Tilkynningar til hugbúnaðarhúsa


Tilkynningar til hugbúnaðarhúsa

Tollkvótaúthlutanir – breytingar á tollkerfum frá 01.01.2023

Áríðandi tilkynning til hugbúnaðarhúsa, tollmiðlara og innflytjenda – breytingar á SAD innflutningsskýrslu, sem hafa áhrif á hugbúnað vegna tollskýrslugerðar í innflutningi.

18.1.2023

Þann 1. janúar 2023 var tekinn í notkun nýr kerfishluti í tollkerfunum. Þar eru breytingar á vinnulagi við tollafgreiðslu þegar sótt er um undanþágur frá tollum á grundvelli tollkvótaúthlutana frá Matvælaráðuneytinu.

Vegna þessara breytinga þurfa hugbúnaðarhús að breyta tollskýrslugerðarhugbúnaði sínum.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir umræddum breytingum í tollkerfunum.

Breytingar gilda einungis fyrir tollkvótareglugerðir, sem öðlast gildi 01.01.2023 eða síðar

Varúð: breytingarnar gilda eingöngu fyrir tollkvótareglugerðir, sem öðluðust gildi 01.01.2023 eða síðar. Því gildir eftirfarandi:

  • Núna (þann 18.01.2023) eiga breytingarnar eingöngu við tollkvótaúthlutanir, sem byggja á tollkvótareglugerðum númer 1150/2022, 1151/2022, 1152/2022 og 1170/2022.
  • Síðar á árinu 2023 mun Matvælaráðuneytið gefa út nýjar tollkvótareglugerðir og úthluta tollkvótum á grundvelli þeirra. Breytingarnar koma til með að gilda um þær úthlutanir.
  • Á árinu 2022 gaf Matvælaráðuneytið út tollkvótareglugerðir sem ennþá eru í gildi og gilda áfram fram eftir árinu. Breytingarnar eiga ekki við um tollkvótaúthlutanir á grundvelli þeirra tollkvótareglugerða.

Rafræn samskipti á milli tollkvótakerfis Matvælaráðuneytisins og Tollakerfisins

Í framtíðinni munu upplýsingar um nýjar tollkvótaúthlutanir Matvælaráðuneytisins verða sendar rafrænt úr tollkvótakerfi ráðuneytisins yfir í Tollakerfið. Innflytjendur munu því ekki þurfa að senda Skattinum þær upplýsingar.

Úthlutunarnúmer Matvælaráðuneytis

Í nóvember og desember 2022 sendi Matvælaráðuneytið innflytjendum tilkynningar um tollkvótaúthlutanir byggðar á fyrrnefndum reglugerðum númer 1150/2022, 1151/2022, 1152/2022 og 1170/2022. Ráðuneytið gaf hverri úthlutun einkvæmt úthlutunarnúmer, sem tilgreint er í tilkynningunni um úthlutunina. Sami háttur verður hafður á í framtíðinni.

Úthlutunarnúmer Matvælaráðuneytis eru byggð þannig upp:
Númer tollkvótareglugerðar/ár tollkvótareglugerðar- þriggja tölustafa raðnúmer – fjögurra stafa númer fyrirtækis.

Dæmi um úthlutunarnúmer:

1150/2022-001-1234
1170/2022-001-1234

Frekari skýringar:

1150/2022 og 1170/2022 eru númer og ár tollkvótareglugerða.
001 er raðnúmer, sem ráðuneytið gefur úthlutuninni í sínu tollkvótakerfi.
1234 er fast númer, sem tiltekið fyrirtæki hefur í tollkvótakerfi ráðuneytisins. Öll úthlutunarnúmer fyrir tollkvótaúthlutanir til þessa tiltekna fyrirtækis enda á þessu sama fjögurra stafa númeri.

Úthlutunarnúmer sett í reit 39 á SAD innflutningsskýrslu

Nú óskar innflytjandi eftir undanþágu frá tollum á grundvelli tollkvótaúthlutunar sem byggð er á fyrrnefndum tollkvótareglugerðum eða tollkvótaúthlutunum, sem síðar fara fram. Þá ber að setja úthlutunarnúmer Matvælaráðuneytisins í reit númer 39 á SAD innflutningsskýrslunni.

Jafnframt á áfram að setja undanþágubeiðnina UND TKV01 í reit 44 á SAD innflutningsskýrslunni (óbreytt frá því sem verið hefur).

Ex-merktir vöruliðir – sérreglur – reitir 39 og 44

Nú gerist það stundum, að vöruliðir í tollkvótareglugerðum og tollkvótaúthlutunum eru „ex-merktir“, eins og það er stundum kallað. Sjá má dæmi um þetta í tollkvótareglugerð 1150/2022, þ.e. vöruliðina ex 0207 og ex 0406.

Ef sótt er um undanþágu vegna ex-merkts vöruliðar gilda sérstakar reglur:

  • Í reit 44 þarf að setja undanþágubeiðnina TKU EX.
    (TKU er nýr skjalakódi í Tollakerfinu.)
  • Úthlutunarnúmer er einnig sett í reit 39.
  • Undanþágubeiðnin UND TKV01 er einnig sett í reit 44.

Sameina vörulínur í EDI-skeyti

Aldrei má sameina vörulínur í EDI-skeyti, ef upplýsingar eru skráðar í reit 39.

Eldri tollkvótaúthlutanir – óbreytt vinnulag

Ef sótt er um undanþágu frá tollum á grundvelli eldri tollkvótaúthlutana, þ.e. annarra en þeirra sem nefndar hafa verið hér að fram, er útfylling SAD innflutningsskýrslu óbreytt frá því sem verið hefur og reitur 39 ekki fylltur út.

Tollafgreiðsludeild Skattsins hefur auk þess samið við innflytjendur um að ganga á tiltekinn hátt frá upplýsingum um tollkvóta þegar um eldri tollkvótaúthlutanir er að ræða. Þær reglur standa óbreyttar að sinni og mun tollafgreiðsludeild gera innflytjendum viðvart, verði breyting þar á.

SMT/EDI skeyti - breytingar

Útfærsla í EDI-skeyti - gagnaliðir í vörulínu skýrslu/skeytis:

Úthlutunarnúmer:

  • Skráður er kóðinn ABJ.
  • Gagnaliður RFF - gagnastak 1153: ABJ
  • Gagnaliður RFF - gagnastak 1154: úthlutunarnúmer úr tilkynningu Matvælaráðuneytis um úthlutaðan tollkvóta
  • Dæmi: RFF+ABJ:1152/2022-001-1234'

Ex-merkt vara:

  • Upplýsingar eru skráðar á sama hátt og aðrar upplýsingar í DOC-lið.
  • Dæmi: DOC+TKU::159+EX'

Ný villunúmer

7 ný villunúmer hafa bæst við í Tollakerfinu vegna þessara breytinga:

Kódi Skýring 
 200201 Tollkvótaúthlutun er ekki til eða ekki í eigu innflytjanda.
 200202 Tollkvótaúthlutun er ekki í stöðu sem leyfir ráðstöfun.
 200203 Tollkvótaúthlutun ekki í gildi.
200204  Tollskrárnúmer er ekki tilgreint í tollkvótaúthlutun.
200205  Tollkvótaskilyrði vantar í reit 44.
 200206 Tollkvótaskilyrði í reit 44 finnst ekki fyrir þetta tollskrárnúmer í úthlutun.
 200207 Upprunaland á ekki við um tollkvótareglugerð.

Fyrir innflytjendur – breytingar í Tollalínunni

Breytingar verða í Tollalínunni með það fyrir augum að innflytjendur geti þar fengið yfirlit yfir tollkvótaúthlutanir, sem notaðar hafa verið við tollafgreiðslu.

Hér að neðan eru dæmi úr prófunarumhverfi Skattsins þar sem Tollstjóri er innflytjandi.

Þegar tollskýrsla með upplýsingum í reit 39 verður skoðuð í Tollalínunni mun reitur 39 líta svona út:Tollkvotar1

Þegar smellt er á spurningarmerkið birtist yfirlit yfir tollkvótaundanþágur á grundvelli þessa tiltekna úthlutunarnúmers:

Tollkvotar2

Undir liðnum Viðskiptamaður bætist við nýr liður, Tollkvótar.

Tollkvotar3

Þegar smellt verður á Tollkvótar birtist yfirlit yfir tollkvótaúthlutanir fyrirtækisins, sem skráðar hafa verið í Tollakerfinu:

Tollkvotar4

Ef smellt er á tollkvótaúthlutun, birtast sambærilegar upplýsingar um hana og birtast þegar smellt er á spurningarmerkið við reit 39 (sjá skýringar hér að framan).

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum