Bindandi álit nr. 09/13
Málsatvik og fyrirætlanir álitsbeiðanda:
Í álitsbeiðninni er rakið að þann 29. júní 2012 hafi verið óskað eftir bindandi áliti frá ríkisskattstjóra vegna tiltekinna ráðstafana sem fyrirhugað er að ráðast í við gerð nauðasamninga við kröfuhafa álitsbeiðanda. Þann 23. ágúst 2012 gaf ríkisskattstjóri út bindandi álit vegna þeirra álitaefna sem þar voru sett fram. Þá kemur fram í þeirri álitsbeiðni sem hér er til umfjöllunar að fyrirhugað sé að breyta út frá þeim fyrirætlunum sem lýst var í álitsbeiðninni frá því í júní 2012 og af þeim sökum sé óskað eftir nýju bindandi áliti.
Í þeirri álitsbeiðni sem hér er til afgreiðslu kemur fram að sú breyting hafi orðið frá því að ríkisskattstjóri gaf út fyrra álit sitt að nú sé fyrirhugað að bæta við ákvæðum í samþykktir álitsbeiðanda sem kveða myndu á um að framsal hlutabréfa og skuldabréfa skuli fara fram samhliða.
Álitsbeiðandi lýsir því að það sé ætlun hans að hluti greiðslna til kröfuhafa við nauðasamning muni fara fram með þeim hætti að núverandi kröfum verði breytt í skuldabréf. Ríkisskattstjóri hafi staðfest að eins og skuldabréfunum hafi verið lýst í upphaflegri beiðni álitsbeiðanda þá væri um að ræða breytingu á formi á núverandi skuldum, en ekki skattskylda eftirgjöf skulda.
Álitsbeiðandi vísar til beiðnar sinnar frá 29. júní 2012 um stöðu sína, fjárhæðir krafna, eigna og uppsafnaðs taps, lok slitameðferðar og fyrirhugaðs nauðasamnings en í þeirri beiðni er þessum þáttum lýst með ítarlegum hætti sem og lýsing á helstu ákvæðum skuldabréfanna eins og þau lágu fyrir þegar umrædd beiðni var send ríkisskattstjóra. Að því er varðar nauðasamninginn kemur fram að efni hans yrði í grófum dráttum eftirfarandi:
„(i) Forgangskröfur samkvæmt 109., 110 og 112. gr laga um gjaldþrotaskipti yrðu greiddar upp að fullu. Nauðasamningurinn hefði því enginn áhrif á þessar kröfur.
(ii) Kröfur sem njóta veðréttar eða annarra tryggingaréttar yrðu greiddar að því marki sem tryggingaréttindi nægðu til greiðslu slíkra krafna. Nauðasamningur hefði því einungis áhrif á þessar kröfur að því marki sem tryggingaréttindi nægja ekki til greiðslu þeirra, en eftirstöðvar þeirra myndu lúta ákvæðum 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti.
(iii) Kröfur samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti („samningskröfur“) yrðu efndar með eftirfarandi hætti:
a. Með eingreiðslu í reiðufé samkvæmt heimild í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 21/1991 („lágmarksgreiðsla“). Fjöldi kröfuhafa myndi fá fullar endurheimtur með þessari greiðslu;
b. með greiðslu í reiðufé í tilteknu hlutfalli við fjárhæð krafna („hlutfallsgreiðsla“);
c. með útgáfu nýrra hluta í [álitsbeiðanda] gegn niðurfellingu tiltekins hluta krafna („hlutabréfin“)
d. með allt að 50% afskrift krafna (þó aldrei lægri en 40% afskrift); og
e. með útgáfu skuldabréfa með breytirétti („skuldabréfin“).
(iv) Eftirstæðar kröfur samkvæmt 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti myndu falla niður að fullu.
(v) Núverandi hlutafé yrði fært algerlega niður og nýtt hlutafé yrði gefið út gegn afskriftum hluta krafna á hendur [álitsbeiðanda].“
Í álitsbeiðni eru álitsorð ríkisskattstjóra, sbr. bindandi álit hans dags. 23 .ágúst 2012, tekin orðrétt upp og tiltekur álitsbeiðandi að hann telji ekki ástæðu til að endurtaka í þeirri beiðni sem nú liggur fyrir þær röksemdir sem settar voru fram til stuðnings eldri álitsbeiðni nema að því leyti sem nauðsynlegt er og vísar að þessu leyti til gagna sem fylgja beiðni þeirri sem hér er til álitsgjafar.
Í eldri álitsbeiðni sinni lýsti álitsbeiðandi skuldabréfunum sem hann hyggst gefa út á grundvelli nauðasamninga sem fyrirhugað er að gera við kröfuhafa hans með eftirfarandi hætti:
„Nafnvirði skuldabréfanna sem ætlunin er að gefa út mun nema sömu fjárhæð og fjárhæð núverandi krafna á hendur [álitsbeiðanda], umfram þær kröfur sem ekki fást greiddar með reiðufé, er umbreytt í hlutafé eða gefnar eftir fyrir útgáfu skuldabréfanna. Skuldabréfin sem ætlunin er að gefa út verða breytanleg í heild sinni af hálfu kröfuhafa eftir 31. desember 2013 og af hálfu [álitsbeiðanda] eftir 30. júní 2018. Bréfin verða á öllum tímum breytanleg að hluta af hálfu kröfuhafa og af [álitsbeiðanda] frá og með 30. júní 2018. Breyting að hluta eða í heild mun gilda til allra skuldabréfahafa hlutfallslega (það er að segja við umbreytingu verður öllum skuldabréfum umbreytt á sama tíma og í sömu hlutföllum). Skuldabréfin verða á lokagjalddaga 30. desember 2019, en verði þau ekki greidd fyrir þann tíma getur félagið nýtt rétt sinn til breytinga og umbreytt þeim í hlutafé til að koma í veg fyrir að þau falli á gjalddaga. Skuldabréfin veita eigendum sínum ekki nein réttindi til ákvörðunartöku á hluthafafundi eða til stjórnar á álitsbeiðanda. Eignarhald á hlutabréfum í [álitsbeiðanda] er ekki bundið við eignarhald á skuldabréfunum. Þar sem óljóst er hvenær hægt verður að selja eignir félagsins og þá á hvaða verði og vegna núgildandi gjaldeyrishafta sbr. lög nr. 87/1992 um gjaldeyrismál verða skuldabréfin ekki með föstum afborgunum heldur koma þau til greiðslu eftir því sem lausafjárstaða félagsins leyfir, þ.e. eftir að tekið hefur verið tillit til rekstrarkostnaðar félagsins og eigna þess og annars tilfallandi kostnaðar. Þá verða skuldabréfin ekki vaxtaberandi.“
Þá er einnig að finna eftirfarandi umfjöllun um skuldabréfin í bréfi sem álitsbeiðandi sendi ríkisskattstjóra þann 31. júní 2012:
(a) „Skjölin gera nú ráð fyrir 40-50% afskriftum skulda [álitsbeiðanda] við kröfuhafa (slíkt afskriftarhlutfall kom skýrt fram í beiðninni um bindandi álit).
(b) Tilvísanir til skuldabréfa með fastri afborgunarskyldu og tengdra ákvæða (þ.e. senior note) hafa verið fjarlægðar þar sem slík skuldabréf verða ekki gefin út í tengslum við nauðasamninginn (þetta kom skýrt fram í beiðninni um bindandi álit).
(c) Tilvísanir til vaxtagreiðslna af skuldabréfunum hafa verið fjarlægðar þar sem breytilegu skuldabréfin munu ekki vera vaxtaberandi (þetta kom skýrt fram í beiðninni um bindandi álit)
(d) Breytingarnar á ákvæðum um hvernig farið skuli með umbreytingu skuldabréfa í hlutabréf, en þessar breytingar lúta einkum að:
- nýju ákvæði 7(c) er heimilar útgefanda (þ.e. [álitsbeiðanda]) af umbreyta hluta skuldabréfa í hlutabréf var bætt við (þessi forsenda kom skýrt fram í beiðninni um bindandi álit)
- tilvísanir til umbreytingu uppsafnaðra vaxta í hlutabréf voru fjarlægðar þar sem breytilegu skuldabréfin verða ekki vaxtaberandi (þetta kom skýrt fram í beiðninni um bindandi álit); og
- ákvæði er snúa að því hvernig umbreytingu skuldabréfa skuli háttað voru gerð skýrari (sjá ákvæði 7(i) í drögum af skilmálum breytilegu skuldabréfanna sem og ákvæði 8 í samþykktum félagsins).
(e) Breytingar voru gerðar á ákvæðum er varða heimildir félagsins til að selja eignir, styðja við eignir og stunda rekstur.“
Í álitsbeiðni kemur svo fram að sú breyting hafi orðið á frá því að ríkisskattstjóri gaf út bindandi álit sitt frá 23. ágúst 2012 að nú er fyrirhugað að bæta við ákvæðum í samþykktir félagsins sem kveða á um að framsal hlutabréfa og skuldabréfa skuli fara fram samhliða.
Nánar tiltekið sé nú gert ráð fyrir að samþykktir álitsbeiðanda kveði á um að eigendur hlutabréfa skuli ávallt halda á samsvarandi hlutfalli af skuldabréfum (af heildarfjárhæð útgefinna skuldabréfa) og hlutabréfum (af heildarfjölda útgefinna hlutabréfa félagsins). Í álitsbeiðninni segir svo:
„Ef á e-h tíma eigandi hlutabréfa eignast hlutfallslega fleiri hlutabréf en skuldabréf - slík hlutabréf væru "umfram hlutabréf" (e. „Excess Shares“) - þá skal slíkur eigandi hlutabréfa vera skyldur til að taka tafarlaus skref til að laga hlutföllin þannig að hann eigi jöfn hlutföll af skuldabréfum og hlutabréfum. Slíkt fæli í sér að hluthafinn ætti að losa sig við „umfram bréfin“ eða kaupa meira af skuldabréfum. Ef hluthafinn bætir ekki úr þá myndu samþykktirnar kveða á um að „umfram bréfin“ myndu ekki njóta atkvæðisréttar á hluthafafundum og félagið hefði einnig heimild (en ekki skyldu) til að innleysa slík bréf án endurgjalds. Samþykktirnar myndu einnig kveða á um að framsal hlutabréfanna væri einungis heimilt ef sýnt væri fram á að í kjölfar framsals myndu bæði framseljandi og framsalshafi eiga jafnt hlutfall af útgefnum hlutabréfum og skuldabréfum. Þegar hlutföll skv. framangreindu væru reiknuð yrði litið á eignarhluta sem dótturfélög ættu þannig að litið yrði á samstæðu sem einn aðila í þessum skilningi.“
Sjónarmið álitsbeiðanda
Álitsbeiðandi færir þau rök fram fyrir niðurstöðu sinni að í íslenskum kröfurétti hafi almennt verið á því byggt að skuldabréf séu ein tegund viðskiptabréfa. Helstu einkenni skuldabréfa séu að um sé að ræða skriflega yfirlýsingu þar sem útgefandinn viðurkennir einhliða og skilyrðislausa skyldu sína til að greiða ákveðna peningafjárhæð.
Ennfremur kemur fram að skuldabréfin sem álitsbeiðandi hyggst gefa út nemi fyrirfram ákveðinni fjárhæð, þau verði framseljanleg að tilteknum skilyrðum uppfylltum og komi til með að fela í sér einhliða loforð álitsbeiðanda um greiðslu umræddrar fjárhæðar. Þá muni skuldabréfin hafa ákveðin líftíma og að lokagjalddagi þeirra fyrirfram ákveðinn, 30. desember 2019. Hafi þau ekki verið greidd upp fyrir þann tíma hefur álitsbeiðandi heimild til að óska eftir að skuldinni verði breytt í hlutabréf. Skuldabréfin hafi ekki fyrirfram ákveðna gjalddaga heldur komi þau til greiðslu að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Kröfuhafar álitsbeiðanda muni þannig eiga lögvarða kröfu til endurgreiðslu höfuðstóls skuldabréfanna. Skuldabréfin uppfylli þannig öll þau almennu skilyrði sem almennt einkenna skuldabréf að íslenskum rétti.
Álitsbeiðandi vísar til bindandi álits ríkisskattstjóra dags. 23. ágúst 2012 þar sem segir:
„Sá almenni greinarmunur er gerður á milli láns annars vegar og eiginfjárframlags hins vegar að kröfuhafi lánsins á rétt á endurgreiðslu á gjalddaga, þ.e. á fyrirframákveðnum efndatíma, en á hinn bóginn á hluthafi (eða eigandi eiginfjárframlags) ekki kröfu til endurgreiðslu síns framlags á meðan félagið er enn starfandi. Eiginfjárframlag er þannig varanleg fjárfesting sem er ætluð til nota fyrir fyrirtækið sem fjárfest hefur verið í, á meðan að lán er í eðli sínu tímabundin fjárfesting í fyrirframákveðinn tíma. Til að greina á milli eiginfjárframlags og láns er varanleiki fjárframlagsins og mögulegrar endurgreiðslu að jafnaði veigamikill þáttur sem til skoðunar kemur.“
Álitsbeiðandi vísar ennfremur til bindandi álits ríkisskattstjóra nr. 3/07 sem dagsett er 28. mars 2007 þar sem segir:
„Í ákvæðum þessum er sá skilsmunur vaxta- og arðstekna, að vaxtatekjur ná til allra tekna af peningalegum eignum en arðstekjur eru bundnar við tekjur af hlutareign í hlutafélögum, einkahlutafélögum og samlagshlutafélögum. Um arðstekjur í þessum skilningi getur því aðeins verið að ræða að tekjurnar grundvallist á eignaraðild. Slíkar tekjur geta því ekki öðrum fallið til en þeim sem teljast til hluthafa, skv. lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og nr. 138/1994 um einkahlutafélög.“
Álitsbeiðandi telur að ekki sé hægt að líta á skuldabréfin sem annað en lán enda eigi þau að koma til endurgreiðslu að tilteknum skilyrðum uppfylltum og að þau séu með fyrirfram ákveðinn lokagjalddaga. Skuldabréfin verði ríkjandi og muni þannig ganga framar öðrum skuldum álitsbeiðanda og verði einnig veðtryggð með veði í öllum eignum álitsbeiðanda sem sætt geta veðsetningu. Þau muni ekki fela í sér varanlega fjárfestingu sem ætluð verði til nota fyrir álitsbeiðanda, en þó gæti m.a. á lokagjalddaga verið umbreytt í þeim tilgangi að verða varanleg fjárfesting í félaginu. Skuldabréfin beri þannig með sér öll einkenni þess að litið skuli á þau sem lán frekar en eiginfjárframlag. Þau uppfylla þannig ekki eingöngu þau almennu skilyrði sem almennt eru talin einkenna skuldabréf að íslenskum rétti, heldur sé einnig ljóst af ákvæðum bréfanna að endurgreiðsla þeirra gengur framar endurgreiðslu hlutafjár kæmi til slita á álitsbeiðanda.
Í álitsbeiðni kemur eftirfarandi fram:
„Ofangreind skuldabréf eru bæði að formi og efni til lán alveg þar til hugsanlega yrði tekin ný ákvörðun í framtíðinni, um umbreytingu lánsins í hlutabréf sem hefði þá skattaleg áhrif á þeim tímapunkti. Álitsbeiðandi getur endurgreitt lánið á hvaða tíma sem er ef forsendur eru til þess, m.t.t. lausafjárstöðu, án þess að um sé að ræða lækkun hlutafjár. Slík endurgreiðsla hefur ekki áhrif á eigið fé hluthafa, innbyrðis skiptingu þeirra o.fl. Eins og að framan hefur verið rakið bera skuldabréfin ekki vexti og kemur því ekki til gjaldfærslu uppsafnaðra vaxta hjá álitsbeiðanda.
Þá verður að telja eðlilegra miðað við framangreinda lýsingu að í skattskilum verði farið með endurgreiðslu álitsbeiðanda á skuldabréfunum umfram stofnverð kröfuhafa sem vexti fremur en endurgreiðslu á eigin fé sem almennt er í formi lækkunar hlutafjár.“
Í ljósi þessa telur álitsbeiðandi ljóst að þrátt fyrir breytingu í samþykktum félagsins að framsal skuldabréfanna skuli fara fram samhliða framsali hlutabréfanna í tilteknum hlutföllum skuli líta á skuldabréfin eins og þeim er lýst í beiðni þessari sem lán en ekki eiginfjárframlag. Skuldabréfin feli eins og áður í sér breytingu á formi krafna á hendur félaginu og hafi ekki í för með sér skattskylda niðurfærslu krafna, sbr. forsendur bindandi álits ríkisskattstjóra frá 23. ágúst 2012. Efnisleg niðurstaða ríkisskattstjóra hvað varðar þá beiðni sem nú er til meðferðar ætti því að vera hin sama og í fyrrnefnda áliti ríkisskattstjóra.
Álitaefni:
Í álitsbeiðni kemur fram að óskað sé eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti og veiti bindandi álit á að:
„... litið verði á skuldabréfin sem lán í skattalegum skilningi en ekki eiginfjárframlag, þrátt fyrir að samþykktir félagsins muni fela í sér ákvæði, sbr. nánari lýsingu í kafla II, sem i)geri þá kröfu að framsal skuldabréfa og hlutabréfa skuli fara fram samhliða, ii) geri þá kröfu að aðilar haldi á sama hlutfalli af útgefnum skuldabréfum og hlutabréfum, og iii) ef framangreindar kröfur eru ekki uppfylltar verði afleiðingarnar þær að sá hluti hlutabréfanna sem er umfram skuldabréfaeignina muni ekki bera með sér atkvæðisrétt á hluthafafundi. “
Jafnframt óskar álitsbeiðandi eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti að niðurstöður fyrra álits breytist ekki þrátt fyrir tilgreinda breytingu.
Forsendur og niðurstöður ríkisskattstjóra:
Bindandi áliti er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðanda að því er þau atvik varðar er álit tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998. Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kynnu að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað atvik kunna að varða.
Ríkisskattstjóri telur að uppfyllt séu lagaskilyrði fyrir því að hann gefi bindandi álit sitt af þessu tilefni sbr. lög nr. 91/1998.
Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt en verði breytingar þar á kunna þær lagalegu forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.
Eins og rakið er hér að framan óskar álitsbeiðandi eftir því að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit um að litið verði á skuldabréf sem álitsbeiðandi hefur í hyggju að gefa út sem lán í skattalegu tilliti en ekki eiginfjárframlag þrátt fyrir að;
i) framsal hlutabréfa og skuldabréfa fari fram samhliða
ii) aðilar haldi á sama hlutfalli af útgefnum skuldabréfum og hlutabréfum
iii) sá hluti hlutabréfanna sem er umfram skuldabréfaeign muni ekki bera með sér atkvæðisrétt á hluthafafundi.
Þannig fer álitsbeiðandi í raun fram á að ríkisskattstjóri staðfesti að þrátt fyrir tilteknar breytingar á þeim fyrirhugunum sem fram voru settar í álitsbeiðni dags. 29. júní 2012 þá standi bindandi álit ríkisskattstjóra dags. 23. ágúst 2012 óbreytt.
Hér að framan hefur verið rakið hvaða breytingar það eru sem álitsbeiðandi hyggst gera á fyrri áætlunum sínum og vísar ríkisskattstjóri til þess sem þar er ritað.
Í bindandi áliti ríkisskattstjóra dags. 23. ágúst 2012 kemur eftirfarandi fram:
„Af lýsingu á útgáfu skuldabréfanna má ráða að um sé að ræða formbreytingu á undirliggjandi kröfum, þ.e. þeim hluta þeirra sem eftir stendur þegar greiðsla reiðufjár hefur farið fram, hluti skulda verði afskrifaður og skuldum breytt í hlutafé. Sá hluti skuldanna sem verður afskrifaður er samkvæmt álitsbeiðni háður mati á virði félagsins og fjárhæð útgefinna skuldabréfa tekur mið af því. Óumdeilt er að sú eftirgjöf telst til skattskyldra tekna samkvæmt almennum reglum. Álit þetta gerir ráð fyrir að þeir fjármunir sem innheimtast gangi til eigenda skuldabréfanna eftir því sem þeir innheimtast. Af lýsingu í álitsbeiðni verður eingöngu um formbreytingu krafnanna að ræða en ekki eftirgjöf þeirra á því tímamarki sem um ræðir, hvað sem síðar kann að verða.
Ríkisskattstjóri telur að fáist slík breyting á greiðslu krafna samþykkt við gerð nauðasamninga, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, svo sem útgáfu skuldabréfanna er lýst hér að framan, verði ekki talið að um skattskylda eftirgjöf krafna sé að ræða, enda verði greitt af skuldabréfunum eftir því sem kröfur innheimtist og því verði þær áfram gildar. Ef síðar kemur í ljós að skuldabréfin verða ekki greidd að fullu mun það sem út af stendur teljast til eftirgefinna skulda á þeim tíma sem það liggur fyrir.
Tekið skal fram að um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda, skilmálabreytingum og breytingu skulda í hlutafé gilda eftir atvikum bráðabirgðaákvæði XXXVI og XLIV við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Þá er áréttað að álitsbeiðanda ber að varðveita öll gögn sem forsendur skuldabréfanna eru byggðar á og um útreikning verðmætis þeirra þannig að unnt verði að sinna upplýsingaskyldu skv. 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“
Ákvæði 47.-49. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, kveða á um ákveðin skilyrði sem uppfylla þarf ætli félag að gefa út breytanleg skuldabréf líkt og álitsbeiðandi hefur lýst í álitsbeiðni. Það er álit ríkisskattstjóra að þær breytingar sem álitsbeiðandi setur fram í þeirri beiðni sem hér er til afgreiðslu hafi ekki í för með sér breytingar á þeirri niðurstöðu sem fram kemur í áður nefndu bindandi áliti dags. 23. ágúst 2012 að því gefnu að skilyrði 47.-49. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, eða eftir atvikum 31. og 32. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, séu uppfyllt. Séu umrædd skilyrði ekki uppfyllt er ekki unnt að líta svo á að um breytanleg skuldabréf sé að ræða í skattalegu tilliti.
Álitsorð:
Þær breytingar sem álitsbeiðandi hyggst gera hafa ekki í för með sér breytingar á niðurstöðu í bindandi áliti frá 23. ágúst 2012