Bindandi álit

Bindandi álit 6/2021

4.11.2021

Málsatvik og fyrirætlanir álitsbeiðanda:

Í beiðninni er gerð svohljóðandi grein fyrir atvikum máls:

A GmbH, sem stofnað var árið 2013, er sjálfstætt fjárfestingafyrirtæki sem sinnir eignastýringu fyrir hönd sjóða, stofnana, lífeyrissjóða og annarra fjárfestingaaðila. A fjárfestir í meðalstórum félögum innan Evrópu sem skráð eru á opinbera hlutabréfamarkaði og eignast venjulega stóran minnihlutaeignarhlut í félögum sem það heldur svo á til lengri tíma. A treystir á eigin markaðsrannsóknir og tengslanet til að öðlast djúpstæða þekkingu á þeim félögum sem það fjárfestir í. A deilir þessum rannsóknum með stjórnum félaganna í þeim tilgangi að aðstoða þau við að ná áætluðum markmiðum þeirra. A er starfrækt út frá skrifstofu félagsins í Zug, Sviss.

A hefur tilskyld leyfi og lýtur eftirliti frá fjármálamarkaðseftirliti í Swiss (Swiss Financial Market Supervisory Authority) og í Bandaríkjunum (United States Securites and Exchange Commission).

Þá kemur fram í beiðninni að A bjóði einungis upp á eina fjárfestingarstefnu […]. A gegni hlutverki sjóðstjóra en um marga aðskilda sjóði sé að ræða. Þar að auki sé einn reikningur sem sé sérstaklega stýrt og hann aðskilinn sjóðunum.

Jafnframt kemur fram að B Ltd. sé „undanþegið félag“ (e. exempted company) sem stofnað sé og skráð skv. lögum Cayman-eyja. Félagið fjárfesti fjármunum sínum í félaginu F Ltd. Þá kemur fram að félagið G, LP sé samlagsfélag sem skráð sé í Delaware ríki í Bandaríkjunum og að öllum fjármunum þess félags sé einnig endurfjárfest í F.

Varðandi fyrirætlanir álitsbeiðanda kemur eftirfarandi fram í beiðninni:

A er að íhuga möguleikann á að flytja lögpersónu F frá Cayman-eyjum til Írlands. Þessi flutningur yrði framkvæmdur án þess að félaginu yrði slitið og myndu öll réttindi og skyldur félagsins haldast að fullu í gegnum flutninginn enda er slíkt heimilt skv. lögum Cayman-eyja og Írlands. Um sömu lögpersónu yrði að ræða í gegnum allt ferlið. Lögpersónan sjálf myndi aldrei hætta að vera til, er hún færðist frá Cayman-eyjum til Írlands.

Á Írlandi yrði F starfrækt í formi Irish Collective Asset-Management Company (ICAV).

Meðal ástæðna fyrir áætlaðan flutning eru að A/F

  1. vilja geta markaðssett sjóðinn innan Evrópusambandsins. Þeir vilja geta nýtt AIFMD leyfi og til að stækka hóp mögulegra fjárfesta. Núgildandi fyrirkomulag í Cayman-eyjum takmarkar getu þeirra til að markaðssetja sjóðinn í Evrópu.
  2. Að meginstefnu til eru allar fjárfestingar sjóðsins í Evrópskum félögum.
  3. Aðgangur að tvísköttunarsamningum Írlands við önnur lönd.
  4. Einföldun á skattalegri meðferð fjárfestinga meðal bandarískra félaga.
  5. Lækkun kostnaðar og einfaldari regluverk.

Þá er reifað hver séu réttindi og skyldur ICAV félaga á Írlandi. Kemur fram að ICAV sé ný tegund félagaforms með takmarkaða ábyrgð á Írlandi. Félagaréttarleg uppbygging sé sérstaklega hönnuð með fjárfestingasjóði í huga og geri það því stjórnendum kleift að takmarka stjórnunarlega yfirbyggingu og kostnað. Kemur fram að ICAV þurfi hins vegar að huga að almennum reglum um stjórnunarhætti félaga enda hafi slík félög hluthafa, auk þess þau þurfi að hafa a.m.k. tvo stjórnarmenn. Þá þurfi þau að lúta öðrum reglum sem gilda um hlutafélag.

Í beiðninni eru talin upp helstu eiginleikar ICAV sem séu eftirfarandi:

  1. ICAV er sjálfstæður lögaðili og verður ekki samsamaður með hluthöfum sínum. Um er að ræða sjálfstæða lögpersónu.
  2. Sem hlutafélag njóta eigendur þess góðs af takmarkaðri ábyrgð á skuldbindingum félagsins (ábyrgð hlutahafa er takmörkuð við hlutafjárframlög þeirra).
  3. Hlutafé félagsins er skipt niður í hlutabréf.
  4. Tilteknir stjórnunarhættir eru nauðsynlegir, t.d. þarf að vera starfandi stjórn o.fl.
  5. ICAV félög eru skráningarskyld hjá ríkisstofnun og lúta eftirliti sömu stofnunar, Seðlabanka Írlands (e. the Central Bank of Ireland).
  6. Um úthlutanir til hluthafa gilda sérstakar reglur.
  7. ICAV félög geta gefið út hlutabréf, skuldabréf og aðra fjármálagerninga sem geta fengist skráð á verðbréfamarkaði.
  8. ICAV félög útbúa skjal sem stýrir rekstri þess sem nefnist stofnskrá (e. Instrument of incorporation). Stofnskrá félaganna er sambærileg samþykktum og er grundvallarskjal ICAV félaga.

ICAV félög eru þó frábrugðin írskum hlutafélögum á eftirfarandi máta:

  1. Hlutafé félagsins, þegar það er að fullu greitt, þarf að jafngilda bókfærðu nettó virði eigna ICAV félagsins.
  2. ICAV félög eru undanþegin tekjuskatti á Írlandi.
  3. ICAV félögum er ekki skylt að stunda fjölbreyttar fjárfestingar til að stýra áhættu.
  4. ICAV félög hafa heimild til að sleppa því að halda aðalfundi ef þau gera hluthöfum viðvart um það fyrirfram.

Sjónarmið álitsbeiðanda:

Álitsbeiðandi telur að F ICAV ætti að vera talið jafngilt íslensku hlutafélagi eða einkahlutafélagi. Er vísað til bindandi álits ríkisskattstjóra þar sem fjallað var um frádráttarheimildina og hvort viðkomandi lögaðili gæti talist jafngildur íslensku hlutafélagi. Umrætt álit var síðar staðfest með úrskurði yfirskattanefndar nr. 365/2010. Tekur álitsbeiðandi fram að svo virðist sem íslensk skattyfirvöld horfi aðalleg til þess hvort hluthafar hins erlenda félags beri takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins við mat á því hvort erlenda félagið eigi rétt að nýta frádráttarheimildina vegna móttekins arðs og söluhagnaðar.

Telur álitsbeiðandi að bera þurfi saman eiginleika íslenskra félaga með takmarkaða ábyrgð og ICAV félaga sem skráð eru á Írlandi. Er í beiðninni taldir upp helstu eiginleikar íslenskra félaga með takmarkaða ábyrgð s.s. takmörkuð ábyrgð hluthafa, hlutafé sé skipti í hluti/hlutabréf, hlutafélög séu sjálfstæðar lögpersónur, þau þurfa að vera með stjórn, hafa hlotið skráningu hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og að sérstakar reglur gildi um úthlutun fjármuna til eiganda/hluthafa.

Á þessu byggðu telur álitsbeiðandi ICAV fullnægja öllu ofangreindu og eigi því að teljast sambærilegt íslensku hlutafélagi í skilningi 9. tölul. og 9. tölul. a. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá er álitsbeiðandi þeirrar skoðunar að áætlaður flutningur F frá Cayman-eyjum til Írlands án slita félagsins ætti ekki að fela í sér neinar skattalegar afleiðingar á Íslandi.

Álitaefni:

Álitsbeiðandi óskar eftir bindandi áliti Skattsins á því hvort F, sem hefur flutt heimilisfesti sitt til Írlands og sé þar rekið sem ICAV félag („F ICAV“), geti notið góðs af frádráttarheimild 9. tölul. og 9. tölul. a. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt varðandi móttekinn arð og hagnað af sölu hlutabréfa. Samkvæmt orðalagi greinarinnar geti eftirfarandi aðilar dregið mótteknar arðgreiðslur og hagnað af sölu hlutabréfa í öðrum félögum frá skattskyldum tekjum sínum:

  1. Hlutafélög
  2. Einkahlutafélög
  3. Samlagshlutafélög, enda sé þess óskað við skráningu að samlagshlutafélagið sé sjálfstæður skattaðili.
  4. Gagnkvæm vátrygginga- og ábyrgðarfélög
  5. Kaupfélög, önnur samvinnufélög og samvinnufélagasambönd.

Þar að auki falli undir gildissvið frádráttarheimildarinnar félög, sem eru heimilisföst í aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og eru í sömu félagaformum og nefnd eru hér að ofan.

Sérstaklega er tekið fram að álitsbeiðandi sé að óska eftir bindandi áliti um það hvort hann geti fallið undir fyrstu þrjá liðina.

Þá óskar álitsbeiðandi eftir bindandi áliti Skattsins á því hvort fyrirhugaður flutningur F frá Cayman-eyjum til Írlands án slita félagsins muni hafa skattalegar afleiðingar fyrir félagið á Íslandi.

Forsendur ríkisskattstjóra:

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á fyrirkomulagi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit, að um sé að ræða álitaefni er varðar verulega skattalega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar og að ekki hafi verið ráðist í þær aðgerðir sem álitið varðar. Álitaefnið þarf þannig að varða fyrirhugaðar aðgerðir og skattalega stöðu álitsbeiðanda sjálfra í því sambandi.

Álitum er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðanda að því er þau atvik varðar er álitið tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998. Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kunna að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað varðar málsatvik og réttaráhrif hins bindandi álits.

Álit er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt og framfærða málavexti en verði breytingar þar á kunna þær forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft. Gildistími bindandi álita sem ríkisskattstjóri gefur út er fimm ár skv. 6. gr. laga nr. 91/1998. Hafi álitsbeiðandi ekki gert ráðstafanir sem fjallað er um í álitinu innan þess tíma fellur það niður.

Framfærð álitaefni álitsbeiðnarinnar eru tvö. Annars vegar er óskað eftir bindandi áliti varðandi það hvort fyrirhugaður flutningur F frá Cayman-eyjum til Írlands án slita félagsins hafi einhverjar skattalegar afleiðingar og hins vegar hvort hið írska félagaform ICAV teljist jafngilt íslensku hlutafélagi/einkahlutafélagi þannig að ákvæði 9. tölul. og 9. tölul. a 31. gr. tsl. eigi við.

Hvað varðar fyrra álitaefnið er ýmist tekið fram að umræddur flutningur félagsins sé fyrirhugaður eða að flutningur félagsins hafi þegar átt sé stað. Þannig kemur fram í kafla 3.1 að A sé að íhuga möguleikann á að flytja lögpersónu F frá Cayman-eyjum til Írlands. Í 4. kafla er hins vegar tekið fram að F hafi flutt heimilisfesti sitt til Írlands og sé þar rekið sem ICAV félag. Í niðurlagi sama kafla er aftur á því byggt að flutningur félagsins sé fyrirhugaður. Þrátt fyrir að telja verði að ekki sé nægjanlega skýrt hvort skilyrði álitsbeiðnarinnar séu uppfyllt að þessu leyti er þó gengið út frá því að ekki hafi verið ráðist í umræddan flutning félagsins yfir landamæri og hið villandi orðalag í 4. kafla álitsbeiðnarinnar lúti eingöngu að því hvort ákvæði 9. tölul. og 9. tölul. a 31. gr. tsl. eigi við eftir að félagið hafi verið flutt í aðra skattalögsögu. Þessum þætti álitsbeiðnarinnar verður því ekki vísað frá á þeim grunni að þegar hafi verið ráðist í umræddar ráðstafanir og skilyrði fyrir útgáfu bindandi álits þannig ekki uppfyllt hvað þennan þátt varðar.

Eins og fyrr segir er óskað eftir bindandi áliti á því hvort fyrirhugaður flutningur myndi hafa skattalegar afleiðingar í för með sér fyrir félagið á Íslandi yrði af honum. Enga sérstaka umfjöllun er að finna í álitsbeiðninni hvað þennan þátt varðar. Þannig er ekki vikið að einstökum lagaákvæðum eða sjónarmið álitsbeiðanda að öðru leyti rakin. Liggur því ekki fyrir hvaða skattalegu álitamál liggja hér undir. Verður því vart talið að beiðnin, eins og hún liggur fyrir, uppfylli þær kröfur um skýrleika sem gerðar eru í lögum nr. 91/1998, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 3. gr. þeirra laga, þar sem m.a. kemur fram að beiðnin skuli vera ítarlega afmörkuð varðandi þau atvik og álitaefni sem um er spurt.

Með vísan til framangreinds er beiðni álitsbeiðanda um bindandi álit hvað varðar fyrra álitaefni álitsbeiðnarinnar vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Hvað síðara álitaefni varðar er í álitsbeiðninni óskað eftir því að ríkisskattstjóri gefi álit sitt á því hvort félagið sem fyrirhugað sé að stofna á Írlandi sem ICAV geti nýtt sér frádráttarheimild 9. tölul. og 9. tölul. a 31. gr. tsl. Ákvæðin lúta að frádráttarheimild vegna móttekins arðs og söluhagnaðar af hlutabréfum. Annars vegar er um að ræða heimild innlendra félaga til frádráttar vegna arðs og söluhagnaðar frá öðru innlendu eða erlendu félagi og hins vegar frádráttarheimild erlendra félaga með takmarkaða skattskyldu hérlendis vegna arðs eða söluhagnaðar sem á uppruna sinn á Íslandi, þ.e. vegna móttekins arðs frá íslensku félagi eða sölu hlutabréfa í félagi sem stofnsett er og skráð hérlendis. Álitsbeiðnin varðar síðastgreind atvik.

Ríkisskattstjóri fellst á að uppfyllt séu skilyrði fyrir útgáfu bindandi álits hvað þennan þátt álitsbeiðnarinnar varðar.

Líkt og að framan er rakið er á því byggt að álitsbeiðandi teljist „jafngilt íslensku hlutafélagi/einkahlutafélagi í skilningi 9. tölul. og 9. tölul. a 31. gr. TSL og ætti því að geta dregið móttekinn arð og söluhagnað vegna sölu á hlutum í öðrum félögum frá skattskyldum tekjum sínum á Íslandi.“ Í þessu sambandi er vísað til bindandi álits ríkisskattstjóra sem staðfest var með úrskurði yfirskattanefndar nr. 365/2010. Segir að við skoðun á álitinu virðist sem svo að íslensk skattyfirvöld horfi aðallega til þess hvort hluthafar hins erlenda félags beri takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins við mat á því hvort erlenda félagið eigi rétt á að nýta frádráttarheimildina vegna móttekins arðs eða söluhagnaðar. Í úrskurði yfirskattanefndar hafi komið fram að beri eigendur félags ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins geti það aldrei talist jafngilt íslensku hlutafélagi jafnvel þótt skattaleg meðferð félagsins í heimalandi þess væri sú sama og hjá þarlendum hlutafélögum. Rakin eru helstu eiginleikar íslenskra félaga með takmarkaðri ábyrgð og tekið fram að ICAV félög deili öllum þeim eiginleikum. Séu þeir eftirfarandi:

  1. Takmörkuð ábyrgð hluthafa, þ.e. ábyrgð hluthafa er takmörkuð við hlutafjárframlög þeirra.
  2. Hlutafé félagsins er skipt niður í hluti/hlutabréf.
  3. Hlutafélög eru sjálfstæðar lögpersónur sem eru aðskilin frá eigendum/hluthöfum þeirra.
  4. Um þau gilda tilteknar reglur um stjórnarhætti, t.d. þurfa þau að vera með stjórn.
  5. Þau þurfa að hafa hlotið skráningu hjá Fyrirtækjaskrá Skattsins.
  6. Sérstakar reglur gilda um úthlutun fjármuna til eigenda/hluthafa.

Íslensk hlutafélög eru sérstakt félagaform undir sjálfstæðri löggjöf sem byggir á sama grunni og hlutafélög í öðrum löndum þar sem reglur eru í meginatriðum af sambærilegum toga og sem fylgja sömu eða sambærilegum lögmálum um almenn atvinnurekstrarfélög. Íslensk hlutafélög skulu m.a. nota heitið hlutafélag eða skammstöfunina hf. í nafni sínu. Sama gildir almennt um hlutafélög í öðrum löndum s.s. á Írlandi en þar eru hlutafélög auðkennd með skammstöfuninni PLC og einkahlutafélög með LTD. Irish Collective Asset-Management Company hafa í samræmi við framangreinda nafngift og tilgang sinn skammstöfunina ICAV í nafni sínu sem lýsir á margan hátt eðli félags af þessum toga og starfsemi þess. Líkt og önnur hlutafélög í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum (EES/ESB) eru hlutafélög undir ríkum áhrifum af þróun og reglum EES/ESB sem beinast að félagaréttarlöggjöf aðildarríkjanna.

Líkt og fram kom í því bindandi áliti sem umboðsmaður álitsbeiðanda vísar til sem og úrskurði yfirskattanefndar, er dregið fram og sjónum beint að því að eitt megineinkenni hlutafélaga felst í því að ábyrgð hluthafa er takmörkuð. Af því leiðir að sé það skilyrði ekki uppfyllt má þegar ljóst vera að ekki er um að ræða hlutafélag. Þó verður eðli máls samkvæmt ekki fallist á að öll félög með takmarkaðri ábyrgð séu án undantekninga hlutafélög eða eftir atvikum einkahlutafélög eða „jafngilt íslensku hlutafélagi/einkahlutafélagi í skilningi 9. tölul. og 9. tölul. a 31. gr. TSL“ eins og það er orðað í álitsbeiðninni. Rétt er að halda því til haga að framangreind heimildarákvæði eiga eingöngu við sé um félag í sama félagaformi að ræða og tilgreind eru í 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. tsl.

Telja verður að almennt leiki enginn vafi á því hvort erlent félag teljist hlutafélag í skilningi framangreindra ákvæða, eða falli undir samevrópska hlutafélagalöggjöf, þótt gera verði ráð fyrir að álitamál kunni að vakna þar sem vafi er á því hvoru megin hryggjar einstök félagaafbrigði falli, en hafa ber í huga að þegar um er að ræða undanþágu frá almennri skattskyldu sætir túlkun hugtaka þröngri lögskýringu hér sem endranær.

Líkt og rakið er í álitsbeiðninni er félagaréttarleg uppbygging ICAV sérstaklega hönnuð með fjárfestingarsjóði í huga. Í Evrópu, þ á m. á Írlandi, eru sjóðir um sameiginlega fjárfestingu annars vegar verðbréfasjóðir, sk. UCITS sjóðir (e. Undertakings for Collective Investment in Transferable Securities) og hins vegar sérhæfðir sjóðir eða AIF (e. Alternative Investment Fund) sem eru allir þeir sjóðir sem ekki teljast til verðbréfasjóða og eru þannig heildarheiti yfir margs konar sjóði. Sjóðir um sameiginlega fjárfestingu hafa almennt ekki sjálfstæða lagalega tilvist og eru ekki sjálfstæðir lögaðilar nema þeir séu stofnaðir í einhvers konar félagaréttarlegu formi. Þannig kunna sérstakir rekstraraðilar að taka ákvarðanir um stjórnun og markaðssetningu og sjóðurinn sjálfur í vörslu sjálfstæðra vörsluaðila. Á Írlandi standa nokkrir kostir til boða við ákvörðun á lagaumhverfi fjárfestingasjóða. Hægt er að velja um fjárfestingafélög (e. Investment Company), Unit Trust, Common Contractual Fund (CCF), Investment Limited Partnership (ILP) og nú síðast ICAV sem er nýtt form lögaðila sem heyra undir sérstök lög um ICAV, sk. Irish Collective Asset-Management Vehicles Act 2015.

Fjallað er um eðli starfsemi ICAV í 8. gr. laganna. Kemur þar fram að ICAV getur eingöngu haft með höndum starfsemi sem heimil er samkvæmt reglum um verðbréfasjóði eða sérhæfða sjóði, en ICAV getur annað hvort fengið staðfestingu (e. authorisation) á grundvelli reglna um verðbréfasjóði (ICAV UCITS) eða sérhæfða sjóði (ICAV AIF) samkvæmt ákvæðinu. Þannig er ekki hægt að reka starfsemi af öðrum toga í ICAV en sem þar greinir. ICAV getur lotið eigin stjórn þó því kunni einnig að vera stýrt af öðrum aðila. Þau geta starfað sem sjálfstæður sjóður eða verið yfirbygging yfir aðra sjóði. Starfi ICAV sem yfirbygging yfir aðra sjóði er það sk. „umbrella fund“ sbr. skilgreiningu í 2. gr. laga um ICAV.

ICAV er skráð hjá Seðlabanka Írlands og lýtur eftirliti hans, en hlutafélög eru aftur á móti skráð hjá hlutafélagaskrá (Companies Act 2014). ICAV félögin hafa sérstaka stofnskrá sem sambærileg er samþykktum, en hægt er að gera breytingar á stofnskránni án samþykkis félagsaðila að tilteknum skilyrðum uppfylltum. ICAV hefur stjórn, en heimilt er að sleppa því að halda aðalfund sé hluthöfum gert viðvart um það fyrirfram.

Hægt er að umbreyta verðbréfasjóðum og sérhæfðum sjóðum í ICAV, séu þeir starfræktir sem fjárfestingafélög. Þá er samruni verðbréfasjóða og ICAV UCITS heimill sem og sérhæfðra sjóða og ICAV AIF, að fenginni staðfestingu Seðlabanka Írlands. Hægt er að skrá ICAV á verðbréfamarkað. ICAV telst þó ekki vera fyrirtæki skráð í kauphöll (e. Public Limited Company – PLC) og ólíkt fyrirtækjum skráðum í kauphöll eiga ICAV þess kost að nýta sér „check the box“ reglur í Bandaríkjunum, en fyrirtæki (e. corporations), þ.m.t. PLC, eiga ekki kost á því.

Ákvæði laga um ICAV skapa nýtt lagaumhverfi um sameiginlega fjárfestingu með reglum sem eru sérsniðnar að þörfum írskra sjóða. Um er að ræða nýtt form lögaðila sem stendur utan hlutafélagalöggjafar þrátt fyrir að ýmis ákvæði ICAV löggjafar séu af sama eða svipuðum toga og gildir um hlutafélög, þ.e. þær reglur sem falla vel að þörfum sjóða um sameiginlega fjárfestingu á Írlandi. Þar sem löggjöfin stendur utan almennrar félagalöggjafar fylgir hún ekki þróun félagaréttar innan ESB/EES. Í annarri umræðu neðri deildar írska löggjafarþingsins um frumvarp það er varð að lögum um ICAV (Irish Collective Asset-management Vehicles Bill 2014: Second Stage – Dáil Éireann (31st Dáil) – Thursday, 9 Oct 2014 – Houses of the Oireachtas) kemur eftirfarandi fram í ræðu frummælanda með frumvarpi því er varð að lögum um ICAV:

ICAVs will resemble in many ways companies established under company law but they will not be part of company law. General company law provisions are often irrelevant or inappropriate to investment funds and, increasingly, EU company regulations are creating unintended consequences and unnecessary expense for funds.

Fjallað er um heimild félaga skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. tsl til að færa móttekinn arð eða söluhagnað frá tekjum í 2. málsl. 9. tölul. og 9. tölul. a 31. gr. tsl. Síðast greind ákvæði eru sambærileg í grunninn og skilyrðin sömuleiðis. Í báðum tilvikum er heimildin bundin tveimur skilyrðum. Annars vegar að hið erlenda félag sé í sama félagaformi og félag skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. tsl. og hins vegar að hið erlenda félag sé heimilisfast í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum (EES/ESB).

Álitsbeiðnin varðar félag sem fyrirhugað er að flytja til Írlands, þ.e. írska lýðveldisins sem, þegar þetta er ritað, er aðildarríki í ESB.

Í álitsbeiðninni eru dregin fram þau einkenni ICAV sem talin eru hafa einhverja samsvörun með hlutafélögum, s.s. að um sé að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð, stofnskrá sé sambærileg samþykktum og tilteknir stjórnunarhættir séu færðir í lög. Ennfremur er vikið að eiginleikum sem víkja frá þeim reglum sem gilda um hlutafélög, s.s. að hlutafé, þegar það er að fullu greitt, þurfi að jafngilda bókfærðu nettó virði eigna ICAV, að félögin séu undanþegin tekjuskatti á Írlandi og að engin krafa sé um fjölbreytileika fjárfestinga til að stýra áhættu. Svo sem fram hefur komið og rakið er í álitsbeiðninni er um að ræða nýtt form lögaðila sem starfar samkvæmt sérstökum reglum sem sérsniðnar eru að þörfum írskra sjóða og sem eru ekki hluti af almennri hlutafélagalöggjöf. Félagaform þetta hefur auk þess þá eiginleika gagnvart bandarískri skattalöggjöf að geta talist til gegnumstreymisfélaga og uppfyllir þannig þau skilyrði að geta nýtt sér þær reglur um skattaðila er kallast „check the box“. Verður að telja að eiginleikar ICAV víki eins og að framar greinir að verulegu leyti frá hefðbundnum hlutafélögum. Að mati ríkisskattstjóra hefur það þó takmarkaða þýðingu að greina þau frávik með nákvæmum hætti, enda kemur fram með skýrum hætti í ákvæðum 9. tölul. og 9. tölul. a 31. gr. tsl. að heimild félaga með takmarkaðri ábyrgð sé alfarið bundin félögum í sömu félagaformum og þau innlendu félög sem hafa heimildina skv. 1. málsl. ákvæðanna, en líkt og fram hefur komið er ICAV nýtt félagaform sem á ekki undir almenna hlutafélagalöggjöf Írlands.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni.

Beiðni um staðfestingu þess að áætlaður flutningur F frá Cayman-eyjum til Írlands án slita félagsins feli ekki í sér neinar skattalegar afleiðingar á Íslandi er vísað frá.

Að F ICAV sem heimilisfast yrði á Írlandi sé ekki félag af þeim toga sem hafi heimild til að nýta sér heimild 9. tölul. og 9. tölul. a 31. gr. tsl. og geti því ekki dregið móttekinn arð og söluhagnað vegna sölu á hlutum í innlendum félögum frá skattskyldum tekjum sínum á Íslandi.

Kæruréttur:

Frávísanir eru ekki kæranlegar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Kærufrestur á bindandi álitum til yfirskattanefndar er þrír mánuðir frá dagsetningu álitsins, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Frávísanir eru ekki kæranlegar sbr. 3. mgr. 5. gr. áðurnefndra laga.

Kæra skal vera skrifleg. Í henni skal koma fram hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit hins kærða álits skal fylgja kæru, sem og þau gögn sem ætluð eru til stuðnings henni.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum