Afurðir NSG&B við verkefnislok

12.12.2024

Eitt af metnaðarmálum norrænu forsætisráðherranna er að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta landsvæði í heiminum. Nordic Smart Government & Business (2016-2024) er eitt af mörgum verkefnum sem er ætlað að raungera þá sýn. 

Markmið verkefnisins er að byggja upp stafrænt vistkerfi sem felst í því að gera viðskiptagögn aðgengileg fyrirtækjum og stofnunum á sjálfvirkan, snjallan og öruggan hátt í rauntíma svo þau nýtist til nýsköpunar og vaxtar.

Á árunum 2021-2024 var unnið að fjórða og síðasta áfanga verkefnisins sem lýkur nú með útgáfu lokaskýrslu um afurðir verkefnavinnunnar og bæklingi með dæmum frá fyrirtækjum og stofnunum um hagnýtingu afurðanna. Verkefnið var að hluta fjármagnað af Nordic Innovation.

Lokaskýrsla Nordic Smart Government & Business:

NSG&B 2021-2024 Final Report

Bæklingur Nordic Smart Government & Business:

NSG&B 2021-2024 Case Catalogue

Áframhaldandi samstarf

Þrátt fyrir að verkefninu sé nú formlega lokið verður framhald á samstarfi fyrirtækjaskráa og skattyfirvalda á Norðurlöndum, byggt á afurðum Nordic Smart Government & Business. Unnið verður áfram að verkefnum á þremur sviðum þ.e. tengt rafrænum viðskiptaskjölum, gagnaskiptum og samskiptum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Viðfangsefnið við áframhaldandi þróun rafrænna viðskiptaskjala eru stafræn skil á upplýsingum til skattyfirvalda um virðisaukaskattsskyld viðskipti og upplýsingagjöf um sjálfbærniþætti í starfsemi fyrirtækja. 

Tengt gagnaskiptum verður annars vegar lögð áhersla á áframhaldandi þróun vefþjónustu (API) fyrirtækjaskráa og hins vegar á áframhaldandi vinnu að nýrri högun á aðgengi að upplýsingum úr ársreikningaskrám og að stafrænum skýrsluskilum á reikningsskilum.

Í samskiptum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins verður lögð áhersla á mikilvægi þess að auka rekstrarsamhæfi, sem dregur úr stjórnsýslubyrði og eykur samkeppnishæfni fyrirtækja á innri markaðnum. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum