Bindandi álit, frávísun nr. 4/00
Tryggingasala. Frávísun: Ekki tengsl við raunverulega og fyrirhugaða ráðstöfun.
Reykjavík, 14. nóvember 2000Ríkisskattstjóri hefur þann 1. nóvember 2000 móttekið beiðni yðar um bindandi álit og hlaut hún númerið ..... í bókum embættisins.
Málavöxtum er svo lýst í álitsbeiðni. Álitsbeiðandi rekur vátryggingamiðlun og meðal þeirra trygginga sem hann selur er eingreiðslutrygging á milli aðila, heimilisfastra á Íslandi og X, félags með heimilisfesti í Luxemborg. Í upphafi tryggingatímans greiðir tryggingataki ákveðna fjárhæð og er hún bundin til 10 ára. Í lok tryggingatímabilsins fær tryggingatakinn fjárhæðina endurgreidda að viðbættu álagi. Þá segir að álitsbeiðnin snúist fyrst og fremst um skattlagningu þessarar greiðslu. Samkvæmt álitsbeiðni krefst álitsbeiðandi þess að líftryggingafé samkvæmt Z Insurance contract sé undanþegið launatekjuskatti og fjármagnstekjuskatti svo og eignarskatti samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með beiðninni fylgdi afrit af Z Insurance contract. Í beiðninni eru þær forsendur sem álitsbeiðandi telur vera fyrir skattleysi framangreindrar tryggingar ítarlega reifaðar.
Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á kerfi þar sem einstakir gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Svar ríkisskattstjóra er bindandi ef gjaldandinn fer út í þá ráðstöfun sem lýst var í álitsbeiðninni.
Forsenda þess að hægt sé að gefa út svona álit er m.a. það að það liggi ljóst fyrir hver aðilinn er sem álitsbeiðnin varðar og að ráðstöfunin sem gera verður nákvæmlega grein fyrir, varði þennan tiltekna gjaldanda. Þá þarf beiðnin að varða álitamál sem snerta álagningu skatta og gjalda sem eru á valdsviði skattstjóra eða ríkisskattstjóra og falla undir úrskurðarvald yfirskattanefndar. Telja verður að með þessu sé átt við að þetta verði að varða álitamál varðandi þennan tiltekna aðila, sem upp kunna að koma ef hann ræðst í þá ráðstöfun sem hann hefur hug á. Þessu tengd eru því ákvæði laganna um rétt álitsbeiðanda til að skjóta áliti ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar eða eftir atvikum til dómstóla, sbr. 1. og 2. mgr. 5. gr. laganna.
Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga um bindandi álit í skattamálum (122. löggjafarþing, þingskj. 941) segir m.a.: "Fyrir fram bindandi álit eru hins vegar annars eðlis en framangreind upplýsingagjöf og hafa víðtækari réttaráhrif. Af þeim sökum eru gerðar ríkari kröfur um form og efni þeirra." (leturbr. ríkisskattstjóra). Þá segir einnig: "Gert er ráð fyrir að allir skattaðilar geti óskað bindandi álits ríkisskattstjóra. Fyrirspurnin verður hins vegar að varða álitsbeiðanda sjálfan, þ.e. ekki er hægt að óska eftir afstöðu ríkisskattstjóra um ráðstafanir sem einhver annar hefur í hyggju að gera. Svo sem áður er getið er heldur ekki gert ráð fyrir því að hægt verði að spyrja almennt án tengsla við raunveruleg tilvik." (leturbr. ríkisskattstjóra).
Það er skoðun embættisins að álitsbeiðni yðar uppfylli í grundvallaratriðum ekki þau skilyrði sem lög nr. 91/1998 setja til að hægt sé að gefa út bindandi álit. Þar skiptir höfuð máli að ljóst er að verið er að óska eftir almennum upplýsingum ríkisskattstjóraembættisins varðandi túlkun á margvíslegum álitaefnum án þess að beiðni sé sett fram í tengslum við raunverulega og fyrirhugaða ráðstöfun álitsbeiðanda. Þykir einsýnt að álitsbeiðandi ætlar sér með álitinu að veita einstaklingum þeim, sem álitsbeiðandi kemur til með að eiga samskipti/viðskipti við, svör við hinum ýmsu spurningum sem upp kunna að koma varðandi þá tryggingu sem óskað er álits um.
Með vísan til framangreinds er beiðni yðar um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.
Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.
Ályktunarorð
Álitsbeiðni nr. ..... um bindandi álit á skattlagningu líftryggingarfjár samkvæmt Z Insurance Contract er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum.
Ríkisskattstjóri