Bindandi álit

Bindandi álit nr. 4/08

15.4.2008

15. apríl 2008nr. 4/08

Fyrirhugaðar ráðstafanir álitsbeiðanda:

Með bréfi dagsettu 13. mars 2008, sem móttekið er hjá embætti ríkisskattstjóra sama dag, er farið fram á með vísan til laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit sitt vegna fyrirhugaðra ráðstafana álitsbeiðanda.

Málavextir:

Forsendum og fyrirætlunum álitsbeiðanda er svo lýst í álitsbeiðni:

„Fyrirhugað er að Álitsbeiðandi fjárfesti í, A plc, sem er félag skattalega heimilisfast á Írlandi (hér eftir „Félagið“). Félagið er hlutafélag eða það sem í Írlandi kallast public limited company (plc). Er lagagrundvöll þess að finna í Section 256 of Part XIII of the Companies Act, 1990. Um er að ræða félagaform sem er með takmarkaðri ábyrgð hluthafa. Munu hlutir í félaginu bera með sér mismunandi réttindi sem tengjast mismunandi fjárfestingum Félagsins sem hafa mismunandi fjárfestingarmarkmið og forsendur. Tekjur Félagsins verða ekki skattlagðar á Írlandi og því ekki skylt að halda eftir skattgreiðslum nema í undantekningartilfellum (t.d. þegar móttökuaðili er írskur skattaðili). Mun starfsemi Félagsins vera fólgin í fjárfestingum og munu tekjur þess aðallega vera í formi arðs og söluhagnaðar af hlutafé en mögulega gæti það einnig haft tekjur í öðru formi t.d. vexti.

Tilgangur Félagsins er rekstur fjárfestingasjóða á sviði fasteignafjárfestinga í Evrópu og Bandaríkjunum og mögulega Asíu þannig að fjárfestum gefist tækifæri til þess að fjárfesta í fasteignum án þess að þurfa að kaupa þær í heild heldur getur hver fjárfestir keypt hluta af fyrirliggjandi verkefnum. Í Félaginu eru hlutaflokkar sem taka hver um sig mið af einstöku fjárfestingarverkefni. Þannig hefur hvert verkefni sína fjárfestingarstefnu og er rekið sjálfstætt. Eins og er verða tvö fjárfestingarverkefni starfrækt; X og Z.“

Álitaefni:

Álitsbeiðandi fer fram á að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit á eftirfarandi atriðum, að teknu tilliti til rökstuðnings álitsbeiðanda:

  1. „Þegar Félagið hefur aðeins tekjur í formi arðs:
    1. Uppfylli Álitsbeiðandi skilyrði 9. tl. 31. gr. laga um tekjuskatt fyrir frádrætti sem nemur sömu upphæð og mótteknum arðstekjum frá félaginu.
    2. Geti Álitsbeiðandi nýtt sér frestunarheimildir 18. gr. laga um tekjuskatt vegna söluhagnaðar í Félaginu.
  2. Þegar Félagið hefur tekjur í formi arðs og söluhagnaðar:
    1. Uppfylli Álitsbeiðandi skilyrði 9. tl. 31. gr. laga um tekjuskatt fyrir frádrætti sem nemur sömu upphæð og mótteknum arðstekjum frá félaginu.
    2. Geti Álitsbeiðandi nýtt sér frestunarheimildir 18. gr. laga um tekjuskatt vegna söluhagnaðar í Félaginu.
  3. Þegar Félagið hefur tekjur í formi arðs, söluhagnaðar og aðrar tekjur:
    1. Uppfylli Álitsbeiðandi skilyrði 9. tl. 31. gr. laga um tekjuskatt fyrir frádrætti sem nemur sömu upphæð og mótteknum arðstekjum frá félaginu.
    2. Geti Álitsbeiðandi nýtt sér frestunarheimildir 18. gr. laga um tekjuskatt vegna söluhagnaðar af hlutafé í Félaginu.“

Sjónarmið álitsbeiðanda:

Í álitsbeiðni setur álitsbeiðandi fram eftirfarandi sjónarmið varðandi arðgreiðslur:

„Það er mat Álitsbeiðanda að arðgreiðslur frá Félaginu fullnægi skilyrðum 9. tl. 31. gr. TSL.

Félagið er hlutafélag sem skráð er í Írlandi. Tekjur þess verða arður frá fjárfestingarfélögum sem skv. 1. málsl. 9. tl. 31. gr. TSL hér að ofan yrði ekki skattlagðar ef um íslenskt hlutafélag væri að ræða, söluhagnaður af hlutafé í fjárfestingarfélögum sem ekki er skattlagður frekar en oft á við samkvæmt skattalögum fjölmargra Evrópuríkja [Neðanmálsgrein: Sem dæmi um mismunandi reglur sem kveða á um að söluhagnaður á hlutafé sé ekki skattlagður má nefna reglur Noregs, Svíþjóðar, Hollands, Lúxemborgar, o.s.frv. Í sumum tilfellum eru skilyrði fyrir skattfrelsinu en í öðrum ekki.] og aðrar tekjur eins og vextir sem verða ekki heldur skattlagðar. Það liggur fyrir að tekjur Félagsins verða ekki skattlagðar á Írlandi. Jafnframt liggur fyrir að um er að ræða fjárfestingar í fasteignum þannig að tekjur af fjárfestingum verða á endanum skattlagðar í viðkomandi löndum eftir því sem þarlendar reglur kveða á um, til hliðsjónar mætti nefna reglur 6. gr. auk 1. og 4. mgr. 13. gr. tvísköttunarsamningsfyrirmyndar OECD sem gera ráð fyrir því að tekjur af fasteignum verði skattlagðar að vild í því ríki þar sem eignirnar eru staðsettar.

Skilyrði 9. tl. 31. gr. TSL fyrir frádrætti Álitsbeiðanda sem nemur sömu fjárhæð og móttekinn arður frá Félaginu eru:

  1. Álitsbeiðandi sé hlutafélag, sbr. 1. tl. 1. mgr. TSL.(sic)
  2. Félagið sé í formi hlutafélags.
  3. Hagnaður Félagsins sé skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi.
  4. Það skatthlutfall sem lagt er á hagnað Félagsins sé ekki lægra en almennt skatthlutfall í einhverju aðildarríkja OECD og EES.

Að því er varðar fyrstu tvö skilyrðin liggur fyrir að þau eru uppfyllt. Að því er varðar þriðja og fjórða skilyrðið er rétt að víkja sérstaklega að þeim.“

Þá kemur jafnframt fram:

„Arðstekjur félagsins verða ekki skattlagðar. Þær koma frá fjárfestingarfélögum sem fjárfesta í fasteignum í ríkjum sem skattleggja tekjur af þeim með mismunandi hætti en hvernig það er gert ræðst af hverju ríki fyrir sig. Í ljósi þess að arðstekjur íslenskra félaga frá fasteignafélögum í þeim ríkjum sem um ræðir væru alla jafna ekki skattlagðar í raun, sbr. 9. tl. 31. gr. TSL telur Álitsbeiðandi að þriðja skilyrði 9. tl. 31. gr. TSL sé uppfyllt að því er varðar þessar tekjur Félagsins.

...

Hagnaður Félagsins af sölu hlutafjár verður ekki skattlagður. Aftur er um að ræða söluhagnað vegna hlutafjár í fjárfestingarfélögum sem fjárfesta í fasteignum í ríkjum sem skattleggja tekjur af þeim með mismunandi hætti. Endanleg skattlagning er því komin undir reglum í ríkjum eins og Frakklandi, Þýskalandi og Belgíu.

Þrátt fyrir að skattlagning á söluhagnaði Félagsins sé ekki með sama hætti og við ætti um íslensk félög telur álitsbeiðandi að um sé að ræða sambærilega skattlagningu. Í því sambandi vísast til frestunarheimilda TSL að því er varðar söluhagnað af hlutafé og vilja löggjafans sem fram kemur í frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi og miðar að því að fella almennt niður skattlagningu á hagnað af sölu hlutafjár, sbr. þingskjal 508, 325. mál, 135. löggjafarþing. Rétt er að vekja athygli á ummælum fjármálaráðherra varðandi þetta frumvarp frá 7. febrúar þar sem hann segir í raun að skattlagning söluhagnaðar hlutafjár sé í raun óveruleg á Íslandi, orðrétt segir:

Þessi þróun virðist hafa leitt til þess að tekjur ríkissjóðs af söluhagnaði hlutabréfa hafa verið óverulegar á undanförnum árum.“

Í ljósi þessa telur álitsbeiðandi að þriðja skilyrði 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sé uppfyllt að því er varðar söluhagnað Félagsins.

Hvað aðrar tekjur Félagsins varðar tekur álitsbeiðandi eftirfarandi fram:

„Aðrar tekjur Félagsins verða ekki skattlagðar í Írlandi. Hins vegar er um að ræða tekjur af fasteignafjárfestingum í Evrópulöndum og Bandaríkjunum, þ.e. í löndum þar sem skatthlutfall er alla jafna mun hærra en á Íslandi. Þær tekjur sem félagið hefur í formi arðs og söluhagnaðar hafa því verið skattlagðar eftir reglum í viðkomandi löndum áður en þær skila sér til Félagsins. Megnið af tekjum þess hafa því verið skattlagðar hjá dótturfélögum. Aðrar tekjur félagsins eins og vextir ættu hins vegar að vera hlutfallslega lítill hluti. Sé litið til ummæla í greinargerð með frumvarpi [Neðanmálsgrein: Þingskjal 942, mál 553, 122. löggjafarþing.] því sem varð að upphaflegu ákvæði núverandi 9. tl. 31. gr. TSL þá segja frumvarpshöfundar eftirfarandi um ástæðuna fyrir kröfu um sambærilega skattlagningu:

Tilgangurinn með því skilyrði er að koma í veg fyrir að þeir innlendir aðilar sem valið hafa að setja sig niður í erlendum skattavinjum búi við betri skattaskilyrði en aðrir.

Að því er varðar Félagið er það stofnsett og skattskyld í Írlandi sem getur ekki talist til erlendrar skattavinjar. Auk þess er ljóst að tekjur þess eru að mestu skattlagðar í dótturfélögum. Í þessu sambandi eru ummæli efnahags- og viðskiptanefndar í nefndaráliti [Neðanmálsgrein: Þingskjal 1308, mál 553, 122. löggjafarþing.] um sama frumvarp áhugaverð en þar segir:

Í nefndinni var rætt um ákvæði 4. gr. um arð af hlutum og hlutabréfum í hlutafélögum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að með orðunum „með sambærilegum hætti“ í greininni er átt við að fyrirtæki sem greiðir arðinn hafi verið skattlagt samkvæmt almennum reglum í því landi sem það starfar og breytir þá engu þótt almennt skatthlutfall þar kunni að vera lægra en hér á landi. Við þær aðstæður kemur því ekki til tvísköttunar á arði sem íslensk fyrirtæki kunna að fá af eignarhlut í erlendum félögum.

Löggjafinn leggur því áherslu á það skipti ekki máli þó skatthlutfall félags sem greiðir arð sé lægra en skatthlutfall á Íslandi, heldur er horft til þess að félagið lúti almennum reglum. Félagið lýtur almennum reglum á Írlandi auk þess sem tekjur þess eru almennt skattlagðar í dótturfélögum þess áður en til þess kemur að Félagið taki á móti þeim og úthluti arði til sinna hluthafa. Jafnframt er rétt að vekja athygli á að vísan til skatthlutfalls OECD ríkja var bætt við upprunalegt ákvæði og í frumvarpi [Neðanmálsgrein: Þingskjal 114, mál 114, 127. löggjafarþing.] til breytingarlaganna var einungis tekið fram að fjármálaráðherra fengi vald til að skýra hvað "með sambærilegum hætti" þýddi en í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar var bætt við nefndri vísan til OECD ríkja og í nefndaráliti [Neðanmálsgrein: Þingskjal 461, mál 114, 127. löggjafarþing.] kemur fram:

Meiri hlutinn leggur til breytingar á 19. gr. frumvarpsins þess efnis að nánar verði kveðið á um hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt varðandi frádráttarbærni arðs sem innlent hlutafélag fær frá erlendu hlutafélagi. Í því sambandi er fyrst og fremst horft til þess skatthlutfalls sem almennt er lagt á hagnað hlutafélaga í einstökum aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD). Með almennu skatthlutfalli er átt við samanlagt skatthlutfall sem lagt er á hagnað félagsins hjá ríki og sveitarfélögum. Meiri hlutinn lítur svo á að með því að setja þessi skilyrði verði komið í veg fyrir að innlendir aðilar sem hafa valið að setjast að í erlendum skattavinjum búi við betri skattskilyrði en íslenskir aðilar.

Alþingi ítrekar því að áherslan í ákvæðinu er á að frádráttur samkvæmt því fáist ekki vegna fjárfestinga í erlendum skattavinjum. Um það er ekki að ræða í þeirri fjárfestingu sem hér um ræðir auk þess sem endanlegar fjárfestingar í fasteignum eru alla jafna í OECD ríkjum eða EES ríkjum. Þannig verður samanlagt skatthlutfall félagsins alltaf í takt við samanlagt skatthlutfall viðkomandi ríkja.“

Í ljósi þessa telur álitsbeiðandi að þriðja skilyrði 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt sé uppfyllt að því er varðar aðrar tekjur félagsins en arð og söluhagnað.

Í álitsbeiðni færir álitsbeiðandi fram eftirfarandi rök fyrir því að fjórða skilyrði marg nefnds 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sé uppfyllt:

„Það er ljóst af þeim lögskýringargögnum sem til eru, sbr. ofangreint og þeirri breytingu á 9. tl. 31. gr. TSL sem fólst í vísan til EES ríkja [Neðanmálsgrein: Þingskjal 286, mál 276, 133. löggjafarþing.] að tilgangur ákvæðisins er ekki að neita íslenskum félögum um frádrátt þegar um er að ræða arðgreiðslur frá ríkjum eins og Írlandi sem eru innan EES. Í því sambandi eru ummæli í greinargerð með breytingu ákvæðisins að því er varðar EES áhugaverð en þar segir:

Í 9. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga er m.a. mælt fyrir um arðsfrádrátt frá tekjum af atvinnurekstri hlutafélaga sem skráð eru erlendis. Þykir eðlilegt að það skilyrði ákvæðisins að skatthlutfall sem lagt er á hagnað hins erlenda félags sé eigi lægra en skatthlutfall í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD) taki einnig til aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Þau ríki sem ekki eru aðilar að OECD en eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu eru Eistland, Kýpur, Lichtenstein, Litháen, Malta og Slóvenía.

Í því tilfelli sem hér er til skoðunar er um að ræða hlutafélag í Írlandi sem nýtur þarlendum reglum og þarlendu skatthlutfalli þannig að það samræmist ekki tilgangi ákvæðisins að hafna Álitsbeiðanda um frádrátt.“

Því næst rekur álitsbeiðandi ákvæði reglugerðar nr. 297/2003, um arðsfrádrátt. Hvað varðar 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar vísar álitsbeiðandi til umfjöllunar sinnar framar í álitsbeiðni. Þá kemur fram sú skoðun álitsbeiðanda að 2. tölul. virðist vísa til þess að Félagið skuli ekki aðeins greiða einhvers konar aðstöðugjald heldur tekjuskatt. Hvað varðar 3. tölul. þá kemur fram í álitsbeiðni að írskar reglur veitir ekki frádrátt vegna útgreidds arðs Félagsins. Jafnframt kemur fram varðandi 4. tölul. að skattstofn Félagsins í Írlandi ætti að vera ákvarðaður með sambærilegum hætti og hér á landi. Álitsbeiðandi bendir hins vegar á að á skattstofninn er ekki lagður skattur. Að síðustu kemur fram sú skoðun álitsbeiðanda að öll nefnd skilyrði reglugerðarinnar séu uppfyllt „sérstaklega í ljósi þess að um er að ræða hlutafélag innan EES sem mundi greiða væntanlegan arð, enda hefur reglum laga um tekjuskatt verið breytt sérstaklega þannig að arðsfrádráttur sé heimilaður þegar greitt er frá félögum innan EES.“

Að síðustu tekur álitsbeiðandi eftirfarandi fram vegna söluhagnaðar:

„Jafnframt því að geta fengið tekjur í formi arðs af mögulegri fjárfestingu getur Álitsbeiðandi einnig haft af henni söluhagnað, ef hann selur hlutafé sitt í Félaginu. Samkvæmt núgildandi 18. gr. TSL getur Álitsbeiðandi farið fram á að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa, þar á meðal skiptum á hlutabréfum, um tvenn áramót frá söludegi. Í ákvæðinu kemur einnig fram að kaupi Álitsbeiðandi önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar kaupverði þeirra bréfa. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn til skattskyldra tekna á öðru ári frá því að hann myndaðist.

Hlutabréf Álitsbeiðanda eru eignarhlutir í hlutafélagi með takmarkaða ábyrgð og heimilisföstu á Evrópska efnahagssvæðinu. Er það því mat Álitsbeiðanda að hlutabréf hans í Félaginu uppfylli öll skilyrði ákvæðisins hér að ofan.“

Forsendur ríkisskattstjóra:

Eins og fram hefur komið hér að framan snúast álitaefni í álitsbeiðninni um túlkun á annars vegar 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og hins vegar 5. mgr. 18. gr. sömu laga. Í álitsbeiðninni er spurt hvort álitsbeiðandi uppfylli skilyrði 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þegar það félag sem hann hefur fjárfest í hefur tekjur í formi arðs, söluhagnaðar og annarra tekna.

Samkvæmt ákvæði 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, má draga frá tekjum lögaðila, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr., þá fjárhæð sem þessir lögaðilar hafa fengið greidda í arð samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. af hlutum og hlutabréfum í félögum er greinir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. Hið sama gildir um arð sem greiddur er frá hlutafélögum sem skráð eru erlendis ef það félag sem arðinn fær sýnir fram á að hagnaður hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi. Þessi frádráttur er þó bundinn því skilyrði að hagnaður hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér landi.

Það liggur því fyrir ríkisskattstjóra að taka afstöðu til og gefa bindandi álit um það hvort hagnaður hlutafélags sem skráð er á Írlandi sé skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi og að arður sem það greiðir til íslensks lögaðila sé þar með frádráttarbær tekjum hins íslenska félags í samræmi við áður greint ákvæði 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og reglugerð nr. 297/2003, um arðsfrádrátt.

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á kerfi þar sem einstakir gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Svar ríkisskattstjóra er bindandi ef gjaldandinn fer út í þá ráðstöfun sem lýst er í álitsbeiðninni. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, getur ríkisskattstjóri með rökstuddum hætti vísað beiðni um bindandi álit frá telji hann að beiðni sé vanreifuð eða óskýr eða aðrar ástæður mæli gegn því að látið sé uppi bindandi álit.

Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, segir m.a. svo um skilyrði þess að bindandi álit sé látið uppi: "Bindandi álit ríkisskattstjóra munu að líkum nýtast best í þeim tilvikum þegar álitamálið lýtur að túlkun flókinna eða óljósra ákvæða laga eða reglugerða fremur en t.d. matskenndum atriðum, svo sem mati á verðmætum eigna eða sönnunarfærslu um staðreyndir máls."

Eins og fyrr segir felst í álitaefnum álitsbeiðanda nr. 1. a., 2. a. og 3. a, að óskað er eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra á því hvort hagnaður hlutafélags á Írlandi sé skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi og þá hvort arður sem það greiðir til íslensks lögaðila sé frádráttarbær frá tekjum hins íslenska félags í samræmi við 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þetta felur í sér að ríkisskattstjóra væri ætlað að meta hvort þær reglur sem gilda um skattlagningu hagnaðar í Írlandi séu sambærilegar við þær skattlagningarreglur, sem gilda um lögaðila hér á landi, hvað varðar skattskyldar tekjur og leyfilega frádráttarliði við ákvörðun skattstofns. Orðalag 2. málsl. 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 ber með sér að mat á því hvort hagnaður hafi sætt sambærilegri skattlagningu erlendis eigi að fara fram eftir skattlagninguna. Skattaðili geti þannig sýnt fram á það hvort skattlagningin sé sambærileg eftir að hagnaður hins erlenda félags hafi sætt skattlagningu erlendis.

Ríkisskattstjóri lítur þannig á að það sé eitt að gefa fyrirfram staðfestingu á því hvort hugsanleg skattlagning erlendis á grundvelli þar gildandi skattalaga um ákvörðun skattstofns m.t.t. skattskyldra tekna og frádráttarliða sé sambærileg við skattlagningu hér á landi og annað að bera saman staðfestingu um raunverulega niðurstöðu af skattálagningu þar til bærs erlends yfirvalds og skattlagningar hér á landi samkvæmt lögum nr. 90/2003. Álitaefnið lítur samkvæmt þessu að sönnun á því að hagnaður hafi sætt tiltekinni skattlagningu.

Að þessu virtu er það álit ríkisskattstjóra að ekki séu fyrir hendi lagalegar forsendur fyrir því að gefa út bindandi álit hvað varðar álitaefni álitsbeiðanda sem lúta að túlkun á 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og er þeim álitaefnum vísað frá sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ríkisskattstjóri telur hins vegar að unnt sé að gefa bindandi álit um það álitsefni sem lýtur að túlkun á 5. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. álitaefni sem auðkennd eru sem 1. b., 2. b. og 3. b. í álitsbeiðni. Eftirfarandi umfjöllun felur í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Er álitið byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt en verði breytingar á lögum kunna þær lagalegu forsendur sem álitið er reist á, að falla úr gildi. Þá miðast álitið við að áform álitsbeiðanda gangi eftir með þeim hætti sem fram kemur í álitsbeiðni.

Álitsbeiðandi óskar staðfestingar ríkisskattstjóra á því að ákvæði 5. mgr. 18. gr. eigi við um þann söluhagnað sem álitsbeiðandi getur mögulega fengið við sölu á hlutabréfum í hinu írska hlutafélagi.

Ákvæði 5. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er svohljóðandi:

„Lögaðilar, sbr. 1. mgr. 2. gr., geta farið fram á að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa, þar á meðal skiptum á hlutabréfum, um tvenn áramót frá söludegi. Sama gildir um einstaklinga í atvinnurekstri enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum. Kaupi slíkur aðili önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar kaupverði þeirra bréfa. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna á öðru ári frá því að hann myndaðist.“

Framangreint ákvæði setur þannig þau skilyrði fyrir frestun skattlagningar söluhagnaðar hlutabréfa og endurfjárfestingu að sá sem selji sé annað tveggja einstaklingur í atvinnurekstri eða lögaðili sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Álitsbeiðandi er einkahlutafélag skráð á Íslandi og skattskylt hér á landi sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá er jafnframt sett það skilyrði fyrir frestun skattlagningar samkvæmt ákvæðinu að um sé að ræða söluhagnað vegna sölu á hlutabréfum. Hefur það skilyrði verið túlkað þannig að átt sé við sölu á eignarhlutum í hlutafélögum eða einkahlutafélögum. Í forsendum álitsbeiðnarinnar er gengið út frá því að hinn írski lögaðili sem álitsbeiðandi hefur í hyggju að fjárfesta í sé lögaðili með takmarkaða ábyrgð sambærilegur við íslenskt hlutafélag sbr. lög nr. 2/1995, um hlutafélög.

Að þessu virtu er það álit ríkisskattstjóra, miðað við framangreindar forsendur, að selji álitsbeiðandi hlutabréf sín í hinum írska lögaðila sé honum heimilt að fresta skattlagningu söluhagnaðar sem myndast getur við þá sölu og endurfjárfesta í nýjum hlutabréfum, allt í samræmi við ákvæði 5. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Álitsorð:

Álit þetta miðast við fram færðar forsendur og að áform álitsbeiðanda gangi eftir með þeim hætti sem fram kemur í málavaxtalýsingu álitsbeiðnar.

  • Að gefinni þeirri forsendu að hið írska félag sé í því félagaformi sem fellur undir 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, gilda ákvæði 5. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um þann söluhagnað sem álitsbeiðanda hugsanlega hlotnast við sölu á hlutum í hinu írska félagi.

Kæruréttur:

Athygli er vakin á að frávísun ríkisskattstjóra á álitaefnum 1.a, 2.a. og 3.a. sætir ekki kæru til yfirskattanefndar.

Bindandi álit ríkisskattstjóra varðandi álitaefni 1. b., 2. b. og 3. b. í álitsbeiðni sætir kæru til yfirskattanefndar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álitsins sem er jafnframt dagsetning þess. Kæra skal vera skrifleg og skal koma fram í henni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðning fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit álitsins skal fylgja kæru, svo og þau gögn sem ætluð eru kærunni til stuðnings.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum