Bindandi álit

Bindandi álit 13/13

20.12.2013

Um álitsbeiðanda:

Álitsbeiðandi er eignarhaldsfélag sem fer fyrir eignarhlutum eigenda sinna í þeim félögum sem þeir hafa eignast í kjölfar fullnustuaðgerða eða annars konar skuldaskila. Álitsbeiðandi var stofnaður í tengslum við endurskipulagningu á A á árinu 2010.

Eignarhald á álitsbeiðanda er með eftirfarandi hætti; B á 71,1% og C á 28,9%. B er svo að fullu í eigu X-banka. B var stofnað í þeim tilgangi að fara fyrir eignarhlut X-banka í þeim fyrirtækjum sem bankinn eignast í kjölfar fullnustuaðgerða eða annars konar skuldaskila.

Fyrirætlanir álitsbeiðanda:

Eigendur álitsbeiðanda eiga kröfur á hendur honum sem eru tilkomnar vegna skulda sem fylgdu yfirteknum eignum frá A. Í tengslum við endurskipulagningu þeirra skulda sem fylgdu yfirteknu eignunum frá A þá hefur verið skoðað hvort mögulegt sé að fella kröfurnar niður annað hvort í heild eða að hluta en leggja þurfi mat á skattalegar afleiðingar slíkrar skuldaniðurfellingar.

Röksemdir álitsbeiðenda:

Álitsbeiðandi vísar til bráðabirgðaákvæðis XXXVI við tekjuskattslögin sem lögfest var með lögum nr. 104/2010 og telur að því ákvæði verði almennt ekki beitt þegar móðurfélag gefur eftir skuldir dótturfélags nema eftir atvikum þegar móðurfélagið er fjármálafyrirtæki. 

Álitsbeiðandi telur að hann eigi rétt á því að beita takmarkaðri tekjufærslu í samræmi við framangreint bráðabirgðaákvæði og að sú heimild sé til staðar þrátt fyrir að kröfuhafar séu eigendur alls hlutafjár í álitsbeiðanda og að annar kröfuhafi fari fyrir auknum meirihluta þess hlutafjár. Álitsbeiðandi telur löggjafarviljann hafa staðið til þess að fjármálafyrirtæki ættu greiða leið að skuldaskipulagningu og þannig ætti það ekki að skipta máli hvort skuldaniðurfelling ætti sér stað fyrir yfirtöku fullnustu félaga, eftir eða samhliða. 

Álitsbeiðandi bendir á að þær kröfur sem eigendur hans eigi á hendur honum standi í beinu sambandi við atvinnurekstur þeirra sem fjármálastofnanir. Þannig séu kröfurnar ekki tilkomnar vegna eignatengsla milli skuldara og kröfuhafa. Tilurð krafna og niðurfelling þeirra sé byggð á armslengdar sjónarmiðum en ekki greiðasemi eða gjafagerningi.

Ennfremur vísar álitsbeiðandi til þess að eignarhald X-banka og C byggi á 2. mgr. 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki og því ætti það ekki að koma neikvætt niður á álitsbeiðanda að þó annar hluthafinn hafi kosið að skipuleggja eignarhald sitt í gegnum eignarhaldsfélag.

Álitaefnið:

Er álitsbeiðanda heimilt að beita takmarkaðri tekjufærslu vegna skuldaeftirgjafar umfram rekstrartöp, sbr. bráðabirgðaákvæði XXXVI í tekjuskattslögum þegar B og C fella niður skuldir hans í heild eða að hluta.

Komist ríkisskattstjóri að neikvæðri niðurstöðu hvað varðar ofangreint fer álitsbeiðandi jafnframt fram á að veitt verði bindandi álit á því hvort:

heimilt væri að beita takmarkaðri tekjufærslu samkvæmt bráðabirgðaákvæði XXXVI í kjölfar þess að hlutafé B í álitsbeiðanda yrði framselt til X-banka, móðurfélags álitsbeiðanda. Hér yrði miðað við að raunvirði álitsbeiðanda væri 0 kr. með vísan til þess að skuldir þess eru langt umfram undirliggjandi eignir.

Forsendur og niðurstöður ríkisskattstjóra:

Í bindandi áliti ríkisskattstjóra kemur fram að almenna reglan sé sú að rekstraraðili sem nýtur eftirgjafar skuldar ber að tekjufæra eftirgjöfina á skattframtali sínu, sbr. B-lið 7. gr. tekjuskattslaga.

Með lögum nr. 104/2010 var lögfest heimild fyrir rekstraraðila að telja einungis til tekna ákveðið hlutfall eftirgjafar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og að tiltekinni hámarksfjárhæð.

Í bindandi áliti sínu rekur ríkisskattstjóri athugasemdir sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 104/2010 þar sem m.a. kemur fram að um sé að ræða undantekningu frá almennri skattskyldu sem skýra beri þröngri lögskýringu. Þá er ennfremur rakið nefndarálit meirihluta efnahags- og skattanefndar Alþingis sem lagði til breytingar á upphaflegum frumvarpstexta þannig að fyrirvarinn um eftirgjafir milli móður- og dótturfélaga ætti ekki við þegar fjármálafyrirtæki taka yfir félög til að tryggja fullnustu kröfu.

Ríkisskattstjóri tiltekur að óumdeilt sé að álitsbeiðandi sé dótturfélag B sem á 71,1% í álitsbeiðanda, í skilningi 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXVI.

Ríkisskattstjóri vísar til að á heimasíðu X-banka komi fram að bankinn sé að meirihluta í eigu C. Í ljósi þessara eignatengsla telur ríkisskattstjóri ljóst að álitsbeiðandi sé tengdur aðili í krafti beins eða óbeins eignarhalds C og taka þurfi því tillit til 5. mgr. nefnds bráðabirgðaákvæðis þegar meta á hvort álitsbeiðanda sé heimil takmörkuð tekjufærsla ef C myndi fella niður skuldir hans.

Þá komst ríkisskattstjóri að þeirri niðurstöðu að þegar af þeirri ástæðu að B væri ekki fjármálafyrirtæki þá sé álitsbeiðanda ekki heimilt að beita takmarkaðri tekjufærslu þegar og ef B fellir niður skuldir hans. Að teknu tilliti til beins og óbeins eignarhalds C á álitsbeiðanda og þeirrar staðreyndar að C telst vera fjármálafyrirtæki er álitsbeiðanda heimilt að beita takmarkaðri tekjufærslu þegar og ef C fellir niður skuldir hans.

Vegna síðara álitaefnisins vísar ríkisskattstjóri til þess að þar sem X-banki er fjármálafyrirtæki þá sé álitsbeiðanda heimilt að beita takmarkaðri tekjufærslu. Í bindandi áliti ríkisskattstjóra var aftur á móti ekki tekin afstaða til mögulegrar skattskyldu sem myndast gæti við framsal á hlutafé í álitsbeiðanda frá B til X-banka. 

Álitsorð:

  • Álitsbeiðanda er eigi heimilt að beita takmarkaðri tekjufærslu vegna skuldaeftirgjafar umfram rekstrartöp sbr. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXVI við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, ef B fellir niður skuldir hans í heild eða að hluta.
  • Álitsbeiðanda er heimilt að beita takmarkaðri tekjufærslu vegna skuldaeftirgjafar umfram rekstrartöp sbr. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXVI við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, ef C fellir niður skuldir hans í heild eða að hluta.
  • Álitsbeiðanda er heimilt að beita takmarkaðri tekjufærslu vegna skuldaeftirgjafar umfram rekstrartöp sbr. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXVI við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, ef X-banki fellir niður skuldir hans í heild eða að hluta.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum