Bindandi álit

Bindandi álit nr. 3/08

2.4.2008

2. apríl 2008 nr. 3/08

Fyrirhugaðar ráðstafanir álitsbeiðanda:

Með bréfi dagsettu 26. mars 2008, sem móttekið er hjá embætti ríkisskattstjóra sama dag, er farið fram á með vísan til laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit sitt vegna fyrirhugaðra ráðstafana álitsbeiðanda.

Málavextir:

Forsendum og fyrirætlunum álitsbeiðanda er svo lýst í álitsbeiðni:

„A hf. er fjármálafyrirtæki sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og er félagið hlutafélag sem skráð er í kauphöll. Eins og kunnugt er hefur óróleiki verið á fjármálamörkuðum og hefur gengi skráðra félaga í kauphöllinni lækkað á undanförnum mánuðum. A hf. hefur á þessum tíma og raunar yfir lengra tímabil eignast nokkuð af eigin hlutabréfum. Hefur hér ekki verið um stefnumarkandi söfnun bréfa að ræða heldur má segja að atvik á mörkuðum hafi fremur ráðið því að byggjast hefur verið upp staða í eigin bréfum. Samkvæmt 29. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki er fjármálafyrirtæki ekki heimilt án samþykkis Fjármálaeftirlitsins að eiga eða taka að veði eigin hlutabréf sem nemur hærri fjárhæð en nafnverði en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins. Eins og staðan er nú er samtala eigin bréfa bankans annars vegar og bréfa í bankanum sem hann hefur tekið að veði orðin nálægt þessum 10% mörkum. Það er mat bankans að það væri ekki skynsamleg aðgerð eins og markaðsaðstæður eru um mundir að selja eigin bréf á markaði. Á sama tíma er magn eigin bréfa farið að standa því fyrir þrifum að bankinn geti stundað viðskipti með eigin bréf, þ.m.t. að taka slík bréf sem veð fyrir skuldbindingum viðskiptamanna. Er það mat stjórnenda bankans að æskilegt sé að grípa til aðgerða til að losa um eignarhald bankans á eigin bréfum og auka þannig svigrúm hans til að stunda viðskipti með eigin bréf.

Eins og staðan er í dag er fyrirhugað að halda aðalfund A hf. þann ...... Ætlunin er að ráðstafa eigin bréfum bankans (hugsanlega á bilinu allt að 3-4% af útgefnu hlutafé) til lækkunar á hlutafé bankans. Lækkun þessi yrði ekki greidd út til hluthafa heldur yrði hlutafé lækkað sem næmi nafnverði þessara eigin hluta og er það álit bankans að hér væri ekki um annað að ræða en tilfærslur innan höfuðstóls og eignarhlutur einstakra hluthafa myndi í engu breytast. Bókhaldslega hafa eigin bréf bankans verið færð til lækkunar á eigin fé bankans. Þannig hefur keypt nafnverð færst til lækkunar (debet) á nafnverð hlutafjár, og debet á yfirverðsreikning, en mótbókun hefur verið kredit á þá liði sem notaðir hafa verið sem greiðsluandlag, þ.á.m. lánabók vegna veðkalla sem átt hafa sér stað vegna skulda sem gjaldfallið hafa og þar sem tryggingin hefur verið í hlutabréfum A hf. Samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst til arðs lækkun hlutafjár sem greidd er út til hluthafa umfram kaupverð. Hér er ekki um slíkt að ræða þar sem lækkunin verður ekki greidd til hluthafa. Það er því álit bankans að lækkun af þessum toga teljist ekki til arðgreiðslu samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 og því myndist ekki skylda á hendur bankanum að halda eftir staðgreiðslu við þessa ráðstöfun. Tekið er fram að bókhaldslega myndi þessi ráðstöfun ekki hafa í för með sér neinar reikningshaldslegar aðgerðir þar sem eigin bréf hafa þegar verið færð til lækkunar í reikningshaldinu. Sérstaklega er tekið fram að gengið er út frá þeirri forsendu að félagaréttarleg skilyrði lækkunar séu til staðar og er ekki farið fram á bindandi álit þar að lútandi heldur eingöngu að því er varðar túlkun á 11. gr. laga nr. 90/2003 og þeirri staðgreiðsluskyldu sem leiðir af þeirri grein."

Þá segir ennfremur í álitsbeiðni:

„Í annan stað er ætlunin að gefa út jöfnunarhlutabréf í bankanum samkvæmt ákvörðun þar að lútandi sem tekin yrði á aðalfundi. Stjórnendur bankans telja að á sama tíma og mikilvægt sé að lækka eign bankans í eigin bréfum sé jafnframt æskilegt að nafnverð hlutafjár sé óbreytt. Tekið skal fram að hér er um sjálfstæða aðgerð að ræða sem yrði tekin sérstaklega afstaða til á aðalfundi. Bókhaldslega yrði útgáfan með þeim hætti að gefin yrðu út jöfnunarhlutabréf og kæmi hækkunin kredit á nafnverð hlutafjár og yfirverðsreikningur lækkaður samsvarandi (debet). Þessi ráðstöfun myndi ekki hafa í för með sér breytta eignarhlutdeild einstakra hlutareiganda, enda er hér einungis um höfuðstólstilfærslur að ræða. Gengið yrði út frá því að skilyrði hlutafélagalaga fyrir útgáfu jöfnunarhluthafa (sic) séu til staðar.“

Álitaefni:

Álitsbeiðandi fer fram á að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit á annars vegar:

„..að lækkun hlutafjár með framangreindri ráðstöfun eigin bréfa teljist ekki vera arðsúthlutun samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og þar með myndist engin skylda til afdráttar staðgreiðslu."

og hins vegar:

„slík útgáfa jöfnunarhlutabréfa teljist ekki arðgreiðsla sbr. 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og að þar með myndist engin skylda til að halda eftir staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur."

Forsendur ríkisskattstjóra:

Eftirfarandi umfjöllun felur í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt en verði breytingar á lögum kunna þær lagalegu forsendur sem álitið er reist á, að falla úr gildi. Álitið miðast við að áform álitsbeiðanda gangi eftir með þeim hætti sem fram kemur í álitsbeiðni.

Eins og fram hefur komið eru settar fram tvær spurningar í álitsbeiðni. Í fyrsta lagi er óskað staðfestingar á því að lækkun hlutafjár, með þeim aðferðum sem lýst er í álitsbeiðni, teljist ekki arðsúthlutun samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, og að þar með sé skylda til afdráttar staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur ekki til staðar. Í öðru lagi er óskað staðfestingar ríkisskattstjóra á því að sú útgáfa jöfnunarhlutabréfa sem lýst er í álitsbeiðni teljist ekki arðgreiðsla sbr. 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. áður nefndra laga og að þar með myndist engin skylda til að halda eftir staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Með lögum nr. 154/1998 var gerð breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, (nú lög nr. 90/2003, um tekjuskatt). Fólust breytingarnar m.a. í því að bætt var við 1. mgr. 9. gr. laganna (nú 1. mgr. 11. gr.) nýjum málsliði svohljóðandi:

„Til arðs telst ekki úthlutun jöfnunarhlutabréfa samkvæmt lögum um einkahlutafélög eða lögum um hlutafélög sem ekki hafa í för með sér breytta eignarhlutdeild hlutareiganda eða hluthafa í hlutafélagi og teljast því ekki til skattskyldra tekna hlutareigandans. “

Þá var bætt við 9. gr. nýrri málsgrein, og er 2. málsl. hennar svohljóðandi:

„Einnig telst til arðs lækkun hlutafjár, sem er greidd út til hluthafa, umfram kaupverð.“

Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 154/1998 kemur fram í greinargerð að engin skattaleg rök hnígi að því að takmarka heimildir til útgáfu jöfnunarhlutabréfa umfram það sem kveðið er á um í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Lagt sé því til að útgáfa jöfnunarhlutabréfa verði í öllum tilvikum skattfrjáls ef úthlutunin hefur ekki í för með sér breytta eignarhlutdeild hlutareigenda eða hluthafa. Ennfremur kemur fram hvað seinni breytinguna varðar, þ.e. að lækkun hlutafjár sem greidd er út til hluthafa sé skattlögð sem arður, að verið sé að færa ákvæðið í sama horf og það var í fyrir gildistöku laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Ákvæði 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er óbreytt frá gildistöku þess með lögum nr. 154/1998. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að svo að um skattskyldan arð geti verið að ræða þegar hlutafjár er lækkað verður að eiga sér stað útborgun til hluthafa í einni eða annarri mynd. Hluthafinn verður því að taka við greiðslu frá viðkomandi félagi í tengslum við lækkun hlutafjár. Í álitsbeiðni kemur fram að engin greiðsla verði innt af hendi til hluthafa en orðrétt segir: „Lækkun þessi yrði ekki greidd út til hluthafa heldur yrði hlutafé lækkað sem næmi nafnverði eigin hluta.“ Í raun sé eingöngu um að ræða tilfærslur innan höfuðstóls og eignarhlutar einstakra hluthafa breytist ekki. Að virtri þeirri forsendu og að því gefnu að hlutafélagalög heimili lækkun hlutafjárins við þessar aðstæður fellst ríkisskattstjóri á að sú ráðstöfun að lækka hlutafé (í álitsbeiðanda) með þeim hætti sem lýst er í álitsbeiðni hafi ekki í för með sér úthlutun á skattskyldum arði í skilningi 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og því ekki forsendur til að halda eftir staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er svohljóðandi:

„Til arðs telst ekki úthlutun jöfnunarhlutabréfa samkvæmt lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um samvinnufélög sem hafa ekki í för með sér breytta eignarhlutdeild hlutareiganda eða hluthafa eða hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs samvinnufélaga eða samvinnuhlutabréf sem félagsaðilum eru afhent við slíka hækkun séreignarhluta í samvinnufélagi samkvæmt lögum um samvinnufélög.“

Í álitsbeiðni kemur fram að útgáfa jöfnunarhlutabréfanna myndi ekki hafa í för með sér breytta eignarhlutdeild einstakra hlutareigenda þar sem eingöngu sé um tilfærslur á höfuðstól að ræða. Hækkunin á hlutafénu við útgáfu jöfnunarhlutabréfanna yrði færð kredit á nafnverð hlutafjár og yfirverðsreikningur myndi lækka samsvarandi með debetfærslu. Að virtu orðalagi ákvæðisins, athugasemdum sem fram koma í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 154/1998, og að gefinni þeirri forsendu að útgáfa jöfnunarhlutabréfanna sé heimil samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995, um hlutafélög, fellst ríkisskattstjóri á að útgáfa jöfnunarhlutabréfa sem álitsbeiðandi lýsir í álitsbeiðni sé í samræmi við ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og að útgáfa jöfnunarhlutabréfanna feli þannig ekki í sér skattskyldan arð eða skyldu fyrir álitsbeiðanda að halda eftir staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur í samræmi við áður nefnd lög nr. 94/1996.

Álitsorð:

Álit þetta miðast við fram færðar forsendur og að áform álitsbeiðanda gangi eftir með þeim hætti sem fram kemur í málavaxtalýsingu álitsbeiðnar.

  • Lækkun hlutafjár eins og lýst er í álitsbeiðni telst ekki vera arðsúthlutun samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
  • Útgáfa jöfnunarhlutabréfa eins og lýst er í álitsbeiðandi telst ekki til arðs sbr. 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Kæruréttur:

Bindandi álit ríkisskattstjóra sætir kæru til yfirskattanefndar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álitsins sem er jafnframt dagsetning þess. Kæra skal vera skrifleg og skal koma fram í henni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðning fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit álitsins skal fylgja kæru, svo og þau gögn sem ætluð eru kærunni til stuðnings.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum