Tilkynningar til hugbúnaðarhúsa


Tilkynningar til hugbúnaðarhúsa

Breytingar á skuldfærslu aðflutningsgjalda og gjalddögum vegna ársins 2012

Tekur gildi 1. apríl 2012, en einnig afturvirkar breytingar frá 1. janúar 2012

14.3.2012

Skv. lögum nr. 18/2012 um breytingu á tollalögum og lögum um vörugjald (samþykkt á Alþingi 13. mars 2012) hafa tekið gildi breytingar á reglum um hvernig aðflutningsgjöld eru skuldfærð við tollafgreiðslu; breytingar á gjalddögum. Þessar breytingar eru tímabundnar ráðstafanir og gilda fyrir árið 2012, þ.e. um aðflutningsgjöld, sem skuldfærð hafa verið og verða við tollafgreiðslu innfluttra vara á árinu. Gera þarf breytingar á hugbúnaði sem notaður er við EDI/SMT-tollafgreiðslu innfluttra vara hjá innflytjendum og tollmiðlurum. Lagt er til að breytingarnar verði þannig útfærðar að gert sé ráð fyrir að fyrra fyrirkomulag um skuldfærslu aðflutningsgjalda geti tekið gildi aftur (þann 1. janúar 2013 að öllu óbreyttu). Breytingunum á skuldfærslu gjalda er lýst hér að neðan og áhrif þeirra á EDI/SMT-tollafgreiðsluna o.fl. Breytingarnar gilda um neðangreind tilvik. Önnur tilvik skuldfærslu aðflutningsgjalda eru óbreytt.

Þegar EDI/SMT-aðflutningsskýrsla fær tollafgreiðslu hjá Tollstjóra er EDI-skeyti, nefnt CUSTAR skeyti, sent til innflytjanda eða e.a. tollmiðlara, nefnt skuldfærslutilkynning, sem lesið er inn í hugbúnað hans. Í skeytinu eru m.a. upplýsingar um álögð og skuldfærð gjöld, sundurliðuð niður á hvert tollskrárnúmer/línu í skýrslunni. Fyrir hvert gjald á tollskrárnúmeri eru upplýsingar um hvernig gjald er skuldfært; skuldfærslukódi, S2, S4 o.fl. kódar, sem gefa til kynna gjalddaga tolls/gjalds. Í hugbúnaði innflytjanda/tollmiðlara eru síðan töflur sem túlka þessa kóda miðað við tollafgreiðsludag í CUSTAR skeytinu. Hver skuldfærslukódi segir til um uppgjörstímabil og eindaga gjalda, sem skuldfærð eru á uppgjörstímabili skv. reglu kódans. Þetta getur síðan haft áhrif á birtingu upplýsinga á skjá, útprentunum í hugbúnaði o.fl.

Breytingarnar varða þessa kóda, sem hafa verið í gildi frá 1. janúar 2012:

S2 kódi, almenna skuldfærslureglan:
Uppgjörstímabil er tveir mánuðir, janúar-febrúar, mars-apríl o.s.frv.
Eindagi gjalds sem skuldfært er skv. þessari reglu er 15. næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
Dæmi: Eindagi jan-feb 2012 tímabils er 15. mars 2012

S4 kódi, skuldfærsla vörugjalds (X* vörugjöld) aðila, sem skráðir eru hjá Ríkisskattstjóra sem vörugjaldsskyldir (tiltölulega fá fyrirtæki nota þessa skuldfærslureglu).
Uppgjörstímabil eru tveir mánuðir, janúar-febrúar, mars-apríl o.s.frv.
Eindagi vörugjalds er þá 28. annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
Dæmi: Eindagi jan-feb 2012 tímabils er 28. apríl 2012

Frá og með 1. apríl 2012 til 31. desember 2012 verða neðangreindir skuldfærslukódar í CUSTAR skeytum í stað S2 og S4 kóda:

SB (kemur í stað S2) kódi, almenna skuldfærslureglan:
Uppgjörstímabil er tveir mánuðir, janúar-febrúar, mars-apríl o.s.frv.
Eindagar gjalds sem skuldfært er skv. þessari reglu eru tveir; helmingur upphæðar gjalds gjaldfellur á hvorum eindaga:
Fyrsti eindagi er 15. næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils
Annar eindagi er 5. annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils
Dæmi: Eindagar mars-apríl 2012 tímabils eru: 15. maí 2012 og 5. júní 2012
(Athuga að þetta er ekki sama greiðsludreifing á tvo gjalddaga eins og var í gildi 2011, þ.e. seinni eindaginn er núna 5. annars mánaðar, en var 2011 þann 15. annars mánaðar; SB kódi er nýr)

S9 (kemur í stað S4) kódi, skuldfærsla vörugjaldsaðila á vörugjaldi (X* vörugjöld), sem skráðir eru hjá Ríkisskattstjóra sem vörugjaldsskyldir:
Uppgjörstímabil eru tveir mánuðir, janúar-febrúar, mars-apríl o.s.frv.
Eindagar vörugjalds sem skuldfært er skv. þessari reglu eru tveir; helmingur upphæðar gjalds gjaldfellur á hvorum eindaga:
Fyrsti eindagi er 28. annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
Annar eindagi er 28. þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
Dæmi: Eindagar mars-apríl 2012 tímabils eru 28. júní 2012 og 28. júlí 2012
(Þetta er sama greiðsludreifing og kódi (S9) og var í gildi 2011)

Varðandi það þegar skipta þarf upphæðum gjalda í CUSTAR skeyti (EDI/SMT-tollafgreiðsla) niður á tvo eindaga; afgangur:

Hugbúnaður innflytjanda/tollmiðlara þarf að skipta gjaldaupphæð í CUSTAR skeyti niður á tvo eindaga eftir því sem skuldfærslureglan (skuldfærslukódi) segir til um.

Notuð er eftirfarandi regla. Beita skal þessari reglu á samtals gjöld með sömu skuldfærslureglu í aðflutningsskýrslu, en ekki á hverja línu tollskrárnúmers fyrir sig í skýrslunni. Ef ekki er unnt að skipta jafnt niður á eindagana tvo þá fer afgangur á fyrsta eindagann.
1 kr. er skipt niður þannig: 1 kr. á fyrsta eindaga, 0 kr. á annan eindaga
7 kr. er skipt niður þannig: 4 kr. á fyrsta eindaga, 3 kr. á annan eindaga
Alltaf þarf að passa upp á að samtals skuldfærð gjöld á öllum línum/tollskrárnúmerum í CUSTAR skeyti stemmi við samtalsupphæðina sem kemur í CUSTAR skeytinu.

Afturvirkni vegna 1. janúar til 31. mars 2012
Með lögum nr. 18/2012 um breytingu á tollalögum og lögum um vörugjald (samþykkt á Alþingi 13. mars 2012) var samþykkt lagabreyting, sem gildir einnig um eindaga aðflutningsgjalda er skuldfærð hafa verið/verða á tímabilinu 1. janúar til 31. mars 2012. Á framangreindu tímabili hafa innflytjendur og tollmiðlarar í EDI/SMT-tollafgreiðslu fengið og fá S2 og S4 kóda í CUSTAR skeytum (fá til loka mars 2012). Engu að síður eru eindagar vegna gjalda sem skuldfærð voru og verða á framangreindu tímabili skv. S2 og S4 kódum, þeir tvískiptu eindagar sem greint er frá hér að ofan í skýringartexta með SB og S9 kódum. Greiðsluseðlar frá Tollstjóra vegna innheimtu skuldfærðra aðflutningsgjalda endurspegla þetta.

Tollreikningar á pappír og á vef VEF-tollafgreiðslu
Tollreikningar á pappír sem innflytjendur/tollmiðlarar hafa fengið eða fá hjá gjaldkerum Tollstjóra eða af vef VEF-tollafgreiðslu (skuldfærslutilkynningar) eru ekki réttir hvað varðar eindagana vegna vara sem tollafgreiddar eru á tímabilinu 1. janúar til 31. mars 2012. Fyrir vörusendingar sem fá tollafgreiðslu frá og með 1. apríl 2012 verða tollreikningar réttir og endurspegla tvískiptu eindagana.

Yfirlit yfir skuldfærslureglur, uppgjörstímabil og eindaga aðflutningsgjalda árið 2012.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum