Fréttir og tilkynningar


Áskorun vegna skila ársreikninga

18.8.2020

Áskorun um skil á ársreikningum hefur nú verið birt á þjónustusíðu Skattsins (skattur.is) til þeirra félaga sem ekki hafa staðið skil á ársreikningi sínum til ársreikningaskrár.

Lokafrestur til að skila ársreikningum rennur út 31. ágúst 2020.

Forráðamenn viðkomandi félaga eru hvattir til að bregðast skjótt við og senda ársreikning rafrænt, þannig að ekki þurfi að koma til sektarákvörðunar. Stjórnsýslusekt vegna vanskila á ársreikningum nemur 600.000 kr. Hægt er að ganga úr skugga um hvort að ársreikningi hafi verið skilað til ársreikningaskrár á vefnum skatturinn.is undir Fyrirtækjaskrá. 

Forráðamönnum félaga er bent á að lokafrestur til að halda aðalfund og skila ársreikningum rennur út átta mánuðum eftir lok  reikningsárs. Forráðamenn eru hvattir til að bregðast skjótt við og senda ársreikning rafrænt þannig að ekki þurfi að koma til sektarákvörðunar.

Vakin er athygli á því að örfélög geta nýtt sér Hnappinn að því tilskyldu að þau hafi skilað skattframtali. Ef félag nýtir sér Hnappinn þá er farið inn á þjónustusíðuna, skattur.is og valið að láta Skattinn útbúa ársreikning félagsins og skila til ársreikningaskrár.

Senda skal inn til opinberrar birtingar þann ársreikning sem staðfestur var á aðalfundi viðkomandi félags. Ekki er heimilt að breyta eða fella niður neinar upplýsingar í þeim ársreikningi sem sendur er inn til opinberrar birtingar. Ekki er því heimilt að staðfesta hefðbundinn ársreikning á aðalfundi félags en senda svo inn hnappsreikning í stað þess reiknings sem staðfestur var á aðalfundi.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum