2017

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 170/2017

1.11.2017

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

 

Ár 2017, miðvikudaginn 1. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 78/2017; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. […], og B, kt. […], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 8. maí 2017, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. […], og B, kt. […], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, framin vegna tekjuáranna 2012 og 2013.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„B og A er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á skattframtölum. Vanframtaldar skattskyldar tekjur og eignir.

B og A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattyfirvöldum skil á skattframtölum gjaldárin 2013 og 2014, vegna tekjuáranna 2012 og 2013, og með því hafi B vanframtalið tekjur sínar eins og nánar er tilgreint í eftirfarandi töflu:

Laun- og starfstengdar greiðslur B

Tekjuár Launagreiðslur Dagpeningar Bifreiðahlunnindi
2012 18.619.250 1.122.643 1.245.720
2013 19.611.111 1.916.972 1.263.672
Samtals kr. 38.230.361 3.039.615 2.509.392

 

Fjármagnstekjur B

Tekjuár Vaxtatekjur innlendra bankareikninga Arður B
2012 3.696.422 394.577.554
2013 22.009.888 848.537.986
Samtals kr. 25.706.310 1.243.115.540

 

og A vanframtalið fjármagnstekjur sínar eins og nánar er tilgreint í eftirfarandi töflu:

Fjármagnstekjur A

Tekjuár Arður A
2012 12.292.895
2013 26.435.838
Samtals kr.: 38.728.733


Með vanrækslu á skilum á skattframtölum sínum hafa þau B og A einnig vanrækt að telja fram innlendar eignir sínar sem tilgreindar eru í eftirfarandi töflu.

Hlutabréfaeign tekjuárið 2012

Félag B A
X hf. 55.261.377 1.721.664
Z ehf. 0 166.000
Y hf. 275.461.932 8.581.899
W ehf. 400.000 0
Æ ehf. 22.244.605 0
V hf. 101 0
Samtals kr. 353.368.015 10.469.543

 

Hlutabréfaeign tekjuárið 2013

Félag B A
X hf. 55.261.377 1.721.664
Z ehf. 0 166.000
Y hf. 275.461.932 8.581.899
W ehf. 400.000 0
Æ ehf. 22.244.605 0
V hf. 157 0
Samtals kr. 353.368.071 10.469.543

 

Fasteignir B og A

Tekjuár Fasteignir
2012 109.363.000
2013 133.910.000
Samtals kr. 243.273.000


Auk framangreindra eigna hefur B vanrækt að gefa upp stórt eignasafn sitt í erlendum bönkum á skattframtölum sínum til skattyfirvalda. Höfðu skattyfirvöld aldrei verið upplýst um þær eignir B.

Eignasafn hjá […]

Tekjuár Staða í árslok ISK Þar af vextir ISK
2012 289.812.893 2.264.384
2013 193.197.160 0
Samtals kr. 483.010.053 2.264.384


Leiddi háttsemi B og A til endurákvörðunar tekjuskatts- og útsvarsstofna þeirra en vera bar gjaldárin 2013 og 2014 (sic), vegna tekjuáranna 2012 og 2013, þar eð skattstofnar hefðu verið áætlaðir af hálfu ríkisskattstjóra vegna umræddra ára.

Sú háttsemi B og A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 90. gr., sbr. og 1. tölul. A. liðar og 3. og 4. tölul. C-liðar 7. gr. sbr. og VII. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi B og A sekt samkvæmt 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að B og A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 8. maí 2017, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 11. maí 2017, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þau vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldendum.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 8. maí 2017, er gerð sú krafa að gjaldendum, A og B, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldendur hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þau mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldenda tekjuárin 2012 og 2013, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 30. desember 2016. Rannsókn þessi hófst formlega 16. nóvember 2015. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi, B, til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 19. maí 2016 og gjaldandi, A, 15. nóvember 2016. Var rannsókn í máli gjaldenda byggð á upplýsingum sem fram komu við fyrrgreindar skýrslutökur, en einnig var byggt á upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda, upplýsingum og gögnum frá bankastofnunum og upplýsingum um félag tengt B á lágskattasvæði. Með bréfum, dags. 12. desember 2016, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldendum skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Meðfylgjandi beiðni um viðbótarfrest til andmæla sendi B skattrannsóknarstjóra gögn um erlenda félagið Þ, en frekari athugasemdir bárust ekki. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 30. desember 2016, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin gögn þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 30. desember 2016, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á skattskilum skattaðila fyrir tekjuárin 2012 til og með 2013 eru:

 • Vanrækt hefur verið að standa skil á skattframtölum gjaldáranna 2013 og 2014 þrátt fyrir umtalsverðar tekjur og eignir.“

  Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldenda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 3. janúar 2017. Með bréfum, dags. 29. mars 2017, tilkynnti ríkisskattstjóri gjaldendum og skattrannsóknarstjóra ríkisins að hann hygðist ekki aðhafast frekar í málinu.

  3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 30. desember 2016, kemur fram að gjaldendur hafi ekki skilað skattframtölum vegna tekjuáranna 2012 og 2013 og því sætt áætlun ríkisskattstjóra. Við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 19. maí 2016 og 15. nóvember 2016 gátu gjaldendur ekki gefið skýringar á því hvers vegna skattframtölum þeirra hefði ekki verið skilað. Er rakið í skýrslunni að við upphaf rannsóknar hafi legið fyrir að gjaldendur hafi ekki staðið skil á skattframtölum allt frá tekjuárinu 2005 og hafi álagning skatta því verið byggð á áætlunum ríkisskattstjóra. Hafi ákvörðun um að hefja rannsókn á skattskilum gjaldanda, B, verið tekin á grundvelli upplýsinga sem skattrannsóknarstjóra bárust um félag í hans eigu á lágskattasvæði. Í skýrslunni er rakið að vegna tekjuársins 2012 hafi gjaldanda, A, verið áætlaður tekjuskattsstofn með álagi 3.220.000 kr. og gjaldanda, B, 187.301.955 kr. Hafi gjaldendum ekki verið áætlaðar fjármagnstekjur, en áætlaður stofn til auðlegðarskatts með álagi væri 6.814.210.000 kr. Vegna tekjuársins 2013 hafi A verið áætlaður tekjuskattsstofn með álagi 3.795.000 kr. og B 212.696.862 kr. Stofn til fjármagnstekjuskatts hafi verið áætlaður 22.369.888 kr. auk álags að fjárhæð 3.355.483 kr. Áætlaður stofn til auðlegðarskatts með álagi væri 9.403.780.000 kr. Er tekið fram í skýrslunni að álagðir skattar á grundvelli áætlana ríkisskattstjóra hafi verið greiddir.

  Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er kafli um tekjur og eignir gjaldenda, en þar kemur m.a. fram að B hafi verið framkvæmdastjóri útgerðar Y hf. á rannsóknartímabilinu. Hafi eign B í Y hf. numið 275.461.932 kr. í árslok áranna 2012 og 2013 og eign A í félaginu numið 8.581.827 kr. á sama tíma. Samkvæmt sundurliðunarblöðum ríkisskattstjóra hafi B fengið launagreiðslur að fjárhæð 18.619.250 kr. árið 2012 og 19.611.111 kr. árið 2013. Þá hafi dagpeningagreiðslur til B numið 1.122.643 kr. fyrra árið og 1.916.972 kr. seinna árið og bifreiðahlunnindi 1.245.720 kr. fyrra árið og 1.263.672 kr. seinna árið. Hafi A starfað sem húsmóðir á rannsóknartímabilinu og ekki fengið launagreiðslur. Þá hafi gjaldendur haft vaxtatekjur upp á 3.696.422 kr. árið 2012 og 22.009.888 kr. árið 2013. Ennfremur hafi B fengið greiddar 394.577.554 kr. í arð árið 2012 og 848.537.986 kr. árið 2013 og A 12.292.895 kr. fyrra árið og 26.435.838 kr. seinna árið. Þá er í skýrslunni gerð grein fyrir hlutabréfaeign gjaldenda samkvæmt sundurliðunarblöðum ríkisskattstjóra en samkvæmt þeim hafi B átt hlutabréf að verðmæti samtals 353.368.015 kr. árið 2012 og 353.368.071 kr. árið 2013 og A hlutabréf að verðmæti 10.469.543 kr. bæði árin. Ennfremur hafi gjaldendur átt fasteignir að verðmæti 109.363.000 kr. árið 2012 og 133.910.000 kr. árið 2013 og eignir erlendis að verðmæti 289.812.893 kr. (þar af vextir 2.264.384 kr.) árið 2012 og 193.197.160 kr. árið 2013.

  Í skýrslunni er ennfremur kafli um rannsókn skattrannsóknarstjóra á tengslum B við félagið Þ sem skráð var á lágskattasvæði.

  4. Samkvæmt því sem að framan er rakið vanræktu gjaldendur að standa skil á skattframtölum sínum árin 2013 og 2014, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003, innan tilskilins framtalsfrests samkvæmt 93. gr. laganna. Með tilliti til þessarar vanrækslu gjaldenda krefst skattrannsóknarstjóri ríkisins ákvörðunar sektar á hendur þeim með vísan til ákvæðis 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Í 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 segir: „Hafi maður af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi vanrækt að gegna skyldu sinni samkvæmt ákvæðum 90., 92. eða 94. gr. skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“ Eins og fyrr greinir hafa engar skýringar komið fram af hálfu gjaldenda um ástæður þess að þau stóðu ekki skil á skattframtölum sínum árin 2013 og 2014. Með stoð í gögnum málsins verður talið að nægilega sé fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem að framan greinir. Ber að gera gjaldendum sekt eftir greindu lagaákvæði vegna vanrækslu á framtalsskilum gjaldárin 2013 og 2014.

  Ákvarða ber gjaldendum, A og B, sekt samkvæmt framangreindu ákvæði 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Í greinargerð, dags. 8. maí 2017, sem fylgdi kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins til yfirskattanefndar, er gerð krafa um að gjaldanda, A, verði gerð sekt vegna framangreindrar háttsemi og að gjaldanda, B, verði gerð hámarkssekt vegna sömu háttsemi. Krafa skattrannsóknarstjóra um hámarkssekt á hendur gjaldanda, B, er hins vegar ekki nánar afmörkuð af hálfu embættisins. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að með 2. gr. laga nr. 39/2000, um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, var ákvæði um hámarksfjárhæð fésektar fellt brott úr lögum, sbr. áður 50. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hvað sem þessu líður er fram komið í málinu að gjaldendur hafi um árabil vanrækt að standa skil á skattframtölum samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og að gjaldendur hafi af þessum sökum sætt áætlun skattstofna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, allt frá árinu 2005. Við ákvörðun sektarfjárhæðar þykir hafa þýðingu að ríkisskattstjóri sá ekki ástæðu til að endurákvarða skatta gjaldenda í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. bréf ríkisskattstjóra þess efnis, dags. 29. mars 2017, og voru áætlanir ríkisskattstjóra á skattstofnum gjaldenda vegna viðkomandi gjaldára látnar standa óhaggaðar. Á hinn bóginn verður einnig að líta til þess að með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins var leitt í ljós að gjaldendur hafa með vanrækslu sinni á skilum skattframtala ítrekað látið hjá líða að gera grein fyrir tekjum og eignum svo verulegum fjárhæðum nemur. Þá liggur fyrir að gjaldendur hafa ekki, þrátt fyrir rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum þeirra, staðið ríkisskattstjóra skil á skattframtölum vegna umræddra gjaldára. Að þessu virtu og þegar litið er til þess sem fyrir liggur um fjárhagsleg umsvif gjaldenda, einkum þó gjaldanda, B, sbr. 1. mgr. 51. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir sekt gjaldanda, A, hæfilega ákveðin 1.000.000 kr. til ríkissjóðs svo og þykir sekt gjaldanda, B, hæfilega ákveðin 5.000.000 kr. til ríkissjóðs.

  Úrskurðarorð:

  Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 1.000.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 5.000.000 kr. til ríkissjóðs.

   

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum