Fréttir og tilkynningar


Áfangaskil Nordic Smart Government

14.12.2020

Landsteymi Nordic Smart Government hélt 27. nóvember sl. fjarfund undir yfirskriftinni „Verðmætasköpun með stafrænum lausnum“. Fundinn sóttu um 80 aðilar frá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum.

Mynd af Þórdísi Kolbrúnu ráðherra í pontuDagskráin hófst með ávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem sagði m.a. að Nordic Smart Government væri dæmi um vel heppnað verkefni sem sýndi með skýrum hætti styrk norrænnar samvinnu. Í framhaldinu kynnti Sigríður Valgeirsdóttir, staðgengill skrifstofustjóra hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu nýsköpunarstefnu ráðuneytisins til ársins 2030.

Þá voru helstu afurðir úr þriðja áfanga verkefnisins kynntar. Fjölmargir aðilar hér innanlands m.a. starfsmenn ráðuneyta, stofnana, ráðgjafar og fulltrúar fyrirtækja tóku þátt í þessum áfanga sem var gangsettur 1. júní 2018 en lauk 31. október 2020.

Mynd af Sigríði Valgeirsdóttur í pontuMeginafurð verkefnisins er vegvísir að stafrænu vistkerfi Nordic Smart Government. Í vegvísinum eru skilgreind markmið og fyrirhugaður árangur auk helstu áfanga á þeirri vegferð að gera framtíðarsýn Nordic Smart Government að veruleika. Framtíðarsýnin er í stuttu máli sú að gera viðskiptagögn aðgengileg svo þau nýtist til nýsköpunar og vaxtar og stuðla þannig að því að Norðurlöndin verði samþættasta landsvæði í heiminum.

Snorri Olsen, ríkisskattstjóri, ræddi mikilvægi framkvæmdar vegvísisins til að styðja stafræna þróun íslenskra fyrirtækja. Brýnt fyrsta skref sagði hann vera að stjórnvöld móti heildstæða stafræna stefnu í samstarfi við atvinnulífið og háskólasamfélagið.

Mynd af Snorra Olsen í pontuVið áfangaskil horfir verkefnishópur Nordic Smart Government um öxl og nýtir lærdóminn til undirbúnings fyrir næsta áfanga. Í þessum fjórða og síðasta áfanga verkefnisins, sem hefst í upphafi nýs árs, verður unnið að innleiðingu breytinga í samstarfi opinberra aðila og atvinnulífs.

Skoða glærur af fundinum

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum