Fréttir og tilkynningar


Áminning á Ísland.is um gjaldfallna skuld við ríkissjóð

26.9.2023

Þessa dagana er mörgum landsmönnum að berast ábendingar á Ísland.is um gjaldfallna skuld við ríkissjóð sem er komin í innheimtu.

Hver er skuldastaðan?

Stöðu skuldar við ríkissjóð er hægt að fletta upp á mínum síðum á Ísland.is undir Fjármál > Staða. Ef skuldin er tilkomin vegna skatta síðasta árs má finna álagningarseðil Skattsins á skattur.is til að glöggva sig á tilkomu skuldar.

Gera greiðsluáætlun og dreifa greiðslunum

Hægt er að dreifa greiðslum á lengra tímabil með því að gera greiðsluáætlun. Hún er gerð til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði en á móti kemur hærri vaxtakostnaður. Greiðsluáætlanir eru gerðar á mínum síðum á Ísland.is.

Nánari upplýsingar um greiðsluáætlanir

Þegar búin að gera greiðsluáætlun

Meðal þeirra sem fá tilkynningu er fólk sem hefur þegar gert greiðsluáætlun og er með sín mál á hreinu. Sé það tilfellið þarf ekkert að aðhafast. Hægt er að ganga úr skugga um hvort greiðsluáætlun sé í gildi á mínum síðum Ísland.is undir Fjármál > Greiðsluáætlanir.

Beðið eftir niðurstöðu kæru skattframtals

Mögulegt er að eftir að kæra hefur verið afgreidd komi skuld til með að hverfa að fullu eða mestu leiti. Ekki er búið að afgreiða allar kærur og því tekur skuldastaðan ekki mið af væntanlegri niðurstöðu hennar. Þau sem eru í þessari stöðu geta gert greiðsluáætlun til að fá frest á innheimtu. Þegar niðurstöður kæru liggja fyrir kemur í ljós hvort of mikið eða of lítið hafi verið greitt.

Nánari upplýsingar

Allar nánari upplýsingar um innheimtu opinberra gjalda veitir þinn innheimtumaður. Fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu eru það þjónustufulltrúar Skattsins. Annarstaðar á landinu er það viðkomandi sýslumaður.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum