Ákvörðun 1/2022 um sátt
Þann
24. mars 2022 gerðu ríkisskattstjóri og málsaðili með sér samkomulag um að
ljúka með sátt máli vegna brota á ákvæðum laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn
peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og laga nr. 64/2019, um frystingu
fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við
fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna.
Meginatriði samkomulagsins eru sem hér segir:
Málsaðili viðurkennir að hafa brotið gegn eftirfarandi ákvæðum laga nr. 140/2018 og laga nr. 64/2019:
- Hafa ekki framkvæmt áreiðanleikakönnun í sjö tilvikum á viðskiptamanni í samræmi við 8. og 10. gr. pþl. og teljast þau brot varða við 3. tl. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Hafa ekki í fjórum tilvikum aflað upplýsinga um raunverulegan eiganda í samræmi við e. lið 10. gr. pþl. og teljast þau brot varða við 4. tl. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Viðskiptamaður hafi ekki sannað á sér deili í tveimur tilvikum í samræmi við a. lið 1. mgr. 10. gr. pþl. og teljast þau brot varða við 4. tl. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Hafa ekki metið hvort viðskiptamenn sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum í öllum tilvikum í samræmi við 3. mgr. 7. gr. frystingarlaga og teljast þau brot varða við 2. tl. 1. mgr. 20. gr. frystingarlaga.
Málsaðili fellst á að greiða sekt að fjárhæð 1.750.000 krónur.
Þá fellst málsaðili á að framkvæma fullnægjandi úrbætur innan tilgreindra tímamarka í samræmi við kröfur ríkisskattstjóra.
Málavextir og málsástæður og lagarök
Í febrúar 2021 óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum og gögnum frá félaginu á grundvelli 2. mgr. 38. gr. pþl. og 2. mgr. 16. gr. frystingarlaga.
Málsaðili varð við beiðni ríkisskattstjóra og afhenti umbeðin gögn. Í kjölfarið boðaði ríkisskattstjóri til vettvangsathugunar sem fór fram í september 2021 á starfsstöð félagsins.
Við yfirferð gagna og framkvæmd vettvangsathugunar var könnuð fylgni félagsins við skyldur samkvæmt peningaþvættislögum og frystingarlögum.
Hvorki voru gerðar alvarlegar athugasemdir við áhættumat málsaðila né aðra skráða verkferla og stýringar. Við framkvæmd vettvangsathugunar kom í ljós að málsaðili hafði ekki framkvæmt áreiðanleikakönnun á seljendum fasteigna. Telst framangreint kerfisbundið brot gegn 8. gr. pþl. Þetta gerði málsaðili ekki, þrátt fyrir að áhættumat og aðrir verkferlar kváðu skýrlega á um að framkvæma skyldi áreiðanleikakönnun á öllum viðskiptamönnum sem féllu innan gildissviðs peningaþvættislaga. Að auki var framkvæmd áreiðanleikakannana ófullnægjandi á hluta kaupenda.
Áreiðanleikakannanir
Tilkynningarskyldum aðilum ber að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sínum í þeim tilvikum sem tilgreind eru í 8. gr. pþl. og framkvæmd áreiðanleikakönnunar skuli vera í samræmi við III. kafla pþl.
Við framkvæmd vettvangsathugunar kom í ljós að félagið hafði ekki framkvæmt áreiðanleikakönnun á seljendum fasteigna. Telst framangreint kerfisbundið brot gegn 8. gr. pþl. og 10. gr. pþl. Þetta gerði félagið ekki, þrátt fyrir að áhættumat félagsins og aðrir verkferlar kváðu skýrlega á um að framkvæma skyldi áreiðanleikakönnun á öllum viðskiptamönnum sem féllu innan gildissviðs peningaþvættislaga. Að auki var framkvæmd áreiðanleikakannana ófullnægjandi á hluta kaupenda.
Verkferlar
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. frystingarlaga skulu tilkynningarskyldir aðilar skv. i-s-lið 1. mgr. 2. gr. pþl. innleiða ferla og aðferðir til að meta hvort viðskiptamenn þeirra séu á listum yfir þvingunaraðgerðir svo unnt sé að frysta fjármuni og efnahagslegan auð í samræmi við 4. gr. frystingarlaga, reynist viðskiptamaður sæta alþjóðlegum þvingunaraðgerðum. Meta skal stöðu viðskiptamanns í upphafi viðskipta og með reglubundnum hætti á meðan viðskiptasamband varir.
Við framkvæmd vettvangsathugunar á starfsstöð málsaðila varð ljóst að félagið hafi aldrei metið hvort viðskiptamenn sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum í samræmi við 3. mgr. 7. gr. frystingarlaga og teljast þau brot varða við 2. tl. 1. mgr. 20. gr. frystingarlaga
Sektarfjárhæð
Sektarfjárhæð er ákvörðuð í samræmi við reglur ríkisskattstjóra nr. 1132/2020, um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018. Samkvæmt reglunum er miðað við að sektarfjárhæð sé hlutfallslega lægri en sem ætla má að fjárhæð stjórnvaldssektar gæti numið að teknu tilliti til mögulegra þyngingar- og mildunarsjónarmiða auk þess sem litið er til þess á hvaða stigi meðferð máls er þegar því er lokið með sátt.
Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. laga nr. 140/2018 og 1. mgr. 20. gr. frystingarlaga skal, við ákvörðun stjórnvaldssekta tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. alvarleika brots, hvað brotið hefur staðið yfir lengi, ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum, fjárhagsstöðu hins brotlega, ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti, hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila, hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins, samstarfsvilja hins brotlega, fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.
Við mat á sektarfjárhæð telur ríkisskattstjóri að sú staðreynd að félagið hafi ekki, með kerfisbundnum hætti, framkvæmt áreiðanleikakönnun á helming viðskiptamanna leiða til þess að brot telst alvarlegt. Þá er einnig litið til fjárhagsstöðu félagsins m.v. ársreikninga fyrir árin 2020 og 2019. Ríkisskattstjóri tekur tillit til samstarfsvilja félagsins og telst það félaginu til bóta. Telst sektarfjárhæð, að öllu framangreindu virtu, hæfilega ákveðin 3.500.000 krónur. Með vísan til 2. mgr. 3. gr. reglna ríkisskattstjóra nr. 1132/2020 nemur fjárhæð sáttar 50% af boðaðri sektarfjárhæð, eða 1.750.000 krónur.
Réttaráhrif
Samkomulag þetta er gert á grundvelli 47. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, 21. gr. laga nr. 64/2019, um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, og reglna ríkisskattstjóra nr. 1132/2020, um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018.
Samkomulagið er bindandi fyrir málsaðila og ríkisskattstjóra þegar báðir aðilar hafa samþykkt og staðfest efni þess með undirskrift sinni. Málsaðili telst uppfylla sáttina við greiðslu sektarfjárhæðar og staðfestingu á að úrbótum sé lokið, sbr. nánar viðauka I við samkomulag þetta.
Málsaðili brýtur gegn samkomulaginu ef hann greiðir ekki umsamda sektarfjárhæð, lýkur ekki úrbótum í samræmi við viðauka I við samkomulagið, gaf rangar upplýsingar um málsatvik eða leyndi upplýsingum sem máli skipta. Einnig geta önnur atvik leitt til þess að málsaðili teljist hafa brotið gegn sátt þessari. Verði málsaðili uppvís að því að brjóta gegn samkomulaginu getur ríkisskattstjóri fellt það úr gildi og tekið málið til meðferðar á ný.
Með vísan til 53. gr. pþl. og reglna ríkisskattstjóra nr. 1131/2020, um opinbera birtingu stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lögum nr. 64/2019, um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, er meginreglan sú að birta skuli opinberlega stjórnsýsluviðurlög. Þrátt fyrir framangreint hefur ríkisskattstjóri, á grundvelli b. liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 140/2018 og 2. mgr. 5. gr. reglna ríkisskattstjóra nr. 1131/2020 um opinbera birtingu stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lögum nr. 64/2019 um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, tekið tillit til andmæla félagsins og fellt auðkenni málsaðila út úr sáttargerð.
Ríkisskattstjóri sendir málsaðila tvö eintök af sáttargerð. Málsaðili skal undirrita og senda bæði eintökin til ríkisskattstjóra innan 15 daga frá móttöku þeirra. Ríkisskattstjóri undirritar því næst bæði eintök sáttargerðarinnar og sendir málsaðila annað eintakið ásamt kröfu þar sem veittur er 30 daga greiðslufrestur, sbr. 5. mgr. 4. gr. reglna nr. 1132/2020 um sáttargerðir samkvæmt pþl..