beggja samninga. Afrit samninganna bárust samdægurs.
Með tölvupósti 13. október 2014 óskaði ríkisskattstjóri eftir nánari upplýsingum frá umboðsmanni álitsbeiðanda. Vísað var til þess að í framkomnum upplýsingum frá 29. ágúst 2014 kæmi fram að „hingað til hefur [álitsbeiðandi] ekki miðlað veðskuldabréfum með eiginlegum hætti eins og nú stendur til og álitsbeiðni lýtur að.“ Fyrr í upplýsingunum kæmi hins vegar fram að „starfsmenn [álitsbeiðanda] hafa áralanga reynslu af miðlun veðskuldabréfa til fagfjárfesta, en sú reynsla er ekki til staðar hjá [A] í dag.“
Í ljósi þessa væri óljóst hvort uppi væri slíkt álitaefni um skattskyldu sem áskilið er í ákvæði 1. gr. laga nr. 91/1998 og vísað til þess að í almennum athugasemdum við lagafrumvarp það er varð að lögum nr. 91/1998 kæmi eftirfarandi fram:
„Gert er ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana skattaðila og þannig fengið úr því skorið fyrir fram hvernig álagning skattstjóra muni verða. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi skattaðila með því að tryggja þeim leið til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagning verður, svo þeir geti tekið ákvarðanir og gert ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga.“
Með tölvupósti umboðsmanns gjaldanda 14. október 2014 bárust eftirfarandi svör við fyrirspurn ríkisskattstjóra:
„Þegar vísað er til þess að starfsmenn [álitsbeiðanda] hafi reynslu af miðlun veðskuldabréfa til fagfjárfesta er ekki verið að segja að þeir hafi stundað slíka miðlun í starfsemi [álitsbeiðanda], heldur er verið að vísa til persónulegrar reynslu þeirra [C] og [D] í fyrri störfum þeirra sem löggilts verðbréfamiðlara og löggilts fasteignasala. Aðeins er verið að vísa til þess að fyrri reynsla þeirra hafi verið forsenda þess að þetta félag en ekki eitthvað annað hafi verið fengið til fyrirhugaðs samstarfs á þessu sviði, en ekki er verið að segja að þeir hafi fengist við miðlun veðskuldabréfa til fjárfesta í starfsemi [álitsbeiðanda].
Álitaefnið er hvort sú þjónusta sem félagið hyggst veita, eins og henni er lýst í þeim samningsdrögum sem lögð hafa verið fram í málinu, sé virðisaukaskattsskyld eða ekki.
Er það mat umboðsmanna álitsbeiðanda að ekki sé um virðisaukaskattskylda þjónustu að ræða og eru færð rök fyrir því í beiðni aðila um bindandi álit frá 21. júlí sl. og svarbréfi umboðsmanns frá 28. ágúst sl. við fyrirspurn ríkisskattstjóra. Vilja álitsbeiðendur fá vissu fyrir því að þjónustan sé ekki virðisaukaskattsskyld áður en haldið er af stað með ófyrirséðum afleiðingum vilji svo til að ríkisskattstjóri telji síðar að verið sé að veita virðisaukaskattsskylda þjónustu. Skal það ítrekað að slík þjónusta sem spurt er um hefur ekki verið innt af hendi af félaginu áður, þ.e. miðlun veðskuldabréfa.“
Forsendur og niðurstöður ríkisskattstjóra:
Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á kerfi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana viðkomandi aðila. Svar ríkisskattstjóra er bindandi ráðist aðili í þá ráðstöfun sem lýst var í álitsbeiðninni.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit í skattamálum enda varði beiðni um slíkt álit álitamál er snertir álagningu skatta og gjalda. Í athugasemdum við lagafrumvarp er síðar varð að lögum nr. 91/1998 segir:
„Gert er ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana skattaðila og þannig fengið úr því skorið fyrir fram hvernig álagning skattstjóra muni verða. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi skattaðila með því að tryggja þeim leið til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagning verður, svo þeir geti tekið ákvarðanir og gert ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga.“
Af þessum texta greinargerðarinnar má ráða að gert er ráð fyrir því að hægt sé að leita bindandi álits um óljós atriði, þar sem vafi leiki á um réttaráhrif fyrirhugaðra ráðstafana álitsbeiðanda í skattalegu tilliti. Til samræmis við þetta hefur ríkisskattstjóri litið svo á að bindandi álit verði ekki veitt í þeim tilvikum þegar fyrir liggur skýr afstaða skattyfirvalda um tiltekin atriði, hvort heldur er um að ræða úrskurð ríkisskattstjóra eða yfirskattanefndar, dóma eða að öðru leyti birtar reglur eða túlkanir ríkisskattstjóra.
Eins og upplýst hefur verið af hálfu álitsbeiðanda snýr álitaefnið hér að því hvort sú þjónusta sem álitsbeiðandi hyggst veita skv. fyrirliggjandi samningsdrögum sé virðisaukaskattsskyld eða ekki. Samkvæmt samningsdrögunum og svörum álitsbeiðanda felst umrædd fyrirhuguð þjónusta í verðbréfamiðlun. Í álitsbeiðni vísar álitsbeiðandi til tveggja ákvarðandi bréfa ríkisskattstjóra, annars vegar frá 4. júní 1993 (tilv. G-ákv. 480/93) og hins vegar frá 12. maí 2014 (tilv. G-ákv. 1090/14) til stuðnings því sjónarmiði sínu að umrædd þjónusta sé ekki virðisaukaskattsskyld.
Að þessu virtu og með vísan til framangreindra bréfa ríkisskattstjóra verður ekki annað séð en að fyrir liggi skýr afstaða skattyfirvalda til þess álitaefnis sem hér er borið upp. Með vísan til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum telur ríkisskattstjóri því lagaskilyrði bresta til þess að veita bindandi álit í máli þessu. Beiðni álitsbeiðanda um bindandi álit þykir því verða að vísa frá.
Rétt er að taka fram að frávísun þessari fylgdi almennt bréf ríkisskattstjóra þar sem álitaefni álitsbeiðanda er svarað sbr. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Ályktunarorð:
Beiðni álitsbeiðanda um bindandi álit er vísað frá afgreiðslu bindandi álits á skattamálum.