Fréttir og tilkynningar


Árangursstjórnunarsamningur við embætti Tollstjóra undirritaður

6.5.2015

Fjármála- og efnahagsráðherra og tollstjóri undirrituðu í dag nýjan árangursstjórnunarsamning sem gildir til ársins 2020 og leysir af hólmi samning frá árinu 2001.

Snorri Olsen tollstjóri og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra undirrituðu árangursstjórnunarsamninginn.

Með samningnum er lagður grunnur að áætlanagerð og árangursmati á sviði tolla- og innheimtumála á grundvelli stefnuskjalsins Tollstjóri 2020.

Í stefnuskjalinu er að finna áherslur embættis Tollstjóra í einstökum málaflokkum. Þar má finna stefnu í innheimtumálum og tollamálum auk mannauðsstefnu, upplýsingatæknistefnu, rekstrar- og umhverfisstefnu og þjónustu- og gæðastefnu, sem allar stuðla að því að embættið geti framfylgt því hlutverki sínu að vernda samfélagið og tryggja ríkinu tekjur.

Á sóknaráætlun Tollstjóra til ársins 2020 eru 25 verkefni sem stuðla að því að framtíðarsýn embættisins, stefnu þess og markmiðum verði náð. Til að veita innsýn í verkefni sem eru á sóknaráætlun má nefna innleiðingu gæðastjórnkerfis samkvæmt ISO 9001:2008 staðlinum meðal annars í þeim tilgangi að samræma verklag, auðvelda rýni og úrbætur, auka skilvirkni og hagkvæmni og veita góða þjónustu. Annarri úttekt í vottunarferlinu lauk 27. apríl síðastliðinn. Niðurstaða úttektarinnar var að embætti Tollstjóra hafi komið á virku gæðastjórnkerfi og því ráðgert að skírteini þess efnis að starfsemin uppfylli kröfur staðalsins verði gefið út í lok maí.

Árangursstjórnunarsamningurinn kveður á um gagnkvæmar skyldur fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Tollstjóra vegna útfærslu á lögbundnu hlutverki tollstjóra. Með þeim áætlunum sem samningurinn kveður á um er mótuð stefna til næstu ára. Tollstjóri gerir árlega grein fyrir árangri af starfsemi embættisins í einfaldri skýrslu með samanburði við þau markmið sem sett eru samkvæmt samningnum.

Árangursstjórnunarsamningur milli embættis Tollstjóra og Fjármála- og efnahagsráðuneytis (pdf skjal)

Mynd: Snorri Olsen tollstjóri og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra undirrituðu árangursstjórnunarsamninginn.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum