Fréttir og tilkynningar


Aukin áhersla á rannsóknir tengdar peningaþvætti

26.2.2019

Lög nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, tóku gildi 1. janúar 2019. Með lögunum er lögð skylda á aðila, sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka, að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi. 

Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu tekur á móti tilkynningum um viðskipti þar sem grunur er um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Sér skrifstofan um greiningu á mótteknum tilkynningum og miðlar þeim m.a. til skattrannsóknarstjóra ríkisins.

tæplega 40 greiningarSkattrannsóknarstjóra hafa borist tæplega 40 greiningar frá árinu 2016 á grundvelli reglugerðar nr. 175/2016, um meðhöndlun tilkynninga um ætlað peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Á árinu 2018 var rannsókn lokið í 6 málum sem eiga uppruna til greininga frá peningaþvættisskrifstofu (nú skrifstofa fjármálagreininga lögreglu) en þessar rannsóknir eru oft umsvifamiklar og tímafrekar. Gera má ráð fyrir að ríkissjóður hafi orðið af á annað hundrað milljónum í skatttekjur einungis af þessum sex málum.

Nú eru á annan tug mála til meðferðar og í ljósi áherslu stjórnvalda á þennan málaflokk verður á næstu misserum lagður aukinn kraftur í rannsóknir þessara mála hjá skattrannsóknarstjóra.

annað hundrað milljónum



Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum