2009

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 261/2009

4.11.2009

Úrskurður nr. 261/2009

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2009, miðvikudaginn 4. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 101/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 7. apríl 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, öll með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2003, 2004, 2005 og 2006.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

1. Skil á efnislega röngum skattframtölum og fylgigögnum þeirra. Offramtaldar launatekjur. Vanframtaldar rekstrartekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skil á efnislega röngum skattframtölum og fylgigögnum þeirra til skattstjórans í Norðurlandsumdæmi eystra vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2004, 2005 og 2006 vegna rekstraráranna 2003, 2004 og 2005 með því að offramtelja launatekjur um kr. 180.000 vegna rekstrarársins 2004 og kr. 180.000 kr. vegna rekstrarársins 2005 og vanframtelja rekstrartekjur um kr. 750.394 vegna rekstrarársins 2003, um kr. 2.327.934 vegna rekstrarársins 2004 og kr. 4.415.868 vegna rekstrarársins 2005, sem til eru komnar vegna starfa A við ræstingar.

Framangreind háttsemi A leiddi til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hans en vera bar gjaldárin 2004, 2005 og 2006, vegna rekstraráranna 2003, 2004 og 2005 og þar með til ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars hans, svo sem hér segir:

 Reiknaður tekjuskattur og útsvar

 

Rekstrarár

Vanframtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn

 

Tekjuskattur

 

Útsvar

2003 707.879 Vanframtaldar rekstrartekjur kr. 750.394 – hækkun á tryggingagjaldi skv. úrskurði ríkisskattstjóra kr. 42.515 = 707.879 182.279                 707.879 * 25,75% = 182.279. 92.237   707.879 * 13,03% = 92.237.
2004 2.016.247                 Vanframtaldar rekstrartekjur 2.327.934 – offramtaldar launatekjur kr. 180.000 – hækkun á tryggingagjaldi skv. úrskurði ríkisskattstjóra kr. 131.687 = 2.016.247. 519.184                 2.016.247 * 25,75% = 519.184. 262.717                2.016.247 * 13,03% = 262.717.
2005 4.126.100 Vanframtaldar rekstrartekjur 4.415.868 – offramtaldar launatekjur kr. 180.000 – hækkun á tryggingagjaldi skv. úrskurði ríkisskattstjóra kr. 109.768 = 4.126.100. 1.021.210                 4.126.100 * 24,75% = 1.021.210. 537.631                4.126.100 * 13,03% = 537.631.
Samtals kr. 6.850.226 1.722.673 892.585

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. A og B. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

2. Vanræksla á tilkynningu til virðisaukaskattsskrár. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar til skattstjórans í Norðurlandsumdæmi eystra vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl til og með nóvember–desember rekstrarárið 2003, janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2004, janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2005 og janúar–febrúar til og með júlí–ágúst rekstrarárið 2006 og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt (útskatt) vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar við ræstingar. Þá er A gefið að sök að hafa vanrækt að tilkynna skattyfirvöldum um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína til skattstjórans í Norðurlandsumdæmi eystra. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 10.636.753 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 2.606.087.

Sundurliðast vantalin skattskyld velta og virðisaukaskattur (útskattur) svo sem hér greinir: 

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vantalin skattskyld velta Vantalinn útskattur
2003 mars – apríl 69.678 17.071
2003 maí – júní 252.206 61.794
2003 júlí - ágúst 110.841 27.159
2003 sept – okt 161.847 39.653
2003 nóv – des 155.822 38.178
Samtals kr.   750.394 183.855
2004 janúar – febrúar 249.557 61.143
2004 mars - apríl 257.859 63.179
2004 maí – júní 388.591 95.209
2004 júlí – ágúst 476.807 116.823
2004 sept – okt 450.197 110.303
2004 nóv – des 559.837 137.163
Samtals kr.   2.382.848 583.820
2005 janúar – febrúar 572.688 140.312
2005 mars - apríl 587.145 143.855
2005 maí – júní 738.149 180.851
2005 júlí – ágúst 803.609 196.891
2005 sept – okt 830.919 203.581
2005 nóv – des 883.358 216.428
Samtals kr.   4.415.868 1.081.918
2006 janúar – febrúar 774.695 189.805
2006 mars – apríl 764.701 187.356
2006 maí – júní 799.193 195.807
2006 júlí - ágúst 749.054 183.526
Samtals kr.   3.087.643 756.494
Samtals öll árin kr.   10.636.753 2.606.087

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 7. apríl 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. apríl 2008, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 7. apríl 2008, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hann hafi staðið skil á röngum skattframtölum árin 2004, 2005 og 2006 með því að vantelja tekjur af atvinnurekstri sínum árin 2003, 2004 og 2005. Þá er gerð krafa um ákvörðun sektar samkvæmt ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem byggir á því að gjaldandi hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti árin 2003, 2004, 2005 og 2006 svo sem nánar er rakið í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Í framhaldi af tilkynningu frá skattstjóra, dags. 9. júní 2006, um meint skattsvik, sbr. 6. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 6. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins hinn 16. október 2006 rannsókn á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna tímabilsins janúar 2003 til og með ágúst 2006. Með bréfi, dags. 6. desember 2006, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Af hálfu gjaldanda voru engar athugasemdir gerðar og lauk rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins með skýrslu, dags. 3. janúar 2007, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 3. janúar 2007, var gerð grein fyrir rannsókn embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda. Fram kom að gjaldandi hefði á rannsóknartímabilinu starfað við þrif fyrir húsfélög. Vegna rannsóknarinnar var tekin skýrsla af gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 8. nóvember 2006 og var rannsóknin m.a. byggð á upplýsingum sem þar komu fram, sölureikningum gjaldanda og gögnum um innborganir á bankareikninga hans.  Í lokakafla skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman og kom þar m.a. fram að gjaldandi hefði staðið skil á röngum skattframtölum árin 2004, 2005 og 2006 vegna vanframtalinna rekstrartekna en einnig væru launatekjur oftaldar í skattframtölunum, að gjaldandi hefði ekki verið á virðisaukaskattsskrá á rannsóknartímabilinu, að tekjuskráning gjaldanda væri ófullnægjandi og að gjaldandi hefði ekki fært bókhald vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar.

Rakið var í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hefði staðið skil á skattframtölum árin 2004, 2005 og 2006. Í skattframtali gjaldanda árið 2005 væru tilgreindar launatekjur að fjárhæð 180.000 kr. frá húsfélaginu að Z 16-18 svo og væri gerð grein fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 54.914 kr. frá sama aðila og sama fjárhæð færð sem rekstrarkostnaður. Í skattframtali árið 2006 væru tilgreindar launatekjur að fjárhæð 180.000 kr. frá húsfélaginu að W 14. Aðrar framtaldar tekjur gjaldanda gjaldárin 2004, 2005 og 2006 væru greiðslur frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum. Gjaldandi hefði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila á því tímabili sem rannsóknin tæki til og ekki verið með opið virðisaukaskattsnúmer á þeim tíma.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrartekjur gjaldanda rekstrarárin 2003, 2004 og 2005 og skattskylda veltu sömu ár og tímabilið janúar til ágúst 2006 byggðu einkum á gögnum um innborganir á bankareikning gjaldanda, aðallega frá nokkrum húsfélögum í fjöleignarhúsum á X, en jafnframt lágu fyrir sölureikningar sem gjaldandi gaf út vegna vinnu sinnar við þrif og umhirðu sameignar greindra fjöleignarhúsa. Samkvæmt því sem fram kom í skýrslunni voru umræddar innborganir samtals að fjárhæð 13.242.840 kr. allt rannsóknartímabilið, en fjárhæð sölureikninga, sem fram kom við meðferð málsins, nam samtals 873.750 kr. Virðisaukaskattur var ekki tilgreindur á sölureikningum gjaldanda. Samkvæmt niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins námu rekstrartekjur og skattskyld velta gjaldanda 750.394 kr. rekstrarárið 2003, 2.382.848 kr. rekstrarárið 2004 og 4.415.868 kr. rekstrarárið 2005 og skattskyld velta 3.087.643 kr. tímabilið janúar til ágúst 2006. Var skattskyld velta talin vantalin um greindar fjárhæðir samkvæmt rannsókninni. Að teknu tilliti til framtalinna rekstrartekna gjaldárið 2005 komst skattrannsóknarstjóri að þeirri niðurstöðu að gjaldandi hefði vantalið rekstrartekjur um 750.394 kr. rekstrarárið 2003, 2.327.934 kr. rekstrarárið 2004 og 4.415.868 kr. rekstrarárið 2005, en oftalið launatekjur um 180.000 kr. gjaldárin 2005 og 180.000 kr. gjaldárið 2006. Í skýrslunni kom fram að engin gögn eða upplýsingar hefðu borist um möguleg rekstrargjöld eða innskatt gjaldanda.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 8. nóvember 2006 var gjaldandi spurður um það í hverju sjálfstæð starfsemi hans hefði verið fólgin á rannsóknartímabilinu og kom fram í svari gjaldanda að hún hefði falist í þrifum fyrir tvö húsfélög. Að því er varðaði  tekjuskráningu kom fram af hálfu gjaldanda að húsfélögin hefðu lagt umsamdar fjárhæðir inn á bankareikning hans. Í einhverjum tilvikum hefði hann gefið út reikninga, en hann hefði ekki haldið utan um þá. Gjaldandi hefði ekki fært bókhald og ekki varðveitt bókhaldsgögn. Gjaldandi var spurður að því hvers vegna hann hefði ekki tilkynnt sjálfstæða starfsemi sína til skattyfirvalda og svaraði hann því til að þetta hefði undið hraðar upp á sig en hann hefði átt von á og því hefði það einfaldlega farist fyrir. Við skýrslutökuna var lögð fyrir gjaldanda samantekt um innborganir á bankareikning hans að fjárhæð 847.249 kr. árið 2003, 2.896.318 kr. árið 2004, 5.465.786 kr. árið 2005 og 3.844.137 kr. árið 2006 (janúar til ágúst) frá tilgreindum húsfélögum og gaf gjaldandi þá skýringu á innborgununum að þær væru vegna þrifa. Þá taldi gjaldandi að innborganir frá B og C á árinu 2003, samtals að fjárhæð 60.000 kr., væru vegna þrifa. Gjaldandi staðfesti að hafa gefið út sölureikninga sem lagðir voru fyrir hann við skýrslutökuna. Hann hefði ekki innheimt virðisaukaskatt af þjónustu sinni samkvæmt sölureikningunum þar sem hann hefði talið að þess þyrfti ekki. Aðspurður um það hvers vegna hann hefði ekki gert grein fyrir tekjum sínum vegna þrifa fyrir húsfélög í skattframtölum sínum og virðisaukaskattsskýrslum kom fram hjá gjaldanda að í upphafi hefði verið um viðskiptahugmynd að ræða en það hefði síðan farist fyrir að ganga frá þessu formlega. Gjaldandi kvaðst hafa orðið fyrir kostnaði vegna starfseminnar og ætla að athuga hvort hann gæti fundið einhver gögn þar um.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 9. janúar 2007. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 31. maí 2007,  sem gjaldandi svaraði ekki, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2004, 2005 og 2006 og virðisaukaskatt árin 2003, 2004, 2005 og 2006 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 29. júní 2007. Fram kom í úrskurði ríkisskattstjóra að ástæða þætti til að úrskurða gjaldanda inn á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila og áætla virðisaukaskatt hans, áætla reiknað endurgjald gjaldanda og skilaskylda staðgreiðslu hans og ákvarða álag vegna vangreiddrar staðgreiðslu, svo og áætla rekstrartekjur gjaldanda umrædd ár. Við þessar ákvarðanir væri byggt á niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins. Var skattskyld velta ákvörðuð 750.394 kr. árið 2003, 2.382.848 kr. árið 2004, 4.415.868 kr. árið 2005 og 3.087.643 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með júlí-ágúst 2006 og útskattur í samræmi við það svo og virðisaukaskattur til greiðslu auk álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri reiknað endurgjald gjaldanda að fjárhæð 700.000 kr. árið 2003, 2.220.000 kr. árið 2004 og 2.328.000 kr. árið 2005 og stofn til tryggingagjalds umrædd ár í samræmi við það, svo og álag vegna vangreiddrar skilaskyldrar staðgreiðslu. Tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda var hækkaður um 707.879 kr. gjaldárið 2004, 2.013.101 gjaldárið 2005 og 4.094.472 kr. gjaldárið 2006 auk álags samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Gjaldandi nýtti ekki málskotsrétt sinn vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna áranna 2003, 2004, 2005 og 2006 byggðar á gögnum um innborganir á bankareikning gjaldanda umrædd ár. Innborganir sem hér um ræðir voru að fjárhæð 934.249 kr. árið 2003, 2.966.668 kr. árið 2004, 5.497.786 kr. árið 2005 og 3.844.137 kr. árið 2006 (janúar til ágúst). Samkvæmt þessu reiknaði skattrannsóknarstjóri ríkisins rekstrartekjur og skattskylda veltu gjaldanda 750.394 kr. árið 2003, 2.382.848 kr. árið 2004, 4.415.868 kr. árið 2005 og 3.087.643 kr. árið 2006 (janúar til ágúst). Hér er um að ræða lítillega hærri fjárhæðir rekstrarárin 2003, 2004 og 2005 en samkvæmt gögnum sem lögð voru fyrir gjaldanda við skýrslutöku 8. nóvember 2006 eða sem munar 27.000 kr. fyrsta árið, 70.350 kr. annað árið og 32.000 kr. þriðja árið. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er engin grein gerð fyrir innborgunum sem mynda þennan mismun, en við athugun á fylgiskjölum með skýrslunni kemur í ljós að um er að ræða innborganir þar sem gjaldandi er sjálfur tilgreindur greiðandi og innborganir þar sem greiðandi er ekki tilgreindur. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 8. nóvember 2006 viðurkenndi gjaldandi að innborganir samkvæmt gögnum sem þar lágu fyrir, samtals 907.249 kr. árið 2003, 2.896.318 kr. árið 2004, 5.465.786 kr. árið 2005 og 3.844.137 kr. árið 2006, væru tekjur hans af þrifum fyrir húsfélög og tvo aðra aðila. Afstaða gjaldanda til annarra innborgana liggur ekki fyrir með beinum hætti og sem fyrr segir er engin umfjöllun í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um þær greiðslur. Að svo vöxnu verður í máli þessu miðað við hinar lægri fjárhæðir rekstrarárin 2003, 2004 og 2005. Skilja verður framburð gjaldanda við greinda skýrslutöku þannig að hann líti svo á að um sé að ræða tekjur af sjálfstæðri starfsemi í skilningi B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, svo sem byggt er á í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins án þess að athugasemdir hafi komið fram af hálfu gjaldanda, sbr. einnig úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 29. júní 2007. Að þessu virtu og með hliðsjón af fjölda þeirra húsfélaga sem áttu viðskipti við gjaldanda og atvikum málsins að öðru leyti þykir ekki varhugavert að byggja á því í úrskurði þessum að um tekjur gjaldanda af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi hafi verið að ræða. Ræsting telst virðisaukaskattsskyld starfsemi samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Eins og fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins voru 180.000 kr. færðar til tekna í reit 21 í skattframtölum gjaldanda árin 2005 og 2006 sem óumdeilt er að voru frá kaupendum ræstingaþjónustu gjaldanda. Í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu eru greindar fjárhæðir færðar til frádráttar vanframtöldum tekjuskatts- og útsvarsstofnum gjaldárin 2005 og 2006.

Engin gögn komu fram við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrarkostnað og innskatt gjaldanda og hefur ekkert það komið fram af hálfu gjaldanda varðandi hugsanlega frádráttarliði sem gefur tilefni til frekari lækkunar á þeim fjárhæðum sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að gjaldandi hafi á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 2004, 2005 og 2006 tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi sem skattskyldar voru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, nú lög um tekjuskatt, sbr. og 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Með vísan til þess sem fyrr greinir verður vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn að hámarki talinn nema 686.193 kr. gjaldárið 2004, 1.959.742 kr. gjaldárið 2005 og 4.022.207 kr. gjaldárið 2006.

Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda árin 2004, 2005 og 2006 leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar umrædd gjaldár þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Nánar tiltekið nam vanálagður tekjuskattur 176.695 kr. gjaldárið 2004, 504.634 kr. gjaldárið 2005 og 995.496 kr. gjaldárið 2006 og vanálagt útsvar nam 89.411 kr. fyrsta árið, 255.354 kr. annað árið og 524.094 kr. þriðja árið.

Þá þykir fullsannað með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, sem skyldur var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi á saknæman hátt vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti og virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin janúar–febrúar 2003 til og með júlí-ágúst 2006. Telst gjaldandi hafa vanrækt að gera grein fyrir skattskyldri veltu að fjárhæð 10.532.860 kr. umrædd uppgjörstímabil og virðisaukaskatti til greiðslu að fjárhæð samtals 2.580.630 kr. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

4. Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til skatts af álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 svo og álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Gjaldandi gekkst greiðlega við brotum sínum. Þá þykir bera að taka tillit til þess að nokkur dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 7.900.000 kr. til ríkissjóðs og 1.500.000 kr. til bæjarsjóðs Akureyrarkaupstaðar.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 7.900.000 kr. til ríkissjóðs og 1.500.000 kr. til bæjarsjóðs Akureyrarkaupstaðar.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum