Bindandi álit, frávísun nr. 2/03
Sjálfseignarstofnun breytt í einkahlutafélag. Undanþága frá skattskyldu. Frávísun: Álitsbeiðni varðar ekki álitsbeiðanda sjálfan. Mat heyrir undir skattstjóra.
Reykjavík, 7. maí 2003
Þann 9. apríl 2003 móttók ríkisskattstjóri beiðni A ehf., um bindandi álit, fyrir hönd sjálfseignarstofnunarinnar B, og hlaut beiðnin númerið ..... í bókum embættisins.
Málavöxtum er svo lýst í álitsbeiðni: „Málavextir eru þeir að umbjóðandi okkar er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 1997 sem skv. 3. gr. skipulagsskrár stofnunarinnar hefur það að markmiði sínu að auka félagslega og heilsufarslega velferð aldraðra, að samþætta mismunandi og mismikla heimaþjónustu fyrir aldraða, að beita sér fyrir bættri aðstöðu til að skipuleggja og sjá um heimaþjónustu og styðja aldraða og heimili þeirra til þess að þeir geti sem lengst búið á eigin heimilum. Til þess að ná þessum markmiðum sínum skal stofnunin í samvinnu við ríki, Reykjavíkurborg og félagasamtök, gangast fyrir byggingu og rekstri húsnæðis fyrir aldraða í ..... í ..... en umbjóðandi okkar hefur fengið fyrirheit um lóð í ..... í ...... Nú er svo komið að haldin hefur verið boðskeppni um heildarskipulag og hönnun á byggingum og útivistarsvæðum B í ...... Fyrirhugað er að framkvæmdir við byggingu um 75 íbúða, 10 ráðhúsa (sic), þjónustukringlu og hjúkrunarrýmis (sic) fyrir 64 til allt að 96 einstaklinga geti hafist í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Umbjóðandi okkar hefur í hyggju að stofna einkahlutafélagið C ehf. sem eiga mun þau mannvirki sem fyrirhugað er að reisa í ..... og gerð hefur verið grein fyrir. Tekjur félagsins munu annars vegar verða leigutekjur frá íbúðum og hins vegar tekjur af þjónustusamningum við ríki um hjúkrunarþjónustu og Reykjavíkurborg um félagslega þjónustu en jafnframt er gert ráð fyrir nokkrum tekjum frá þjónustuaðilum (þ.e. frá sjálfstæðum aðilum sem veita munu sérgreinda þjónustu innan þjónustukringlunnar). Skv. 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru þeir lögaðilar sem tilgreindir eru í 2. gr. laganna og heimili eiga á Íslandi undanþegnir greiðslu tekjuskatts og eignarskatts ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Þetta fyrirhugar umbjóðandi okkar að gera, þ.e. að hagnaði félagsins verði varið með þessum hætti. Því til sönnunar skal vísað til hjálagðra draga að samþykktum einkahlutafélagsins, en félagið hefur ekki verið formlega stofnað, en í 3. gr. segir um tilgang félagsins: “Tilgangur félagsins er uppbygging og rekstur fjölþjónustukjarna og leiguíbúða fyrir miðaldra og eldri borgara svo og önnur þjónusta við íbúa í viðkomandi húsnæði sem og aðra þá sem óska eftir þjónustu óháð búsetu sem og skyldur atvinnurekstur. Hagnaði félagsins skal eingöngu varið til almenningsheilla á sviði rannsóknar-, þjónustu-, öldrunar-, heilbrigðis-, menntunar- og menningarmála, einkum mála er lúta að velferð aldraðra.” Jafnframt segir í 2. málsl. 27. gr. samþykktanna: “Hluthafafundur, sem tekið hefur löglega ákvörðun um slit á eða skipti félagsins skal einnig ákveða ráðstöfun eigna og greiðslu skulda en hreinni eign félagsins verður eingöngu ráðstafað í samræmi við tilgang félagsins”.” Álitsbeiðninni fylgdu drög að samþykktum fyrir félagið sem fyrirhugað er að stofna og afrit af stofnskrá álitsbeiðanda.
Fyrir liggur að ríkisskattstjóra er ætlað að meta og gefa bindandi álit um það hvort einkahlutafélag sem álitsbeiðandi hyggst stofna geti verið undanþegið skattskyldu á grundvelli 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt álitsbeiðninni á mat ríkisskattstjóra og bindandi álit hans að grundvallast á drögum að samþykktum fyrir einkahlutafélagið sem ætlað er að stofna. Í þeim samþykktardrögum sem lögð voru fram með álitsbeiðni er ekki sérstaklega kveðið á um að óheimilt sé að breyta samþykktunum og þá kemur heldur eigi fram hvort greiddur skuli arður til hluthafa.
Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum var komið á kerfi þar sem einstakir gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Svar ríkisskattstjóra er bindandi ef gjaldandinn fer út í þá ráðstöfun sem lýst var í álitsbeiðninni. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, getur ríkisskattstjóri með rökstuddum hætti vísað beiðni um bindandi álit frá telji hann að beiðni sé vanreifuð eða óskýr eða aðrar ástæður mæli gegn því að látið sé uppi bindandi álit.
Forsenda þess að ríkisskattstjóri gefi út bindandi álit er að það liggi ljóst fyrir hver aðilinn er sem álitsbeiðnin varðar og að ráðstöfunin varði þennan tiltekna aðila. Kemur þetta fram í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, en þar segir m.a. "Gert er ráð fyrir að allir skattaðilar geti óskað bindandi álits ríkisskattstjóra. Fyrirspurnin verður hins vegar að varða álitsbeiðanda sjálfan, þ.e. ekki er hægt að óska eftir afstöðu ríkisskattstjóra um ráðstafanir sem einhver annar hefur í hyggju að gera." Álit ríkisskattstjóra verður því að varða skattalega hagsmuni álitsbeiðanda sjálfs. Í máli því sem hér er til umfjöllunar er hins vegar um það að ræða að spurt er um skattskyldu einkahlutafélags sem ekki hefur verið stofnað en ekki skattskyldu álitsbeiðanda sjálfs.
Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, segir m.a. svo um skilyrði þess að bindandi álit sé látið uppi: "Bindandi álit ríkisskattstjóra munu að líkum nýtast best í þeim tilvikum þegar álitamálið lýtur að túlkun flókinna eða óljósra ákvæða laga eða reglugerða fremur en t.d. matskenndum atriðum, svo sem mati á verðmætum eigna eða sönnunarfærslu um staðreyndir máls."
Í 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru aðilar sem undanþegnir eru skattskyldu á grundvelli 5. tölul. 4. gr. sömu laga skyldir til að skila skattframtali. Á grundvelli þessara framtalsskila metur skattstjóri hvort skilyrði 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981 séu uppfyllt. Lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, gera þannig beinlínis ráð fyrir því að skattstjóri taki afstöðu til skattfrelsis samkvæmt 5. tölul. 4. gr. laga sömu laga. Skattfrelsi samkvæmt þeirri grein byggir á þeim forsendum annars vegar að öllum hagnaði sé í raun varið til almenningsheilla og hins vegar að það sé einasta markmið aðilans samkvæmt samþykktum. Það að verja hagnaði til almenningsheilla, sbr. m.a. ákvæði 15. gr. sbr. og 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, hefur almennt verið skilið á þann veg að það girði fyrir uppbyggingu eigin fjár hjá félagi, en setji það skilyrði að hagnaði sé öllum ráðstafað til almenningsheilla. Í máli þessu liggur fyrir að um óstofnað félag er að ræða sem væntanlega mun eiga að byggja upp eigið fé með rekstri sínum, þ.e. byggja upp þann fasteignakost sem starfsemin gerir ráð fyrir. Það skilyrði að ráðstöfun til almenningsheilla sé einasta markmið aðila gerir þær kröfur að menn geti ekki breytt frá settum markmiðum síðar með því að breyta samþykktum. Fyrir slíkar breytingar er ekki girt samkvæmt fyrirliggjandi samþykktum. Í ljósi þessa og því sem að framan hefur verið rakið og með hliðsjón af þeirri lagalegu umgjörð sem téðri undanþágureglu eru búin í lögum nr. 75/1981, telur ríkisskattstjóri ekki lagalegar forsendur til að gefa bindandi álit í máli þessu.
Telja verður því að það sé undir skattstjóra komið að meta árlega hvort skilyrði til undanþágu frá skattskyldu séu fyrir hendi því markmið félagsins, ráðstöfun fjármuna og eftirlit með ráðstöfun fjármuna getur breyst frá ári til árs.
Með vísan til framangreinds er beiðni yðar um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.
Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.
Ályktunarorð:
Álitsbeiðni nr. ..... um bindandi álit á því hvort einkahlutafélag er álitsbeiðandi hyggst stofna sé undanþegið skattskyldu á grundvelli 5. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum.
Ríkisskattstjóri