Bindandi álit

Bindandi álit nr. 2/00

7.2.2000

7. febrúar 2000 nr. 2/00

Tilefni:
Með bréfi dags. 17. nóvember 1999, mótteknu hjá ríkisskattstjóra þann sama dag, er farið fram á að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit um þær fyrirætlanir X hf. að kaupa öll hlutabréf í Z hf.

Málavextir:
Eftirfarandi málavaxtalýsing er byggð á þeim upplýsingum sem er að finna í beiðni X hf. um bindandi álit.

Álitsbeiðandi mun hafa í huga að kaupa öll hlutabréf í Z hf., og er miðað við að kaupverð verði kr. 150.000.000. Síðan er ætlunin að sameina félögin í kjölfar kaupanna.

Fram kemur í álitsbeiðninni að nafnverð hlutafjár í Z hf. sé kr. 112.975.000 og að bókfært eigið fé 31. desember 1998 hafi, samkvæmt ársreikningi, verið neikvætt um kr. 215.762.000.

Á grundvelli framangreindra málavaxta er farið fram á bindandi álit ríkisskattstjóra á eftirfarandi:

  1. Getur ríkisskattstjóri staðfest að með kaupum á hlutabréfum í þessu tilviki verði litið svo á að verið sé að kaupa eignir félagsins.
  2. Getur ríkisskattstjóri jafnframt staðfest að mismunurinn á bókfærðu verði (matsverði efnislegra eigna að frádregnum skuldum) og kaupverði, sem verður talinn endurspegla raunvirði efnislegra eigna félagsins, sé viðskiptavild sem heimilt sé að fyrna á verðinu kr. 328.737.00, sbr. 6. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt?

Forsendur og niðurstöður:
Eftirfarandi umfjöllun ríkisskattstjóra um fyrirætlanir álitsbeiðanda fela í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Rétt þykir þó að taka fram að álit þetta er gefið miðað við fyrirliggjandi forsendur sem gefnar hafa verið af umboðsmanni álitsbeiðanda.

Álitsbeiðnin er í tvennu lagi. Annars vegar er óskað, í spurningu 1, álits á hvort áætluð kaup álitsbeiðanda á öllum hlutabréfum í Z hf. fyrir kr. 150.000.000 verði talin jafngilda kaupum á eignum félagsins. Þessari spurningu verður að svara neitandi. Um er að ræða kaup eignarhlutar í hlutafélagi en ekki kaup einstakra eigna, hvorki viðskiptavildar né annarra eigna. Um slíka sölu fer að ákvæðum 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, auk viðeigandi ákvæða laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, ef um er að ræða sölu aðila með takmarkaða skattskyldu á Íslandi. Þá er ekki ljóst hvaða hagsmunir gætu verið því samfara að líta á viðskiptin sem kaup eigna félagsins. Væri sú leið fær, þá væri jafnframt um að ræða söluverð sömu eigna í hendi Z hf. með tilheyrandi söluhagnaði, þar með skattskyldri sölu viðskiptavildar ef um hana væri að ræða. Skatta af þeim söluhagnaði þyrfti að gera upp fyrir sameiningu félagsins við annað félag ef ekki væri um að ræða sameiningu í samræmi við ákvæði 56. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki væri um að ræða að unnt væri að nýta möguleg eldri rekstrartöp til frádráttar á móti söluhagnaðinum þar eð þau myndu samkvæmt 2. ml. 7. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 falla niður við eigendaskipti alls hlutafjár félagsins.

Í spurningu 2 er óskað staðfestingar á að mismun á markaðsverði einstakra eigna Z hf. og kaupverð hlutafjár í því megi telja fyrnanlega viðskiptavild með stofnverðið kr. 328.737.000. Þessari spurningu verður einnig að svara neitandi. Í samræmi við svar við fyrri spurningunni verður ekki fallist á að um sé að ræða viðskipti með eignir Z hf. Þá eru ekki fyrir hendi neinar upplýsingar um hverjar eignir Z hf. kunna að vera eða hvert raunvirði þeirra eigna gæti verið. Væri því, þótt fallist væri á rök álitsbeiðanda að öðru leyti, engan veginn unnt að staðfesta raunverð slíkra eigna og enn síður væri unnt að staðfesta tilvist eða mögulegt verðmæti hugsanlegrar viðskiptavildar félagsins.

Bindandi álit ríkisskattstjóra.
Ríkisskattstjóri telur að ekki sé hægt að líta svo á að kaup álitsbeiðanda á öllum hlutabréfum í Z hf. jafngildi kaupum á eignum félagsins. Ríkisskattstjóri álítur að í slíku tilviki sé um að ræða kaup á eignarhluta en ekki kaup einstakra eigna, hvorki viðskiptavildar né annarra eigna.

Ríkisskattstjóri telur og að ekki sé hægt að staðfesta að mismun á markaðsverði einstakra eigna Z hf. og kaupverði hlutafjár í því megi telja fyrnanlega viðskiptavild með stofnverðinu kr. 328.737.000.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum