2009

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 164/2009

13.7.2009

Úrskurður nr. 164/2009

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2009, mánudaginn 13. júlí, er tekið fyrir mál nr. 260/2007; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 10. september 2007, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2005.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skráningu virðisaukaskattsskyldrar starfsemi. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að tilkynna skattstjóranum í Norðurlandsumdæmi eystra um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína. Þá er A jafnframt gefið að sök að hafa vanrækt að standa skattstjóranum í Norðurlandsumdæmi eystra skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl og maí–júní rekstrarárið 2005, og vantelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt (útskatt) vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar. Nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 1.542.964 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 378.026.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur (útskattur) samkvæmt fyrirliggjandi gögnum svo sem hér greinir:

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur
2005 mars – apríl 1.302.000 318.990
2005 maí – júní 240.964 59.036
Samtals kr.   1.542.964 378.026

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 5. gr, 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna framangreinds árs hefur A verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kr. 37.503, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 10. september 2007, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með ábyrgðarbréfi yfirskattanefndar, dags. 12. september 2007, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 10. september 2007, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Í framhaldi af tilkynningu frá skattstjóranum í Norðurlandsumdæmi eystra, sbr. bréf skattstjóra, dags. 8. ágúst 2005, sem varðaði meint skattsvik í rekstri X ehf., hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins hinn 25. október 2005 rannsókn á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við pípulagnir á árinu 2005. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 14. mars 2006. Með bréfi, dags. 16. maí 2006, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. 14. maí 2006, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda og lauk rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins með skýrslu, dags. 7. júní 2006, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 7. júní 2006, var gerð grein fyrir rannsókn embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda og niðurstöðum hennar. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kom m.a. fram að gjaldandi hefði ekki gert grein fyrir skattskyldri veltu og innheimtum virðisaukaskatti á tímabilinu janúar til og með júní 2005 og ekki verið skráður á grunnskrá virðisaukaskatts. Á þessu tímabili hefði gjaldandi gefið út sölureikninga vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar í nafni gjaldþrota félags sem hann hefði verið í forsvari fyrir.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um skattskylda veltu gjaldanda á tímabilinu janúar til og með júní 2005 byggðu á útgefnum sölureikningum gjaldanda á tímabilinu og hreyfingalista bókhalds Z ehf. Nánar tiltekið var um að ræða þrjá sölureikninga, samtals að fjárhæð 2.075.166 kr., sem allir voru vegna vinnu gjaldanda fyrir Z ehf., en gögn úr bókhaldi Z ehf. voru talin leiða í ljós að gjaldandi hefði ekki fengið greiddar 154.176 kr. af reikningsfjárhæð. Virðisaukaskattur var tilgreindur á öllum sölureikningum gjaldanda. Að teknu tilliti til fjárhæðar sem gjaldandi hafði ekki fengið greidda voru tölulegar niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins þær að gjaldandi hefði vantalið skattskylda veltu um 1.542.964 kr. og að vangreiddur útskattur næmi 378.026 kr. á umræddu tímabili árið 2005.

Fram kom í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hefði ekki fært bókhald vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar. Samkvæmt skýringum gjaldanda hefði hann haft í hyggju að stofna einkahlutafélag um rekstur sinn en það hefði dregist. Gjaldandi hefði gefið út þrjá sölureikninga í nafni gjaldþrota félags, X ehf., vegna vinnu sinnar fyrir Z ehf. á tímabilinu janúar til og með júní 2005, sbr. sölureikninga nr. 1–3. Samkvæmt bréfi til skattrannsóknarstjóra ríkisins frá bókara gjaldanda, mótt. 23. desember 2005, hefði gjaldandi gefið út greinda sölureikninga í nafni X ehf. til þess að gera grein fyrir vinnustundum sínum. Hann hefði síðan ætlað að gefa út nýja sölureikninga í nafni félags sem hann hefði haft í hyggju að stofna. Bókari gjaldanda hefði síðan kreditfært greinda sölureikninga í nafni X ehf. og jafnframt gert nýja sölureikninga í nafni gjaldanda með sömu fjárhæðum og fyrri reikningar. Umræddir kreditreikningar (nr. 4–6) og sölureikningar (nr. 7–9) fylgdu bréfi bókara gjaldanda.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 14. mars 2006 kom fram af hálfu gjaldanda að hann hefði starfað sem pípulagningamaður hjá Z ehf. á fyrri hluta ársins 2005. X ehf. hefði verið gamalt félag í eigu gjaldanda sem hefði endað í gjaldþroti haustið 2000. Það hefði verið bráðabirgðalausn að gefa út sölureikninga í nafni þess félags á fyrri hluta árs 2005 þar til nýtt félag hefði verið stofnað, en Z ehf. hefði viljað nýta sér innskatt. Gjaldandi var spurður hvers vegna hann hefði ekki skilað virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti til skattyfirvalda og gaf hann þá skýringu að ætlunin hefði verið að stofna nýtt félag um reksturinn og hefði hann haldið að skil væru í eðlilegum farvegi en stofnun nýs félags hefði dregist. Gjaldandi staðfesti að bókari hans hefði gefið út nýja sölureikninga vegna vinnu gjaldanda fyrir Z ehf. Einn reikninganna hefði ekki fengist greiddur að fullu.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. m.a. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 8. júní 2006. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 12. desember 2006, sem gjaldandi svaraði ekki, ákvað ríkisskattstjóri með úrskurði um endurákvörðun, dags. 14. febrúar 2007, að skrá gjaldanda á grunnskrá virðisaukaskatts og endurákvarða virðisaukaskatt hans uppgjörstímabilin mars-apríl og maí-júní 2005. Fram kom í úrskurði ríkisskattstjóra að við áætlun skattskyldrar veltu væri byggt á niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins. Var skattskyld velta ákvörðuð samtals 1.542.964 kr. og útskattur 378.026 kr. umrædd uppgjörstímabil svo og virðisaukaskattur til greiðslu með sömu fjárhæð auk álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Gjaldandi nýtti ekki málskotsrétt sinn vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum gjaldanda vegna rekstrartímabilsins janúar til og með júní 2005 byggðar á útgefnum sölureikningum gjaldanda vegna vinnu hans fyrir Z ehf. og upplýsingum úr bókhaldi Z ehf. um greiðslur til gjaldanda. Samkvæmt þessum gögnum námu greiðslur Z ehf. til gjaldanda 1.920.990 kr. og reiknaðist skattskyld velta gjaldanda í samræmi við það 1.542.964 kr. uppgjörstímabilin mars-apríl og maí-júní 2005. Er þetta sú fjárhæð sem tilgreind er sem töluleg niðurstaða rannsóknarinnar um vantalda skattskylda veltu. Af hálfu gjaldanda er viðurkennt að tekjur hans hafi numið þeirri fjárhæð sem fyrrgreind gögn bera með sér, sbr. framburð gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 14. mars 2006, og er óumdeilt að um sé að ræða tekjur af sjálfstæðri starfsemi, svo sem byggt er á í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þá fjárhæð skattskyldrar veltu sem umrædd gögn bera með sér. Samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á innskatti gjaldanda var engum gögnum til að dreifa þar að lútandi og hefur ekkert komið fram af hálfu gjaldanda um frádráttarliði sem taka bæri tillit til í málinu.

Fyrir liggur í málinu að gjaldandi, sem telst samkvæmt framangreindu hafa verið skyldur til þess að tilkynna um atvinnurekstur sinn eða sjálfstæða starfsemi til skattstjóra samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988 og standa skil á virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu sinnar, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, sinnti ekki tilkynningarskyldu og stóð ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti uppgjörstímabilin mars-apríl og maí-júní 2005. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins var gjaldandi spurður um ástæður fyrir því að hann hefði ekki gert skattyfirvöldum grein fyrir starfsemi sinni og staðið skil á innheimtum virðisaukaskatti og gaf gjaldandi þá skýringu að hann hefði ætlað að stofna félag um rekstur sinn en það hefði dregist. Mun hér vera vísað til Y ehf., sem var tilkynnt til skráningar hjá fyrirtækjaskrá hinn 14. júlí 2005, sbr. stofngerð fyrir einkahlutafélagið, dags. 1. júlí 2005, en ekki höfðu verið gerð skil á umræddum virðisaukaskatti í nafni þess félags þegar rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda hófst hinn 25. október 2005. Að þessu athuguðu og gögnum málsins að öðru leyti þykir fullsannað að gjaldandi hafi á saknæman hátt vanrækt að gera grein fyrir skattskyldri veltu að fjárhæð 1.542.964 kr. umrædd uppgjörstímabil og virðisaukaskatti til greiðslu að fjárhæð 378.026 kr. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Einnig telst gjaldandi hafa vanrækt tilkynningarskyldu sína samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1988 þannig að varði við 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

4. Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Gjaldandi gekkst greiðlega við brotum sínum. Þá þykir bera að taka tillit til þess að nokkur dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 720.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 720.000 kr. til ríkissjóðs.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum