Bindandi álit, frávísun nr. 5/03
Arður og hagnaður hlutafélags í Hong Kong. Frávísun: Matskennd atriði, sönnun á skattlagningu hagnaðar, álitaefni varða ekki álitsbeiðanda.
Reykjavík, 4. desember 2003Þann 11. nóvember 2003 móttók ríkisskattstjóri beiðni A ehf. um bindandi álit fyrir hönd B, og hlaut beiðnin númerið ..... í bókum embættisins. Álitsbeiðninni fylgdi yfirlit yfir tekjuskattlagningu fyrirtækja í Hong Kong unnið af A, ljósrit af forsíðu heimasíðu álitsbeiðanda og yfirlit yfir félagatekjuskattlagningu aðildarríkja OECD (listi unnin af D International).
Málavöxtum er svo lýst í álitsbeiðni: „Álitsbeiðandi er bandarískt hlutafélag með starfsemi víða um lönd. Nú hyggst þetta félag stofna einkahlutafélag á Íslandi undir nafninu C ehf. og verður megintilgangur þess að eiga eignarhluti í öðrum félögum. Hlutafé dótturfélags þessa mun fyrst í stað vera um 500.000 kr. Jafnframt verður stjórn veitt heimild til að hækka það síðar gefi fjárfestingar tilefni til þess. Er hið íslenska eignarhaldsdótturfélag hefur verið stofnað og skráð mun það stofna hlutafélag á sjálfstjórnarsvæði kínverska alþýðulýðveldisins í Hong Kong, sem hefur þann tilgang að framleiða ákveðna gerð af vörum er bandaríska móðurfélagið mun svo kaupa beint og flytja til Bandaríkja Ameríku í gegnum útibú sitt á Taiwan.“ Þá segir í álitsbeiðni: „Vegna þessara viðskipta myndast hagnaður hjá dótturdótturfélagi íslenska eignarhaldsfélagsins í Hong Kong og skattleggst hann með 17,5% hlutfalli samkvæmt þarlendum lögum. Síðan er ætlunin að flytja hagnaðinn til móðurfélagsins í Bandaríkjunum í gegnum Ísland og koma þá upp tvenns konar skattavandamál, annars vegar við móttöku hagnaðarins hjá hinu íslenska eignarhaldsdótturfélagi í formi arðs (dividend) og varðandi greiðslu þess á hagnaðinum að teknu tilliti til hugsanlegs kostnaðar af rekstri eignarhaldsdótturfélagsins hér á landi sem arðs (dividend) til móðurfélagsins í Bandaríkjunum.“ Umboðsmaður álitsbeiðanda segir svo að síðara álitamálið snerti túlkun og framkvæmd á 12. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku og af þeim sökum hafi fjármálaráðuneytinu verið send beiðni um bindandi álit. Fyrra álitaefnið snerti hins vegar túlkun á 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og sé óskað álits ríkisskattstjóra á því.
Í álitsbeiðni kemur fram eftirfarandi álitaefni: „Frá tekjum lögaðila má meðal annars draga þá fjárhæð sem íslensk hlutafélög og einkahlutafélög hafa fengið greidda í arð samkvæmt 4. tl C-liðar 7. gr. frá öðrum íslenskum hlutafélögum eða einkahlutafélögum, sbr. 9. tl. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Ákvæði þetta skal einnig taka til arðs frá erlendum hlutafélögum og einkahlutafélögum ef það félag sem arðinn fær, það er hið íslenska félag, sýnir fram á að hagnaður hins erlenda félags sé skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi og skatthlutfall þess sé eigi lægra en í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París.“ Þá kemur fram að fjármálaráðherra hafi sett reglugerð um nánari útfærslu á þessu frádráttarskilyrði og að samkvæmt reglugerðinni telst því skilyrði fullnægt ef hagnaður erlenda félagsins er gerður upp samkvæmt sömu meginreglum og hér á landi. En um það segir svo: „Með því er væntanlega átt við það að til skatts teljist heildartekjur að frádregnum heildargjöldum. Í annan stað verður hinn umræddi skattur að vera tekjuskattur eins og við þekkjum hann, það er að segja ákveðið hlutfall af ofannefndum mismun. Loks má hinu erlenda félagi ekki vera heimilt að draga úthlutun til hluthafa, það er hinn greidda arð, frá tekjum, sínum í því landi, sem það er skráð heima.“ Í álitsbeiðninni kemur svo fram að álitsbeiðandi hafi aflað upplýsinga um tekjuskattslagningu hlutafélaga á sjálfstjórnarsvæði kínverska alþýðulýðveldisins í Hong Kong og að þar í landi sé lagður almennur tekjuskattur á hlutafélög. Tekjuskattsstofn sé þannig fundinn að heildartekjur eru lagðar saman og heildargjöld dregin frá, líkt og hér á landi. Greiddur arður sé ekki frádráttarbær og að tekjuskattshlutfallið sé 17,5%. Samkvæmt upplýsingum frá OECD sé meðaltekjuskattshlutfallið í aðildarlöndum þess 30,79% miðað við 1. janúar 2003, hæst 42% í Japan og lægst 12,55 á Írlandi. Samkvæmt þessu sé tekjuskattshlutfall hlutafélaga í Hong Kong eigi lægra en í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París.
Álitsbeiðandi telur samkvæmt þessu að færðar hafi verið sönnur á að hagnaður dótturfélags sem hann hyggst stofna í Hong Kong muni verða skattlagður með sambærilegum hætti og hér á landi. Arður sem það félag hyggst greiða einkahlutafélagi sínu á Íslandi ætti því að vera frádráttarbær frá tekjum samkvæmt 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Álitsbeiðandi fer því fram á að ríkisskattstjóri gefi jákvætt svar við spurningunni: „Er arður sem C ehf., í 100% eigu bandarísks hlutafélags, B, fær greiddan frá hlutafélagi í Hong Kong, sem íslenska eignarhaldsdótturfélagið á að fullu, það er 100% frádráttarbær frá tekjum þess hér á landi samkvæmt 9. tl. 31. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt?“
Samkvæmt þessu liggur fyrir ríkisskattstjóra að taka afstöðu til og gefa bindandi álit um það hvort hagnaður hlutafélags í Hong Kong sé skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi og arður sem það greiðir til íslensks lögaðila þar með frádráttarbær tekjum hins íslenska félags í samræmi við 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og reglugerð nr. 297/2003, um arðsfrádrátt.
Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum var komið á kerfi þar sem einstakir gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Svar ríkisskattstjóra er bindandi ef gjaldandinn fer út í þá ráðstöfun sem lýst var í álitsbeiðninni. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, getur ríkisskattstjóri með rökstuddum hætti vísað beiðni um bindandi álit frá telji hann að beiðni sé vanreifuð eða óskýr eða aðrar ástæður mæli gegn því að látið sé uppi bindandi álit.
Forsenda þess að ríkisskattstjóri gefi út bindandi álit er að það liggi ljóst fyrir hver aðilinn er sem álitsbeiðnin varðar og að ráðstöfunin varði þennan tiltekna aðila. Kemur þetta fram í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, en þar segir m.a. "Gert er ráð fyrir að allir skattaðilar geti óskað bindandi álits ríkisskattstjóra. Fyrirspurnin verður hins vegar að varða álitsbeiðanda sjálfan, þ.e. ekki er hægt að óska eftir afstöðu ríkisskattstjóra um ráðstafanir sem einhver annar hefur í hyggju að gera." Álit ríkisskattstjóra verður því að varða skattalega hagsmuni álitsbeiðanda sjálfs. Í máli því sem hér er til umfjöllunar er hins vegar um það að ræða að spurt er um rétt einkahlutafélags sem ekki hefur verið stofnað til frádráttar frá tekjum vegna tiltekinna ráðstafana en ekki frádráttarrétt álitsbeiðanda sjálfs.
Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, segir m.a. svo um skilyrði þess að bindandi álit sé látið uppi: "Bindandi álit ríkisskattstjóra munu að líkum nýtast best í þeim tilvikum þegar álitamálið lýtur að túlkun flókinna eða óljósra ákvæða laga eða reglugerða fremur en t.d. matskenndum atriðum, svo sem mati á verðmætum eigna eða sönnunarfærslu um staðreyndir máls."
Eins og fyrr segir er álitsbeiðandi að óska eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra á því hvort hagnaður hlutafélags í Hong Kong sé skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi og þá hvort arður sem það greiðir til íslensks lögaðila sé frádráttarbær frá tekjum hins íslenska félags í samræmi við 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Þetta felur í sér að ríkisskattstjóra væri ætlað að meta hvort þær reglur sem gilda um skattlagningu hagnaðar í Hong Kong séu sambærilegar við þær skattlagningarreglur, sem gilda um lögaðila hér á landi, hvað varðar skattskyldar tekjur og heimila frádráttarliði við ákvörðun skattstofns. Orðalag 2. málsl. 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 ber með sér að mat á því hvort hagnaður hafi sætt sambærilegri skattlagningu erlendis eigi að fara fram eftir skattlagninguna. Skattaðili geti þannig sýnt fram á það hvort skattlagningin sé sambærileg eftir að hagnaður hins erlenda félags hafi sætt skattlagningu erlendis. Ríkisskattstjóri lítur þannig á að það sé eitt að gefa fyrirfram staðfestingu á því hvort hugsanleg skattlagning erlendis á grundvelli þar gildandi skattalaga um ákvörðun skattstofns m.t.t. skattskyldra tekna og frádráttarliða sé sambærileg við skattlagningu hér á landi og annað að bera saman raunverulega niðurstöðu af skattálagningu þar til bærs erlends yfirvalds og skattlagningar hér á landi samkvæmt lögum nr. 90/2003. Álitaefnið lítur samkvæmt þessu að matskenndu atriði og sönnun á því að hagnaður hafi sætt tiltekinni skattlagningu.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið telur ríkisskattstjóri ekki lagalegar forsendur fyrir því að gefa út bindandi álit í máli þessu og er beiðni yðar því vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.
Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.
Ályktunarorð:
Álitsbeiðni nr. ....., um bindandi álit á því hvort arður sem íslenskur lögaðili móttekur frá erlendu félagi sé frádráttarbær í samræmi við 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.
Ríkisskattstjóri