Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 1/04

25.10.2004

Tryggðarkerfi, vildarkerfi. Frávísun: Álitaefni varða ekki eingöngu álitsbeiðanda. Óljós beiðni.

Reykjavík, 25. október 2004 

Þann 11. október 2004 móttók ríkisskattstjóri beiðni A hrl. um bindandi álit, á grundvelli laga nr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, fyrir hönd B ehf. vegna væntanlegs tryggðakerfis félagsins.

Í beiðninni kemur m.a. fram að starfsemi B ehf. muni felast í því að félagið bjóði þeim fyrirtækjum, sem taka við kreditkortum sem greiðslu, milligöngu um innlausn á kortanótum örfáum dögum eftir að viðskiptin eiga sér stað. Fyrirhugað tryggðakerfi byggist á því að forstöðumenn söluaðila sem gera samning við B ehf. og samstarfsaðila hennar, C, fái persónulega greiðslu fyrir í formi þess sem kallað er peningapunktar. Þá kemur fram að þóknun söluaðila til B ehf. verði gjaldfærð hjá honum og tekjufærð hjá B ehf. B ehf. gjaldfærir síðan hjá sér peningapunktana sem forsvarsmenn/starfsmenn söluaðila ávinna sér. Peningapunktarnir verða síðan greiddir til umræddra einstaklinga til frjálsrar ráðstöfunar.

Þá er eftirfarandi tekið fram:

"Umbjóðandi minn telur að um ofangreint kerfi hljóti að gildi sömu reglur og um Vildarkort Icelandair og Visa, Atlas kort bankanna og Kreditkorts hf., E-kort Spron o.s.frv., en í öllum tilvikum er korthöfum boðin skattfrjáls hlunnindi og / eða endurgreiðsla fyrir að velja sér og nota umrætt kort. Sama gildir um forsvarsmann eða starfsmann félags sem er í vildarkerfi Icelandair, þ.e. starfsmaðurinn fær skattfrjáls hlunnindi fyrir það að félagið skipti við Icelandair. Hér má einnig nefna svonefnt Unik kerfi, sem rekið er í tengslum við Greiðslumiðlun hf., en þar fá Visa korthafar umtalsverðar gjafir, noti þeir kort sín hjá völdum aðilum. Þar gefa söluaðilar afslátt til Unik sem síðan kaupir gjafir og gefur til korthafa Visa. Af hálfu umbjóðanda míns munu gilda sams konar reglur um tryggðarkerfið og gilda um önnur þau kerfi sem hér voru nefnd.

Til að taka af allan vafa áður en kerfið verður tekið í notkun telur umbjóðandi minn rétt að fá staðfest að um væntanlegt tryggðarkerfi muni gilda sömu reglur og um áðurnefnd kerfi sem þegar eru til staðar. Með vísan til 1. gr. laga nr. 91/1998 um bindandi álit í skattamálum er því óskað bindandi álits á því hvernig skattaleg meðhöndlun ofannefnds kerfis muni verða hjá skattyfirvöldum, þ. á m. álits á skattfrelsi þeirra peningapunkta sem greiddir verða forsvarsmönnum/starfsmönnum söluaðila."

Samkvæmt framangreindu er óskað staðfestingar ríkisskattstjóra á því hvort um tryggðakerfi álitsbeiðanda gildi sömu reglur og gilda um a.m.k. fjögur önnur mismunandi vildarkerfi. Þá er óskað eftir bindandi áliti um það hvernig skattaleg meðhöndlun fyrirhugaðs tryggðakerfis muni verða þ.á.m. hjá þeim einstaklingum sem öðlast peningapunktana.

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum var komið á kerfi þar sem einstakir gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Svar ríkisskattstjóra er bindandi ef gjaldandinn fer út í þá ráðstöfun sem lýst var í álitsbeiðninni. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, getur ríkisskattstjóri með rökstuddum hætti vísað beiðni um bindandi álit frá telji hann að beiðni sé vanreifuð eða óskýr eða aðrar ástæður mæli gegn því að látið sé uppi bindandi álit.

Forsenda þess að ríkisskattstjóri gefi út bindandi álit er að það liggi ljóst fyrir hver aðilinn er sem álitsbeiðnin varðar og að ráðstöfunin varði skattalega hagsmuni þess aðila. Kemur þetta fram í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, en þar segir m.a. "Gert er ráð fyrir að allir skattaðilar geti óskað bindandi álits ríkisskattstjóra. Fyrirspurnin verður hins vegar að varða álitsbeiðanda sjálfan, þ.e. ekki er hægt að óska eftir afstöðu ríkisskattstjóra um ráðstafanir sem einhver annar hefur í hyggju að gera." Álit ríkisskattstjóra verður því að varða skattalega hagsmuni álitsbeiðanda sjálfs.

Í beiðninni sem hér er til umfjöllunar er eins og áður segir í fyrsta lagi óskað staðfestingar á því hvort um tryggðakerfi það sem fyrirspyrjandi hyggst koma á fót gildi sömu reglur og um a.m.k. fjögur önnur vildarkerfi sem talin eru upp í beiðninni og sum hver eru rekin í samstarfi nokkurra aðila. Þessi hluti fyrirspurnarinnar er óskýr. Vitnað er til ákveðinna viðskiptakerfa og meintrar skattalegrar meðferðar á þeim án þess að fyrir því sé gerð nokkur grein. Þá uppfyllir hann ekki það skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit, að varða eingöngu þann aðila er eftir álitinu leitar.

Í öðru lagi er í beiðninni óskað eftir bindandi áliti um það hvernig skattaleg meðhöndlun fyrirhugaðs kerfis muni verða hjá skattyfirvöldum þ.á.m. á skattfrelsi þeirra peningapunkta sem greiddir verða forsvarsmönnum/starfsmönnum söluaðila. Orðalag beiðninnar er rúmt og afmarkast ekki við skattgreiðslur fyrirspyrjanda sjálfs. Ljóst er að greiðslur vegna starfsemi greinds tryggðakerfis geta haft áhrif á skattgreiðslur þeirra söluaðila sem gera samning við fyrirspyrjanda og í beiðninni er sérstaklega óskað eftir áliti um það hver verði skattaleg meðhöndlun á greiðslum til starfsmanna söluaðila þ.e. þeirra sem peningapunktana hljóta. Þessi hluti beiðninnar uppfyllir því ekki það skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998 að varða eingöngu þann aðila er eftir álitinu leitar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur ríkisskattstjóri ekki lagalegar forsendur fyrir því að gefa út bindandi álit í máli þessu og er beiðni yðar því vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ályktunarorð:

Beiðni A hrl., fyrir hönd B ehf., um bindandi álit á því hvernig skattaleg meðhöndlun á tryggðakerfi B ehf. muni verða hjá skattyfirvöldum er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum