Áhersluatriði ríkisskattstjóra vegna skipta á fjárhagsupplýsingum samkvæmt samræmdum staðli OECD um upplýsingagjöf

Á árinu 2014 undirritaði fjármála- og efnahagsráðherra yfirlýsingu um upptöku nýs samræmds alþjóðlegs staðals um upplýsingaskipti í skattamálum (e. common reporting standard).

Með lögum nr. 124/2015 var staðalinn innleiddur og ákvæði 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt breytt þannig að skattyfirvöldum var heimilað að kalla eftir upplýsingum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála og ráðherra jafnframt veitt heimild til að útfæra nánar reglur um framkvæmd upplýsingaöflunarinnar en það var gert með reglugerð um framkvæmd áreiðanleikakannana vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála nr. 1240/2015.

Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með stöðluðum skilum fjármálastofnana á fjárhagsupplýsingum vegna alþjóðlegra skuldbindinga um upplýsingaskipti á sviði skattamála. Ríkisskattstjóri hefur að því tilefni gert úttekt á innsendum fjárhagsupplýsingum og framkvæmt áhættumiðaðar vettvangsathuganir þar sem verkferlar tilkynningarskyldra fjármálastofnana voru m.a. kannaðir.

Ríkisskattstjóri beinir í kjölfar framangreinds eftirlits eftirfarandi skilaboðum til tilkynningarskyldra aðila:

Á árinu 2022 mun ríkisskattstjóri leggja sérstaka áherslu á að tilkynningarskyldar fjármálastofnanir virði frest skila á CRS upplýsingum og bæti skil á upplýsingum um skattkennitölu eða kenninúmer skattgreiðanda (e. Taxpayer identification Number (TIN)) vegna allra tilkynningarskyldra reikninga í þeirra vörslu.

Frekari upplýsingar um skattkennitölur (TIN) má nálgast á vef OECD og í reglugerð nr. 1240/2015 um framkvæmd áreiðanleikakannana vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála.

Vakni frekari spurningar geta aðilar haft samband við netfangið crs.fatca@skatturinn.is

Ríkisskattstjóri vekur athygli á því að stefnt er að því að frá og með árinu 2023 verði skilafrestur vegna CRS upplýsinga færður fram í janúar. Á árinu 2022 verður skilafrestur CRS upplýsinga árið 2022 hinn sami og verið hefur, þ.e. 31. maí.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum