Auknar endurgreiðsluheimildir virðisaukaskatts fallnar úr gildi
23.1.2023
Skatturinn vill vekja athygli á því að fallnar eru úr gildi auknar endurgreiðsluheimildir sem settar voru sem liður í viðbrögðum stjórnvalda við efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs af völdum kórónuveiru.
Meðal þeirra endurgreiðsluheimilda sem fallnar eru úr gildi
eru endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna:
- þjónustu við hönnun eða eftirlit með framkvæmdum
við íbúðar- og frístundahúsnæði,
- vinna við byggingu frístundahúsnæðis, eða
endurbætur og viðhald þess,
- vinna við bílaviðgerðar, bílamálningar eða
bílaréttingar fólksbifreiða, og
- vinna við heimilisaðstoð eða
reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
Jafnframt hafa almennar endurgreiðslur vegna vinnu á
byggingarstað við nýbyggingu íbúðarhúsnæðis verið lækkaðar úr 100%
virðisaukaskatts af vinnu manna í 60%.
Hér fyrir neðan er að finna ítarlegri upptalningu á þeim endurgreiðsluheimildum
sem fallið hafa úr gildi eða sem tekið hafa breytingum síðastliðna mánuði.
Á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. ágúst 2022 var
endurgreiðsla virðisaukaskatts hækkuð úr 60% í 100% af virðisaukaskatti sem:
- byggjendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á
byggingarstað við nýbyggingu, og
- eigendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt af vinnu manna við endurbætur
eða viðhald íbúðarhúsnæðis.
Hlutfall endurgreiðslu af greiddum virðisaukaskatti af vinnu manna
við framangreint lækkaði aftur í 60% þann 1. september 2022.
Tímabundnar endurgreiðslur sem fallið hafa úr gildi
Á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 30. júní 2022 var kveðið
á um heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem:
- byggjendur frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna
á byggingarstað,
- eigendur frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á
byggingarstað við endurbætur eða viðhald þess,
- byggjendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af
þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis,
- eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af
þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar
húsnæðis,
- eigendur eða leigjendur, þar á meðal húsfélög, hafa
greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu
íbúðarhúsnæðis, og
- sveitarfélög, eða stofnanir og félög sem alfarið eru í
eigu sveitarfélaga, hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu,
endurbætur eða viðhald á öðru húsnæði sem alfarið er í eigu þeirra enda sé
húsnæðið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.
Framangreindar endurgreiðsluheimildir féllu úr gildi frá og
með 1. júlí 2022. Er því ekki lengur heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af
vinnu manna við byggingu, viðhald og endurbætur frístundahúsnæðis.
Þá eru
endurgreiðslur ekki veittar vegna kaupa á sérfræðiþjónustu, svo sem þjónustu
verkfræðinga, tæknifræðinga og arkitekta, vegna hönnunar eða eftirlits með
framkvæmdum við íbúðar- og frístundahúsnæði.
Á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021
var heimilt að endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess
virðisaukaskatts sem greiddur var af vinnu manna sem unnin var innan þess
tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða.
Jafnframt var á sama tímabili heimilt að endurgreiða
mannúðar- og líknarfélögum o.fl. aðilum 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur
var vegna vinnu manna á byggingarstað við byggingu, endurbætur eða viðhald á
mannvirkjum sem alfarið eru í þeirra eigu og nýtt að yfirgnæfandi hluta í þágu
meginstarfsemi þeirra. Endurgreiðsluheimildin tók einnig til virðisaukaskatts
af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíkum mannvirkjum.
Framangreindar endurgreiðsluheimildir féllu niður frá og með
1. janúar 2022.
Ítarefni
Vakin er athygli á að þrátt fyrir að framangreindar endurgreiðsluheimildir séu fallnar úr gildi er þó enn er hægt að sækja um endurgreiðslu vegna vinnu sem unnin var innan framangreindra tímabila. Réttur til endurgreiðslu fellur niður ef umsókn um endurgreiðslu berst eftir að í sex ár eru liðin frá því réttur til endurgreiðsluréttur stofnaðist. Gæta skal að dagsetningu reikninga, þ.e. að með umsókn skulu fylgja reikningar gefnir voru út innan framangreindra tímabila, í seinasta lagi í lok þess mánaðar þegar vinnan var innt af hendi.
Í stað endurgreiðsluheimildar til mannúðar- og líknarfélaga o.fl. aðila eru nú í gildi sérstakar endurgreiðsluheimildir til handa almannaheillafélögum til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu manna við byggingu, viðhald og endurbætur á mannvirkjum í þeirra eigu og eru að yfirgnæfandi hluta nýtt í þágu meginstarfsemi þeirra. Endurgreiðsluhlutfallið er 100% en lækkar í 60% frá og með 1. janúar 2026.
Jafnframt er á tímabilinu 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023 heimilt að endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa á hleðslustöð fyrir bifreiðar til uppsetningar í eða við íbúðarhúsnæði og vegna vinnu við uppsetningu hleðslustöðvarinnar. Þessi heimild fellur niður frá og með 1. janúar 2024 og frá sama tíma lækkar endurgreiðsluhlutfallið vegna uppsetningar á hleðslustöð í eða við íbúðarhúsnæði í 60%.