Fréttir og tilkynningar


Alþjóðlegt gegn eftirlíkingum

13.3.2014

Embætti Tollstjóra er þátttakandi í alþjóðlegu verkefni, sem er nýhafið og beinist að því að vekja athygli á vörufölsun og tengslum við fjölþjóðlega skipulagða glæpastarfsemi. Herferðin ber yfirskriftina: "Falsanir: ekki kaupa hlut í skipulagðri glæpastarfsemi".

Herferðin sem um ræðir er á vegum fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Office on Drugs and Crime - UNODC) Í henni felst að neytendur eru hvattir til að leiða hugann að því hverjir og hvað sé að baki framleiðslu á fölsuðum vörum. Talið er iðnaðurinn velti yfir 250 milljörðum dollara á ári hverju. Í mörgum tilvikum getur falsaður varningur verið hættulegur enda ekki framleiddur í samræmi við viðeigandi staðla og kröfur.

Falsaður varningur er iðulega framleiddur við ófullnægjandi aðstæður af ólöglegu vinnuafli sem ekki fær greidd mannsæmandi laun. Það er gríðarlega mikilvægur liður í baráttunni gegn vörufölsun að fólk sé meðvitað um þær afleiðingar sem þessi iðnaður hefur í för með sér því að þá eru minni líkur á að almenningur kaupi slíkar vörur og styrki þannig skipulagða glæpastarfsemi.

Í þessu sambandi má benda á nýgenginn dóm Héraðsdóms Reykjaness sem staðfesti lögbann á innflutning eftirlíkinga af Arco-gólflampanum. Tollafgreiðsla sendingarinnar var stöðvuð af tollayfirvöldum með heimild í tollalögum. Um var að ræða 30 gólflampa sem pantaðir höfðu verið frá Hong Kong. Innflytjanda var gert að sæta eyðingu lampanna undir eftirliti Tollstjóra og greiða á aðra milljón í skaðabætur og málskostnað.

Sem fyrr leggur Tollstjóri áherslu á víðtækt og traust samstarf við atvinnulífið, þar á meðal á eindregna vernd hugverka.

Eftirlíking og ósvikinn

Nýgenginn er dómur er staðfesti lögbann á innflutning eftirlíkinga af Arco-gólflampanum. Lampinn hægra megin á myndinni, með hvítum standi, er ósvikinn. Lampinn með svarta standinum er eftirlíking.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum