Fréttir og tilkynningar


Breyting á innflutningi matvæla sem tekur gildi 1. janúar 2020

23.12.2019

Þann 1. janúar 2020 taka gildi breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993 ásamt nýjum reglugerðum er varða innflutning á matvælum.

Með breytingunni er afnumin leyfisskylda vegna innflutnings á hráum og lítt söltuðum sláturafurðum, bæði unnum og óunnum, hráum eggjum, ógerilsneyddri mjólk og mjólkurafurðum sem upprunnar eru og fluttar eru inn frá aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Með aðildarríkjum EES-samningsins er átt við aðildarríki Evrópusambandsins, Ísland, Noreg og Liechtenstein. Sviss hefur jafngildissamning við ESB og ofangreindar breytingar eiga einnig við um Sviss. Það athugast að Grænland og Færeyjar eru ekki aðilar að EES-samningnum. Þegar þessi texti er skrifaður fellur Bretland innan skilgreiningar á EES-svæðinu.

Embættið hefur í samstarfi við Matvælastofnun tekið saman lista með tollskrárnúmerum sem heimilt verður að flytja til landsins frá 1. janúar 2020 án þess að leyfi eða tilkynning til Matvælastofnunar liggi fyrir. Heimildin gildir eingöngu um vörur sem eru framleiddar og fluttar inn frá aðildarríkjum EES-samningsins. Aðrar tilvísanir tölvukerfis embættisins um leyfis- eða tilkynningarskyldan innflutning á fagsviði Matvælastofnunar halda gildi sínu. Matvælastofnun veitir nánari upplýsingar um innflutning á matvælum og öðrum vörum sem falla undir fagsvið stofnunarinnar.

Til að tryggja skilvirka tollafgreiðslu eru innflytjendur beðnir um að tilgreina sérstaklega vörur sem eingöngu eru framleiddar og fluttar inn beint frá EES-svæðinu með því að skrá „MST EESVARA“ í reit 14 á aðflutningsskýrslu. Sendingar sem innihalda bæði vörur sem framleiddar eru innan ESS-svæðisins og utan EES-svæðisins skulu tilgreina leyfis- eða tilkynningarnúmer Matvælastofnunar í reit 14.

Sjá nánar pdf-skjal með frétt og lista tollskrárnúmera


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum