Fréttir og tilkynningar


Átak varðandi uppfærslu upplýsinga í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra

19.9.2019

Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra vekur athygli á því að skráin stendur nú fyrir átaki varðandi uppfærslu upplýsinga í skránni. Félög eru hvött til þess að yfirfara skráningu sína við fyrsta tækifæri og framkvæma nauðsynlegar úrbætur ellegar kunni að koma til beitingu viðurlaga í formi dagsekta.

Samkvæmt 7. gr. laga um fyrirtækjaskrá nr. 17/2003 með síðari breytingum ber félagi að tilkynna ríkisskattstjóra um allar breytingar er varða skráningu skv. 1.–8. tölul. 4. gr. laganna, sem lúta að:

  1. Heiti.
  2. Kennitölu.
  3. Heimilisfangi.
  4. Rekstrar- eða félagsformi.
  5. Stofndegi.
  6. Nafni, lögheimili og kennitölu forráðamanna.
  7. Atvinnugreinarnúmer samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands.
  8. Slitum félags.
  9. Raunverulegir eigendur samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.
  10. Í tilviki erlendra fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila, upplýsingar um fjárvörsluaðila, stofnaðila, ábyrgðaraðila, raunverulegan eiganda eða hóp þeirra og aðra einstaklinga sem hafa yfirráð yfir sjóðnum, samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda, eftir því sem við á.
  11. Netfang félags og forsvarsmanna.

Sama á við um önnur þau atriði sem skylt er að skrá um starfsemi félaga og fyrirtækja samkvæmt lögum eða nauðsynlegt eða hagkvæmt þykir að skrá vegna hagsmuna opinberra aðila eða miðlunar upplýsinga til opinberra aðila, fyrirtækja og almennings

Ríkisskattstjóri hefur sent erindi á endurskoðendur, bókhaldsstofur og viðurkennda bókara og hvatt þá til að yfirfara sínar skráningar í fyrirtækjaskrá og senda skránni ábendingu hafi þeir upplýsingar um ranga skráningu.

Komi í ljós að skráð félög hafi ekki uppfært upplýsingar sem ber að uppfæra mega þau búast við erindi frá fyrirtækjaskrá þar sem skorað verður á þau að framkvæma úrbætur ellegar kunni að koma til beitingu viðurlaga í formi dagsekta.

Félög eru því hvött til þess að yfirfara skráningu sína í fyrirtækjaskrá við fyrsta tækifæri og senda fyrirtækjaskrá tilkynningu um breytingar þar sem við á. Upplýsingar um tilkynningar og greiðslur má finna hér: https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/breytingar-og-slit/


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum