Fréttir og tilkynningar


Ársreikningaskrá krefst skipta á búum félaga sem ekki hafa skilað fullnægjandi ársreikningi

4.11.2022

Félögin hafa fengið frest til að skila ársreikningi eða eftir atvikum samstæðureikningi og er sá frestur nú liðinn án þess að félögin hafi gert fullnægjandi skil.

Samkvæmt lögum um ársreikninga skal félag senda ársreikningaskrá ársreikning og samstæðureikning innan mánaðar eftir samþykkt hans, í síðasta lagi átta mánuðum eftir lok reikningsárs.

Ef ársreikningi eða samstæðureikningi er ekki skilað innan ákveðinna tímamarka eftir að frestur er liðinn skal ársreikningaskrá krefjast skipta á búi félagsins.

Vakin er athygli á að ef stjórn félags eða framkvæmdastjóri mætir til fyrstu fyrirtöku hjá héraðsdómi getur dómari orðið við beiðni félags um allt að tveggja mánaða frest á meðferð kröfunnar.

Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum getur ársreikningaskrá afturkallað kröfu um skipti á félagi áður en úrskurður um skipti er kveðinn upp. Skilyrðin eru að skila verður fullnægjandi ársreikningi eða samstæðureikningi að mati ársreikningaskrár, félag greiði kostnað vegna skiptabeiðni og eftir atvikum álagða sekt vegna vanrækslu á réttum skilum ársreiknings.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum