Bindandi álit nr. 12/00
Tilefni:
Með bréfi, dags. 1. nóvember 2000, er farið fram á að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit í samræmi við lög nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, um skattskyldu einkahlutafélags sem fyrirhugað er að stofna.
Málavextir:
Eftirfarandi málavaxtalýsing er byggð á þeim upplýsingum sem er að finna í álitsbeiðni. Fram kemur að S hafi í hyggju að stofna einkahlutafélag með nafninu N ehf. Drög að samþykktum félagsins fylgdu álitsbeiðni og er tilgangur félagsins samkvæmt þeim uppbygging og útleiga hverskonar húsnæðis svo sem sjálfseignaríbúða, sjúkrahótela, hjúkrunarheimila, þjónustumiðstöðva, svo og bygging og rekstur leiguíbúða, fyrir eldri borgara og aðra sem hafa dregið úr eða látið af störfum svo og önnur þjónusta við íbúa í viðkomandi húsnæði og skyldur atvinnurekstur. Þá kemur fram að hagnaði félagsins skuli eingöngu varið til almenningsheilla á sviði öldrunar- heilbrigðis-, menntunar- og menningarmála, einkum mála er lúta að velferð aldraðra. Þá segir í álitsbeiðni að í drögum að samþykktum, 3. tölul. 14. gr., sé svo kveðið á um að nánari ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar sé í höndum hluthafafundar. En hluthafafundur sé skv. 2. mgr. 51. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, bundin ákvæðum um tilgang félags og ráðstöfun hagnaðar í samþykktum þess. Í 27. gr. draga að samþykktum kemur fram að hreinni eign félagsins verði eingöngu ráðstafað í samræmi við tilgang félagsins verði því slitið. Álitsbeiðandi óskar þess að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit um það hvort fyrirhugað félag geti fallið undir ákvæði 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá kemur fram að álitsbeiðandi geri sér ljóst að í bindandi áliti ríkisskattstjóra sé eingöngu tekin afstaða til skattskyldu félagsins á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í álitsbeiðni og drögum að samþykktum og að skattyfirvöldum sé kleift að meta hvort félagið uppfylli þau skilyrði sem 5. tölul. 4. gr. setur fyrir skattleysi eftir að félagið tekur til starfa. Að sama skapi telur álitsbeiðandi að það hafi ekki áhrif á álitsbeiðni hans þó unnt sé að breyta tilgangsákvæði félagsins á hluthafafundi, enda lúti beiðnin ekki að því hvort félagið geti talist undanþegið skatti eftir einhverjar slíkar breytingar.
Forsendur og niðurstöður.
Eftirfarandi umfjöllun ríkisskattstjóra um skattskyldu einkahlutafélags sem fyrirhugað er að stofna um rekstur álitsbeiðanda felur í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1988, um bindandi álit í skattamálum. Álitið byggir á þeim málavöxtum sem raktir hafa verið hér að framan og er þannig gengið út frá því að ekki verði gerðar breytingar á fyrirliggjandi drögum að samþykktum fyrir hlutafélag það sem fyrirhugað er að stofna.
Eins og réttilega kemur fram í álitsbeiðni kveður 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, á um að þeir lögaðilar sem um ræðir í 2. gr. laganna og hér eiga heimili skuli eigi greiða tekjuskatt og eignarskatt, verji þeir hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafi það að einasta markmiði sínu samkvæmt samþykktum sínum. Um er að ræða undantekningu frá þeirri almennu reglu laganna að allir lögaðilar hér á landi, óháð rekstrarformi, séu skattskyldir.
Samkvæmt 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, greiða hvorki tekjuskatt né eignarskatt þeir lögaðilar sem um ræðir í 2. gr. laganna ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa þann einasta tilgang samkvæmt samþykktum sínum. Svipað ákvæði var að finna í eldri lögum, sbr. 2. málsl. A-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Það ákvæði tók þó samkvæmt orðanna hljóðan einungis til hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaða ábyrgð félagsaðila. Núgildandi ákvæði, sem upphaflega var tekið í lög með 4. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 7/1980, um breytingu á þeim lögum, tekur hins vegar til allra þeirra lögaðila sem tilgreindir eru í 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda sé að öðru leyti fullnægt þeim skilyrðum sem 5. tölul. 4. gr. laganna setur.
Samkvæmt framansögðu stendur ekkert í vegi fyrir að einkahlutafélag sem skráð er hér á landi með lögmæltum hætti geti fallið undir undanþágureglu 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt
Samkvæmt 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru það tvö meginskilyrði sem þarf að fullnægja til þess að undanþáguákvæðið geti átt við. Annars vegar má einungis verja hagnaði til almenningsheilla og hins vegar verður slík ráðstöfun hagnaðar að vera einasta markmið lögaðilans samkvæmt samþykktum. Hugtakið almenningsheill er ekki skilgreint í 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um inntak þess hugtaks og þýðingu þess í máli því sem hér er til úrlausnar verður því að líta til dóma- og úrskurðafordæma. Af þeim má ráða að rekstur skóla og fræðslustofnana, útgáfa og framleiðsla fræðsluefnis, íþróttastarfsemi, ýmis listastarfsemi, náttúru- og umhverfisvernd, störf á sviði hugvísinda og raunvísinda, líknarstarfsemi og starfsemi trúfélaga megi fella undir hugtakið almenningsheill.
Samkvæmt drögum að samþykktum einkahlutafélags þess sem fyrirhugað er að stofna er tilgangur og markmið hlutafélagsins uppbygging og útleiga hverskonar húsnæðis svo sem sjálfseignaríbúða, sjúkrahótela, hjúkrunarheimila og þjónustumiðstöðva, einnig bygging og rekstur leiguíbúða fyrir eldri borgara og aðra sem hafa dregið úr eða látið af störfum, svo og önnur þjónusta við íbúa í viðkomandi húsnæði og skyldur atvinnurekstur. Þá kemur fram að hagnaði félagsins skuli eingöngu varið til almenningsheilla á sviði öldrunar-, heilbrigðis-, menntunar- og menningarmála, einkum mála er lúta að velferð aldraðra. Með hliðsjón af þessu telur ríkisskattstjóri sýnt að tilgangur sá sem settur er fram í drögum að samþykktum fyrirhugaðs einkahlutafélags telst vera í þágu almenningsheilla í skilningi 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt fyrirliggjandi drögum að samþykktum einkahlutafélagsins telur ríkisskattstjóri einnig ljóst að þau ákvæði þeirra sem fjalla um ráðstöfun hagnaðar og kveða á um að honum megi einvörðungu verja í þágu hins skilgreinda tilgangs leiði til þeirrar niðurstöðu að fullnægt teljist vera skilyrðum 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Rétt þykir í áliti þessu að vekja athygli á ákvæði 91. gr. laga nr. 75/1981. En eins og bent er á í álitsbeiðni eru þeir aðilar sem undanþegnir eru skattskyldu á grundvelli 5. tölul. 4. gr. sömu laga engu að síður skyldir til að skila skattframtali, sbr. 1. mgr. 91. gr. laganna.
Þá skal og vakin athygli á því að aðilar sem undanþegnir eru skyldu til greiðslu tekjuskatts og eignarskatts á grundvelli 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, eru engu að síður samkvæmt 4. mgr. 72. gr. sömu laga skyldir til að greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum, sbr. 3., 4. og 5. tölul. C-liðar 7. gr. svo og samkvæmt 8. tölul. sama stafliðar 7. gr. að því er varðar söluhagnað af hlutabréfum. Ef einkahlutafélagið greiðir laun þá ber því að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og að skila tryggingagjaldi samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.
Bindandi álit ríkisskattstjóra.
Ríkisskattstjóri telur með vísan til 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt að einkahlutafélagið N ehf., sem fyrirhugað er að stofna, verði undanþegið skyldu til greiðslu tekjuskatts og eignarskatts. Álit þetta er reist á þeirri forsendu að samþykktir N ehf. verði í samræmi við þau drög að samþykktum sem liggja fyrir í máli þessu og að ráðstöfun hagnaðar verði með þeim hætti sem lýst hefur verið í álitsbeiðni.