2009

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 50/2009

1.4.2009

Úrskurður nr. 50/2009

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2009, miðvikudaginn 1. apríl, er tekið fyrir mál nr. 231/2007; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 9. júlí 2007, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, framin vegna tekjuársins 2003.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum skattframtals á lögmæltum tíma. Vanframtaldar fjármagnstekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjavík á lögmæltum tíma skil á skattframtali og fylgigögnum þess vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2004, vegna rekstrarársins 2003, og með því vanrækt að gera grein fyrir fjármagnstekjum sínum að fjárhæð kr. 7.784.333, sem er greiðsla vegna ábyrgðarþóknunar frá X ehf.

Með því að vanrækja að gera grein fyrir fjármagnstekjum sínum samkvæmt framangreindu kom A sér hjá álagningu fjármagnstekjuskatts á tekjuárinu 2003, svo sem hér greinir: 

Tekjuár Vanframtalinn fjármagnstekjuskattsstofn Fjármagnstekjuskattur (10%)
2003 7.784.333 778.433

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. C lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 9. júlí 2007, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. júlí 2007, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði þá málið endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. júlí 2007, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 22. ágúst 2005 rannsókn á tekjum og skattskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 2003 og 2004 er laut að ábyrgðarþóknun vegna veittra ábyrgða fyrir X ehf. Tilefni rannsóknarinnar var tilkynning frá ríkisskattstjóra, dags. 30. maí 2005, um meint skattsvik, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og 4. tölul. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. Umrædd ár gegndi gjaldandi starfi framkvæmdastjóra Z, útibús á Íslandi. Með bréfi, dags. 8. mars 2006, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Með bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 22. apríl 2006, voru lagðar fram athugasemdir við rannsókn skattrannsóknarstjóra. Rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk með skýrslu, dags. 27. apríl 2006, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri, sbr. kafla í skýrslunni um lok rannsóknarinnar þar sem fjallað var um framkomnar athugasemdir.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. apríl 2006, kom fram að gjaldandi hefði ekki staðið skil á skattframtölum árin 2004 og 2005 til skattyfirvalda á lögmæltum tíma og að af þeim sökum hefði skattstjóri áætlað skattstofna gjaldanda að viðbættu álagi, samtals að fjárhæð 9.370.968 kr. vegna tekjuársins 2003 og 9.810.754 kr. vegna tekjuársins 2004. Við skýrslutöku af gjaldanda 20. október 2005 hefði hann skýrt frá því að hann hefði á sínum tíma staðið skil á öllum gögnum vegna framtalsgerðar til tilgreindrar endurskoðunarstofu, en sá starfsmaður sem séð hefði um mál gjaldanda hefði hætt störfum og því hefði skattframtölunum ekki verið skilað á lögmæltum tíma. Væri því um mistök að ræða hjá endurskoðunarstofunni. Gjaldandi hefði staðið skil á skattframtölum sínum árin 2004 og 2005 til ríkisskattstjóra hinn 29. september 2005 samkvæmt móttökuáritun. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins var gerð grein fyrir rannsókn embættisins á tekjum gjaldanda frá X ehf. á árinu 2003, nánar tiltekið ábyrgðarþóknun að fjárhæð 7.784.333 kr., en kærandi átti 25% hlut í einkahlutafélaginu. Við skýrslutöku 20. október 2005 staðfesti gjaldandi að hafa fengið umrædda þóknun greidda. Skattrannsóknarstjóri ríkisins tók fram að þóknunin væri færð sem vaxtatekjur í skattframtali gjaldanda árið 2004.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins var tekið fram í niðurstöðukafla að ekki hefði verið staðin skil á skattframtölum gjaldanda vegna tekjuáranna 2003 og 2004 á lögmæltum tíma til skattyfirvalda. Gjaldandi hefði staðið skil á skattframtölunum eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst. Um grundvöll skattskila gjaldanda kom fram að skattrannsóknarstjóri ríkisins teldi að byggja mætti álagningu opinberra gjalda kæranda á þeim skattskilagögnum sem afhent hefðu verið eftir að rannsókn hófst, þ.e. skattframtölum árin 2004 og 2005.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar með bréfi, dags. 28. apríl 2006, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í framhaldi af boðunarbréfi, 4. desember 2006, og að fengnum andmælum umboðsmanns gjaldanda í bréfi, dags. 16. desember 2006, tók ríkisskattstjóri opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2004 og 2005 til endurákvörðunar með úrskurði, dags. 29. desember 2006, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. og 96. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurði ríkisskattstjóra var vísað til þess að gjaldandi hefði ekki staðið skil á skattframtölum árin 2004 og 2005 innan lögboðins frests og því sætt áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda gjaldárin 2004 og 2005. Við endurákvörðun ríkisskattstjóra væri byggt á þeim skattframtölum sem gjaldandi hefði nú staðið skil á. Samkvæmt úrskurðinum lækkaði tekjuskatts- og útsvarstofn gjaldanda gjaldárin 2004 og 2005 svo og eignarskattsstofn gjaldárið 2004, en eignarskattsstofn hækkaði gjaldárið 2005 frá áætlun skattstjóra. Þá var gjaldanda ákvarðaður stofn til fjármagnstekjuskatts bæði gjaldárin. Samkvæmt skattbreytingaseðlum með úrskurðinum leiddi endurákvörðun ríkisskattstjóra til hækkunar gjalda gjaldanda um 867.158 kr. gjaldárið 2004 og um 6.234.249 kr. gjaldárið 2005. Í tilefni af framkomnum athugasemdum umboðsmanns gjaldanda, sem ríkisskattstjóri taldi að skilja bæri sem mótmæli við álagsbeitingu, tók ríkisskattstjóri fram að álagsbeiting hefði ekki verið boðuð í boðunarbréfi embættisins, dags. 4. desember 2006, að öðru leyti en varðaði álag samkvæmt 1. mgr. 122. gr. laga nr. 90/2003, en það álag væri lögbundið og ekki heimild í lögum til að lækka það eða fella niður.

3. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á því að gjaldandi hafi vanrækt að standa skil á skattframtali sínu árið 2004 á lögmæltum tíma og að vegna þessarar vanrækslu hafi fjármagnstekjur verið vantaldar um 7.784.333 kr.

Eins og fram er komið stóð gjaldandi skil á skattframtali sínu árið 2004 til ríkisskattstjóra hinn 29. september 2006 og var skattframtalið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldanda gjaldárið 2004 í stað áætlunar áður, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 29. desember 2006. Samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra kom ekki til beitingar álags samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 vegna síðbúinna framtalsskila. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 20. október 2005 gaf gjaldandi skýringar á því að framtalsskyldu hans hefði ekki verið sinnt innan tilskilins framtalsfrests árin 2004 og 2005, en ekki voru þau atvik, sem gjaldandi bar um í þessu sambandi, rannsökuð frekar af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins þrátt fyrir augljósa þýðingu þeirra við mat á refsinæmi meintrar vanrækslu. Að svo vöxnu verður byggt á framkomnum skýringum gjaldanda um ástæður síðbúinna framtalsskila. Rétt er að fram komi að almennt geta framteljendur ekki losnað undan ábyrgð sinni á því að skattframtal berist skattstjóra á réttum tíma með því að fela öðrum gerð þess og skil, þótt telja verði að til þess geti komið að viðurlögum verði ekki beitt vegna atvika sem varða sérfróðan aðstoðarmann skattaðila við gerð skattframtals, sbr. til hliðsjónar m.a. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 814/1982, sem varðar beitingu álags vegna síðbúinna framtalsskila, en úrskurður þessi er birtur á bls. 256-257 í úrskurðasafni nefndarinnar vegna uppkveðinna úrskurða á árunum 1981 og 1982. Þegar litið er til þess sem hér hefur verið rakið, þar á meðal afstöðu ríkisskattstjóra til álagsbeitingar, verða gjaldanda ekki ákvörðuð viðurlög á þeim grundvelli sem krafist er af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Úrskurðarorð:

Gjaldanda, A, verður ekki gerð sekt í máli þessu. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum