2017

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 169/2017

1.11.2017

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

 

Ár 2017, miðvikudaginn 1. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 116/2017; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. […], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 29. ágúst 2017, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. […], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2015.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

A sem stjórnarmanni og prókúruhafa X ehf., kt. […] er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Offramtalinn innskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd X ehf, kt. […], vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl, júlí–ágúst, september­–október og nóvember–desember rekstrarárið 2015, með því að offramtelja innskatt skattaðila á virðisaukaskattsskýrslum.

Offramtalinn innskatt má í fyrsta lagi rekja til tilboðs frá Y ehf. um sölu á tilteknum vörum að heildarfjárhæð kr. 407.923 sem fært var í bókhald skattaðila uppgjörstímabilið mars–apríl rekstarárið 2015 en þar af var innskattur færður að fjárhæð kr. 78.953. Sölureikning á grundvelli tilboðsins var ekki að finna í bókhaldi skattaðila og hafði að sögn A yfirsést að bakfæra nefnda færslu.

Í öðru lagi má rekja offramtalinn innskatt til sölureiknings frá Z ehf., dags. 20. júlí 2015, sem tvívegis var færður í bókhald skattaðila, annars vegar með fylgiskjalanúmerinu 3 og hins vegar með fylgiskjalanúmerinu 27. Fjárhæð reikningsins var kr. 57.576 og innskattur þar af kr. 768.

Í þriðja lagi var innskattur offramtalinn vegna tveggja sölureikninga og kreditreiknings á rekstrartímabilinu september–október 2015. Sölureikningur nr. SR14086701 með fylgiskjalsnúmerinu 23 sem upprunalega var gefinn út af W hf. á hendur Æ sf. á árinu 2014, var breytt, að því er virðist af skattaðila, þannig að reikningurinn var gefinn út á skattaðila. Var fjárhæð reikningsins kr. 909.874 og innskattur vegna hans offramtalinn um kr. 176.105, sem er 24% af heildarfjárhæð keyptra vara og þjónustu. Þá var reikningur nr. SR15117979 sem gefinn var út af W hf. á hendur X ehf. færður þrisvar í bókhald skattaðila á uppgjörstímabilinu með mismunandi fjárhæðum. Innskattur vegna tveggja reikninga var því offramtalinn, þ.e. þeirra sem færðir voru með fylgiskjalanúmerinu 39, að fjárhæð kr. 1.822.107, þar af innskattur kr. 352.666 og með fylgiskjali nr. 40, að fjárhæð kr. 909.875, þar af innskattur kr. 176.105. Þá var innskattur vegna kreditreiknings nr. SK15007351 offramtalinn um kr. 416, en í bókhaldi skattaðila var umræddan reikning ekki að finna.

Í fjórða og síðasta lagi verður offramtalinn innskattur rakinn til fjögurra sölureikninga sem oftar en einu sinni voru færðir í bókhald skattaðila á rekstrartímabilinu nóvember–desember 2015 sem og kreditreikningur sem bókaður var sem sölureikningur á sama tímabili. Þannig var sölureikningur frá Y ehf. nr. SG1520574 þrívegis færður í bókhaldi skattaðila á uppgjörstímabilinu, með fylgiskjalanúmerunum 31, 32 og 56, en fjárhæð hans var kr. 41.334, þar af innskattur kr. 8.002. Innskattur vegna hans var því offramtalinn um kr. 16.004. Þá var sölureikningur frá Y ehf. nr. SG1520574 þrívegis færður í bókhaldið með mismunandi fjárhæðum en reikningurinn var bakfærður einu sinni skv. fylgiskjalanúmeri 69 og var hann samkvæmt því færður breyttur í bókhald skattaðila skv. fylgiskjalanúmeri 29 að fjárhæð 1.729.000 með innskatt að fjárhæð kr. 334.812. Þá var reikningur nr. SR15140435, frá W hf., færður tvívegis til innskatts, annars vegar með fylgiskjalanúmerinu 38 og hins vegar með 63, en fjárhæð reikningsins var kr. 338.641, þar af innskattur kr. 65.543. Innskattur vegna hans var því offramtalinn um kr. 65.543. Þá var reikningur nr. SR15140687 frá W hf. tvívegis færður í bókhald skattaðila með sömu fjárhæðum, annars vegar með fylgiskjalanúmerinu 37 og hins vegar með fylgiskjalanúmerinu 62. Fjárhæð reikningsins var kr. 811.309, þar af innskattur kr. 157.028. Að lokum var kreditreikningur frá W nr. SK15008954 bókaður sem sölureikningur með fylgiskjali númer 66 þar sem fjárhæð reikningsins var tilgreind kr. 1.822.107, þar af innskattur kr. 352.666. Upprunalega var fjárhæð reikningsins í kredit kr. 196.761, þar af innskattur kr. 38.083 en umræddan reikning var ekki að finna í bókhaldinu og er því innskatturinn að auki offramtalinn um kr. 38.083.

Hafa tilhæfulausir sölureikningar verið færðir í bókhaldi skattaðila og er innskattur offramtalinn um kr. 1.749.149, eins og nánar er gerð grein fyrir í eftirfarandi töflu:

Uppgjörstímabil rekstrarárið 2015 Fskj. nr. Útgefandi reiknings Fjárhæð Oftalinn innskattur
mars – apríl 24 Y ehf. 407.923 78.953
júlí – ágúst 27 Z ehf. 57.576 768
sept. – okt. 23 W ehf. 909.875 176.105
sept. – okt. 39 W ehf. 1.822.107 352.666
sept. – okt. 40 W ehf. 909.875 176.105
sept. – okt.   W ehf. 2.148 416
nóv. – des. 31 Y ehf. 41.344 8.002
nóv. – des. 32 Y ehf. 41.344 8.002
nóv. – des. 29 Y ehf. 1.729.000 334.812
nóv. – des. 38 W ehf. 338.641 65.543
nóv. – des. 37 W ehf. 811.309 157.028
nóv. – des. 66 W ehf. 1.822.107 352.666
nóv. – des.   W ehf. 196.761 38.083
Samtals kr.     9.090.010 1.749.149

 

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 16. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framanlýst háttsemi varðar A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 29. ágúst 2017, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með ábyrgðarbréfi yfirskattanefndar, dags. 4. september 2017, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um það hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var bréf til gjaldanda, A á tilgreint heimilisfang í N, endursent yfirskattanefnd með því að gjaldandi hefði ekki móttekið bréfið.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 29. ágúst 2017, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því að hann hafi sem stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf., kt. […], skilað efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum og offramtalið innskatt félagsins tiltekin greiðslutímabil ársins 2015.

Sú regla kemur fram í 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til opinberrar rannsóknar af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sökunauts ef hann vill eigi hlíta því að mál verði afgreitt af yfirskattanefnd samkvæmt framangreindum ákvæðum. Ákvæði þessi ber að skilja svo að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti ekki vísað máli til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd nema málið hafi áður verið borið undir gjaldanda og hann hafi gefið skattrannsóknarstjóra til kynna á sannanlegan hátt að hann mæli því ekki í gegn að málið hljóti sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd. Þar sem afstaða gjaldanda, A, til meðferðar málsins fyrir yfirskattanefnd liggur ekki fyrir eru ekki skilyrði til þess að fjalla um málið hvað hann varðar fyrir yfirskattanefnd og er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda því vísað frá.

Þessi niðurstaða breytir engu um heimild skattrannsóknarstjóra ríkisins til þess að ákveða af sjálfsdáðum hvort efni séu til að vísa máli gjaldanda til opinberrar rannsóknar og almennrar sakamálameðferðar fyrir dómstólum.

Úrskurðarorð:

Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda, A, er vísað frá yfirskattanefnd.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum