Staðgreiðsla 2016

Reiknivél staðgreiðsluAlmennt

Öllum þeim sem teljast launagreiðendur samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, þ.e. þeir sem inna af hendi eða reikna greiðslur sem teljast vera laun, er skylt að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna og öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum og af reiknuðu endurgjaldi vegna eigin vinnu við reksturinn. Staðgreiðslan samanstendur af tekjuskatti og útsvari og er fyrirframgreiðsla uppí álagningu opinberra gjalda samkvæmt skattframtölum einstaklinga. Tekjuskattur rennur í ríkissjóð og útsvarið til viðeigandi sveitarfélags.

Hlutföll og fjárhæðir

 Launagreiðandi

Launagreiðandi er hver sá sem innir af hendi eða reiknar greiðslur sem teljast laun samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ef milligöngumaður annast launagreiðslur skal hann gegna skyldum launagreiðanda varðandi skil og greiðslur á staðgreiðslunni. Sama gildir um umboðsmann eftirlaunaþega og lífeyrisþega.

Vinnuveitandi starfsmanna sem ráðnir eru til starfa á grundvelli samnings um útleigu á vinnuafli telst launagreiðandi þeirra hafi starfsmannaleigan ekki skattalegt heimilisfesti hér á landi. Starfsmannaleiga sem hefur staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum telst þó launagreiðandi nema um annað hafi verið samið við notendafyrirtæki. Notendafyrirtæki ber ábyrgð sem launagreiðandi hafi starfsmannaleiga ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu.

Útsvar

Hlutfall útsvars er mismunandi eftir sveitarfélögum. Hlutfall útsvars í staðgreiðslu er þó það sama á öllu landinu. Um er að ræða bráðabirgðagreiðslu upp í útsvar í álagningu. Mismunur kann því að vera milli staðgreiðslu og álagningar. Við álagningu er gerð krafa um greiðslu mismunar eða hann endurgreiddur, eftir því sem við á. Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga má finna útsvar allra sveitarfélaga.

Hafi einstaklingur átt lögheimili í fleiri en einu sveitarfélagi greiðir hann útsvar til umræddra sveitarfélaga í hlutfalli við búsetutíma.

Staðgreiðslustofn

Til staðgreiðsluskyldra launa sem draga á staðgreiðslu opinberra gjalda frá teljast, auk hvers konar endurgjalds fyrir vinnu, ökutækjastyrkir, hlunnindi, flutningspeningar, ferðapeningar, dagpeningar og aðrar starfstengdar greiðslur, aðrar en þær sem heimilt er að halda utan staðgreiðslu samkvæmt reglugerð þar um, sbr. ítarefni neðst á síðunni.

Sem dæmi um endurgjald fyrir vinnu eru laun, hlunnindi, styrkir og reiknað endurgjald sem og lífeyrisgreiðslur, bætur og styrkir sem ekki eru sérstaklega undanþegnir samkvæmt lögum. Heimilaður frádráttur frá tekjum er m.a. lífeyrissjóðsiðgjald og frádráttur á móti ökutækjastyrk og dagpeningum eða hliðstæðum endurgreiðslum á kostnaði sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra (skattmat).

Undanþága frá staðgreiðslu

Þær greiðslur sem ekki falla undir staðgreiðslu opinberra gjalda eru tæmandi taldar upp í reglugerð

Ökutækjastyrkir

Heimilt er að halda utan staðgreiðslu greiðslu launagreiðanda fyrir afnot af eigin bifreið launamanns að uppfylltum tilteknum skilyrðum:

  • Um þarf að vera að ræða endurgreiðslu á kostnaði vegna aksturs tiltekinnar vegalengdar í þágu launagreiðanda. Akstur milli heimilis og venjulegs vinnustaðar launamanns telst alltaf í þágu hans sjálfs.
  • Greiðsla fyrir aksturinn verður að vera jöfn eða lægri en þau mörk sem ríkisskattstjóri setur hverju sinni í skattmati.
  • Launamaður þarf að færa akstursdagbók eða akstursskýrsla þar sem skráð er hver ferð, dagsetning, ekin vegalengd, aksturserindi, kílómetragjald greitt launamanni, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis. Þetta þarf að gera reglulega og gögnin þurfa að vera aðgengileg bæði í bókhaldi launagreiðanda og hjá launamanni.

Fái launamaður greiddan reksturskostnað bifreiðar eða ökutækjastyrk og framangreind skilyrði eru ekki uppfyllt teljast greiðslurnar til staðgreiðsluskyldra launa.

Dagpeningar og ferðapeningar

Heimilt er að halda utan staðgreiðslu greiðslum á ferðakostnaði launamanns ef um er að ræða kostnað vegna ferða í þágu launagreiðandans. Á þetta við um greiðslu á kostnaði samkvæmt reikningum og jafnframt greiðslu á dagpeningum og hliðstæðum endurgreiðslum á ferða- og dvalarkostnaði ef fjárhæðin er innan þeirra marka sem leyfast til frádráttar samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Ef greiðslur eru hærri er það sem umfram er staðgreiðsluskylt.

Skilyrði er að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og hjá launamanni, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga eða eftir atvikum reikningar frá þriðja aðila, svo og nafn og kennitala launamanns.

Útfararstyrkir frá stéttarfélögum

Heimilt er að halda útfararstyrkjum frá stéttarfélögum utan staðgreiðslu. Gera á grein fyrir greiðslu þeirra í launamiða að loknu staðgreiðsluári.

Einkennisfatnaður sem launagreiðandi lætur launamanni í té

Einkennisfatnaður sem launagreiðandi lætur launamanni í té telst ekki til staðgreiðsluskyldra launa. Ef um er að ræða einkennisfatnað sem ætlast er til að starfsmaður noti við störf sín telst hann ekki til skattskyldra tekna, sbr. skattmat ríkisskattstjóra.  

Vinningar í happdrætti, veðmáli og keppni

Skattskyldir vinningar í happdrætti, veðmáli og keppni eru ekki staðgreiðsluskyldir. Gera ber grein fyrir þeim í skattframtali.

Risnukostnaður

Risnukostnaður sem endurgreiddur er launamanni samkvæmt reikningi frá þriðja aðila vegna útgjalda í þágu launagreiðanda telst ekki til staðgreiðsluskyldra greiðslna. Ef um er að ræða greitt risnufé þá ber að reikna staðgreiðslu af þeirri greiðslu eins og gildir almennt um launagreiðslur.

Ýmsar launagreiðslur utan atvinnurekstrar

Ýmsar launagreiðslur sem ekki tengjast atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi launagreiðanda. Sem dæmi um slíkar greiðslur í einkaþágu greiðanda má nefna greiðslur fyrir hús- og heimilishjálp og svipuð persónubundin störf sem ekki fara fram úr 300.000 kr. samtals á ári. Sama gildir um svipaðar greiðslur óskattskyldra aðila, t.d. húsfélaga, sem ekki fara fram úr 600.000 kr. samtals á ári.

Óverulegt reiknað endurgjald (laun)

Endurgjald sem maður skal reikna sér vegna starfs við sjálfstæða starfsemi sína er ekki staðgreiðsluskylt ef starfsemin er svo óveruleg að endurgjaldið fer ekki yfir 450.000 kr. á ári. Alltaf skal færa reiknað endurgjald til tekna í skattframtali.

Reiknað endurgjald (laun) barna

Reiknað endurgjald (laun) barna undir 16 ára aldri eru ekki staðgreiðsluskyld, en gera þarf grein fyrir þeim í skattframtali barnanna.

Höfundarlaun

Höfundarlaun sem greidd eru til Íslendinga búsettra hérlendis samkvæmt höfundarlögum eru ekki staðgreiðsluskyld ef þau fara ekki fram úr 260.000 kr. á ári.

Greiðslur vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar

Greiðslur til fatlaðra vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar samkvæmt lögum um málefni fatlaðra eru ekki staðgreiðsluskyldar.

Opinberir styrkir

Styrkir til fræðimanna, listamanna og vísindamanna sem veittir eru úr ríkissjóði, opinberum sjóðum, eða af opinberum stofnunum eru ekki staðgreiðsluskyldir.

Verðlaun

Verðlaun sem veitt eru í viðurkenningarskyni eru ekki staðgreiðsluskyld.

Starfsmenntunar- og vísindasjóðsstyrkir

Starfsmenntunar- og vísindasjóðsstyrkir stéttarfélaga og annarra félagasamtaka til rannsókna, þróunarstarfa, endurmenntunar og sambærilegra verkefna eru ekki staðgreiðsluskyldir.

Launatekjur barna

Launatekjur barna hjá sama launagreiðanda eru ekki staðgreiðsluskyldar að tilteknu hámarki sem ákvörðuð er í lögum um tekjuskatt, sbr. ítarefni neðst á síðunni.

Styrkir úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaga

Styrkir sem veittir eru úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaga vegna alvarlegra veikinda eru ekki staðgreiðsluskyldir. Aðrir styrkir úr þessum sjóðum eru staðgreiðsluskyldir.

Styrkir úr minningarsjóðum

Styrkir sem veittir eru úr minningarsjóðum sem starfa samkvæmt skipulagsskrá sem staðfest er af dómstólaráðuneytinu samkvæmt lögum nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Ættleiðingarstyrkir

Styrkir sem greiddir eru samkvæmt lögum um ættleiðingarstyrki eru ekki staðgreiðsluskyldir. Færa á þessa styrki í skattframtöl og frádráttur er heimill á móti að tilteknu hámarki.

Frádráttur frá staðgreiðsluskyldum greiðslum

Draga má frá staðgreiðsluskyldum launagreiðslum iðgjald í lífeyrissjóð að hámarki 4% af launum eða reiknuðu endurgjaldi. Heimilt er að auki að færa til frádráttar allt að 4% vegna iðgjalda samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd (séreignarsjóður), enda séu iðgjöld greidd reglulega til aðila sem falla undir lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Afdráttur staðgreiðslu

Afdráttur staðgreiðslu opinberra gjalda skal miðast við laun hvers mánaðar fyrir sig og vera í samræmi við ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Staðgreiðslan er reiknuð miðað við staðgreiðsluhlutfall hverju sinni. Staðgreiðsluhlutfallið er ákvarðað miðað við gildandi tekjuskattshlutfall fyrir hvert skattþrep fyrir sig og að viðbættu meðaltalsútsvari miðað við öll sveitarfélög í landinu samkvæmt auglýsingu Fjármálaráðuneytisins.

Frá reiknaðri staðgreiðslu er dreginn persónuafsláttur. Launþegar sem stunda sjómannsstörf á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi geta einnig átt rétt á að sjómannaafsláttur sé dreginn frá.

Laun frá fleirum en einum launagreiðanda

Launþegum sem þiggja laun frá fleiri en einum launagreiðanda ber að upplýsa launagreiðanda um það við hvaða skattþrep skuli miða við útreikning á staðgreiðslu skatta. Nokkrar undantekningar eru frá almennu reglunni um afdrátt staðgreiðslu.

Greiðslur frá Ábyrgðasjóði launa

Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu af samþykktum kröfum samkvæmt lögum um  Ábyrgðasjóð launa er samkvæmt mið tekjuskattsþrepi að viðbættu meðaltalsútsvari fyrir hvert staðgreiðsluár.

Atvinnuleysisbætur

Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu af atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar er samkvæmt lægsta tekjuskattsþrepi að viðbættu meðaltalsútsvari fyrir hvert staðgreiðsluár.

Þó skal innheimtuhlutfall í staðgreiðslu af tekjutengdum atvinnuleysisbótum taka mið af heildarbótagreiðslu og eftir atvikum vera í lægsta eða miðtekjuskattsþrepi að viðbættu meðaltalsútsvari. Launamaður ber ábyrgð á því að rétt innheimtuhlutfall verði ákvarðað við afdrátt staðgreiðslu þegar þannig háttar til.

Breytileg laun

Almenna reglan er sú að miða skuli afdrátt staðgreiðslu við laun hvers mánaðar fyrir sig óháð niðurstöðu annarra mánaða. Skiptir ekki máli þótt laun einstakra mánaða séu hærri en aðra mánuði, t.d. vegna meiri yfirvinnu, bónusgreiðslna eða annarra sérstakra greiðslna frá aðallaunagreiðanda. Ef laun eru breytileg er þó heimilt að jafna þeim milli vikna innan mánaðarins, þannig að staðgreiðsla mánaðarins verði rétt.

Tilfærsla milli mánaða í staðgreiðslu er ekki heimil nema í þeim tilvikum sem mánaðarlaun eru að jafnaði mjög breytileg á milli tímabila. Við slíkar aðstæður er launagreiðanda heimilt að taka tillit til launa fyrri mánaða við ákvörðun á afdrætti staðgreiðslu. Með breytilegum launum í þessu sambandi er átt við að fjárhæð mánaðarlauna sveiflist að jafnaði um a.m.k. 50%. Við slíkar aðstæður er heimilt að reikna afdrátt staðgreiðslu hlutfallslega miðað við heildarlaun frá upphafi tekjuárs, eða eftir atvikum upphafi ráðningartíma, til loka þess launatímabils sem verið er að greiða fyrir og skattþrep samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Greiðslur frá öðrum en aðallaunagreiðanda

Heimilt er að miða innheimtuhlutfall í staðgreiðslu við miðþrep tekjuskattshlutfalls að viðbættu meðaltalsútsvari sveitarfélaga af minni háttar greiðslum frá öðrum en aðallaunagreiðanda, s.s. greiðslur frá stéttarfélögum, stjórnarlaun og aðrar slíkar greiðslur, enda fari fjárhæð greiðslunnar ekki umfram 650.000 kr. á mánuði.

Greiðslur frá tryggingafélögum

Tryggingafélögum er heimilt að miða innheimtuhlutfall staðgreiðslu við miðþrep tekjuskattshlutfalls að viðbættu meðaltalsútsvari sveitarfélaga  vegna greiðslu staðgreiðsluskyldra vátryggingabóta, enda fari fjárhæð greiðslu ekki umfram 650.000 kr. á mánuði. Nemi staðgreiðsluskyld greiðsla tryggingafélags hærri fjárhæð en 650.000 kr. á mánuði skal afdráttur staðgreiðslu af því sem umfram er miðast við hæsta tekjuskattsþrep að viðbættu meðaltalsútsvari.

Menn með takmarkaða skattskyldu

Menn sem koma til Íslands til tímabundinna starfa, þ.e. skemur en 6 mánuði á 12 mánaða tímabili, bera takmarkaða skattskyldu vegna tekna sem þeir afla hér á landi og greiða tekjuskatt og útsvar eftir almennum reglum og í almennu skattþrepi. Með tekjum er átt við laun, starfstengdar greiðslur, hlunnindi o.s.frv.

Einstaklingar sem búsettir eru á einhverju öðru Norðurlandanna greiða fullan tekjuskatt og útsvar hérlendis vegna eftirlauna eða lífeyrisgreiðslna frá Íslandi. Tekið er tillit til persónuafsláttar á móti slíkum greiðslum. Sama á við um einstaklinga sem búsettir eru í landi sem ekki hefur gert tvísköttunarsamning við Ísland. Að öðru leyti gilda ákvæði tvísköttunarsamninga ef einstaklingur er búsettur í ríki sem gert hefur tvísköttunarsamning við Ísland.

Útsvar manna sem bera takmarkaða skattskyldu er greitt til þess sveitarfélags þar sem meirihluti tekna var aflað.

Hlutföll og fjárhæðir

Skatthlutfall í staðgreiðslu

Skatthlutfall í staðgreiðslu er

  • 37,13% af tekjum 0 - 336.035 kr.
  • 38,35% af tekjum 336.036 - 836.990 kr.
  • 46,25% af tekjum yfir 836.990 kr.

Skatthlutfall barna, þ.e. þeirra sem fædd eru 2001 eða síðar, er 6% (4% tekjuskattur, 2% útsvar) af tekjum umfram frítekjumark barna sem er 180.000 kr.

Persónuafsláttur

Persónuafsláttur er 623.040 kr. á ári, eða 51.920 kr. á mánuði.
Heimilt er að nýta allan (100%) ónýttan persónuafslátt maka á árinu 2015.

Einn mánuður kr. 51.920
Hálfur mánuður kr.  25.960
Fjórtán dagar kr. 23.832
 Ein vika kr. 11.916

Ef launatímabil er annað en að ofan greinir skal ákvarða persónuafslátt þannig:
623.040 / 366 x dagafjöldi launatímabils

Sjá nánar um persónuafslátt

Sjómannaafsláttur

Sjómannaafsláttur fellur niður frá og með tekjuárinu 2014.

Frádráttarbært iðgjald í lífeyrissjóð

Lífeyrisiðgjald sem halda má utan staðgreiðslu er 4% af launum eða reiknuðu endurgjaldi. Heimilt er að auki að færa til frádráttar allt að 4% vegna iðgjalda samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd, enda séu iðgjöld greidd reglulega til aðila sem falla undir 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Tryggingagjald er 6,85 % frá 1. júlí 2016 (var 7,35%).

Sérstök trygging (0,65%) bætist við vegna launa sjómanna á fiskiskipum.

Sundurliðun:

  - Almennt tryggingagjald  5,40%
  - Atvinnutryggingagjald  1,35%
  - Gjald í Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota  0,05%
  - Markaðsgjald  0,05%
  Samtals til staðgreiðslu  6,85%
     
  - Viðbót vegna slysatryggingar sjómanna á fiskiskipum  0,65%
  Samtals af launum sjómanna  7,50%

Fjársýsluskattur er 5,5%

Fjársýsluskattur er lagður á fjármálafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og tryggingafélög auk Íbúðalánasjóðs. Skatthlutfallið er 5,5% og skattstofninn eru allar tegundir launa og þóknana. Skatturinn er greiddur mánaðarlega í staðgreiðslu.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Almennt skatthlutfall – 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Ábyrgðasjóður launa - lög nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa

Höfundarlög - höfundarlög nr. 73/1972

Laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu - reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu

Persónuafsláttur – A-liður 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Sjóðir og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá - lög nr. 19/1988

Sjómannaafsláttur – B-liður 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skatthlutfall manna með takmarkaða skattskyldu – 70. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða - lög nr. 129/2007

Staðgreiðsluhlutföll og heimild til þess að jafna launum milli mánaða – reglugerð nr. 111/2010, um innheimtuhlutfall í staðgreiðslu

Tekjuskattur af tekjum barna - 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Ættleiðingarstyrkir - lög nr. 152/2006, um ættleiðingarstyrki

Skattmat


Annað

Iðgjald í lífeyrissjóð

Persónuafsláttur

Útsvarsprósentur sveitarfélaga


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum