Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 7/01

12.7.2001

Reykjavík, 12. júlí 2001

Ríkisskattstjóri hefur þann 1. júní 2001 móttekið beiðni A hf. f.h. B hf., um bindandi álit.

Í bréfi álitsbeiðanda, dags. 28. maí 2001, kemur fram að hann hafi í hyggju að skipta rekstri sínum upp og skilja einn þátt rekstrarins frá öðrum rekstri. Samkvæmt bréfi álitsbeiðanda er annars vegar möguleiki að skipta félaginu upp í samræmi við 56. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eða hins vegar að stofna dótturfélag og er þeim álitamálum er upp koma við eignatilfærsluna nánar lýst í bréfi umboðsmanns álitsbeiðanda. Lýtur álitsbeiðnin að síðarnefndu leiðinni. Er óskað eftir bindandi áliti embættisins á því hvort að fallist sé á að tiltekin viðskipti falli undir skilgreiningu embættisins á eðlilegu verði við skýringu á 56. og 57. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Auk þess er óskað eftir staðfestingu þess að ekki verði talið að um óeðlilega lágt verð sé að ræða í viðskiptum milli þessara tengdu aðila þannig að 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981 verði talin eiga við um viðskiptin.

Við beitingu 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, velta tvö þýðingarmikil atriði á mati. Í fyrsta lagi verður að liggja fyrir, svo að óyggjandi sé, að um óeðlilega hátt eða lágt verð sé að ræða. Hvort svo er ræðst óhjákvæmilega að verulegu leyti af mati og atvikum í einstökum tilfellum. Jafnframt verður að ætla að sá þáttur ráðist mjög af og sé samofinn því matsverði sem skattyfirvöldum er ætlað að ákvarða samkvæmt greininni. Ekki verður þó talið að slíkt þurfi ævinlega að fara saman, enda verður að álíta að verð geti talist eðlilegt þótt matsverð, sem ákveðið er eftir tilteknum viðmiðunum, sé annað. Í öðru lagi byggist beiting 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981 á matsverði skattyfirvalda og kemur ekki til kasta þess nema fyrri þátturinn liggi fyrir, þ.e. óeðlilega hátt eða lágt kaup- eða söluverð. Báða framangreinda þætti ber skattyfirvöldum að leiða fram á viðhlítandi hátt við skattlagningu tekjuviðbótar samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981. Ber þeim annars vegar að sýna fram á, svo óyggjandi sé, að verð sé óeðlilega hátt eða lágt, og hins vegar að skjóta traustum stoðum undir matsverð það sem þau ákvarða.

Með hliðsjón af úrskurðaframkvæmd skattyfirvalda og túlkun á 58. gr. laga nr. 75/1981 verður almennt að álykta svo að varasamt sé að gefa bindandi álit um hugsanlega beitingu 58. gr. um óorðna hluti. Hlutverk bindandi álits er að láta uppi bindandi álit í skattamálum ef mál varðar verulega hagsmuni þess sem eftir slíku áliti leitar, sbr. 1. ml. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit. Skulu skattyfirvöld vera bundin af áliti ríkisskattstjóra sem gefið er út á grundvelli laga nr. 91/1998, um bindandi álit, að því leyti sem lög og málsatvik eru óbreytt frá því að álitið var gefið út. Hlutverk bindandi álita er hins vegar ekki að leggja mat á hvaða leiðir séu heppilegastar með tilliti til skattaspörunar eða til að veita úrlausn fyrir vangaveltur um leiðir sem koma til greina. Með vísan til þess sem hér er að framan rakið og einkum með hliðsjón af þeim kröfum sem almennt eru gerðar til skattyfirvalda varðandi beitingu 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, verður ekki talið að efni það sem óskað er álits á sé þannig vaxið að unnt sé að gefa um það bindandi álit, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Með vísan til ofangreinds er beiðni yðar um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum