Bindandi álit nr. 9/00
22. ágúst 2000 nr. 9/00Tilefni:
Með bréfi dags. 20. júní 2000, sem móttekið var þann 21. júní 2000, er farið fram á að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit, sbr. lög nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, um skattaleg áhrif varðandi fyrirhuguð viðskipti álitsbeiðanda.
Málsatvik:
Málsatvik eru þau að A hf. hefur keypt alla hluti í X ehf. Samkvæmt kaupsamningi sem dagsettur er 24. mars 2000 og fylgdi álitsbeiðninni er umsamið kaupverð hinna seldu hluta kr. 55.000.000. Um frekari málavexti vísast í bréf álitsbeiðanda, dags. 20. júní, en þar segir m.a. svo:
„Málavextir eru þeir að um nokkurt skeið hafa átt sér stað viðræður milli eigenda A hf. annars vegar og eigenda fasteignarinnar I í Reykjavík um kaup á fasteigninni en systurfélag A hefur rekið þar verslun um árabil og leigusamningur fékkst ekki framlengdur. Samningar tókust ekki nema með því að kaupandi keypti einkahlutafélagið X ehf. sem er eigandi fasteignarinnar. Við uppgjör viðskipta þessa lá fyrir staðfest uppgjör hins keypta félags, og koma þar fram bókaðar skuldir félagsins. A ákvað að slíta félaginu og taka yfir einu eign félagsins, í samræmi við tilgang kaupanna, sbr. meðfylgjandi afrit fylgiskjala, en til greina kemur að selja hana öðrum aðila sem tengist rekstri verslunarinnar.
Kaupverð nam 55.000.000 kr. auk þess sem kaupandi yfirtók skuldbindingar að fjárhæð alls 4.996.327 kr., þar af skuld við fyrri eiganda að fjárhæð 3.382.456 kr. Bókfært verðgildi fasteignarinnar nemur miðað við marsmánuð 2000 26.597.623 kr.“
Í framhaldi af þessu kom fram eftirfarandi beiðni um bindandi álit.
„a) Óskað er eftir bindandi áliti embættisins á því, hvort heimilt sé að færa eign X ehf. í efnahagsreikning A hf. á réttu kaupverði hennar, 59.996.327 kr.
- Annars er óskað eftir bindandi áliti um það hvort heimilt sé að færa mismun á kaupverði annars vegar og bókfærðu verði fasteignarinnar hins vegar sem viðskiptavild.
- Ef svarið við a- og/eða b- er jákvætt, er óskað eftir bindandi áliti um það, hvort það leiddi til skattskyldu hjá X ehf. við slit þess er eign yrði færð með þeim hætti í efnahagsreikning A hf. eða hvort litið yrði svo á að hér væri um hagnað fyrri eigenda X ehf.“
Forsendur og niðurstöður:
Eftirfarandi umfjöllun ríkisskattstjóra um fyrirætlanir álitsbeiðanda fela í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Rétt þykir þó að taka fram að álit þetta er gefið miðað við fyrirliggjandi forsendur sem gefnar hafa verið af umboðsmanni álitsbeiðenda.
Það liggur ljóst fyrir í þessu máli að ákvörðun um slit á X ehf. hefur verið tekin en skilaferlinum er ekki lokið. Í bókun á hluthafafundi í X ehf. þann 19. apríl 2000 segir að ákveðið hafi verið að slíta X ehf. samkvæmt heimild í 85. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Í samræmi við ákvæði tilvitnaðrar greinar ber að semja efnahags- og rekstrarreikning sem leggja skal fyrir hluthafafund innan mánaðar frá ákvörðun um slit og kjósa skilanefnd.
Með tilliti til framanritaðs verður að telja ótvírætt að um slit verði að ræða í samræmi við XIII. kafla laga um einkahlutafélög og ber því að semja lokarekstrarreikning og lokaefnahagsreikning. Finna þarf út gangverð á einu eign félagsins, sem er húseignin ásamt bílastæðum og leigulóðarréttindum að I í Reykjavík. Á söluhagnað af fasteign og rekstrarhagnað samkvæmt lokarekstrarreikning ber að leggja á tekjuskatt.
Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum segir: „Nú er félagi slitið án þess að um sameiningu félaga, sbr. 56. gr., sé að ræða og skal þá teljast til arðs úthlutun við félagsslit sem er umfram kaupverð bréfanna.“
Arður í þessu tilfelli er mismunur á kaupverði A hf. á hlutum í X ehf. 55.000.000 kr. og úthlutuðum eignum til félagsins að frádregnum yfirteknum skuldum þ.m.t. áætluðum tekjuskatti og verður arður þessi frádráttarbær frá tekjum A hf. skv. 8. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að umrædd yfirtaka skuldbindinga að fjárhæð 4.996.327 kr., sem minnst er á í bréfi umboðsmanns álitsbeiðanda og bætt er við kaupverð hlutanna, teljast vera skuldir X ehf. og eru óviðkomandi hluthöfum.
Fram hefur komið hjá umboðsmanni álitsbeiðanda að þegar keypt eru öll hlutabréf eða hlutir í félagi þá sé í raun verið að kaupa eignir og yfirtaka skuldir. Vísar hann í því sambandi til Hæstaréttardóms frá 1949 (Dagverðareyri hf.) svo og til bréfs ríkisskattstjóra dags. 15. apríl 1999 „þar sem sterkar vísbendingar eru um að litið sé á viðskipti, sem hér um ræðir, heildstætt“.
Ríkisskattstjóri telur að tilvitnaður Hæstaréttardómur eigi ekki við í máli því er hér er til umfjöllunar. Í gögnum málsins kemur skýrt fram samningar um kaup á umræddri fasteign tókust ekki, sbr. bréf álitsbeiðanda frá 20. júní sl. Eru engar forsendur í ljósi þessa að líta svo á að efni kaupsamningsins, dags. 24. mars 2000, hafi í reynd verið um kaup á fasteign, en ekki á einkahlutafélaginu X ehf. Varðandi bréf frá embætti ríkisskattstjóra frá 15. apríl 1999 þá hefur það bréf verið afturkallað, sbr. bréf ríkisskattstjóra frá 22. júní 2000 (tilvísunarnúmer 200006220) og verður það ekki lagt til grundvallar þessu máli, enda felur það ekki í sér stjórnsýsluákvörðun með þeim réttarverkunum sem um slíkar ákvarðanir gilda.
Bindandi álit ríkisskattstjóra
Eftirfarandi er svar ríkisskattstjóra við spurningum a, b og c sem koma fram í álitsbeiðninni.
- Ríkisskattstjóri telur að færa skuli eignir þær sem A hf., sem eini eigandi að hlutum í X ehf., yfirtekur við slit á því félagi í formi arðs skv. 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, á því verði sem metið er gangverð þeirra eigna í lokefnahagsreikningi X ehf. Fyrningarstofn í hendi A hf. ákvarðast í samræmi við það yfirtökuverð.
- Ríkisskattstjóri telur að við slit á X ehf. fái A hf. í sinn hlut nettó verðmæti félagsins sem gagngjald fyrir það verðmæti sem gefið var fyrir hlutinn í félaginu eða 55.000.000 kr. Það sem umfram kaupverð kann að vera úthlutað telst eins og áður hefur komið fram til arðs hjá A hf. skv. 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
Ríkisskattstjóri telur að skattleggja skuli X ehf. í samræmi við niðurstöðu lokarekstrarreiknings. Sérstaklega skal tekið fram vegna þessarar spurningar að skattleggja ber fyrri eigendur hlutareignar í X ehf. aðeins af hagnaði sem myndast við sölu þeirra hluta.