2009

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 323/2009

30.12.2009

Úrskurður nr. 323/2009

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2009, miðvikudaginn 30. desember, er tekið fyrir mál nr. 183/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 7. júlí 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, bæði með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2005.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vanræksla á skilum skattframtals. Vanframtaldar rekstrartekjur. Möguleg rekstrargjöld.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjanesumdæmi skil, á lögmæltum tíma, á skattframtali vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2006, vegna rekstrarársins 2005. Með því vanrækti hann að gera grein fyrir rekstrartekjum sínum samtals að fjárhæð kr. 26.255.015, sem til eru komnar vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við fólksflutninga. Möguleg rekstrargjöld námu samtals kr. 21.399.844.

A stóð skil á skattframtali eftir lögboðinn framtalsfrest og eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst, eða þann 7. febrúar 2007.

Framangreind háttsemi A leiddi til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hans og þar með lægri tekjuskatts og útsvars en vera bar, svo sem greinir í eftirfarandi töflu.           

Reiknaður tekjuskattur og útsvar  

 

Rekstrarár

Vanframtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn

 

Tekjuskattur

Útsvar
2005 1.131.846                 Vanframtaldar rekstrartekjur kr 26.255.015 – möguleg rekstrargjöld kr. 21.399.844 – áætlun skattstjóra kr. 3.723.325 = 1.131.846. 280.132             1.131.846 * 24,75% = 280.132.

147.480   1.131.846 * 13,03% =

 147.480

Samtals kr. 1.131.846 280.132 147.480

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr., sbr. 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, hvorra tveggja með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 7. júlí 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. ágúst 2008, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Var bréf þetta birt gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, í framhaldi af því að hann vitjaði ekki ábyrgðarbréfs nefndarinnar, dags. 10. júlí 2008, um sama efni. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 7. júlí 2008, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þar greindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 15. janúar 2007 rannsókn á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi hans rekstrarárið 2005. Vegna rannsóknarinnar var tekin skýrsla af gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 11. júní 2007 og var rannsóknin m.a. byggð á upplýsingum sem þar komu fram, bókhaldi og bókhaldsgögnum gjaldanda, skattframtali gjaldanda og upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 9. júlí 2007, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var þann dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engar athugasemdir bárust skattrannsóknarstjóra og í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 30. júlí 2007, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kom fram að gjaldandi hefði ekki staðið skil á skattframtali árið 2006 á réttum tíma og að rekstrartekjur væru vantaldar. Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar voru rekstrartekjur gjaldanda vantaldar um 26.255.015 kr. og rekstrargjöld talin nema 21.399.844 kr.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 30. júlí 2007, að þar sem gjaldandi hafi ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2006 hafi hann sætt áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár og hefði tekjuskatts- og útsvarsstofn verið áætlaður 3.400.000 kr. auk álags samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 9/2003 að fjárhæð 323.325 kr. Skattframtal gjaldanda árið 2006 hefði verið móttekið hjá ríkisskattstjóra hinn 7. febrúar 2007.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrartekjur og rekstrargjöld gjaldanda rekstrarárið 2005 byggðu á innsendu skattframtali gjaldanda árið 2006, bókhaldi gjaldanda og bókhaldsgögnum sem skattrannsóknarstjóri fékk afhent vegna rannsóknar málsins. Kemur fram í skýrslunni að skattrannsóknarstjóri geri ekki athugasemdir við rekstrartekjur gjaldanda eða rekstrargjöld samkvæmt fyrirliggjandi skattframtali hans árið 2006 „og leggur til að skattframtalið verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda rekstrárið 2005“, svo sem segir í skýrslunni.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. júní 2007 kom fram af hálfu gjaldanda að sjálfstæð starfsemi hans á árinu 2005 hefði verið fólgin í fólksflutningum. Tilgreindur sérkunnáttumaður hefði fært bókhald gjaldanda samkvæmt gögnum sem gjaldandi hefði afhent honum, en gjaldandi vissi ekki hvenær færslunni hefði lokið. Gjaldandi hefði gefið út sölureikninga vegna vinnu sinnar og allt hefði verið greitt inn á bankareikning. Gjaldandi staðfesti skattframtal sem lagt var fyrir hann við skýrslutökuna og sagði að það hefði verið byggt á bókhaldi sínu og taldi að það gæfi rétta mynd af rekstri sínum. Gjaldandi sagði að engin sérstök skýring væri á því hvers vegna skattframtali vegna tekjuársins 2005 hefði ekki verið skilað á réttum tíma til skattyfirvalda. Þá sagðist gjaldandi hafa afhent bókara sínum öll kostnaðargögn.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. m.a. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 31. júlí 2007. Með bréfi, dags. 6. nóvember 2007, tilkynnti ríkisskattstjóri skattrannsóknarstjóra ríkisins að hann hygðist ekki nýta sér heimild til endurákvörðunar í máli gjaldanda, þar sem endurákvörðun opinberra gjalda hefði þegar átt sér stað og í samræmi við niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins.

3. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á því að gjaldandi hafi vanrækt að standa skil á skattframtali sínu árið 2006 á lögmæltum tíma og að vegna þessarar vanrækslu hafi tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda verið vantalinn um 1.131.846 kr.

Fyrir liggur að gjaldandi taldi ekki fram til skatts árið 2006 innan tilskilins framtalsfrests, en skattframtal gjaldanda það ár barst ríkisskattstjóra hinn 7. febrúar 2007, þ.e. nokkru eftir að skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn á skattskilum gjaldanda. Samkvæmt því sem fram kemur í bréfi ríkisskattstjóra til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 6. nóvember 2007, sem er meðal gagna málsins, var skattframtal þetta lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldanda gjaldárið 2006 í stað áætlunar skattstjóra, en hvorki kemur þó fram í bréfi þessu né öðrum gögnum málsins hvort ríkisskattstjóri hafi sjálfur tekið þá ákvörðun eða skattstjóri í umboði hans, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, og þá hvenær sá úrskurður hafi verið kveðinn upp. Þá liggur að öðru leyti ekkert frekar fyrir í málinu um þessa skattákvörðun, þar á meðal um afstöðu viðkomandi skattyfirvalds til álagsbeitingar vegna síðbúinna framtalsskila. Á hinn bóginn þykir ljóst að við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins komu ekki fram neinir annmarkar á tekjuskráningargögnum gjaldanda og tekjuskráningu eða grundvelli skattskila hans að öðru leyti. Eins og málið er vaxið samkvæmt framansögðu, auk þess sem ekki liggur annað fyrir en að um einstakt tilvik síðbúinna framtalsskila sé að ræða, verður gjaldanda ekki gerð sekt á þeim grundvelli sem krafist er af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Úrskurðarorð: 

Gjaldanda, A, verður ekki gerð sekt í máli þessu.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum