Bindandi álit

Bindandi álit 5/2019

19.6.2019

Bindandi áliti breytt með úrskurði Yfirskattanefndar nr. 40/2020.

Fyrirhugaðar ráðstafanir:

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi fyrirhugar að gefa út víkjandi skuldabréf og mun útgáfan tilheyra eiginfjárþætti 2. Meðfylgjandi álitsbeiðninni er afrit af drögum að útgáfulýsingu bréfanna sem gefin verður út samhliða sölu bréfanna. Samkvæmt útgáfulýsingunni er um að ræða skuldabréf sem gefin eru út í íslenskum krónum til 30 ára með einum gjalddaga í lokin. Bréfin eru verðtryggð. Vextir af þeim reiknast frá fyrsta vaxtadegi bréfanna og greiðast tvisvar á ári. Fjöldi gjalddaga höfuðstóls er einn en endurgreiðsla bréfanna á lokagjalddaga þeirra skal vera háð samþykki FME. Vextir eru fastir ársvextir og ákvarðast í útboði, en skulu hækka um 1% að liðnum 10 árum frá útgáfudegi bréfanna. Álitsbeiðanda verður þó heimilt hvenær sem er að fresta greiðslu vaxta samkvæmt bréfunum, sbr. nánar síðar. Vextir verða eins og fyrr segir greiddir tvisvar á ári en verðbætur leggjast ofan á höfuðstól og greiðast með síðustu vaxtagreiðslu í síðasta lagi á lokagjalddaga.

Útgefandi bréfanna mun með milligöngu Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf. greiða af bréfunum vexti á vaxtagjalddögum og höfuðstól auk verðbóta á lokagjalddaga til þeirra reikningsstofnanna þar sem skráðir eigendur bréfanna hafa VS-reikning.

Um rétthæð krafna samkvæmt útboðslýsingu segir svo í útboðslýsingu:

Kröfur skuldabréfaeigenda samkvæmt skuldabréfum þessum eru ávallt jafn réttháar (pari passu) innbyrðis og skulu á hverjum tíma vera jafn réttháar öðrum ótryggðum víkjandi skuldbindingum útgefanda, öðrum en kröfum og skuldbindingum sem samkvæmt lögum njóta forgangs umfram aðrar ótryggðar víkjandi skuldbindingar. Óheimilt er að inna af hendi greiðslu til eigenda skuldabréfa þessara nema sama hlutfall sé greitt til allra skuldabréfaeigenda í skuldabréfaflokki þessum.

Kröfurnar skulu vera víkjandi en í útboðslýsingu segir svo:

Kröfur samkvæmt skuldabréfum þessum eru víkjandi og skulu víkja fyrir öllum kröfum á hendur útgefanda eins og nánar er tilgreint í ákvæði þessu. Við gjaldþrot eða slit útgefanda endurgreiðist krafa um greiðslu samkvæmt skuldabréfunum á eftir öllum almennum kröfum, samhliða kröfum samkvæmt öðrum víkjandi skuldum, en á undan kröfum til endurgreiðslu hlutafjár og öðrum kröfum sem njóta sömu rétthæðar (þ.e. eru pari passu) og kröfur um endurgreiðslu hlutafjár.

Uppgreiðsluheimild er á skuldabréfunum en um það segir svo í útboðslýsingunni:

„Útgefanda er hvenær sem er heimilt, án sérstaks gjalds og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins, að greiða höfuðstól og vexti skuldabréfanna upp í heild, en ekki að hluta, fyrir gjalddaga þeirra ef skuldabréf þessi mynda ekki grunn að kjarnagjaldþoli útgefenda, s.s. að mati/úrskurði dómstóla, Fjármálaeftirlitsins eða annarra opinberra eftirlitsaðila, t.d. með vísan til XV. kafla Laganna, eins og Lögin eru við útgáfu skuldabréfanna eða eins og þeim, reglugerðum settum á grundvelli þeirra, eða annarri gjaldþolstilskipun ESB (Solvency II) samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins, Commission Deligated Regulation (EU) 2015/35, kann síðar að verða breytt. Útgefandi skal senda tilkynningu um uppgreiðslu til eigenda skuldabréfanna í gegnum kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf. með minnst 1 (eins) mánaðar fyrirvara.

