Bindandi álit

Bindandi álit nr. 16/15

2.11.2015

Hlutabréfaflokkar - skattlagning úthlutunar

Bindandi álit staðfest með úrskurði yfirskattanefndar nr. 95/2016

Málavextir:

Í álitsbeiðni kemur fram að meginstarfsemi álitsbeiðanda sé fólgin í tiltekinni starfsemi og að lykilstarfsmenn hans séu jafnframt eigendur félagsins.  Starfsemin byggi einkum á útseldri þjónustu lykilstarfsmanna til viðskiptavina félagsins.

Þá kemur fram að vegna eðlis starfseminnar og með hliðsjón af því að allir lykilstarfsmenn séu hluthafar í álitsbeiðanda sé vilji til þess að skipta hagnaði af rekstri félagsins með öðrum hætti en einvörðungu á grundvelli eignarhalds á hlutum í því.  Það sé þannig vilji hluthafanna til að skapa möguleika á því að skipta hagnaði félagsins að hluta til í samræmi við þátttöku hluthafa í að skapa hagnaðinn á grundvelli samþykktra viðmiða þar um.

Til að ná framangreindu markmiði hyggst stjórn félagsins leggja fram tillögu um eftirfarandi á hluthafafundi:

 • Hlutafé álitsbeiðanda verði skipt í tvo flokka, A og B flokk.
 • Óráðstafað eigið fé félagsins m.v. árslok 2015 tilheyri A flokki.
 • Frá og með 1. janúar 2016 skuli hagnaði sem nemi tilteknu hlutfalli af EBITDA félagsins tilheyra B flokki og verða greiddur út sem arður árlega.  Hlutfallið verði ákveðið endanlega á hluthafafundinum þegar ákvörðun verður tekin en yrði að líkindum á bilinu 30-45%.
 • Arður í B flokki skiptist ekki á grundvelli eignarhalds heldur eftir ákvörðun framkvæmdastjóra félagsins á grundvelli reglna sem hluthafafundur myndi samþykkja.  Reglurnar myndu grundvallast á eftirfarandi:
  • framlagi hluthafa til hagnaðarmyndunar, tekjuöflun fyrir hönd félagsins og fjárbinding,
  • sölustarfi, verkefnaöflun og ábyrgð á verkefnum,
  • þróunar- og markaðsstarfi,
  • innra starfi og gæðamálum.
 • Sá hluti hagnaðar sem ekki tilheyrir B flokki muni tilheyra A flokki og úthlutast sem arður á grundvelli almennra reglna og í samræmi við eignarhald á hlutum í A flokki.

Þá er upplýst að framangreindar reglur um úthlutun arðs í B flokki verði ekki bundnar við beint vinnuframlag (vinnutíma) og muni taka tillit til þátta utan vinnustaðar t.d. hversu virkir starfsmenn eru í félagsstörfum eða á öðrum vettvangi sem telst jákvæður fyrir álitsbeiðanda og markaðsstarf hans.

Hluti hagnaðar álitsbeiðanda muni hins vegar lúta almennum reglum þar sem ákvarðanir um arðgreiðslur muni taka mið af m.a. fjárþörf félagsins á venjulegum fjárfestagrundvelli.

Álitsbeiðandi lítur svo á að eftirfarandi atriði séu forsendur fyrir þeirri ráðstöfun sem um ræðir og þeirri niðurstöðu að arður af B hlutum í félaginu teljist tekjur af hlutareign:

 • að allir hluthafar í álitsbeiðanda samþykki tillögu um breytingu á samþykktum félagsins, þ.e.
  • skiptingu hlutafjár í tvo flokka,
  • að tiltekið hlutfall hagnaðar tilheyri sitt hvorum flokknum,
  • að allur hagnaður sem tilheyri B flokki greiðist út árlega sem arður,
  • að útgreiddur arður í B flokki skiptist ekki eftir eignarhaldi heldur eftir ákvörðun framkvæmdastjóra félagsins á grundvelli reglna settum á hluthafafundi í álitsbeiðanda,
 • að álitsbeiðandi greiði sanngjörn laun á hverjum tíma sem séu ekki lægri en viðmiðunarlaun skattyfirvalda samkvæmt reglum um reiknað endurgjald,
 • að við arðsúthlutun séu lagaskilyrði til útgreiðslu arðs sbr. m.a. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 og að tekin sé lögformleg ákvörðun um úthlutun í samræmi við lög og samþykktir félagsins.

Álitaefni:

Með bréfi dagsettu 13. október 2015 fór umboðsmaður álitsbeiðanda fram á að ríkisskattstjóri veitti bindandi álit á því:

 • „hvort arður greiddur af [álitsbeiðanda] til hluthafa í A og B flokkum teljist tekjur af hlutareign og skattleggist sem fjármagnstekjur sbr. 11. gr. laga nr. 90/2003 sbr. 4. tölul. C liðar 7. gr. og 3. mgr. 66. gr. sömu laga og að álitsbeiðanda beri því að halda eftir 20% tekjuskatti af arðinum sbr. 2. mgr. 2. gr. sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.“

Forsendur ríkisskattstjóra:

I.  Almennt:
Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á kerfi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit, að um sé að ræða álitaefni er varðar verulega skattalega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar.  Álitaefnið þarf þannig að varða skattalega stöðu álitsbeiðanda sjálfs.

Með tölvupósti þann 9. október 2015 sem sendur var umboðsmanni álitsbeiðanda, vísaði ríkisskattstjóri til þess að eins og álitaefnið væri framsett þá varðaði það ekki skattalega hagsmuni álitsbeiðanda heldur hluthafa hans.

Með bréfi umboðsmanns álitsbeiðanda dagsettu 13. október 2015 sem barst ríkisskattstjóra með tölvupósti sama dag er álitaefnið umorðað og óskað eftir því að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit á því:

„hvort arður greiddur af [álitsbeiðanda] til hluthafa í A og B flokkum teljist tekjur af hlutareign og skattleggist sem fjármagnstekjur sbr. 11. gr. laga nr. 90/2003 sbr. 4. tölul. C liðar 7. gr. og 3. mgr. 66. gr. sömu laga og að álitsbeiðanda beri því að halda eftir 20% tekjuskatti af arðinum sbr. 2. mgr. 2. gr. sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.“

Ríkisskattstjóri fellst á að uppfyllt séu skilyrði fyrir útgáfu bindandi álits í þessu tilviki.

Álitinu er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðanda að því er þau atvik varðar er álitið tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998.  Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kunna að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað varðar málsatvik og réttaráhrif hins bindandi álits.

Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt og framfærða málavexti en verði breytingar þar á kunna þær forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.

II.  Tekjur af hlutabréfum í A og B flokki.
Í tölvupósti sem sendur var umboðsmanni álitsbeiðanda þann 9. október 2015 var óskað eftir því að álitsbeiðandi staðfesti þann skilning að fyrirhugað sé að skipta núverandi hlutafé álitsbeiðanda upp, annars vegar í bréf í A flokki og hins vegar í bréf í B flokki og að engin breyting yrði á hluthafahópum við þessa uppskiptingu.  Þá var óskað eftir að nákvæmar upplýsingar yrðu veittar um þau réttindi sem fylgja ættu hlutum í B flokki.

Svar umboðsmanns álitsbeiðanda barst 13. október 2015.  Í svarinu kemur fram að lögð verði fyrir hluthafafund tillaga um að skipta hlutafé félagsins í tvo flokka og að hlutaféð verði í eigu „sömu hluthafa og eru hluthafar við breytinguna.“  Engar breytingar verði þannig á hluthafahópnum við uppskiptinguna.

Í svarbréfinu kemur svo fram að réttur hluthafa í B flokki verði að öllu leyti sá sami og réttur A hluta nema að því er varðar arðsúthlutun, þ.e. B hlutunum á að fylgja atkvæðisréttur og önnur réttindi.  Orðrétt segir í svarbréfinu:

„Eini munurinn verður rétturinn til arðs og ráðgert er að einungis hluthafar í A flokki greiði atkvæði um arðsúthlutun í A flokki.  Er það lagt til vegna þess að ef einhvern tíma á síðari stigum verði hluthafahóparnir mismunandi þá sé eðlilegt að einungis hluthafar í A flokki taki ákvörðun um arðsúthlutun í þeim flokki.  Engar áætlanir eru um það á þessu stigi og ekkert bendir til annars en að hluthafahópurinn verði óbreyttur á næstu misserum.  Framangreind takmörkun á atkvæðisrétti varðandi arðsúthlutun í A flokki verður eina takmörkunin á réttindum hluthafa í B flokki samkvæmt fyrirhugaðri ráðstöfun.“

Tilvitnuðu svarbréfi fylgdu drög að fyrirhuguðum breytingum á grein 2.1. í samþykktum álitsbeiðanda.  Ef breytingin verður samþykkt mun grein 2.1. samþykktanna verða svohljóðandi.

„1. mgr. Hlutafé félagsins er kr. x í A flokki og kr. x í B flokki eða samtals kr. y.

Hlutafé í A flokki er almennur flokkur sem lýtur almennum reglum samþykktra þessara og fer um arðsúthlutun eftir eignarhaldi á hlutunum.  Hlutafé í B flokki er sértækur flokkur.  Á hverju ári skal í reikningsskilum félagsins hagnaður sem samsvarar [ákv. hlutfall síðar] tilheyra B flokki.  Hagnaður sem eftir stendur tilheyrir A flokki.  Skylda er að úthluta öllum arði er tilheyrir B flokki árlega að því gefnu að lagaskilyrði séu til arðsúthlutunar.  Arðsúthlutun/hagnaðarskipting í B flokki fer eftir ákvörðun framkvæmdastjóra félagsins á grundvelli sérstakra reglna sem samþykktar skulu á hluthafafundi.  Reglunum verður ekki breytt nema með samþykki 2/3 hluthafa í B flokki en þó skulu allir hluthafar í B flokki samþykkja breytingu ef skerða á rétt hluthafa enn frekar en fyrirliggjandi reglur kveða á um.

3. mgr. Á hluthafafundum fylgir eitt atkvæði hverjum hlut í félaginu en þó skal ákvörðun um arðsúthlutun í A flokki eingöngu tekin af hluthöfum í A flokki og hafa hluthafar í B flokki ekki atkvæðisrétt þar um.“

Álitaefnið sem borið er fram af hálfu álitsbeiðanda lýtur að því hvort að þær tekjur sem álitsbeiðandi hyggst greiða hluthöfum í A og B flokkum teljist til arðs í skattalegu tilliti og sæti staðgreiðslu sem slíkar samkvæmt lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt er að finna skilgreiningu á hugtakinu skattskyldur arður og er ákvæðið svohljóðandi:

„Til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., telst auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu.“

Þá hefur 4. mgr. áður nefndrar 11. gr. að geyma svohljóðandi afmörkun á hugtakinu skattskyldur arður:

„Nú er félagi sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. slitið án þess að um sameiningu félaga sé að ræða, sbr. 51. gr., og skal þá telja til arðs úthlutun við félagsslit sem er umfram kaupverð bréfanna.  Einnig telst til arðs lækkun hlutafjár, sem greidd er út til hluthafa , umfram kaupverð.“

Samkvæmt framanrituðu telst til arðs í skattalegu tilliti venjuleg arðgreiðsla og að auki sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda eða hluthafa sem telja verður sem tekjur af hlutareign í félaginu.  Arður í skilningi tekjuskattslaganna er þannig háður því að um sé að ræða tekjur sem móttakandi fær á grundvelli eignaraðildar að félaginu.  Samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög geta slíkar tekjur eingöngu fallið þeim í skaut sem teljast vera hluthafar og fer um skattlagningu allt eftir því hvort tekjur af hlutareign teljast falla undir 1.- 4. mgr. 11. gr. tekjuskattslaga.

Eins og málsatvikum hefur verið lýst af hálfu álitsbeiðanda er það álit ríkisskattstjóra að arður sem greiddur er til hluthafa í A flokki myndi falla undir það að vera hefðbundin arðgreiðsla samkvæmt 1. mgr. 11. gr. tekjuskattslaga enda hefur ekki annað komið fram af hálfu álitsbeiðanda en að arður í þeim flokki skiptist á hluthafa á grundvelli eignarhalds.  Kemur þá til skoðunar hvort að sá hluti árangurstengdra greiðsla sem greiddur yrði til hluthafa á grundvelli þess að eignarhaldi þeirra á hlutabréfum í A flokki yrði skipt upp í annars vegar A flokk og hins vegar í B flokk teljist vera við þær aðstæður hefðbundinn arður af hlutaeign

Í lögum um hlutafélög nr. 2/1995 kemur fram í 2. mgr. 20. gr. sú meginregla að allir hlutir skuli hafa jafnan rétt í félaginu.  Frá þessu má þó hverfa með því að kveða á um í samþykktum félags að hlutum sé skipt í sérstaka flokka.  Í þeim tilvikum skal taka fram í samþykktunum hver munurinn sé á milli flokkanna.  Sömu réttindi fyrir hluti skulu hins vegar gilda innan sama flokks.  Þannig er ekki um það að ræða samkvæmt lögum um hlutafélög að mismunandi réttindi geti gilt innan hlutaflokks. 

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, kemur fram sú meginregla að séu hlutir í einkahlutafélagi fleiri en einn skuli allir hlutir hafa jafnan rétt miðað við fjárhæð.  Frá þessari meginreglu má víkja með því að kveða á um það í samþykktum félagsins.  Í ákvæðinu kemur einnig fram að í samþykktum megi meðal annars kveða á um hlutaflokka án atkvæðisréttar.  Ekkert er þannig því til fyrirstöðu að hlutum í einkahlutafélögum sé skipt upp í flokka líkt og álitsbeiðandi hefur í hyggju að gera.  En við þær aðstæður verður að telja að sama meginregla eigi við og rakin var hér að framan þ.e. að innan sama flokks skuli vera sömu réttindi fyrir hluthafa.  Eins og álitaefnið er lagt fyrir ríkisskattstjóra er ljóst að svo er ekki sbr. umfjöllun hér síðar.

Álitsbeiðandi hefur upplýst að úthlutun í B flokki grundvallist á framlagi hluthafa til hagnaðarmyndunar, tekjuöflunar fyrir félagið, fjárbindingu, sölustarfs, verkefnaöflunar, ábyrgðar á verkefnum, þróunar- og markaðsstarfi, innra starfi og gæðamálum allt samkvæmt ákvörðun framkvæmdastjóra sem byggjast verður á þeim reglum sem hluthafafundur samþykkir.  Tiltekið er í álitsbeiðni að reglur um úthlutun arðs í B flokki verði ekki alfarið bundnar við beint vinnuframlag og taki til þátta utan vinnustaðar s.s. virkni í félagsstörfum eða á öðrum vettvangi sem telst jákvæður fyrir félagið.

Þau atriði sem álitsbeiðandi hefur talið upp að eigi að hafa áhrif á úthlutun lúta langflest að því að auka hagnað og framlegð álitsbeiðanda.  Af þessum upplýsingum verður einna helst ráðið að umbuna eigi þeim hluthöfum sem eiga hlutabréf í B flokki allt eftir því hversu mikið þeir hafi lagt af mörkum til framgangs og velgengni álitsbeiðanda og að umbunin sé ekki í hlutfalli við hlutareign þeirra í B flokknum.  Þær reglur sem álitsbeiðandi hefur í hyggju að leggja til grundvallar umbun til B hluthafa eru þannig í eðli sínu afkastahvetjandi.  Þannig virðist reglunum ætlað að spyrða saman eljusemi og árangri umræddra hluthafa sem jafnframt eru starfsmenn álitsbeiðanda og rekstrarlegri afkomu félagsins í stað þess að arðsúthlutun til hlutareigenda sé byggð á tilteknu hlutfalli í samræmi við eignarhlutdeild hvers og eins hluthafa.

Að framangreindu virtu það álit ríkisskattstjóra að miðað við framfærðar forsendur þá verði að líta á greiðslur til hluthafa í B flokki sem afkastahvetjandi kaupauka sem skattleggja beri sem staðgreiðsluskyld laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga sbr. og lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.  Staðgreiðslu ber þá að halda eftir í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.  Ekki skiptir máli þó svo greiðslan sé innt af hendi undir formerkjum arðs á grundvelli eignarhalds á hlutabréfum í B flokki enda hefur álitsbeiðandi upplýst að það sé ekki hlutareignin sem slík og arðsúthlutun af hagnaði félagsins í hlutfalli við þá hlutareign sem liggi til grundvallar greiðslunni.  Umræddar tekjur geta því ekki í skattalegu tilliti talist arður af hlutareign, sbr. 1. tölul. 11. gr. tekjuskattslaga. 

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

 • Greiðslur til handhafa hlutabréfa í A - flokki álitsbeiðanda eru skattskyldar samkvæmt 4. tölul. C- liðar 7. gr., sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og ber álitsbeiðanda að halda eftir staðgreiðslu af greiðslum þessum samkvæmt ákvæðum laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
 • Greiðslur til handhafa hlutabréfa í B - flokki álitsbeiðanda eru skattskyldar samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og ber álitsbeiðanda að halda eftir staðgreiðslu af greiðslum þessum samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum