Staðgreiðsla 2019
Almennt
Öllum launagreiðendum er skylt að draga staðgreiðslu opinberra gjalda frá launum og öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum til launamanna og skila í ríkissjóð. Á sama hátt á að draga staðgreiðslu frá reiknuðu endurgjaldi þeirra sem starfa við eigin atvinnurekstur. Staðgreiðslan samanstendur af tekjuskatti og útsvari og er fyrirframgreiðsla uppí álagningu opinberra gjalda samkvæmt skattframtölum einstaklinga. Tekjuskattur rennur í ríkissjóð og útsvarið til viðeigandi sveitarfélags.
Hlutföll og fjárhæðir
Launagreiðandi
Launagreiðandi er hver sá sem innir af hendi eða reiknar greiðslur sem teljast laun samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ef milligöngumaður annast launagreiðslur skal hann gegna skyldum launagreiðanda varðandi skil og greiðslur á staðgreiðslunni. Sama gildir um umboðsmann eftirlaunaþega og lífeyrisþega.
Vinnuveitandi starfsmanna sem ráðnir eru til starfa á grundvelli samnings um útleigu á vinnuafli telst launagreiðandi þeirra hafi starfsmannaleigan ekki skattalegt heimilisfesti hér á landi. Starfsmannaleiga sem hefur staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum telst þó launagreiðandi nema um annað hafi verið samið við notendafyrirtæki. Notendafyrirtæki ber ábyrgð sem launagreiðandi hafi starfsmannaleiga ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu.
Launamaður
Launamaður er sá sem fær endurgjald (laun) fyrir starfa sem hann innir af hendi á ábyrgð launagreiðanda. Enn fremur sá sem nýtur eftirlauna eða lífeyris og sá sem skal reikna sér endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, þ.m.t. maki og börn sem vinna við reksturinn. Sama á við um mann, maka hans eða barn sem skal reikna sér endurgjald vegna atvinnurekstrar eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum eða á vegum lögaðila.
Maður er líka launamaður ef hann fær greiddar tryggingabætur, styrki og hvers konar skaðabætur og vátryggingabætur, nýtur höfundaréttargreiðslna, fær verðlaun, heiðurslaun eða hlýtur skattskyldan vinning í happdrætti, veðmáli eða keppni.
Útsvar
Hlutfall útsvars er mismunandi eftir sveitarfélögum. Hlutfall útsvars í staðgreiðslu er þó það sama á öllu landinu. Um er að ræða bráðabirgðagreiðslu upp í útsvar í álagningu. Mismunur kann því að vera milli staðgreiðslu og álagningar. Við álagningu er gerð krafa um greiðslu mismunar eða hann endurgreiddur, eftir því sem við á. Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga má finna útsvar allra sveitarfélaga.
Hafi einstaklingur átt lögheimili í fleiri en einu sveitarfélagi greiðir hann útsvar til umræddra sveitarfélaga í hlutfalli við búsetutíma.
Staðgreiðslustofn
Til staðgreiðsluskyldra launa sem draga á staðgreiðslu opinberra gjalda frá teljast, auk hvers konar endurgjalds fyrir vinnu, ökutækjastyrkir, hlunnindi, flutningspeningar, ferðapeningar, dagpeningar og aðrar starfstengdar greiðslur, aðrar en þær sem heimilt er að halda utan staðgreiðslu samkvæmt reglugerð þar um.
Sem dæmi um endurgjald fyrir vinnu eru laun, hlunnindi, styrkir og reiknað endurgjald sem og lífeyrisgreiðslur, bætur og styrkir sem ekki eru sérstaklega undanþegnir samkvæmt lögum. Heimilaður frádráttur frá tekjum er m.a. lífeyrissjóðsiðgjald og frádráttur á móti ökutækjastyrk og dagpeningum eða hliðstæðum endurgreiðslum á kostnaði sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra (skattmat).
Undanþága frá staðgreiðslu
Þær greiðslur sem ekki falla undir staðgreiðslu opinberra gjalda eru tæmandi taldar upp í reglugerð þar um.
Frádráttur frá staðgreiðsluskyldum greiðslum
Draga má frá staðgreiðsluskyldum launagreiðslum iðgjald í lífeyrissjóð að hámarki 4% af launum eða reiknuðu endurgjaldi. Heimilt er að auki að færa til frádráttar allt að 4% vegna iðgjalda samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd, enda séu iðgjöld greidd reglulega til aðila sem falla undir lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
Afdráttur staðgreiðslu
Afdráttur staðgreiðslu opinberra gjalda skal miðast við laun hvers mánaðar fyrir sig og vera í samræmi við ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Staðgreiðslan er reiknuð miðað við staðgreiðsluhlutfall hverju sinni. Staðgreiðsluhlutfallið er ákvarðað miðað við gildandi tekjuskattshlutfall fyrir hvert skattþrep fyrir sig og að viðbættu meðaltalsútsvari miðað við öll sveitarfélög í landinu samkvæmt auglýsingu Fjármálaráðuneytisins.
Frá reiknaðri staðgreiðslu er dreginn persónuafsláttur.
Laun frá fleirum en einum launagreiðanda
Þeir sem þiggja laun frá fleiri en einum launagreiðanda eiga að upplýsa launagreiðanda um það við hvaða skattþrep skuli miða við útreikning á staðgreiðslu skatta. Nokkrar undantekningar eru frá almennu reglunni um afdrátt staðgreiðslu. Sjá nánari upplýsingar í umfjöllum um staðgreiðslu í atvinnurekstri.
Breytileg laun
Almenna reglan er sú að miða skuli afdrátt staðgreiðslu við laun hvers mánaðar fyrir sig óháð niðurstöðu annarra mánaða. Skiptir ekki máli þótt laun einstakra mánaða séu hærri en aðra mánuði, t.d. vegna meiri yfirvinnu, bónusgreiðslna eða annarra sérstakra greiðslna frá aðallaunagreiðanda. Ef laun eru breytileg er þó heimilt að jafna þeim milli vikna innan mánaðarins, þannig að staðgreiðsla mánaðarins verði rétt.
Tilfærsla milli mánaða í staðgreiðslu er ekki heimil nema í þeim tilvikum sem mánaðarlaun eru að jafnaði mjög breytileg á milli tímabila.
Menn með takmarkaða skattskyldu
Menn sem koma til Íslands til tímabundinna starfa, þ.e. skemur en 6 mánuði á 12 mánaða tímabili, bera takmarkaða skattskyldu vegna tekna sem þeir afla hér á landi og greiða tekjuskatt og útsvar eftir almennum reglum og í almennu skattþrepi. Með tekjum er átt við laun, starfstengdar greiðslur, hlunnindi o.s.frv.
Einstaklingar sem búsettir eru á einhverju öðru Norðurlandanna greiða fullan tekjuskatt og útsvar hérlendis vegna eftirlauna eða lífeyrisgreiðslna frá Íslandi. Tekið er tillit til persónuafsláttar á móti slíkum greiðslum. Sama á við um einstaklinga sem búsettir eru í landi sem ekki hefur gert tvísköttunarsamning við Ísland. Að öðru leyti gilda ákvæði tvísköttunarsamninga ef einstaklingur er búsettur í ríki sem gert hefur tvísköttunarsamning við Ísland.
Útsvar manna sem bera takmarkaða skattskyldu er greitt til þess sveitarfélags þar sem meirihluti tekna var aflað.
Hlutföll og fjárhæðir
Skatthlutfall í staðgreiðslu
Skatthlutfall í staðgreiðslu samanstendur annarsvegar af tekjuskatti og hinsvegar meðalútsvari (14,44%). Skatthlutfallið er
- 36.94% af tekjum 0 - 927.087 kr. (þar af 22,50% tekjuskattur)
- 46,24% af tekjum yfir 927.087 kr. (þar af 31,80% tekjuskattur)
Skatthlutfall barna, þ.e. þeirra sem fædd eru 2004 eða síðar, er 6% (4% tekjuskattur, 2% útsvar) af tekjum umfram frítekjumark barna sem er 180.000 kr.
Persónuafsláttur
Persónuafsláttur er 677.358 kr. á ári, eða 56.447 kr. á mánuði.
Heimilt er að nýta allan (100%) ónýttan persónuafslátt maka á árinu 2019.
Einn mánuður | kr. | 56.447 |
Hálfur mánuður | kr. | 28.224 |
Fjórtán dagar | kr. | 25.981 |
Ein vika | kr. | 12.990 |
Ef launatímabil er annað en að ofan greinir skal ákvarða persónuafslátt þannig:
677.358/365 x dagafjöldi launatímabils
Sjómannaafsláttur
Sjómannaafsláttur féll niður frá og með tekjuárinu 2014.
Frádráttarbært iðgjald í lífeyrissjóð
Lífeyrisiðgjald sem halda má utan staðgreiðslu er 4% af launum eða reiknuðu endurgjaldi. Heimilt er að auki að færa til frádráttar allt að 4% vegna iðgjalda samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd, enda séu iðgjöld greidd reglulega til aðila sem falla undir 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
Tryggingagjald er 6,60%
Sérstök trygging (0,65%) bætist við vegna launa sjómanna á fiskiskipum.
Sundurliðun:
- Almennt tryggingagjald | 5,15% | |
- Atvinnutryggingagjald | 1,35% | |
- Gjald í Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota | 0,05% | |
- Markaðsgjald | 0,05% | |
Samtals til staðgreiðslu | 6,60% | |
- Viðbót vegna slysatryggingar sjómanna á fiskiskipum | 0,65% | |
Samtals af launum sjómanna | 7,25% |
Fjársýsluskattur er 5,5%
Fjársýsluskattur er lagður á fjármálafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og tryggingafélög auk Íbúðalánasjóðs. Skatthlutfallið er 5,5% og skattstofninn eru allar tegundir launa og þóknana. Skatturinn er greiddur mánaðarlega í staðgreiðslu.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Almennt skatthlutfall – 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Laun og hlunnindi utan staðgreiðslur - reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu
Persónuafsláttur – A-liður 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Sjómannaafsláttur – B-liður 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Skatthlutfall manna með takmarkaða skattskyldu – 70. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Skil á staðgreiðslu - reglugerð nr. 13/2003, um skil á staðgreiðslu útsvars, tekjuskatts og tryggingagjalds
Staðgreiðsluhlutföll og heimild til þess að jafna launum milli mánaða – reglugerð nr. 111/2010, um innheimtuhlutfall í staðgreiðslu
Tekjuskattur af tekjum barna - 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Annað