Útgefanda er heimilt, án sérstaks gjalds og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins, að greiða skuld samkvæmt skuldabréfum þessum að hluta eða í heild frá og með [dags. sem er 10 árum frá útgáfudegi]. Tilkynna skal eigendum skuldabréfa þessara um innágreiðslur eða uppgreiðslu með minnst 1 (eins) mánaða fyrirvara. Innágreiðslur og uppgreiðsla samkvæmt framangreindri heimild skulu fara fram á vaxtadögum skuldabréfanna.

Útgefanda er óheimilt, að öðru leyti en að framan greinir, að greiða höfuðstól eða vexti skuldabréfa þessara upp að hluta eða í heild fyrir gjalddaga þeirra.

Útgefanda bréfanna er heimilt hvenær sem er, að fengnu samþykki FME, að fresta greiðslu vaxta samkvæmt bréfunum, en frestaðar vaxtagreiðslur gjaldfalla að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, t.d. vegna gjaldþrotaskipta eða slita á útgefanda, arðgreiðslu eða lækkunar á hlutafé í útgefanda. Skylda útgefanda til greiðslu frestaðrar vaxtagreiðslu skal þó ekki vera til staðar ef útgefandi uppfyllir á ákveðnum tímapunkti ekki ákvæði um gjaldþol, eins og lýst er nánar í skilmálunum. Gjaldþol er skilgreint með eftirfarandi hætti í útboðslýsingunni:

Með gjaldþoli er átt við gjaldþol vátryggingafélaga eins og það er skilgreint og reiknað út á grundvelli ákvæða laga og reglugerða á hverjum tíma, við útgáfu skuldabréfa þessara samkvæmt XV. kafla Laganna, eins og Lögin eru við útgáfu skuldabréfanna eða eins og þeim, reglugerðum settum á grundvelli þeirra, eða annarri gjaldþolstilskipun ESB (Solvency II) samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins, Commission Deligated Regulation (EU) 2015/35, kann síðar að verða breytt.“

Álitaefni:

Myndu áfallin vaxtagjöld samkvæmt bréfunum, þar með taldar áfallnar verðbætur á höfuðstól og vexti, teljast frádráttarbær við útreikning álitsbeiðanda á hagnaði sínum til skatts?

Rökstuðningur álitsbeiðanda:

Skuldabréfin munu tilheyra eiginfjárþætti 2 (T2). Vísað er til XV. kafla laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi þar sem fjallað er um gjaldþol vátryggingafélaga. Samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laganna er flokkunin háð því hvort um kjarnagjaldþolsliði eða stuðningsgjaldþolsliði er að ræða. Um kjarnagjaldþol er fjallað í 89. gr. sömu laga en 1. mgr. lagagreinarinnar segir:

Kjarnagjaldþol er annars vegar sá hluti eigna sem er umfram samtölu skuldbindinga skv. XIII. kafla og vátryggingaskuldar skv. XIV. kafla og hins vegar víkjandi skuldir.“

Álitaefnið samkvæmt beiðninni er það hvort áfallin vaxtagjöld samkvæmt bréfunum myndu teljast frádráttarbær við útreikning félagsins á hagnaði sínum til skatts. Nánar tiltekið er spurningin sú hvort bréfin myndu teljast til skuldabréfa og greiðslurnar þar með til frádráttarbærra vaxtagjalda eða hvort þau myndu teljast til eigin fjár og greiðslurnar þar með til arðgreiðslna. Þá segir í beiðninni að samkvæmt útgáfulýsingu séu bréfin með einn fastan lokagjalddaga sem styrki þá skoðun að þau falli undir skuldir eða lán.

Vísað er til nýlegs bindandi álits ríkisskattstjóra nr. 13/2018 þar sem segir orðrétt:

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að ákvarða hvort umræddir fjármálagerningar teljist fremur til skuldar eða eigin fjár í skattalegu tilliti. Í því sambandi er almennt horft til þess hvort til staðar sé skylda til endurgreiðslu lánsins og jafnframt hvort til staðar séu helstu almennu auðkenni láns, þ.e. að á skuldara hvíli almenn og óskilyrt skylda til að greiða höfuðstól lánsins til baka. Þá er horft til þess hvort höfuðstóllinn beri vexti eða slíkt sé háð afkomu skuldara.“

Álitsbeiðandi bendir á að þau bréf sem fyrirhugað er að gefa út verði skylt að endurgreiða á einum fyrirfram ákveðnum gjalddaga ásamt verðbótum. Vexti skuli greiða tvisvar á árin. Bréfin fullnægi þannig þeim höfuðskilyrðum sem RSK hefur nýlega lýst fyrir því að bréf séu flokkuð sem skuldabréf. Einnig er bent á að álitsbeiðanda verði heimilt að greiða skuld samkvæmt bréfunum að hluta eða heild eftir 10 ár frá útgáfudegi.

Skuldabréfin verði verðtryggð og beri fasta ársvexti, en álitsbeiðanda verði heimilt hvenær sem er að fresta greiðslu vaxta samkvæmt bréfunum. Þó gjaldafalli frestaðar vaxtagreiðslur við tiltekin skilyrði. Kröfuhafar bréfanna muni fá greiddar frestaðar vaxtagreiðslur við formleg slit álitsbeiðanda í sömu kröfuröð og aðrar kröfur á grundvelli bréfanna, enda sé að öðru leyti innstæða fyrir slíkri útborgun í þrotabúi álitsbeiðanda þegar að útborgun úr þrotabúi kemur.

Álitsbeiðandi hafi samkvæmt útboðslýsingu heimild til þess að innleysa bréfin í heild fyrir gjalddaga þeirra ef bréfin mynda ekki grunn að kjarnagjaldþoli álitsbeiðanda, en þó eingöngu ef FME hafi áður veitt samþykki til þess. Þá sé álitsbeiðanda heimilt að greiða skuld samkvæmt skuldabréfunum að hluta eða í heild 10 árum frá útgáfudegi að fengnu samþykki FME.

Álitsbeiðandi bendir á að ríkisskattstjóri hafi fjallað um svipaða gerninga í bindandi áliti nr. 2/2001 og í bindandi áliti nr. 3/2007 varðandi skattalega meðferð vaxta af víkjandi láni. Í báðum álitum hafi ríkisskattstjóri fallist á að heimila gjaldendum að færa til gjalda í skattskilum sínum áfallna vexti samkvæmt bréfunum sem fyrirhugað var að gefa út. Í hvorugu tilvikinu innihéldu viðkomandi bréf ákveðinn gjalddaga eins og bréf álitsbeiðanda gera, en töldust samt til skulda. Þá segir að þess heldur ættu þau bréf sem um ræðir í beiðninni og bera ákveðinn gjalddaga að falla undir skuldir.

Vísað er í að í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga segi að ársreikningar skuli samdir í samræmi við ársreikningalögin, reglugerðir og settar reikningsskilareglur, ef við á, og gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé. Samkvæmt reglugerð nr. 694/1996 um framsetningu ársreikninga í samandregnu formi, 3. gr., eru víkjandi lán færð meðal skuldbindinga. Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi segir að ársreikningur skuli gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu vátryggingafélags sem skuli samin í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, sbr. VIII. kafla laga um ársreikninga. Í 32. gr. reglugerðar nr. 613/1996 um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga sagði, en reglugerðin er nú fallin úr gildi, að undir lið 9 í efnahagsreikningi „Víkjandi skuldir“ skuli færa skuldir félagsins sem samið hefur verið um að víki fyrir öðrum skuldum félagsins en ekki eigin fé.

Þá segir í beiðninni að skuldabréfin sem fyrirhugað er að gefa út verði færð í skuldahlið efnahagsreiknings undir víkjandi lán og vaxtagjöld af þeim í rekstrarreikning félagsins, sbr. 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 49. gr. sömu laga.

Þá segir jafnframt að samkvæmt 4. málsl. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt skuli ársreikningur í samræmi við ákvæði laga um bókhald og eftir atvikum laga um ársreikninga fylgja skattskýrslu lögaðila ásamt greinargerð um skattstofna. Skattlagningin byggist síðan á ársreikningi aðila að teknu tilliti til ákvæða tekjuskattslaga. Engin sérstök ákvæði sé að finna í lögum nr. 90/2003 sem skilgreini mun skuldar og eigin fjár. Skattlagning félaga byggist á ársreikningum þeirra að teknu tilliti til þeirra frávika sem ákveðin eru í skattalögum. Því virðist augljóst að miða verði við þá skilgreiningu og reikningshaldslega meðferð sem um þessi fyrirbrigði gilda skv. ársreikningalögum og reikningshaldsreglum um vátryggingafélög. Í upphafsmálsliðum 1. mgr. 75. gr. laga nr. 90/2003 segir svo orðrétt:

Á framtali skal gera grein fyrir skuldum skattaðila. Með skuldum í þessu sambandi teljast áfallnar verðbætur á höfuðstól þeirra sem miðast við vísitölu í janúar á næsta ári eftir lok reikningsárs.“

Þá segir að ljóst sé að undir skuldir samkvæmt greindum málslið falli víkjandi skuldir.

Í beiðninni segir að í áður nefndum bindandi álitum nr. 2/2001 og nr. 3/2007 hafi ríkisskattstjóri fjallað ítarlega um þá lagalegu umgjörð sem varðar vexti annars vegar og arð hins vegar og vísar álitsbeiðandi til þeirrar umfjöllunar. Ríkisskattstjóri hafi í álitunum bent á að við samanburðar­skýringu á vaxtaákvæðum og arðsákvæðum tekjuskattslaga sjáist berlega að vaxtaskilgreiningin sé mun víðtækari en skilgreining laganna á arði. Gildandi ákvæði um vexti og arð samkvæmt lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt séu ítarlega rakin í nefndu áliti nr. 3/2007. Ríkisskattstjóri bendi á að 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 feli m.a. í sér almenna afmörkun vaxtahugtaksins, en samkvæmt niðurlagi 2. málsliðar 2. mgr. nefndrar greinar teljist til vaxtatekna hvers konar tekjur af peningalegum eignum. Eftir að hafa lýst afmörkun arðshugtaksins samkvæmt 11. gr. laganna segir orðrétt í nefndu áliti 3/2007:

Í ákvæðum þessum er sá skilsmunur vaxta- og arðstekna, að vaxtatekjur ná til allra tekna af peningalegum eignum, en arðstekjur eru bundnar við tekjur af hlutareign í hlutafélögum, einkahlutafélögum og samlagshlutafélögum. Um arðstekjur í þessum skilningi getur því aðeins verið að ræða að tekjurnar grundvallist á eignaraðild. Slíkar tekjur geta því ekki öðrum fallið til en þeim er teljast til hlutahafa, skv. lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og nr. 138/1994 um einkahlutafélög.“

Í framhaldi af þessum orðum segir síðan í álitinu „að umsamdar greiðslur, í lánssamningi nefndar vextir, teljist vextir í skilningi laga nr. 90/2003, þ.e. vaxtatekjur þess er rétt öðlast til greiðslnanna en vaxtagjöld þess er ber greiðsluskylduna“. Í álitsorðum segi síðan:

Í skattalegu tilliti ber að líta á umsamda "vexti" af "víkjandi láni" sem vexti af peningalegri eign en ekki sem arð af hlutareign.“

Álitsbeiðandi vísar til þessara raka ríkisskattstjóra um hina lagalegu umgjörð og niðurstöðu hans í áliti nr. 3/2007 sem er sambærilegt að efni til og úrskurðaratriði þau sem til álita koma í beiðninni.

Þá er vísað í fyrra álit ríkisskattstjóra nr. 2/2001, þar sem segir orðrétt:

„Sá almenni greinarmunur er gerður á milli láns annars vegar og eiginfjárframlags hins vegar að kröfuhafi lánsins á rétt á endurgreiðslu á gjalddaga, þ.e. á fyrirframákveðnum efndatíma, en á hinn bóginn á hluthafi (eða eigandi eiginfjárframlags) ekki kröfu til endurgreiðslu síns framlags á meðan félagið er enn starfandi. Eiginfjárframlag er þannig varanleg fjárfesting sem er ætluð til nota fyrir fyrirtækið sem fjárfest hefur verið í, á meðan að lán er í eðli sínu tímabundin fjárfesting í fyrirframákveðinn tíma. Til að greina á milli eiginfjárframlags og láns er varanleiki fjárframlagsins og mögulegrar endurgreiðslu að jafnaði veigamikill þáttur sem til skoðunar kemur.“

Þau skuldabréf sem fyrirhugað sé að gefa út verði með fyrirfram ákveðinn lokagjalddaga. Álitsbeiðandi telur að þessi álit ríkisskattstjóra nr. 2/2001 og 3/2007 séu fordæmisgefandi í væntanlegu áliti hans í þessu máli, sbr. og úrskurð yfirskattanefndar í máli nr. 169/2000.

Þá er vísað til þess að í máli yfirskattanefndar nr. 169/2000 hafi ríkisskattstjóri gefið kanadísku félagi bindandi álit sem fór í bága við álit sem embættið hafði gefið öðrum kanadískum félögum áður í sams konar málum. Talið var af nefndinni að hin umdeilda breyting á afstöðu embættisins hefði eingöngu byggt á því að það hefði skipt um skoðun. Þetta færi í bága við 11. gr. stjórnsýslulaga. Skyldu því niðurstöður ríkisskattstjóra varðandi ágreiningsefnið í fyrri málum um sambærilegt efni gilda í stað hinnar breyttu niðurstöðu í hinu kærða máli.

Það liggi þannig fyrir að bindandi álit í skattamálum er ekki einungis bindandi fyrir skattyfirvöld og álitsbeiðenda í viðkomandi málum heldur hefur það þar til viðbótar almennt fordæmisgildi gagnvart öðrum skattgreiðendum í sams konar eða svipuðum málum, sbr. 8. gr. laga nr. 91/1998 um bindandi álit í skattamálum. Samkvæmt nefndri grein skuli ríkisskattstjóri birta ákvarðanir og niðurstöður sem fram koma í álitum embættisins að því leyti sem þau hafi almenna þýðingu. Álit nr. 2/2001 og nr. 3/2007 eru bæði birt á vef ríkisskattstjóra. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 91/1998 segir svo orðrétt um 8. gr.:

Þar sem bindandi álit ríkisskattstjóra varðar einvörðungu hagsmuni álitsbeiðanda sjálfs er ekki gert ráð fyrir að álit verði birt í heild sinni. Niðurstaða ríkisskattstjóra, sem fram kemur í áliti hans, kann hins vegar að hafa almenna þýðingu fyrir skattaðila og er því í þessari grein gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri birti þær niðurstöður.“

Þá segir að lögum nr. 91/1998 um bindandi álit í skattamálum hafi verið ætlað að styrkja skattframkvæmd og réttaröryggi skattgreiðenda og því sé mikilvægt að ekki sé vikið frá þeirri leið og fallið frá framkvæmd í sams konar málum þar sem engar breytingar hafi orðið á þeim reglum sem lagðar hafa verið til grundvallar þeim í fyrri framkvæmd. Í bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 13/2018 virðist hafa verið horfið frá fyrri álitum embættisins í sambærilegum málum. Því sé nauðsynlegt að setja fram þessa beiðni um bindandi álit.

Forsendur ríkisskattstjóra:

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á fyrirkomulagi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit, að um sé að ræða álitaefni er varðar verulega skattalega hagsmuni þeirra sem eftir álitinu leitar. Álitaefnið þarf þannig að varða skattalega stöðu álitsbeiðenda sjálfra.

Ríkisskattstjóri fellst á að uppfyllt séu skilyrði fyrir útgáfu bindandi álits í þessu tilviki.

Álitinu er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðenda að því er þau atvik varðar er álitið tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998. Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kunna að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað varðar málsatvik og réttaráhrif hins bindandi álits.

Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðenda miðað við gildandi rétt og framfærða málavexti en verði breytingar þar á kunna þær forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.

Álitaefni snýst um hvort álitsbeiðanda verði heimilt í skattskilum sínum að gjaldfæra vexti af víkjandi skuldabréfum sem fyrirhugað er að gefa út og munu þau tilheyra eiginfjárþætti 2. Um sé að ræða verðtryggð skuldabréf sem gefin yrðu út í íslenskum krónum til 30 ára með einum gjalddaga í lokin.

Niðurstaða ríkisskattstjóra:

Álitamálið er hvort vextir af verðbréfum sem B fyrirhugar að gefa út verði frádráttarbærir í skattsskilum félagsins sem vextir af skuld eða hvort líta beri á greiðslur sem arðgreiðslur. Ef greiðslurnar teljast hvorki vextir né arður kemur til skoðunar hvort um sé að ræða útgjöld félagsins sem falli undir hina almennu skilgreiningu rekstrarkostnaðar, þ.e. gjalda til öflunar, viðhalds og tryggingar tekna í atvinnurekstri, sbr. 2. mgr. 30. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. tsl.

Í lýsingu á þeim fjármálagerningum sem B fyrirhugar að gefa út er notað hugtakið vextir og út frá því er gengið að um vexti sé að ræða. Sú nafngift sem greiðslum er valin ræður þó út af fyrir sig ekki úrslitum um það hvers eðlis greiðsla eða gjöld teljast í skattalegu tilliti. Það kemur því til sérstakrar skoðunar hvert sé eðli þeirra tekna eða útgjalda sem skilgreind eru sem vextir í útgáfulýsingu verðbréfanna. Ekki kemur til álita að líta á greiðslur þessar sem arð með vísan til þess að hvorki er til að dreifa hlutum eða hlutabréfum, sbr. lög 138/1994 og 2/1995, þó samstaða sé talin fyrir hendi sakir eðlis fjárframlaga sem þessara.

Engin sérstök ákvæði er að finna í lögum nr. 90/2003 sem skilgreina mun skuldar og eigin fjár. Við mat á því hvort fjármálagerningur teljist vera skuld eða hluti eigin fjár er almennt horft til þess hvort til staðar séu helstu auðkenni láns, þ.e. að á skuldara hvíli almenn og óskilyrt skylda til að greiða höfuðstólinn til baka. Þá er horft til þess hvort höfuðstóllinn beri vexti eða hvort greiðsla vaxta sé háð afkomu skuldara eða stjórnvaldsákvörðun.

Lokagjalddagi skuldabréfanna er einn, eftir 30 ár. Greiðist þá höfuðstóllinn að fullu ásamt vöxtum og verðbótum. Endurgreiðsla skuldabréfsins á lokagjalddaga er þó háð samþykki Fjármálaeftirlitsins.

Að mati ríkisskattstjóra verður að gera skilsmun þess að fjármálagerningur geti talist til eigin fjár þess sem fjárframlags nýtur eða um sé að ræða skuldabréf sem uppfyllir ákvæði þess að teljast skuld í þeim skilningi að vextir teljist frádráttarbærir samkvæmt 31. gr. tekjuskattslaga. Það að fjárframlag eða skuld sé ekki viðurkennd að fullu sem eiginlegur eiginfjárliður eða teljist til viðbótar eigin fjár jafngildir þó ekki því að um sé að ræða skuld hverrar vextir séu frádráttarbærir frá skattskyldum tekjum. Má í þessu sambandi benda á þá nástöðu sem fyrirhuguðum fjárframlögum er ætluð að álitamál eru höfð uppi um, hvort líta beri á greiðslur, ef einhverjar yrðu sem arðgreiðslur. Arðgreiðslur eru eins og fyrr segir greiddar af hlutum eða hlutabréfum í hlutafélögum og eru arðgreiðslur eða ígildi þeirra ekki frádráttarbærar frá skattskyldum tekjum greiðanda.

Það mun almennt viðurkennt að þegar lýstur saman reglum sem gilda skuli um framsetningu á upplýsingum í ársreikningum og ákvæðum skattalaga, þá ræðst skattlagning fyrst og fremst af ákvæðum skattalaga s.s. gildir um skattalegt bókfært eigið fé. Hafi þannig einhver megin auðkenni skuldabréfs verið afmáð til að uppfylla megi aðrar þarfir s.s. bætta stöðu eigin fjár við framsetningu í ársreikningi þá kann það jafnframt óhjákvæmilega að hafa afleiðingar í skattalegu tilliti. Skiptir þannig máli við gjaldfærslu vaxta í skattskilum að sýnt sé fram á annars vegar að ótvíræð krafa sé til greiðslu þeirra og hins vegar að staða skuldar í reikningsskilum sé ótvíræð. Leiða má rök fyrir því í þessu sambandi að á sömu álitaefni kunni að reyna í skattalegu tilliti varðandi færslu til tekna, sbr. 2. mgr. 59. gr. tekjuskattslaga, þegar lánveitandi á hlut að máli.

Álitsbeiðandi vísar í álit ríkisskattstjóra nr. 2/2001 og nr. 3/2007 og telur að þau séu fordæmis­gefandi fyrir úrlausn þessa máls. Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á að málavextir í þeim tveimur málum séu fyllilega sambærilegir málavöxtum í fyrirliggjandi álitsbeiðni. Í bindandi áliti nr. 2/2001 var um að ræða lán sem bar fasta ársvexti sem greiða skyldi tvisvar á ári. Vextir skyldu þó aldrei vera hærri en sem nam óráðstöfuðu eigin fé félagsins samkvæmt ársreikningi vegna næstliðins árs. Félagið gat því ekki einhliða ákveðið að fresta greiðslu vaxta.

Í bindandi álit nr. 3/07 var útgefanda heimilt að fresta vaxtagreiðslu hvenær sem er en vextir teldust þá vera í vanskilum og bæri ætíð að greiða þá á seinni stigum en útgefandi hefði að nokkru leyti frelsi til að ákveða það tímamark, þó aldrei lengri tíma en fimm ár. Heimild útgefanda til að fresta greiðslu vaxta var því í því máli mun þrengri en er í þessu máli.

Samkvæmt álitsbeiðni er útgefanda hvenær sem er heimilt að fresta vaxtagreiðslu. Frestaðar vaxtagreiðslur bera enga vexti og eru ekki verðtryggðar. Allar vaxtagreiðslur sem frestað hefur verið ber að greiða í eftirfarandi tilvikum sem ýmist varði endalok álitsbeiðanda eða hafi áhrif á eiginfjárliði:

  1. Um leið og ákvörðun hefur verið tekin eða úrskurður eða dómur fallið um töku útgefanda til gjaldþrotaskipta eða slit á útgefenda.
  2. Um leið og ákvörðum hefur verið tekin um að útgefandi greiði arð, lækki hlutafé í útgefanda eða kaupi eigin hluti.
  3. Um leið og heimild um innágreiðslu eða uppgreiðslu samkvæmt skuldabréfum þessum er nýtt.

Skylda útgefanda til greiðslu frestaðrar vaxtagreiðslu skal, þrátt fyrir framangreint, ekki vera til staðar á þeim tímapunkti ef (i) útgefandi uppfyllir ekki ákvæði laga um gjaldþol eða mun ekki uppfylla þau ákvæði í kjölfar greiðslu frestaðrar vaxtagreiðslu, eða (ii) útgefenda er skylt að fresta áfram greiðslu vaxta „skuldabréfa“ þessara til að skuld samkvæmt „skuldabréfum“ þessum uppfylli skilyrði laga til að mynda grunn að útreikningi gjaldþols útgefanda. Þá er kveðið á um það í útboðslýsingunni að kröfuhafar skuldabréfanna fái greiddar frestaðar vaxtagreiðslur, þó fyrst við formleg slit á útgefanda í sömu kröfuröð og aðrar kröfur á grundvelli skuldabréfa þessara, enda sé að öðru leyti innistæða fyrir slíkri útborgun í þrotabúi útgefanda þegar að útborgun úr þrotabúi kemur.

Almennt hefur lánveitandi í hendi sér vanefndaúrræði komi til þess að skuldari ákveði einhliða að fresta greiðslu vaxta og greiðsla vaxta er almennt ekki háð vilja skuldara eða því að leita þurfi samþykkis þriðja aðila. Þá er það almennt einkenni skuldabréfa að endurgreiðsla þess á lokagjalddaga er skilyrðislaus og ekki háð samþykki þriðja aðila.

Fjármálagerningar þeir sem fyrirhugað er að gefa út verða því fremur að teljast til eiginfjárframlags en til skuldar í skattalegu tilliti. Útgefandi getur frestað greiðslu vaxta. Frestaða vexti getur þurft að greiða í vissum tilvikum, svo sem ef ákvörðun hefur verið tekin um útgreiðslu arðs. Að því leiti eiga fjármálagerningarnir meiri samleið með eiginfjárframlagi en skuld. Þeir verða því ekki taldir til skuldar í skilningi 1. mgr. 49. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 483/1994, þannig að vaxtagjöld af þeim teljist frádráttarbær frá tekjum kæranda á grundvelli umræddra ákvæða.

Með vísan til framangreinds er það álit ríkisskattstjóra að ekki sé um frádráttarbæra vexti að ræða, hvort heldur litið yrði á þau verðbréf sem félagið fyrirhugar að gefa út sem eigið fé eða sem skuld er ekki uppfyllti skilyrði um ótvíræða skuldbindingu til greiðslu höfuðstóls og vaxta. Útgefanda yrði hvenær sem er heimilt að fresta greiðslu og frestaðar vaxtagreiðslur bera enga vexti og eru ekki verðtryggðar. Er það mat ríkisskattstjóra að slík tilhögun geti þannig ekki fallið undir hina almennu skilgreiningu rekstrarkostnaðar, þ.e. stofnast hafi á árinu til ótvíræðrar skyldu til greiðslu kostnaðar vegna öflunar, viðhalds og tryggingar tekna í atvinnurekstri, sbr. 2. mgr. 30. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 31 gr. tsl. og verið frádráttarbær á þeim grunni.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

Vextir af þeim fjármálagerningum sem fyrirhugað er að gefa út teljast ekki frádráttarbærir vextir í skattalegu tilliti.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum