Reiknað endurgjald 2022
Almennt
Maður sem starfar við eigin atvinnurekstur á að reikna sér endurgjald (laun) fyrir þá vinnu. Með þessi laun fer á sama hátt og almennar launagreiðslur til launþega, þ.e. reikna þarf af þeim staðgreiðslu opinberra gjalda, greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð.
Reglan á bæði við um mann sem stundar atvinnustarfsemi í eigin nafni (eigin kennitölu) og mann sem starfar við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum, eða við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.
Fjárhæð reiknaðs endurgjalds (launa)
Reiknað endurgjald á ekki að vera lægra en launatekjur manns hefðu orðið ef hann hefði unnið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Sama gildir um endurgjald fyrir starf maka manns, barns hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, venslamanns hans eða nákomins ættingja.
Sjá nánar viðmiðunarfjárhæðir
Viðmiðunarreglur
Ríkisskattstjóri setur árlega reglur um lágmark reiknaðs endurgjalds með hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf, að viðbættum hvers konar hlunnindum og skiptir ekki máli hvernig þau eru greidd eða í hvaða formi þau eru. Reglunar eru birtar árlega í B-deild Stjórnartíðinda.
Viðmiðunarreglunum er skipt upp eftir starfaflokkum A-H. Fjárhæðirnar eru lágmarksviðmiðun og taka mið af almennum taxtalaunum þannig að ef greidd eru einhvers konar hlunnindi til viðbótar, t.d. bifreiðahlunnindi, þá skulu þau metin samkvæmt skattmatsreglum og bætast við fjárhæðir samkvæmt viðkomandi viðmiðunarflokki. Viðmiðunarreglurnar eru birtar í sérstökum kafla.
Lágmarksfjárhæðir
Ákveða á reiknað endurgjald þannig að það sé eigi lægra en maður hefði haft sem laun fyrir sama starf hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Sú fjárhæð sem þannig er ákvörðuð á að jafnaði ekki að vera lægri en viðmiðunarfjárhæð sem ákveðin er í reglum ríkisskattstjóra en getur verið hærri eða lægri eftir því sem tilefni er til með hliðsjón af raunverulega greiddum launum fyrir sambærileg störf hjá óskyldum eða ótengdum aðila, umfangi og eðli starfseminnar og starfsins, taxta fyrir útselda vinnu í starfsgreininni, afkomu rekstrarins og fé sem bundið var í rekstrinum í ársbyrjun.
Reiknað endurgjald manns, sem selur út eigin vinnu eða vinnu starfsmanna sinna, skal aldrei vera lægra en sem svarar til launa starfsmanns hans við reksturinn, með sambærilega menntun, reynslu og vinnuframlag.
Annað launað starf
Ef sá sem ber að reikna sér endurgjald er í öðru launuðu föstu starfi eða öðru starfi sem reikna skal endurgjald fyrir er heimilt að lækka viðmiðunarfjárhæðirnar. Lækkunin má nema þeirri fjárhæð sem laun eða reiknað endurgjald fyrir hitt starfið er umfram 50% af viðmiðunarfjárhæðinni, þó þannig að það verði aldrei lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæðinni að viðbættri hækkun sem ákvörðuð er vegna ákvæða um lágmark reiknaðs endurgjalds.
Sameiginlegur rekstur hjóna og samskattaðra
Þegar hjón eða samskattað sambúðarfólk stendur saman að atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi skal hvort um sig ákvarða sér reiknað endurgjald í samræmi við viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra. Rekstrarhagnaði er skipt á milli þeirra í hlutfalli við reiknað endurgjald þeirra.
Vinna við rekstur maka
Ef einungis annað hjóna eða samskattaðra stendur fyrir atvinnurekstri en hitt vinnur engu að síður við reksturinn á að reikna endurgjald fyrir þá vinnu eins og starfið hafi verið unnið af óskyldum eða ótengdum aðila. Rekstrarhagnaður telst þá vera tekjur þess sem stendur fyrir atvinnurekstrinum.
Ráðandi aðili
Ef unnið er við atvinnurekstur lögaðila ber að reikna endurgjald ef maður er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, þó ekki ef um er að ræða starf á vegum lögaðila sem skráður er á opinberum verðbréfamarkaði. Maður telst ráðandi aðili ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum, eða starfandi hluthöfum, á samtals 50% hlut eða meira í lögaðila, og á sjálfur 5% hlut eða meira í lögaðilanum. Með nákomnum ættingjum er átt við þá sem tengdir eru fjölskylduböndum, þ.m.t. tengsl sem skapast við ættleiðingu eða fóstur. Tengsl þessi teljast á sama hátt vera fyrir hendi ef um er að ræða óbeina eignar- eða stjórnunaraðild svo sem starfi maður hjá dótturfélagi eða hlutdeildarfélagi félags sem hann hefur ráðandi stöðu í. Sömu reglur gilda einnig um starfandi hluthafa sem ekki eru tengdir fjölskylduböndum, þ.e. eigi hópur starfandi hluthafa meira en 50% í lögaðila þá skulu viðmiðunarreglur um reiknað endurgjald gilda um þá ef eignarhlutur viðkomandi er a.m.k. 5%.
Starfandi hluthafar sem ekki tengjast fjölskylduböndum
Þær reglur sem gilda um hvenær starfandi hluthafar sem tengjast fjölskylduböndum teljast verða ráðandi aðilar gilda einnig um starfandi hluthafa sem ekki eru tengdir fjölskylduböndum.
Starf fyrir lögaðila á opinberum verðbréfamarkaði
Reglur um reiknað endurgjald gilda ekki fyrir hluthafa sem starfa á vegum lögaðila sem skráður er á opinberum verðbréfamarkaði.
Staðgreiðsluskil
Skila á staðgreiðslu opinberra gjalda af reiknuðu endurgjaldi á sama hátt og af öðrum launagreiðslum. Þetta á við í öllum tilvikum, þ.e. hvort heldur unnið er við eigin atvinnurekstur, atvinnurekstur maka eða atvinnurekstur lögaðila. Staðgreiðslan er bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars á tekjuári.
Áætlun tekna á staðgreiðsluári
Maður sem starfar við eigin atvinnurekstur á að tilkynna ríkisskattstjóra um áætlaðar tekjur sínar á staðgreiðsluárinu í samræmi við reglur um reiknað endurgjald og standa skil á staðgreiðslu af þeirri fjárhæð eins og um greidd laun hafi verið að ræða. Sama á við ef maki eða annar sá sem fellur undir reglur þessar vinnur við atvinnureksturinn.
Ef um er að ræða starf í þágu lögaðila og laun fyrir starfið eru lægri en samkvæmt viðmiðunarreglunum ber að miða við fjárhæðir samkvæmt þeim og standa skil á staðgreiðslu samkvæmt því.
Tekjur lægri en viðmiðunarfjárhæðir
Telji ríkisskattstjóri að áætlun reiknaðs endurgjalds á staðgreiðsluári sé lægri en lágmark viðmiðunarfjárhæða skal hann ákveða endurgjaldið og staðgreiðslu af því í samræmi við reglurnar. Ríkisskattstjóri má aðeins víkja frá lágmarki samkvæmt viðmiðunarreglunum á grundvelli skriflegra skýringa og nauðsynlegra gagna frá viðkomandi manni og/eða launagreiðanda.
Ef óskað er eftir að manni sé ákveðið lægra endurgjald en svarar til viðmiðunarfjárhæðanna skulu koma fram upplýsingar um umfang og eðli starfseminnar og starfs hans, upplýsingar um önnur launuð störf og eftir því sem við á, upplýsingar um verð á útseldri vinnu hans eða starfsmanna sem vinna í þjónustu hans. Ef um er að ræða atvinnurekstur manns þarf ennfremur að gera grein fyrir afkomu rekstrarins á síðastliðnu ári og leggja fram áætlun um rekstur og tekjur á staðgreiðsluárinu, svo og gera grein fyrir hvaða fjármagn sé bundið í rekstrinum.
Lágt reiknað endurgjald – ársskil
Ef reiknað endurgjald manns er svo lágt samkvæmt samþykktri áætlun þar um að staðgreiðsla hans sjálfs eða vegna hans og maka hans verði engin á árinu getur hann sótt um til ríkisskattstjóra að skila „Skilagrein vegna reiknaðs endurgjalds“ einu sinni á ári. Sé umsóknin samþykkt þarf umsækjandi að gæta þess að nýta persónuafslátt sinn ekki á móti öðrum tekjum.
Reiknað endurgjald innan við 450.000 kr.
Sé áætlað reiknað endurgjald af starfsemi innan við 450.000 krónur á ári fellur það utan staðgreiðslu.
Skattframtal einstaklings
Reiknað endurgjald er fært til tekna í skattframtali einstaklings fyrir viðkomandi ár og til gjalda í rekstrarreikningi vegna atvinnurekstrarins. Ríkisskattstjóri endurskoðar tilgreint reiknað endurgjald eftir því sem tilefni er til.
Breyting á reiknuðu endurgjaldi
Ef maður telur að reiknað endurgjald eigi að vera lægra en sú fjárhæð sem staðgreiðsla var greidd af eða lægra en fjárhæðir samkvæmt viðmiðunarreglum eða lægra en endurgjald sem er ákvarðað með hliðsjón af taxta fyrir útselda vinnu, afkomu rekstrar og eigin fé í rekstri, skal hann láta fylgja skattframtali sínu gögn og rökstuðning fyrir mati sínu. Ríkisskattstjóra er heimilt að fallast á að reiknað endurgjald sé lægra en viðmiðunarfjárhæðir kveða á um ef rökstuðningur og gögn réttlæta slíka ákvörðun.
Fallist ríkisskattstjóri ekki á rök um lægra reiknað endurgjald skal hann hækka það til samræmis við viðmiðunarfjárhæðir.
Hækkun ríkisskattstjóra
Ef ríkisskattstjóri fellst ekki á tilgreint reiknað endurgjald og hækkar það má sú hækkun ekki mynda tap á viðkomandi rekstri umfram almennar fyrningar ársins. Sé um að ræða elli- eða örorkulífeyrisþega með eigin atvinnurekstur má hækkunin ekki mynda tap á rekstrinum. Þessi regla á við um ákvörðun reiknaðs endurgjalds í rekstri sjálfstætt starfandi manna en hún gildir ekki um rekstur lögaðila og þeirra sem reikna ber sér endurgjald vegna starfa hjá þeim.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Ákvörðun launa við eigin atvinnurekstur - 58. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Laun – 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda
Launagreiðendaskrá – 19. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda
Reiknað endurgjald – 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda
Skattskyldar tekjur/reiknað endurgjald - 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Annað
Viðmiðunarfjárhæðir
Viðmiðunarreglur um reiknað endurgjald eru settar árlega af ríkisskattstjóra og birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald er skipt upp eftir starfaflokkum A-H. Fjárhæðirnar eru lágmarksviðmiðun og taka mið af almennum taxtalaunum þannig að ef greidd eru einhvers konar hlunnindi til viðbótar, t.d. bifreiðahlunnindi, þá skulu þau metin samkvæmt skattmatsreglum og bætast við fjárhæðir samkvæmt viðkomandi viðmiðunarflokki.
Flokkur A. Sérfræðiþjónusta
Til flokks A teljast sérmenntaðir menn vegna starfa í sérgrein sinni og/eða stjórnunarstarfa á þeim vettvangi, svo sem lyfjafræðingar, læknar, tannlæknar, lögfræðingar, löggiltir endurskoðendur, verkfræðingar, ráðgjafar og aðrir sérfræðingar, m.a. á tölvusviði, í fjármálaráðgjöf og verðbréfaviðskiptum.
Flokkur A skiptist í sjö undirflokka:
Flokkur A(1)
Sérfræðingur sem jafnframt stýrir rekstri þar sem starfa með honum fleiri en fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum fleiri en fimmtán manna.
Mánaðarlaun 1.755.000 kr.
Árslaun 21.060.000 kr.
Flokkur A(2)
Sérfræðingur sem jafnframt stýrir rekstri þar sem starfa með honum tíu til fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tíu til fimmtán manna. Læknar, lögfræðingar, löggiltir endurskoðendur, og verkfræðingar falla undir þennan flokk ef með þeim starfa þrír til fimmtán starfsmenn.
Mánaðarlaun 1.580.000 kr.
Árslaun 18.960.000 kr.
Flokkur A(3)
Sérfræðingur sem jafnframt stýrir rekstri þar sem starfa með honum sex til níu starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum sex til níu starfsmanna. Læknar, lögfræðingar, löggiltir endurskoðendur og verkfræðingar falla undir þennan flokk ef þeir starfa einir eða með tvo starfsmenn eða færri.
Mánaðarlaun 1.492.000 kr.
Árslaun 17.904.000 kr.
Flokkur A(4)
Sérfræðingur sem jafnframt stýrir rekstri þar sem starfa með honum tveir til fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna. Tannlæknar, falla undir þennan flokk ef þeir starfa einir eða með fimm starfsmenn eða færri.
Mánaðarlaun 1.403.000 kr.
Árslaun 16.836.000 kr.
Flokkur A(5)
Sérfræðingur, þó ekki læknir, lögfræðingur, löggiltur endurskoðandi eða verkfræðingur sem fellur undir A(2) eða A(3) eða tannlæknir sem fellur undir A(4), sem starfar einn eða með einum til tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna.
Mánaðarlaun 1.229.000 kr.
Árslaun 14.748.000 kr.
Flokkur A(6)
Sérfræðingur, þó ekki þeir sem falla undir A(2) til A(5), sem starfar einn og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum eins starfsmanns.
Mánaðarlaun 1.054.000 kr.
Árslaun 12.648.000 kr.
Flokkur A(9)
Sérfræðingur sem er að hefja starfsemi og hann starfar einn eða með einum starfsmanni. Undir þennan flokk heyra einungis þeir sem eru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn, og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar.
Mánaðarlaun 878.000 kr.
Árslaun 10.536.000 kr.
Deili tveir eða fleiri menn sem undir reglur þessar falla með sér stjórnun á rekstrinum skal reiknað endurgjald þeirra fara eftir flokki A(2) til A(5) miðað við að fjölda starfsmanna að þeim meðtöldum sé deilt á þá.
Flokkur B. Almenn starfsemi, iðnaður, verslun, útgerð og þjónusta
Til flokks B teljast menn sem vinna við iðnaðar- og iðjurekstur, hvers konar verslun og viðskipti, veitingastarfsemi, útgerð og fiskvinnslu, framleiðslu landbúnaðarvara, verktakastarfsemi hvers konar og þjónustu, sem ekki heyrir undir flokk A eða C. Stjórnun rekstrarins eða félagsins er hluti af störfum þeirra sem falla undir flokk B(1), B(2), B(3) og B(4), þótt þeir vinni einnig önnur almenn störf við reksturinn.
Flokkur B skiptist í sex undirflokka:
Flokkur B(1)
Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum fleiri en fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum fleiri en fimmtán manna.
Mánaðarlaun 1.475.000 kr.
Árslaun 17.700.000 kr.
Flokkur B(2)
Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum tíu til fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tíu til fimmtán manna.
Mánaðarlaun 1.326.000 kr.
Árslaun 15.912.000 kr.
Flokkur B(3)
Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum sex til níu starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum sex til níu starfsmanna.
Mánaðarlaun 1.104.000 kr.
Árslaun 13.248.000 kr.
Flokkur B(4)
Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum tveir til fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna.
Mánaðarlaun 858.000 kr.
Árslaun 10.296.000 kr.
Flokkur B(5)
Maður, sem starfar einn eða með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna.
Mánaðarlaun 683.000 kr.
Árslaun 8.196.000 kr.
Flokkur B(9)
Maður sem er að hefja starfsemi og hann starfar einn eða með einum starfsmanni. Undir þennan flokk heyra einungis þeir sem eru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn, og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar.
Mánaðarlaun 498.000 kr.
Árslaun 5.976.000 kr.
Deili tveir eða fleiri menn sem undir reglur þessar falla með sér stjórnun á rekstrinum skal reiknað endurgjald þeirra fara eftir flokki B(1), B(2), B(3) eða lægst B(4) miðað við að fjölda starfsmanna að þeim meðtöldum sé deilt á þá.
Flokkur C. Fjölmiðlun, listamenn, skemmtikraftar, útgefendur, sérhæfð sölustarfsemi eða þjónusta o.fl.
Til flokks C teljast menn, sem vinna við framangreinda starfsemi, svo sem blaðamenn, fréttamenn og dagskrárgerðarmenn, þeir sem starfa við bóka og blaðaútgáfu, kvikmyndagerð, listamenn, skemmtikraftar o.fl. Enn fremur sérhæfð sölustarfsemi, svo sem fasteignasala, bifreiðasala, bókhaldsþjónusta, kennslustarfsemi, skólarekstur og námskeiðahald. Einnig háskólamenntaðar heilbrigðisstéttir, s.s. hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfar og sjúkranuddarar og aðrir með sérmenntun sem ekki falla undir flokka A eða B. Stjórnun starfseminnar er hluti af störfum þeirra sem falla undir flokk C(1), C(2), C(3) og C(4), þótt þeir vinni einnig önnur almenn störf við reksturinn.
Flokkur C skiptist í sjö undirflokka:
Flokkur C(1)
Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum fleiri en fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum fleiri en fimmtán manna.
Mánaðarlaun 1.425.000 kr.
Árslaun 17.100.000 kr.
Flokkur C(2)
Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum tíu til fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tíu til fimmtán manna.
Mánaðarlaun 1.335.000 kr.
Árslaun 16.020.000 kr.
Flokkur C(3)
Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum sex til níu starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum sex til níu starfsmanna.
Mánaðarlaun 1.248.000 kr.
Árslaun 14.976.000 kr.
Flokkur C(4)
Maður sem stýrir rekstri þar sem starfa með honum tveir til fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna.
Mánaðarlaun 993.000 kr.
Árslaun 11.916.000 kr.
Flokkur C(5)
Maður, sem starfar með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna.
Mánaðarlaun 827.000 kr.
Árslaun 9.924.000 kr.
Flokkur C(6)
Maður sem starfar einn og án annarra starfsmanna eða aðkeypts vinnuframlags.
Mánaðarlaun 582.000 kr.
Árslaun 6.984.000 kr.
Flokkur C(9)
Maður sem er að hefja starfsemi og hann starfar einn eða með einum starfsmanni. Undir þennan flokk heyra einungis þeir sem eru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn, og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar.
Mánaðarlaun 519.000 kr.
Árslaun 6.228.000 kr.
Deili tveir eða fleiri menn sem undir reglur þessar falla með sér stjórnun á rekstrinum skal reiknað endurgjald þeirra fara eftir flokki C(1), C(2), C(3) eða lægst C(4) miðað við að fjölda starfsmanna að þeim meðtöldum sé deilt á þá.
Flokkur D. Iðnaðarmenn o.fl.
Til flokks D teljast iðnaðarmenn í löggiltum iðngreinum sem og nuddarar og aðrir sem starfa við persónulega þjónustu og hafa ekki háskólapróf eða sambærilega menntun á sínu sviði. Ef stjórnun svo sem framkvæmdastjórn félags er aðalþáttur starfsins þar sem starfa með honum fleiri en fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum fleiri en fimm starfsmanna skal miða reiknað endurgjald við flokka B(1), B(2) eða B(3) hér að framan.
Flokkur D skiptist í þrjá undirflokka:
Flokkur D(1)
Maður sem hefur tvo til fimm starfsmenn með sér eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna.
Mánaðarlaun 710.000 kr.
Árslaun 8.520.000 kr.
Flokkur D(2)
Maður sem starfar einn eða með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna.
Mánaðarlaun 595.000 kr.
Árslaun 7.140.000 kr.
Flokkur D(9)
Maður sem er að hefja starfsemi og hann starfar einn eða með einum starfsmanni. Undir þennan flokk heyra einungis þeir sem eru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn, og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar.
Mánaðarlaun 431.000 kr.
Árslaun 5.172.000 kr.
Flokkur E. Ýmis starfsemi einyrkja, ófaglærðra og vélstjórnenda, hreingerningarmenn, dagforeldrar, umönnunarstörf sem ekki krefjast háskólamenntunar
Til flokks E teljast menn sem vinna í störfum sem enga fagmenntun þarf til en geta þurft að hafa réttindapróf til að sinna starfinu, s.s. réttindi til að stjórna bifreiðum eða vinnuvélum o.s.frv. og falla ekki undir flokka A til D. Ef stjórnun svo sem framkvæmdastjórn félags er aðalþáttur starfsins og starfsmenn með honum eru fleiri en fimm eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum fleiri en fimm starfsmanna skal miða reiknað endurgjald við flokka B(1), B(2) eða B(3) hér að framan. Til þessa flokks teljast t.d. bifreiðastjórar, stjórnendur vinnuvéla, svo og starfsgreinar sem ekki krefjast sérstakrar starfsmenntunar svo sem hreingerningarmenn, dagforeldrar og starfsfólk við umönnunarstörf hvers konar sem ekki krefjast menntunar heilbrigðisstétta eins og tilgreint er í öðrum flokkum.
Flokkur E skiptist annars vegar í stjórnendur vinnuvéla og hins vegar í önnur ófagleg störf og hvor flokkurinn í tvo undirflokka, auk sérstaks flokks fyrir þá sem eru að hefja starfsemi:
Flokkur E(1)
Stjórnandi vinnuvéla og bifreiða, sem réttindi þarf til að stjórna, þar sem starfa með honum tveir til fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna.
Mánaðarlaun 649.000 kr.
Árslaun 7.788.000 kr.
Flokkur E(2)
Stjórnandi vinnuvéla og bifreiða, sem réttindi þarf til að stjórna, sem starfar einn eða með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna.
Mánaðarlaun 514.000 kr.
Árslaun 6.168.000 kr.
Flokkur E(3)
Aðrir menn í störfum sem falla ekki undir skilgreiningu annarra flokka, s.s. hreingerningarfólk, dagforeldrar og starfsfólk við umönnunarstörf sem ekki krefjast sérþekkingar, þar sem starfa með honum tveir til fimm starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum tveggja til fimm starfsmanna.
Mánaðarlaun 598.000 kr.
Árslaun 7.176.000 kr.
Flokkur E(4)
Aðrir menn sem falla ekki undir skilgreiningu annarra flokka, s.s. hreingerningarfólk, dagforeldrar og starfsfólk við umönnunarstörf sem ekki krefjast sérþekkingar, sem starfa með færri en tveimur starfsmönnum eða samtals greidd laun og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum allt að tveggja starfsmanna. Ef maður starfar einn er heimilt að lækka fjárhæðina um 15%.
Mánaðarlaun 476.000 kr.
Árslaun 5.712.000 kr.
Flokkur E(9)
Maður sem er að hefja starfsemi og hann starfar einn eða með einum starfsmanni. Undir þennan flokk heyra einungis þeir sem eru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn, og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar.
Mánaðarlaun 345.000 kr.
Árslaun 4.140.000 kr.
Flokkur F. Sjómennska
Til þessa flokks teljast sjómenn, sem starfa sem skipverjar við útgerð. Um önnur störf við útgerð fer eftir flokki B. Undir þennan flokk heyra einnig þeir sem hafa atvinnu af strandveiðum.
Flokkur F skiptist í fimm undirflokka:
Flokkur F(1)
Skipstjóri.
Mánaðarlaun 890.000 kr.
Árslaun 10.680.000 kr.
Flokkur F(2)
Stýrimaður og vélstjóri.
Mánaðarlaun 830.000 kr.
Árslaun 9.960.000 kr.
Flokkur F(3)
Matsveinn og bátsmaður.
Mánaðarlaun 740.000 kr.
Árslaun 8.880.000 kr.
Flokkur F(4)
Háseti.
Mánaðarlaun 595.000 kr.
Árslaun 7.140.000 kr.
Reiknað endurgjald í flokkum F(1) til F(4) skal að lágmarki miðast við aflahlut skv. kjarasamningi og hliðstæðar greiðslur til annarra skipverja á sama skipi eða hliðstæðu.
Flokkur F(5)
Skipverji á smábát, með og án kjarasamninga.
Mánaðarlaun 595.000 kr.
Árslaun 7.140.000 kr.
Reiknað endurgjald og greidd laun af aflahlut samtals skulu ekki vera lægra en 30% af 70% af aflaverðmæti bátsins, eða ekki lægri en heildarskiptaverðmæti samkvæmt ákvæðum viðeigandi kjarasamninga séu þeir fyrir hendi.
Við skil á staðgreiðslu er heimilt að miða við fjárhæðir í framangreindum flokkum en í skattframtali skal reiknað endurgjald ekki vera lægra en viðmiðun við aflaverðmæti tilgreinir.
Flokkur G. Landbúnaður
Til flokks G teljast bændur sem einir eða með öðrum standa fyrir búrekstri, með eða án aðkeypts vinnuafls. Standi hjón bæði fyrir búrekstrinum skal reiknað endurgjald hvors hjónanna um sig metið miðað við vinnuframlag hvors um sig við búreksturinn og skiptist rekstrarhagnaður jafnframt á milli þeirra í hlutfalli við reiknað endurgjald þeirra. Vinni það hjóna sem ekki stendur fyrir búrekstri með maka sínum við reksturinn, skal meta því endurgjald með hliðsjón af vinnuframlagi þess, metið á sama verði og endurgjald makans, og telst rekstrarhagnaður þá vera tekjur þess hjóna sem stendur fyrir búrekstrinum. Sé búrekstur umfangsmikill og tveir eða fleiri starfsmenn eru á launum auk bóndans og maka hans og barna innan 16 ára skal flokka starfið í flokka B(1) til B(4).
Í blönduðum búskap skal ákvarða viðmiðunarflokk miðað við þann hluta búskaparins sem meiri hluti tekna stafar af.
Stundi bóndi aðra starfsemi en búskap skal ákvarða reiknað endurgjald vegna annarrar starfsemi en búrekstursins samkvæmt viðeigandi viðmiðunarflokki fyrir það starf.
Flokkur G skiptist í sex undirflokka:
Flokkur G(1)
Bóndi með sauðfjárrækt sem aðalbúgrein og hefur meiri hluta bútekna af henni. Flokkurinn miðast við mest 400 fjár á húsi (vetrarfóðrað á húsi).
Mánaðarlaun 194.000 kr.
Árslaun 2.328.000 kr.
Flokkur G(2)
Bóndi með sauðfjárrækt sem aðalbúgrein og hefur meiri hluta bútekna af henni. Flokkurinn miðast við fleiri en 400 fjár á húsi (vetrarfóðrað á húsi).
Mánaðarlaun 266.000 kr.
Árslaun 3.192.000 kr.
Flokkur G(3)
Bóndi með kúabú sem aðalbúgrein og hefur meiri hluta bútekna af henni. Flokkurinn miðast við mest 25 mjólkandi kýr.
Mánaðarlaun 285.000 kr.
Árslaun 3.420.000 kr.
Flokkur G(4)
Bóndi með kúabú sem aðalbúgrein og hefur meiri hluta bútekna af henni. Flokkurinn miðast við fleiri en 25 mjólkandi kýr.
Mánaðarlaun 393.000 kr.
Árslaun 4.716.000 kr.
Flokkur G(5)
Bóndi sem stendur fyrir öðrum búrekstri, svo sem svínarækt, alifuglarækt og annarri kjötframleiðslu, hrossarækt, grænmetisrækt og garðplönturækt.
Mánaðarlaun 436.000 kr.
Árslaun 5.232.000 kr.
Flokkur G(6)
Bóndi með loðdýrarækt sem aðalbúgrein og hefur meiri hluta bútekna af henni.
Mánaðarlaun 548.000 kr.
Árslaun 6.576.000 kr.
Flokkur H. Makar og börn
Maður sem starfar við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi maka síns eða starfar hjá félagi sem maki hans eða nákomnir venslamenn hafa ráðandi stöðu í vegna eignar- eða stjórnaraðildar svo og barn sem starfar með sama hætti við atvinnurekstur foreldris..
Reiknað endurgjald maka skal almennt taka mið af þeim kjarasamningum sem eru í gildi fyrir viðkomandi starf, en þó skal það aldrei nema lægri fjárhæðum en samkvæmt viðmiðunarflokkum H(1) til H(3).
Flokkur H(1)
Sérfræðingur, sbr. flokk A, sem vinnur í sérgrein sinni en stendur ekki fyrir starfsemi.
Mánaðarlaun 893.000 kr.
Árslaun 10.716.000 kr.
Flokkur H(2)
Iðnaðarmaður, sbr. flokk D, sem vinnur í iðngrein sinni en stendur ekki fyrir starfsemi.
Mánaðarlaun 476.000 kr.
Árslaun 5.712.000 kr.
Flokkur H(3)
Ófaglærður starfsmaður.
Mánaðarlaun 297.000 kr.
Árslaun 3.564.000 kr.
Flokkur H(4)
Barn, 15 ára.
Mánaðarlaun 208.000 kr.
Árslaun 2.496.000 kr.
Flokkur H(5)
Barn, 13 eða 14 ára.
Mánaðarlaun 179.000 kr.
Árslaun 2.148.000 kr.