2009

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 324/2009

30.12.2009

Úrskurður nr. 324/2009

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2009, miðvikudaginn 30. desember, er tekið fyrir mál nr. 381/2009; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 3. nóvember 2009, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2005, 2006, 2007 og 2008.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar til skattstjórans í Reykjavík vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2005, 2006, 2007 og 2008 og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 13.994.917 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 3.428.768.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

Uppgjörs-tímabil Vantalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur
2005 jan. – feb. 677.250 165.927
2005 mar. – apr. 718.200 175.959
2005 maí – jún. 699.300 171.329
2005 júl. – ágú. 727.650 178.275
2005 sept. – okt. 698.250 171.072
2005 nóv. – des. 814.810 199.626
Samtals kr.   4.335.460 1.062.188
2006 jan. – feb. 597.450 146.376
2006 mar. – apr. 586.629 143.724
2006 maí – jún. 748.098 183.284
2006 júl. – ágú. 569.100 139.430
2006 sept. – okt. 696.150 170.557
2006 nóv. – des. 551.250 135.056
Samtals kr.   3.748.677 918.427
2007 jan. – feb. 670.950 164.383
2007 mar. – apr. 339.150 83.092
2007 maí – jún. 319.975 78.394
2007 júl. – ágú. 699.300 171.330
2007 sept. – okt. 579.150 141.892
2007 nóv. – des. 317.271 77.732
Samtals kr.   2.925.796 716.823
2008 jan. – feb. 79.800 19.551
2008 mar. – apr. 180.900 44.322
2008 maí – jún. 646.650 158.430
2008 júl. – ágú. 685.794 168.021
2008 sept. – okt. 664.200 162.731
2008 nóv. – des. 727.650 178.275
Samtals kr.   2.984.994 731.330
Samtals öll árin kr.   13.994.927 3.428.768

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna rekstraráranna 2005, 2006 og 2008, hefur A verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kr. 69.070, er komi til frádráttar við sektarákvörðun.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 3. nóvember 2009, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með ábyrgðarbréfi yfirskattanefndar, dags. 4. nóvember 2009, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Var bréfið endursent yfirskattanefnd með því að hann væri farinn. Reynt var að koma fram birtingu fyrir gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. nóvember 2009, en birting tókst ekki.

III.

Sú regla kemur fram í 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til opinberrar rannsóknar af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sökunauts ef hann vill eigi hlíta því að mál verði afgreitt af yfirskattanefnd samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins. Ákvæði þetta ber að skilja svo að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti ekki vísað máli til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd nema málið hafi áður verið borið undir gjaldanda og hann hafi gefið skattrannsóknarstjóra til kynna á sannanlegan hátt að hann mæli því ekki í gegn að málið hljóti sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd. Þar sem afstaða gjaldanda, A, til meðferðar málsins fyrir yfirskattanefnd liggur ekki fyrir eru ekki skilyrði til þess að fjalla um málið fyrir yfirskattanefnd og er málinu því vísað frá.

Þessi niðurstaða breytir engu um heimild skattrannsóknarstjóra ríkisins til þess að ákveða af sjálfsdáðum hvort efni séu til að vísa máli til opinberrar rannsóknar og almennrar sakamálameðferðar fyrir dómstólum.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá yfirskattanefnd. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum