Fréttir og tilkynningar


Almannaheillaskrá

1.11.2021

Með lögum nr. 32/2021, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla), var heimilaður frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna gjafa og framlaga til lögaðila sem uppfylla tiltekin skilyrði og eru í almannaheillaskrá sem Skatturinn heldur.

Breyting þessi tók gildi í dag, 1. nóvember 2021.

Meðal þeirra skilyrða sem lögaðilar þurfa að uppfylla til þess að gjafir eða framlög til þeirra skapi frádráttarrétt hjá gefanda er að um sé að ræða eftirfarandi starfsemi móttakanda: Mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, starfsemi björgunarsveita, vísindalega rannsóknarstarfsemi, starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða, neytenda- og forvarnastarfsemi, starfsemi þjóðkirkjunnar, þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga. Viðkomandi móttakandi gjafar eða framlags þarf að vera skráður í almannaheillaskrá á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag veitt.

Þeir lögaðilar sem uppfylla skilyrði til að vera skráðir í almannaheillaskrá þurfa að sækja um það til Skattsins. Gert er ráð fyrir að skráning fari fram rafrænt í gegnum þjónustusíðu hvers umsækjanda. Unnið er að gerð umsóknarformsins og verður auglýst sérstaklega þegar það er tilbúið, en gert er ráð fyrir að það verði í kringum miðjan nóvember. Fyrr verður ekki unnt að taka á móti umsóknum, en skráning gildir frá 1. nóvember 2021 vegna gjafa og framlaga frá því tímamarki til ársloka. Í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er einnig unnið að gerð reglugerðar sem m.a. snýr að þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla fyrir skráningu í almannaheillaskrá.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum